09.03.1967
Efri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

75. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Helgi Bergs:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. hefur gert grein fyrir, fjallar þetta frv. um breyt. á tilhögun og námsefni í fiskimannadeild við stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, og mér virðist, að frv. sé, eins og hv. frsm. tók fram, sama eðlis og þær breyt., sem gerðar hafa verið á stýrimannaskólanum í Reykjavík, og virðist þess vegna eðlilegt, að þetta frv. verði samþ. En eins og hv. dm. er kunnugt, hef ég, og reyndar fleiri, verið þeirrar skoðunar, að fleiri breyt. þyrfti að gera á l. um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. L. um hann eru með þeim einkennilega hætti, að þar er gert ráð fyrir, að Vestmannaeyjabær standi undir kostnaði við rekstur skólans, en eins og kunnugt er stendur ríkið undir annarri sjómannafræðslu. Nokkur ríkisstyrkur hefur að vísu seinustu tvö árin verið á fjárlögum til þessa skóla, en eigi að síður er hann talsverður fjárhagslegur baggi á Vestmannaeyjabæ. Ég hef þess vegna hugleitt, að tímabært sé að kanna, hvort ekki sé orðinn meiri hluti fyrir að breyta þessu, og þá hefði kannske legið beint við að flytja það sem brtt. við þetta frv. Á hinn bóginn komst ég við nánari athugun að raun um það, að þar sem efnislega er um tvö ólík atriði að ræða, væri eðlilegra að flytja sérstakt frv. um kostnaðinn við skólann, og það hef ég.gert. Það var lagt fram hér fyrir nokkrum dögum í þessari hv. d. Þetta taldi ég eðlilegt að kæmi fram, þegar þetta frv. er hér til meðferðar, og ég vænti þess, að þegar mitt frv. kemur til meðferðar í hv. d., fái það einnig gaumgæfilega og velviljaða athugun.