11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Það ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum að því, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt, því auðvitað hefur henni mistekizt. Um það ætti ekki að þurfa að deila. Hún hefur setið á 8. ár, og á þessum árum hafa viðskiptakjör Íslendinga verið betri en nokkru sinni áður. Verðlag útflutningsafurða hefur farið hækkandi og það svo, að þrátt fyrir nokkra lækkun upp á síðkastið, stendur það miklu hærra en í byrjun þessa tímabils. Óvenjuleg aflauppgrip hafa verið, svo engin dæmi eru slíks áður í þjóðarsögunni.

En við þessi skilyrði er þannig ástatt, að kaupmáttur dagkaups fyrir venjulegan vinnudag í algengri vinnu hefur nálega ekkert aukizt skv. niðurstöðum kjararannsóknarnefndar, en atvinnuvegirnir eru þannig leiknir samt, að þeir dragast áfram á neyðarráðstöfunum til bráðabirgða, eins og ríkisstj. sjálf hefur orðið að játa.

Á sama tíma hefur kaupgjald í löndum umhverfis farið hækkandi jafnt og þétt yfir höfuð og hagur atvinnuvega batnað. Hér hefur allt farið á aðra lund og þó hafa ytri skilyrði varðandi verðlagsþróun og þvílíkt, líklega óvíða verið ákjósanlegri en hér.

Þrátt fyrir nokkra lækkun, sem orðið hefur á útflutningsvörum síðustu mánuðina, standa þorskafurðir t.d. í 37–86% hærra verði en þegar ríkisstj. tók við, og stæði allt með blóma, ef óstjórnin hefði ekki komið til.

Ríkisstj. tók upp nýjar hagstjórnaraðferðir, sem áttu að verða til þess að stöðva vöxt dýrtíðarinnar og tryggja örugga afkomu atvinnuveganna. Því var lofað, en allt hefur snúizt öfugt í höndum hennar. Hagstjórnaraðgerðir hennar hafa verkað eins og eitur á atvinnulífið og grafið undan lífskjörum manna, jafnóðum og menn hafa reynt að leita úrræða til að fá í sinn hlut meira af hinum auknu þjóðartekjum.

Verðbólguna hafa þessar aðgerðir ekki getað stöðvað, því að hún hefur vaxið hér vægast sagt 3–4 sinnum hraðar en í nálægum viðskiptalöndum okkar. Úrræðin hafa átt að vera fólgin í því að takmarka peningamagn í umferð með því að takmarka útlánin og skera þau niður holt og bolt, raunverulega miðað við þarfirnar og með því að leggja látlaust á nýja og nýja skatta og sópa peningum inn í ríkissjóð og helzt fá greiðsluafgang í ríkisbúskapnum til þess að leggja inn í Seðlabankann. Þessar aðfarir hafa látlaust hækkað reksturskostnað atvinnuveganna og haft í för með sér rekstursfjárskort, sem grafið hefur undan afkomu einstakra fyrirtækja.

Er helzt svo að sjá sem þannig verði kreppt að reksturslánabönkunum, að fjöldi heilbrigðra fyrirtækja verði fyrir óbærilegum áföllum vegna reksturslánaskortsins. Óðadýrtíðin hefur hækkað framfærslukostnað heimilanna og hefur eina undankomuleið margra orðið sú að lengja látlaust vinnutímann í stað þess, að annars staðar, þar sem skynsamlega hefur verið stjórnað og sæmilega tekizt, hefur vinnutími stytzt með vaxandi þjóðartekjum og atvinnuvegirnir blómgazt.

Auðvitað hefði ríkisstj., sem þannig hefur mistekizt, átt að vera farin frá fyrir löngu og borið að játa á heiðarlegan hátt, að það þyrfti að leita nýrra leiða. En þess í stað hefur ríkisstj. þráazt við að sitja og hælt sér af því, þótt hún hafi ekki náð tökum á málefnum þjóðarinnar, og hafa jafnvel hörðustu fylgismenn hennar nú orðið að viðurkenna upp á síðkastið, að seta ríkisstj. hafi eingöngu byggzt á því, að verðlag afurðanna fór síhækkandi á erlendum mörkuðum.

Samt hrökk það þó ekki til, því að ríkisstj. taldi sig þurfa til viðbótar að fella gengi ísl. krónu tvisvar til þess að geta hangið fram á þennan dag. Síðari gengislækkunin árið 1961 var þó raunar gerð sem hefndarráðstöfun við stórhækkandi útflutningsverðlag og gersamlega að ástæðulausu, en ætluð til þess að sýna launafólki, hvers það ætti von, ef það reyndi að rífa sig út úr þeirri sjálfheldu, sem kjaramálin voru komin í, við látlausa dýrtíðarþróun.

