15.04.1967
Neðri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

172. mál, sala Þormóðsdals og Bringna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var verið að ræða þetta mál hér í gærkvöld og voru nú ekki margir viðstaddir. Ég vildi gjarnan fá dálítið betri upplýsingar, ef það tíðkast yfirleitt hjá hæstv. ríkisstj. að gefa upplýsingar í sambandi við þau mál, sem hún ætlast til, að Alþ. afgreiði. Mig langar í fyrsta lagi til þess að vita, hvort ríkisstj. mundi nota þessa heimild, ef hún væri afgreidd, vegna þess að það hefur borizt hér manna á milli, ég þori ekki að segja það fyrir víst, en ég ætla, að það eigi sinn uppruna e. t. v. hjá landbrh., að þessi heimild mundi ekki verða notuð, ef hún væri samþ. Nú vil ég leyfa mér að spyrja að þessu, af því a.ð það er vaninn, þegar samþ. eru heimildarlög til handa ríkisstj., að það sé litið svo á, að Alþ. sé þar með að leggja fyrir ríkisstj. að gera viðkomandi hlut, og það kemur ákaflega sjaldan fyrir, þó að það hins vegar sé til, að ríkisstj. noti ekki slíka heimild.

Ég benti á í þeim umr., sem fram fóru í gærkvöld, að þó að sala á, jarðeignum ríkisins væri orðin mjög tíð, ekki, sízt á þessu þingi, gegndi nokkuð öðru máli, þegar um væri að ræða jarðeignir í algeru nágrenni Reykjavíkur. Það er vitanlegt, að stórjarðeignir, sem það opinbera átti hér í Reykjavík fyrir hálfri öld síðan og voru svo að segja gefnar eða seldar fyrir slikk, eru keyptar aftur á 10–20 millj. kr. nú. Og með þeirri þróun, sem er í byggð landsins, og með vaxandi þéttbýli hér er það vitanlegt, að þó að það séu jarðir, sem ríkið á, uppi í Mosfellshreppi nú, hafa þær sitt gildi eftir nokkurn tíma.

Þess vegna held ég, að það sé nauðsynlegt fyrir ríkið, sem þarf á landsvæði að halda, bæði undir byggingar og annað, og er að kaupa landsvæði fyrir tugi ef ekki hundruð millj. kr. núna, að hugsa ofurlítið fram í tímann, til næstu 50–100 ára, og vita, hvort það sé ekki eins gott, að ríkið eigi þetta. Og ég vil þá enn fremur spyrja í þessu sambandi að því, hvernig farið er með þessar jarðir af hálfu ríkisins nú, hvernig þeim er ráðstafað og hvort það sé e. t. v. meiningin hjá Mosfellshreppi, sem fer fram á þetta, að reyna að bjarga þessum jörðum undan óstjórn ríkisins. Mig langaði til þess að fá upplýsingar um það, hvernig það allt hangir saman og hvort það sé óhugsandi, að ríkisstj. geti stjórnað þannig meðferð á þessum jörðum, að hreppsnefndum hér í nágrenni finnist ekki þörf á að láta ríkið helzt selja sér jarðirnar, til þess að byggð á þeirri sé skynsamlega stjórnað.

Ég held, að ef á að fara, að setja mál hérna í gegn á síðustu dögum þingsins, án þess að nokkrar upplýsingar fáist um þau, og mönnum sé bara sagt, að það eigi að greiða atkv., af því að það sé stjfrv. eða af því að það sé frv., sem þm. úr ákveðnu kjördæmi flytja, ég held, að svona afgreiðslur geti ekki gengið. Það eru þm. mestmegnis úr Reykjaneskjördæmi, sem að þessu standa, en ég held, að við þm. hér í Reykjavík ættum líka að geta haft nokkuð um þetta að segja. Ég vildi þess vegna leyfa mér að óska eftir betri upplýsingum um þetta heldur en liggja fyrir. 1. flm. hefur upplýst af sinni hálfu rækilega, hvernig þetta stendur, en mig langar til þess að fá greinargerð hæstv. ríkisstj. og sérstaklega frá hæstv. landbrh.