07.04.1967
Efri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

134. mál, sala sex eyðijarða í Grýtubakkahreppi

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Tveir af hv. þm. Austf. óskuðu eftir því, að landbn. tæki til athugunar, hvort hún gæti flutt brtt. við þetta frv., sem er í því fólgin að tengja við frv. ákvæði um að heimila einnig sölu á einni eyðijörð í Vopnafirði, sem heitir Rjúpnafell. Þessir fulltrúar Austurlands munu hafa óskað eftir þessu til þess að stytta leið þessarar till. gegnum þingið, þar sem nú er liðið mjög að þinglokum. Landbn. tók þetta til athugunar í morgun á fundi. Hv. 4, þm. Austf. skýrði fyrir n., hvað í þessari till. felst. N. varð sammála um það, að rétt væri að verða við þessum tilmælum, þar sem fyrir lágu upplýsingar um það, að enginn ágreiningur mundi vera um það, að þetta næði fram að ganga, hvorki í hópi þm. Austf. né hjá öðrum aðilum, sem þetta snertir eitthvað.

Í fyrsta lagi má geta þess, að fyrir liggur ósk eða meðmæli frá sveitarstjórn í Vopnafjarðarhreppi, dags. 27. okt. 1963, þar sem hreppsnefndin samþykkir samhljóða að mæla með því, að Val Guðmundssyni, Fremri-Hlíð, yrði seld jörðin Rjúpnafell í sama hreppi. Fyrir liggja einnig meðmæli frá fulltrúa landbrh. í jarðeignadeildinni, Sveinbirni Dagfinnssyni, sem mælir með þessari jarðarsölu. Í þriðja lagi er svo álit landnámsstjóra, Pálma Einarssonar, um þetta mál og held ég, að málið skýrist bezt í fáum orðum með því að lesa kafla úr áliti hans, sem er dags. 17. febr., með leyfi hæstv. forseta:

„Rjúpnafell féll úr ábúð fyrir rúmum 20 árum og er algerlega húsalaus jörð. Tún á jörðinni er 4 ha, hefur síðustu ár gefið af sér 120 hestburði heys. Meðan búið var á jörðinni var heyjað á engjum, sem gáfu allt að 300–400 hesta. Ræktunarskilyrði eru mýrar með góðri framræsluaðstöðu og aðliggjandi túni jarðar.

Beitiland er gott, laxveiðiréttur í Vesturárdalsá, en hefur ekki til þessa gefið miklar tekjur. Jörðin liggur 18 km frá Vopnafjarðarkaupstað. Bílvegur að undanskildum ½ km kafla næst að bænum. Það mun vera álit hreppsyfirvalda, að þau telja, að jörð þessi ætti að endurbyggjast, en þar sem skortir veg og aðstöðu til rafmagns í náinni framtíð tel ég litlar líkur til, að sótzt verði eftir ábúð á jörðinni. Jörðin Fremri-Hlíð er næsta byggða jörð norðan Rjúpnafells og er þriggja km loftlína milli bæjanna og aðstaða til að nytja báðar jarðirnar saman. Telja má líklegt, verði báðar jarðirnar eign sama aðila, að jarðir þessar geti setið tveir ábúendur annað tveggja með félagsrekstur á báðum jörðum eða Rjúpnafell endurbyggist sjálfstætt af skyldmennum þeirra, er nú eiga Fremri-Hlíð. Tel ég því ekkert til fyrirstöðu, að samþ. verði að heimila sölu á þessari jörð.“

Að þessu öllu athuguðu varð landbn. sammála um það að leggja fram skrifl. brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir til 3. umr., svo hljóðandi:

„1. við 1. gr.: 2. málsgr. falli burt.

2. Á eftir 1. gr. komi tvær nýjar greinar (greinartala breytist samkv. því):

a. (2. gr.) Ríkisstj. er heimilt að selja Val Guðmundssyni, Fremri-Hlíð, jörðina Rjúpnafell í Vopnafjarðarhreppi.

b. (3. gr.) Verð jarðarinnar, sbr. 1. og 2. gr., fer eftir því, sem um semst, ella skal það ákveðið með mati dómkvaddra manna.“

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar og bið hæstv. forseta að taka við þessari skrifl. brtt.