14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

73. mál, sala kristfjárjarðarinnar Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Jörð sú, sem hér um ræðir, er svonefnd kristfjárjörð í Miklaholtshreppi, Litla-Þúfa. Alþ. hefur áður gengið inn á þá braut að heimila sölu á nokkrum kristfjárjörðum, þar sem sveitarstjórnir hafa óskað þess og talið, að jarðirnar lægju undir þeirri hættu að fara í eyði, ef ekki yrði breytt um fyrirkomulag á eignarrétti þeirra. Ég ætla, að sala á slíkum jörðum sem þessum þurfi raunar mikillar athugunar við, því að þessar svokölluðu kristfjárjarðir eru með mjög sérstæðum hætti. En þar sem talið er nauðsyn, byggðanna vegna og jarðanna vegna, að heimila það að selja ábúendum slíkar jarðir og það hefur a.m.k. tvisvar sinnum verið gert áður, telur landbn. eftir atvikum rétt að heimila þessa jarðarsölu. Á þessari jörð býr ekkja með börnum sínum, sem er að hætta búskap, og mælir það einnig með að leyfa söltuna.

Ýmsar umbætur þarf að gera á jörðinni, og þetta unga fólk vill ekki við henni taka, nema það fái hana keypta, því að það er ekki hægt að fá venjulega fyrirgreiðslu með lán út á kristfjárjarðir. Hreppsnefndin hefur óskað ákveðið eftir því, að jörðin verði seld og ég hef borið þetta undir landnámsstj., Pálma Einarsson, sem er allra manna kunnugastur ástandi jarða um allt land, og hann telur mjög nauðsynlegt að leyfa, að þessir ábúendur jarðarinnar fái hana keypta. Landbn. Nd. mælti samróma með því að heimila þessa sölu, og landbn. Ed. hefur einnig orðið ásátt um að mæla með sölunni.