13.02.1967
Neðri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

102. mál, læknaskipunarlög

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hefi leyft mér að flytja frv. um breyt. á læknaskipunarlögum, nr. 43 12. maí 1965, um að aftan við 16. gr. l. komi ný mgr., svo hljóðandi: „Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að ráða lækni til þess að veita sjómönnum síldveiðiflotans læknishjálp á fjarlægum miðum. Skal slíkur læknir þá hafa bækistöð um borð í síldarleitar- eða rannsóknarskipi. Laun hans greiðast úr ríkissjóði.“

Það mun ekki þurfa að flytja ýtarleg rök fyrir nauðsyn þessa frv. Það er almennt viðurkennt, að mikla nauðsyn beri til þess, að hinn fjölmenni fiskiskipafloti Íslendinga, sem sækir á æ fjarlægari mið, einkum á síldveiðum, eigi kost á læknisþjónustu, þegar slys eða veikindi ber að höndum um borð í skipunum. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að ríkisstj. verði heimilað að ráða lækni til þess að veita sjómönnum síldveiðiflotans slíka þjónustu á fjarlægum miðum.

Ég tel, að hér sé um mikið heilbrigðis- og öryggismál að ræða, sem þörf sé skjótra úrræða í. Ég leyfi mér að vitna til þess, að skömmu eftir að þetta frv. kom fram, var stofnað félag síldveiðisjómanna hér á landi, og gerði stofnfundur þess ályktun einmitt um þetta mál, þar sem áherzla var lögð á nauðsyn þess, að síldveiðiskip, sem sækja á fjarlæg mið, eigi kost læknishjálpar. Það mun hafa komið fyrir þráfaldlega, að þessi skip hafa orðið að leita læknishjálpar norður við Jan Mayen t.d. annaðhvort hjá rússneskum eða norskum skipum, eða jafnvel hjá læknum, sem staðsettir hafa verið norður þar. Ég held þess vegna, að það fari ekki á milli mála, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Á það má einnig benda, að í þáltill., sem flutt var snemma á þessu þingi, er á það minnzt, að kannað verði, hvort ekki sé mögulegt að koma á fót læknaþjónustu, sem fylgt geti síldveiðiflotanum, a.m.k. á djúpmiðum.

Þessi till. er flutt af þrem hv. þm. í Sþ.

Það er af öllu þessu auðsætt, að hér er um aðkallandi öryggis- og heilbrigðismál að ræða, sem ég vænti, að verði vel tekið hér í hv. þd., og að þetta frv. fái lagagildi. Ég leyfi mér svo að óska þess, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbr.- og félmn.