20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

123. mál, lögtak

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var um það samið á milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda hér á landi, að greidd skyldi ákveðin prósenta af kaupi vinnandi fólks í sjúkrasjóði verkalýðsfélaga. Þótti þetta mikil umbót af hálfu verkalýðsfélaganna og hafa þau byggt upp með þessu fé sjúkrasjóði sína, sem gert hafa í mörgum atvikum mjög mikið gagn. Má segja, að þetta sé þýðingarmikil viðbót við tryggingakerfið, sem félögin hafa þarna komið sér upp með samkomulagi við atvinnurekendur.

Nú vitum við, að fjárhagur atvinnurekenda og rekstrarfé er með ýmsu móti hér á landi og gengur þar á ýmsu. Reynslan hefur því sýnt, að það vill verða nokkrum erfiðleikum bundið að innheimta þetta fé, sem atvinnurekendur tóku að sér að halda eftir af kaupi og greiða. Hefur þetta valdið báðum aðilum allverulegum vandræðum á ýmsum stöðum.

Af þeim sökum höfum við, nokkrir Alþfl.-menn, undanfarin tvö eða þrjú þing flutt frv. þess efnis, að heimilt sé að beita lögtakslögunum í þessu sambandi, en frv. hefur ekki orðið útrætt hingað til. Við flytjum þetta nú enn einu sinni skv. ákveðnum óskum nokkurra verkalýðsfélaga og væntum þess, að þingið sjái sér fært að veita verkalýðsfélögunum þann stuðning, sem í því mundi felast að gera frv. þetta að l. Þetta þýðir ekki, að mönnum detti í hug, að nauðsynlegt verði að grípa til lögtaks hjá atvinnurekendum, heldur má vænta þess, að þetta ákvæði mundi hjálpa verulega sem aðhald, þannig að unnt yrði að forðast, að þessar greiðslur söfnuðust um of upp. Það þekkja allir, að tiltölulega litlar greiðslur hjá einu atvinnufyrirtæki, alveg eins og hjá einstaklingi, geta orðið að allmiklu vandamáli, ef þær eru látnar safnast upp um of langan tíma.

Herra forseti. Við viljum vænta þess, að þingið taki þessu máli vel og sýni verkalýðshreyfingunni það vinarbragð að samþ. frv., í því trausti, að það muni verða til þess að greiða fyrir vinsamlegri sambúð á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og að framkvæmdin á þessu sjúkrasjóðaákvæði megi vera í sama góða anda og þeir samningar, sem upphaflega voru um það gerðir.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til allshn.