Til þess að mæla bót þrásetu sinni við þessar ástæður, var stjórnarliðið komið út á þá braut að gæla við verðbólguna og telja hana meinlausa og raunar óviðráðanlegt náttúrulögmál hér á landi og nánast nokkuð vel fallna til þess að hleypa auknu fjöri í framkvæmdalífið og dreifa þjóðartekjunum. Bar sérstaklega mikið á, að þessu væri komið á framfæri í fyrravetur, þegar áhyggjur landsmanna fóru stórvaxandi út af verðbólguvextinum, sem magnaðist sífellt, þrátt fyrir ósleitilegar inngjafir verðbólgulyfja ríkisstj.

Þessar gælur við verðbólguna og meðfylgjandi fullyrðingar um, að allt væri í lagi, þrátt fyrir hana, gátu þó ekki staðið eins lengi og vonir þeirra sjálfsagt stóðu til, þ.e.a.s. fram yfir kosningarnar, því að skyndilega hætti verðlag á ísl. útflutningsafurðum að hækka og fór nokkuð lækkandi, og kom þá enn heiftarlegar í ljós en áður, hvernig óðaverðbólgustefna ríkisstj. hafði grafið undan afkomu almennings og atvinnuveganna.

Varð þá að hætta þessum gælum, því bláköld alvaran blasti við, hvar sem litið var. Urðu nú góð ráð dýr. Var þá tekið að leita að leið til þess að leyna því fyrir mönnum í nokkra mánuði, fram yfir kosningar, hvernig raunverulega væri komið. Var í skyndingu fundin hin svokallaða stöðvunarstefna, en hún á að vera fólgin í því, að nú á 8. ári óðaverðbólgunnar hefði uppgötvazt einfalt ráð til þess að stöðva verðbólgu og dýrtíð. Það þyrfti sem sé ekki annað en að setja það í lög, að ekkert verðlag mætti hækka, nema ástæða væri til, og svo að vísu til viðbótar að stórauka niðurgreiðslur á vöruverði innanlands og útflutningsuppbætur til atvinnuveganna af margvíslegri gerð, án þess að afla tekná til þess.

En hið rétta er, að ríkisstj. taldi sig sjá, að með þessum aðferðum mundi vera hægt að halda öllu gangandi fram yfir kosningarnar, alveg eins og 1959, þegar sams konar aðferðir voru við hafðar. Raunar hefur einn af forystumönnum stjórnarflokkanna, Emil Jónsson, verið svo hreinskilinn, að hann hefur beinlínis vitnað til ársins 1959 til nánari skýringar á því, sem nú væri að gerast. 1959 var þetta þannig, að þá var skrapað saman fé til þess að greiða niður verðlag og halda útflutningi gangandi í nokkra mánuði, en þegar búið var að kjósa, kom stórkostleg gengisfelling, nýir skattar í nálega óteljandi myndum og margvíslegar aðrar ráðstafanir í sömu átt, m. ö. o. þá ruddi dýrtíðarfljótið svikastíflunni, sem lafði uppi, meðan verið var að kjósa.

Framkvæmdafé ríkissjóðs er nú mokað í dýrtíðarhítina. til bráðabirgða, og svo langt hefur orðið að ganga til þess að koma endunum saman á pappírnum, að nýju niðurgreiðslurnar hafa ekki einu sinni verið áætlaðar í fjárl. þessa árs nema 10 mán. af 12, sem sé, svo koma tímar og svo koma ráð. Síðasta framkvæmdin í þessari grein er sú að klípa enn af framkvæmdafénu, eftir að fjárl. voru afgr. og láta sveitarfélögin í þokkabót leggja til 20 millj. til þess að halda á floti í bili, enda þótt þau hafi verið búin að reikna með þeim peningum til sín. Útsvörin verða þá bara því hærri, eftir kosningarnar.

Hvort stöðvun er fram undan má svo hér um bil sjá af því, að fjárl. hækkuðu núna um meira en 1000 millj. frá því í fyrra, og til þess að standa undir þeirri fúlgu þyrfti innflutningurinn á þessu ári að verða a.m.k. jafnmikill og hann var í fyrra, og þó meiri, en innflutningurinn í fyrra var metinnflutningur. og óx um nálega 1000 milljónir á árinu. Útflutningurinn var einnig metútflutningur og óx um 500 milljónir, en hrökk samt ekki til þess að borga innflutninginn, þannig að mikill verzlunarhalli varð. Þessi gífurlegi innflutningur yrði því að endurtaka sig á þessu ári og vel það, ef ríkistekjurnar ættu að hrökkva í uppbótakerfið. En það þýddi tröllaukinn halla á viðskiptunum við útlönd, enda ráðgerir Efnahagsstofnunin fullum fetum vaxandi viðskiptahalla við útlönd á þessu ári.

