13.12.1966
Neðri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

73. mál, sala kristfjárjarðarinnar Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi

Flm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 85 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um heimild fyrir hreppsnefnd Miklaholtshrepps til að selja kristfjárjörðina. Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi.

Eins og fram er tekið í bréfi oddvita Miklaholtshrepps, dags. 3. okt. s.l., sem prentað er sem fskj. með frv., er það sameiginlegt álit hreppsnefndarinnar, að jörðina eigi að selja ábúandanum, þar sem hreppsnefndin vill ekki að svo stöddu leggja fram fé til umbóta á jörðinni, meira en gert hefur verið. Óskar hreppsnefndin því samþykkis hins háa Alþingis fyrir sölu jarðarinnar til ábúandans, Ingveldar Jóhannsdóttur, og að söluverðið megi renna til menningarmála með þeim hætti, að hinn nýi barna- og unglingaskóli að Laugargerði megi njóta söluandvirðisins.

Oddviti Miklaholtshrepps getur í bréfi sínu frá 3. okt. um forsendu gefandans, Gísla Árnasonar, fyrir gjöf hans á jörðinni í gjafabréfinu frá 1880, sem einnig er prentað sem fskj. með frv. Þar ræðir gefandinn um, að tekjur af jörðinni skulu renna til styrktar fátækum í Miklaholtshreppi, hreppsnefndin telur, að sú þörf sé raunverulega fallin burtu með aukinni samhjálp hins opinbera. Þetta sjónarmið hreppsnefndarinnar ætti hið háa Alþ. að geta fallizt á.

Herra forseti. Ég mun, áður en frv. verður tekið til meðferðar við 2. umr. hér í hv. d., fara fram á heimild til handa hreppsnefnd Miklaholtshrepps til að mynda sjóð af söluandvirði Litlu-Þúfu. Skal sjóðurinn bera nafn gefandans, Gísla Árnasonar. Jafnframt verði hreppsnefndinni í Miklaholtshreppi, sem verður falið að hafa eftirlit með sjóðnum, heimilað að verja 3/4 hlutum af árlegum vöxtum hans til hins nýja barna- og unglingaskóla í Laugargerði.

Margt bendir til þess, að nauðsyn sé é því að koma öðrum kristfjárjörðum í einkaeign.

Tvær kristfjárjarðir í Helgafellssveit innan Snæfellsnessýslu, Drápuhlíð innri og Efri-Hlíð, eru báðar í eyði, þar sem öll jarðarhús eru fallin og ekkert fjármagn fyrir hendi til að byggja nauðsynleg íbúðarhús og peningshús á jörðum þessum. Engin eftirtekja er af jörðunum og geta þær því ekki lengur fullnægt hlutverki því, sem gefandinn hafði í huga, er hann ákvað að gefa jarðirnar til styrktar fátækum í Helgafellssveit hinni fornu. Ég tel aðkallandi, að þeim kristfjárjörðum, sem enn eru í mörgum sýslufélögum hér á landi, verði gerð nánari skil af hendi löggjafans og sveitarstjórna á næstu árum, svo að þær megi, á einn eða annan hátt, gegna hlutverki því, sem gefendur jarðanna höfðu í huga, er þeir ákváðu að láta þær af hendi og að tekjum af þeim skyldi varið til styrktar fátæku fólki.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.