09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

84. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. iðnn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls. Ég vil hins vegar lýsa því yfir út af fram kominni til. um, að skuldabréf, sem iðnlánasjóður kynni að gefa út, megi vera skattfrjáls, en skuli vera framtalsskyld, að ég er alveg á móti þeirri till., og ég vil alveg sérstaklega mótmæla rökum, sem hér hafa verið flutt fyrir þeirri till. Mér er alveg ljóst, að það má færa að þessu rök með og móti, og það skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi, hvort heldur væri. En þau rök, sem hér hafa verið flutt fram með þessari till., eru ákaflega hættuleg, og mig undrar það, að þm. skuli tala jafnóvarlega og að segja, að um sparifé gegni öðru máli. Það er möguleiki til að hafa eftirlit með sparifénu. Hvaða möguleiki er það? Sparifé, sem menn geta haft nafnlaust í bönkum og peningastofnunum þessa lands, og sparifé, sem samkv. l. er ekki framtalsskylt og skattfrjálst. Það á ekki að mæla svo óvarleg orð hér á þingi sem þessi. Og þess vegna fær það með engu móti staðizt, þó að þessi hlutabréf séu ekki framtalsskyld, að verið sé að ýta undir skattsvik og verra siðgæði í skattamálum. Það er algerlega rangt líka. Ég vil gersamlega mótmæla því. Hitt er svo annað mál, að það má færa þau rök með því að hafa þessi bréf framtalsskyld, að það gerir allt starf skattstjóra, skattanefnda o.s.frv. auðveldara. En niðurstaðan verður sú, að ef menn eiga þessi bréf og þau eru ekki skattskyld og ekki framtalsskyld og þeir liggja svo með þau og nota þau svo síðar, þurfa að nota þau til einhverrar annarrar eignaaukningar, til þess að kaupa bíl eða til þess að kaupa íbúð, þá þurfa þeir að gera skattinum grein fyrir því, hvar þeir fengu þessa peninga til þess að eignast þessa hluti. Þá kemur þetta upp í hendurnar á skattayfirvöldunum.

Mér fannst, að það væri eðlilegra að vera hér alveg í sama farvegi og um ákvæðin um skattfrelsi sparifjár og spariskírteini ríkisins. Ég tel þetta hins vegar ekki skipta meginmáli, og það, sem skiptir öllu máli, er, að hv. n. hefur sameinazt um afstöðu til málsins. Hitt arkar að auðnu, og fari sem fara vill um það.

Ég skal ekki segja fleiri orð, en ég get ekki orða bundizt um það, að ég tel það viðvörunaratriði að mæla jafnóvarlega og órökstutt, að slík till. sé til þess að ala á einhverjum siðferðisskorti eða auka skattsvik og annað slíkt þaðan af verra og það sé alltaf hægt að hafa eftirlit með sparifénu.