Stöðvunin í bili er því byggð á áformum um stórfelldan hallabúskap. Þannig er þetta blygðunarlaust sett á svið fyrir allra augum, en ekki verður sagt, að mikillar fjölbreytni gæti á sýningarskránni í fjölleikahúsi ríkisstj., þegar þess er gætt, að hér er á ferðinni nákvæmlega sams konar atriði og leikið var 1959 og áður er frá sagt, og fölvi féll á þetta sýningaratriði s.l. laugardag, þegar fjmrh. gaf um það yfirlýsingu hér á Alþ.,ríkisstj. væri hætt að treysta sér til þess að gera áætlanir um framkvæmdir og þjóðarbúskap fram í tímann, vegna þeirrar óvissu, sem nú ríkir. Setti bardagamenn stjórnarflokkanna hljóða við þessi tíðindi.

Ég minntist á, hvernig stjórnarstefnan hefur leikið atvinnulífið, en ríkisstj. hefur einnig rekið kjaramálin í þvílíka sjálfheldu og þvílíkan hnút, að nálega engir kjarasamningar eru í gildi lengur. Er ekki til skýrari gjaldþrotayfirlýsing um stjórnarstefnuna en sú, sem í því felst, að hvorki atvinnurekendur né launþegasamtökin telja hægt að semja fljótandi í feni viðreisnarinnar.

Með þessu er þó því miður ekki öll sagan sögð, því ofan á þetta bætist, hvernig farið hefur um og komið er varðandi þýðingarmestu þjónustuframkvæmdir í landinu. Ekkert meiri háttar roforkuver hefur verið byggt á þessum 7 árum, og hefur slíkt ekki átt sér stað áratugum saman, að ekkert nýtt stórátak hafi verið gert á jafnlöngum tíma. Raforkuskortur er búinn að vera stórfelldur undanfarin ár. Áburðarverksmiðjan hefur t.d. gengið með lítið meira en hálfum afköstum. Stóráföll hafa orðið í síldariðnaði og síldveiðum á Austurlandi vegna raforkuskorts. Á meira en 5 milljarða fjárl. er ekki ein kr. til vegamála. Stórfé mokað samt í ríkissjóð til almennra útgjalda með álögum á umferðina. Samið var um við vegamálaráðh. og stjórnarflokkana, er vegalög voru sett, að á fjárl. skyldi ekki vera minna en 47 millj. til nýrra vega, en þessi samningur hefur verið svikinn. Fóru þó ríkistekjurnar fram úr áætlun á s.l. ári um 850 millj.

Segja má, að ríkið sé í þann veginn að hætta að leggja fram fé til hafnarframkvæmda, því hæsta fjárveiting við höfn er um 630 þús. kr. Mikill þorri byggðarlaga hefur á undanförnum árum orðið að leggja fram af eigin fé framlag ríkisins, ásamt sínum eigin framlögum, og þá oftast með lántökum, og er víða svo komið, að ríkisframlögin endast ekki til að borga vextina af því fé, sem byggðarlögin hafa tekið að láni til þess að greiða ríkissjóðshlutann. Ríkisstj. hefur svo nú lagt fram frv., sem gerir ráð fyrir því að fella úr l. skyldu ríkissjóðs til þess að leggja fé í hafnirnar.

Í skólamálum er þannig ástatt, að víða í landinu er nálega ógerningur að koma unglingum í skóla, og óunnin verkefni hlaðast upp óðfluga, miðað við fólksfjölgunina. Byggðarlögum er á hinn bóginn bannað að byrja skólabyggingar nema ríkisstj. samþ., jafnvel þó fé sé fyrir hendi. Strandferðir hafa drabbast niður og eru komnar í öngþveiti og er þetta atvinnulífi víðs vegar .um landið stórkostlegur fjötur um fót. Eldri skipin hafa verið seld, án þess að ný hafi verið til taks að taka við.

Í heilbrigðismálum er ástandið þannig, að þeir sem bezt til þekkja, hafa af því mestar áhyggjur. Þýðingarmiklar framkvæmdir í þeim málum, sem heilbrmrh. lofaði fyrir 2 árum, hafa ekki komizt í framkvæmd. Í stuttu máli sagt, þrátt fyrir stórfelldari skattaálögur en nokkru sinni fyrr, fer það fjármagn minnkandi tiltölulega, miðað við þörfina, sem lagt er til lífsnauðsynlegra þjónustuframkvæmda.

