09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

84. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 45 frá 1963, um iðnlánasjóð, felur í sér tvennt. Lagt er til að hækka lántökuheimild iðnlánasjóðs úr 150 millj, kr. í 300 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Lagt er til, að skuldabréf, sem iðnlánasjóður kann að gefa út til þess að afla fjár til hagræðingarlánveitinga, verði undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé nú. Nái það einnig til vaxta af skuldabréfunum.

Eins og fram er tekið í grg. frv., var í l. um iðnlánasjóð frá 1963 gert ráð fyrir allt að 100 millj. kr. lántökuheimild fyrir sjóðinn. Á síðasta þingi var þessi heimild hækkuð um 50 millj. En nú þykir sýnt, að heimildin þurfi að vera hærri. Framkvæmdabanki Íslands, sem veitt hefur lán til iðnaðarfyrirtækja, hættir störfum um n. k. áramót, og mun iðnlánasjóður þá að mestu taka við verkefni bankans. Til þess að sinna því hlutverki mun iðnlánasjóður leita eftir lánsfé bjá framkvæmdasjóði, þar sem hinar árlegu tekjur hrökkva ekki til. Með tilliti til þessa þarf iðnlánasjóður að hafa rýmra svigrúm til lántöku en verið hefur.

Með l. um iðnlánasjóð frá 1963 var að því stefnt, að sjóðurinn gæti komið til með að gegna sama hlutverki fyrir iðnaðinn í landinu og stofnlánasjóðir landbúnaðar og sjávarútvegs. Í þessu skyni voru sjóðnum þá tryggðar tekjur, svonefnt iðnlánasjóðsgjald, og með því var lagður grundvöllurinn að því, að sjóðurinn hefði eigið fé til útlána og ráðstöfunar. Samkv. reikningum sjóðsins um síðustu áramót nam þetta gjald 11–12 millj., og vaxtatekjur sjóðsins voru þá í kringum 10 millj. Þar sem iðnlánasjóði er ætlað að standa að mestu leyti undir fjárfestingarþörf iðnaðarins, er sýnt, að hann þarf á lánsfé að halda. Till. um hækkun lánsfjárheimildar er því eðlileg.

Á síðasta þingi var gerð sú breyting á l. um iðnlánasjóð, að honum væri heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj., að taka allt að 100 millj. kr. lán til þess að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum sjóðsins. Það kemur fram í grg., að ríkisstj. hafi samþ., að iðnlánasjóður hæfi þegar lánsfjáröflun í þessu skyni, og er gert ráð fyrir að afla 25 millj. með því að bjóða út almennt skuldabréfalán. Til þess að gera þessi skuldabréf iðnlánasjóðs útgengileg, eins og sagt er, er talið nauðsynlegt, að væntanlegir kaupendur skuldabréfanna njóti sömu kjara og sparifjáreigendur njóta nú varðandi skattgreiðslur, og er gert ráð fyrir því í frv.

N. þurfti að flytja brtt. til leiðréttingar á þskj. 128, vegna þess að í frv. eru tilgreind eldri lög en nú gilda, og breytingin er sú ein, að í stað þess, að vitnað er til l. 55 1964, er vitnað til l. nr. 90 frá 1965.

Iðnn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að mæla með því, en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt., og frá þeim hefur komið brtt. á þskj. 122 um það, að væntanleg skuldabréf skuli vera framtalsskyld.