15.04.1967
Neðri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

172. mál, sala Þormóðsdals og Bringna

Frsm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Sem frsm. landbn. vil ég segja nokkur orð, þó að ég ætli ekki að fara að svara því fyrir hönd ríkisstj., hvort heimild sú, sem hér er um að ræða og lagt er til, að verði veitt ríkisstj., verður notuð. Það er í sambandi við Bringur. Þar bjó gamall maður, Hallur Jónsson, sem hætti búskap á s.l. ári. Þetta er jörð, sem liggur að heiðalandi Mosfellshrepps, og það er áreiðanlega að mínu viti langt þar til sú jörð kemst inn í miðbæ Reykjavíkur. Ríkisstj. hefur ákveðið, að Keldur fái ákveðinn hluta af þessari jörð til afnota vegna hrossaræktar í sambandi við þær tilraunir, sem gerðar eru að Keldum, og að sjálfsögðu mun þetta haldast, þó að þessi breyting verði gerð, þ.e. a, s. Mosfellshreppur yrði eigandi að jörðinni.

Um Þormóðsdal er það að segja, að þar býr ungur maður og það er í fullu samráði við hann, sem Mosfellshreppur óskar eftir kaupum á þessari jörð, og mun hann fá að nytja hana, svo framarlega sem hann óskar þess. Ríkissjóður á 5 jarðir í Mosfellshreppi, og það er álit flm., sem eru úr öllum þingflokkum, að það sé rétt að veita þessa heimild, enda er gert ráð fyrir því, að ríkið fái land undir þau mannvirki, sem það þarf að byggja á þessu svæði. Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég vil svara því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði nú, en ég vil taka það fram, því að mér láðist að geta þess í gær, að skipulagsstjóri ríkisins, Zóphonías Pálsson, mælir með sölu þessara jarða til Mosfellshrepps.