En ríkisbáknið vex með ofsahraða og eyðslan og sukkið situr í öndvegi. Á nálega hverjum meiri háttar framkvæmdalið fjárlaga hanga óreiðuskuldir, og nemur sá hali hundruðum millj. kr., en á síðasta ári var þjóðin skattlögð um mörg hundruð millj. til ríkissjóðs umfram ríkisútgjöldin, dýrtíðin mögnuð með þessu um allan helming og fénu síðan mokað inn í Seðlabankann, en vanskil ríkissjóðs við sveitarfélögin og aðra vegna framkvæmdanna látin halda áfram að hlaðast upp. Það er ekki að furða, þótt hæstv. forsrh. sé státinn af þessari ráðsmennsku.

Ríkisstj. hefur notað algjörlega úreltar stjórnaraðferðir, sem eiga alls ekki við hér. Hún hefur einhliða snúið sér að því að draga úr þenslu með ráðstöfunum, sem hafa grafið undan afkomu sjálfra atvinnuveganna og afkomu almennings. Hún hefur algjörlega vanrækt að veita nauðsynlega forystu um uppbyggingu atvinnulífsins og stefna hennar orðið til þess, að þær framkvæmdir í atvinnulífinu, sem mesta þýðingu hafa, og þýðingarmestu þjónustuframkvæmdir hafa hrakizt aftur fyrir og orðið út undan.

Það er ráðsmanna á þjóðarbúinu að gera grein fyrir því, hvað orðið hefur af þjóðartekjunum, og verða þeir krafnir sagna um það á næstu vikum og mánuðum, en kaupmáttur tímakaupsins eða dagkaupsins og ástandið í iðnaðinum, landbúnaðinum og sumum þýðingarmestu greinum sjávarútvegsins sýna, hvar þjóðartekjuaukinn hefur ekki staðnæmzt.

Í þýðingarmestu greinum þjóðarbúskaparins hafa skapazt grundvallarvandamál og vonlaust, að úr rætist til frambúðar, nema horfzt sé í augu við það og litið þannig á kjarna þessara mála, en til þess þarf stefnubreytingu, ný viðhorf og nýjar vinnuaðferðir.

Ríkisstj. hefur horft á það aðgerðarlaust, að starfandi togarafloti hefur minnkað um meira en helming, þorskveiðiflotinn gengið saman ár frá ári og verðbólgan, lánastefnan, og minnkandi þorskveiðifloti hefur grafið undan grundvelli frystiiðnaðarins, sem hefur verið þýðingarmesti einstaki þátturinn í þjóðarbúskapnum.

Ríkisstj. hefur látið eins og þessi vandamál væru ekki til, enda öll afskipti af slíku vafalaust talin algjört brot á stjórnleysisstefnunni, sem ríkisstj. hefur talið sig fylgja. Á hinn bóginn átti að leysa vandamál togaranna í haust með því að hleypa þeim inn á bátamiðin í landhelginni og verður vafalaust gert eftir kosningar, ef stjórnarflokkarnir geta ráðið þá.

Þýðingarmiklar greinar sjávarútvegsins ásamt iðnaði í flestum efnum og landbúnaði eru flakandi í sárum eftir aðfarir ríkisstj. og framkvæmd viðreisnarinnar, en einn aðalþáttur þess leiks hefur verið takmörkun reksturslána, en rekstursfjárskorturinn er einhver hinn hættulegasti mölur, sem komizt getur í atvinnulífið.

Allt þetta blasir nú við í slíkri nekt, að hreint ofboð hefur gripið þm. stjórnarflokkanna síðustu vikurnar. Hafa þeir nú allt í einu rubbað upp og kastað inn á Alþ. frv. og þáltill., sem fjalla um ýmiss konar afskipti ríkisstj. og ríkisvalds af þessum málum framvegis. Er átakanlegt að horfa upp á þetta, því að í þessu öllu saman felst ótvíræð viðurkenning á mistökum ríkisstj. af hendi stuðningsmanna hennar, sem þó bera fulla ábyrgð á þessu. En tilgangi sínum, að lofa bót og betrun fyrir kosningarnar, svo á verði trúað, nær þetta ekki, því að reynslan er ólygnust í því, að þeir, sem ráða í stjórnarflokkunum, virðast hafa óbeit á þeirri forystu, sem ríkisvald í nútíma þjóðfélagi verður að hafa í efnahags- og atvinnumálum, og því samstarfi við einstaklingsframtak og félagssamtök, sem er lífsnauðsyn, ef vel á að fara.

