18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

172. mál, sala Þormóðsdals og Bringna

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta jarðasölumál er komið frá Nd., flutt þar af þm. úr öllum flokkum og fékk nokkurn veginn shlj. afgreiðslu í þeirri hv. d. Það fjallar um það að heimila ríkinu að selja tvær jarðir í Mosfellshreppi, Þormóðsdal og Bringur, sveitarfélaginu. Þar sem það er í l., að ábúendur hafa forkaupsrétt að jörðum, þarf sérstaka lagaheimild til að selja öðrum ríkisjarðir en þeim. Nú stendur þannig á með þessar jarðir, að önnur þeirra er í eyði, Bringur, en hin í byggð. Það er talið mjög nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að hafa umráð yfir þessum jörðum vegna skipulags og til þess að útvíkka afréttarlönd sín. Þess er rétt að geta, að tilraunastöðin á Keldum hefur haft afnot af annarri þessara jarða til hagagöngu fyrir hross, sem tilheyra stöðinni, og hefur hreppsnefndin lýst því yfir, að hún telji sjálfsagt og eðlilegt, að tilraunastöðin haldi þessari aðstöðu, ef hún óskar þess.

Þetta mál var flutt hér á hv. Alþ. 1964 og 1965 og var þá ekki afgreitt. Það var enginn ágreiningur í hv. landbn. Nd. um það að mæla með þessari sölu og hún kannaði þetta mál betur en landbn. Ed. hefur tök á, af því að það er rétt komið til hennar, en við athugun taldi landbn. hér í þessari hv. d. þó enga ástæðu til þess að bregða fæti fyrir frv., og lögðu allir nm., sem á fundi voru, það til, að frv. yrði samþ., en þess ber að geta, að einn nm. var ekki viðstaddur, Jón Árnason.

Ég legg til fyrir hönd n., að frv. verði samþ.