20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

102. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. því, sem hér liggur fyrir um breyt. á læknaskipunarl., var vísað til heilbr.- og félmn., og var n. sammála um að mæla með samþ. frv. með þeirri breyt., að niður falli í 1. gr. frv. „Skal slíkur læknir þá hafa bækistöð um borð í síldarleitar- eða rannsóknarskipi.“ N. taldi eðlilegt, að það yrði að ráðast hverju sinni, hvar hentugast væri í framkvæmd, að læknirinn væri staðsettur og taldi því óeðlilegt, að það væri sett inn í l., að hann ætti að hafa bækistöð um borð í síldarleitar- eða rannsóknarskipi, og mælir þar margt gegn því, t.d. það, að síldarleitar- og rannsóknarskip eru oft mjög langt frá veiðiflotanum og því óeðlilegra að læknirinn hafi aðsetur þar. Hins vegar yrði það að vera í framkvæmdinni hverju sinni, hvar hentast þætti, að læknirinn hefði sitt aðsetur. Að öðru leyti telur n. þessa breyt. á læknaskipunarl. mjög eðlilega og sjálfsagða og mælir með samþ. frv.