06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

84. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. vil ég taka fram, að það er ekkert ákvæði um iðnþróunarráð í frv. Ég hef hlustað á, hvað hann hefur sagt í þessu sambandi, og skal gjarnan taka þau mál til frekari íhugunar. Ég vil aðeins til þess að skýra svolítið nánar málið gera mönnum grein fyrir því, að sjálfur var ég hræddur um að koma kannske af stað of stóru bákni þarna, og það var t.d. rætt um það við mig, hvort það væri ekki eðlilegt, að það væri einhver frá rannsóknaráði ríkisins í svona iðnþróunarráði, alveg eins og hv. þm. bendir nú á fulltrúa iðnverkafólksins. En það var eiginlega mín hugsun, að rannsóknaráð ríkisins var stofnað með lögum frá þinginu 1965, og í kringum það eru ýmsar rannsóknastofnanir, fiskiðnaðarins, hafrannsókna, Rannsóknastofnun iðnaðararins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og kannske einhverjar fleiri, og það var meira það, að ég hugsaði málið þannig t.d. frá þessum aðilum, þessar stofnanir væru með viss rannsóknarefni og það frá vísindalegu sjónarmiði. Þegar það svo lægi fyrir t.d., að það þætti álitlegt, við skulum segja t.d. að reisa kísilgúrverksmiðju við Mývatn, þegar vísindamenn og aðrir væru búnir að fjalla um það, þá væri eiginlega einhver framkvæmdaaðili, sem tæki við málunum og þokaði þeim áfram. En það vakti engan veginn fyrir mér, að það væri ekki í sjálfu sér haft samband við þingið um þetta, enda minni ég á það í sambandi við stóriðjunefndina eða álbræðsluna, að það var rúmt ár eða meira, hálft annað ár starfandi þingmannanefnd í því máli við hliðina á stóriðjunefndinni og miklu meira en stóriðjunefndin, eftir að það kom á það stig málsins, út í samningagerðirnar. Þetta getur verið nokkurt álitamál. hað gat líka verið álitamál að setja einhverja löggjöf um slíkt, en þetta varð sem sagt niðurstaðan. Ég taldi, að það væri heldur æskilegra að fá einhverja svolitla reynslu af því, hvort maður getur styrkt þetta, eins og ég sagði áðan, ekki allt of sterka iðnmrn. Það er sú eina hugsun, sem stendur á bak við þessa skipun frá mér. En hitt er ekki nema sjálfsagt, að athuga betur, hvort eitthvað mætti lagfæra í sjálfri skipuninni, og eins og málið er tilkomið, hefur ráðh. það í hendi sér, þetta er alveg ólögbundið. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram.