13.03.1967
Neðri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

156. mál, sala lands úr jörðinni Grenivík í Grýtubakkahr.

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að ríkisstj. verði heimilt að selja hafnarsjóði Grýtubakkahrepps landspildu úr landi Grenivíkur, allt að 7 ha að stærð, er verði athafnasvæði fyrir nýja höfn í Grenivík. Náist ekki samkomulag um verð hins selda lands, skuli það ákveðið af tveimur dómkvöddum mönnum. Eins og fram kemur í grg. með frv., hefur að undanförnu verið unnið að hafnargerð við Grenivík á vegum hreppsnefndarinnar og hafnarnefndar. Þessu verki hefur miðað allvel áfram, og telur nú hreppsnefndin og hafnarnefnd nauðsyn bera til þess, að hreppurinn fái eignarhald á nauðsynlegu landrými í kringum þessa höfn. Frá Grenivík hefur verið rekin töluvert mikil útgerð á undanfarandi árum, og er þess að vænta, að hún eigi frekar eftir að aukast, en þar er nú í smíðum lítið frystihús.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.