13.12.1966
Efri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

84. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um iðnlánasjóð er komið frá Nd. og er framhald á breyt. á sömu l., sem samþ. var á síðasta þingi, þar sem iðnlánasjóði var heimilað m.a. að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum sjóðsins. Það mál hefur svo verið undirbúið, sett reglugerð í júlímánuði í sumar um hagræðingarlánin, og ríkisstj. veitti fyrir sitt leyti sjóðnum heimild til að gera tilraun með almennt lánsútboð, og um það hefur verið haft samráð milli ríkisstj. og Seðlabanka. Og það er meginefni þessa máls hér, að ef iðnlánasjóður býður út almennt skuldabréfalán samkvæmt þessari grein, mega skuldabréfin svo og vextir af þeim vera undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé, sbr. 21. gr. l. nr. 90 7. okt. 1965, um tekjuskatt og eignarskatt. Við athugun málsins var m.a. talið nauðsynlegt, til þess að örva sölu slíkra bréfa, að slíkt skattfrelsi væri veitt.

Ég vil mega leyfa mér að mega vænta þess, að þetta frv. geti haft skjótan framgang hér í hv. d. eins og í Nd., og þá á ég við með því, að reynt verði að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir þinghlé, sem gefið yrði fyrir jólin, og skuldabréfalánin eða undirbúningur þeirra er það langt kominn, að lánsútboðið gæti þá hafizt hvað úr hverju úr því.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.