Reynsla síðustu 7 ára er óhlutdrægasti dómarinn og dómsniðurstaðan liggur fyrir allra augum í ástandi atvinnuveganna annars vegar og kjaramálanna hins vegar. Það sem annars staðar er talið lífsnauðsynlegt, að ríkisvaldið hafist að í samstarfi við einstaklingsframtak og félagsframtak, er hér af forgöngumönnum hinna úreltu vinnuaðferða talið óalandi og óferjandi og kallað höft. Framsóknarmenn eru ráðnir í því að beita allri orku sinni til þess að koma í framkvæmd nauðsynlegri stefnubreytingu í þessum efnum, en kjarni hennar er endurreisn atvinnulífsins eftir aðfarir þeirra viðreisnarmanna og að leysa með því jafnframt kjaramálin úr þeirri sjálfheldu, sem þau eru nú í komin.

Höfuðatriðið er að taka upp skynsamlegan áætlunarbúskap; sem byggður sé á nánu samstarfi ríkisvalds, einstaklingsframtaks og félagasamtaka, velja verkefnin í slíku samstarfi og fylkja liði sameiginlega til þess að leysa þau, setja lánastefnuna í samband við þessar fyrirætlanir og sömuleiðis fjárlagapólitíkina, þ.e. að beina fjármagninu í þessar áttir. Þetta er jákvæð leið, en ekki leið hafta. Koma þarf því fram fyrir, sem mestu máli skiptir, ráðast gegn þeirri stefnu, sem verður til þess, að þýðingarmestu framkvæmdir í þjónustu atvinnulífsins lenda í úrkastsflokki eins og nú.

Upp úr feni verðbólgunnar verður heldur aldrei komizt nema eftir leiðum aukinnar tæknihagræðingar og vélvæðingar og nýtízkulegri vinnubragða í öllum greinum atvinnulífsins og með því að taka upp nýja fjármálapólitík og peningapólitík, sem er miðuð við þetta. Kalla þarf á unga fólkið í atvinnulífinu, launþegasamtökunum, frá vísindunum og ríkisvaldinu til þess að efna til náinnar, varanlegrar samvinnu og samstarfs, sem byggt er á því að vinna saman, en ekki á því að hlusta á áróðursræður ráðh. Kveðja þarf til þetta fólk, sem ekki er haldið þeirri úreltu firru, að öll afskipti ríkisvaldsins séu höft og einstaklingsframtak og ríkisvald hljóti að eiga fjandsamleg skipti saman.

En kjarni nútíma skynsamlegra stjórnarhátta er einmitt sá, að þessi öfl vinni saman en hittist ekki bara í kokkteil-boðum ríkisstj. eða í bezta falli á einhvers konar málfundum þar sem ekkert gerist, nema þá helzt að hlusta á einhverja áferðarsnotra loðmullu, sem ekkert er hægt á að byggja.

Þá verður það að vera aðalatriði nýrrar stefnu að styðja íslenzkt framtak, efna til stórbrotinna framkvæmda á þess vegum, en kveða niður þann hugsunarhátt, að útlendingar eigi í vaxandi mæli að taka við atvinnurekstri á Íslandi.

Sömu skil ber að gera úrtölum þeim, sem beitt er skipulega á vegum ríkisstj. og byggist á þessu látlausa suði, sem við þekkjum, um það, hve erfitt sé að lifa á Íslandi. Hefja ber þann sannleika á hinn bóginn til vegs, sem reynslan hefur sannað, að Íslendingar hafa fulla ástæða til þess að vera bjartsýnir og trúa á landið, ef með ráðdeild og dugnaði er að farið og skynsamlega stjórnað. Ríkisstj. hefur á sér öll merki þreytu og úrræðaleysis og því fylgja miklar hættur, þegar svo er komið. Hún hefur reynzt ístöðulaus út á við, en til viðbótar öðru hrokafull inn á við, hefur tekið illa aðfinnslum, gert ráðstafanir til þess að reyna að bæla niður eðlilega gagnrýni og orðið t.d. ber að því að þvinga meiri hl. útvarpsráðs til þess að loka fyrir þann þátt í útvarpinu, sem mesta möguleika gaf til þess, að hinn almenni borgari gæti látið uppi álit sitt og skoðanir. Jafnframt treður ríkisstjórnin látlaust áróðri sínum inn í útvarpið, svo sem hún framast fær við komið.

Með þessum aðferðum hefur ríkisstj. fallið í þá gröf, sem oftast er búin fyrr eða síðar þeim stjórnum, sem óttast almenningsálitið, að hún vegur að málfrelsinu í því skyni að rétta þannig hlut sinn. En Íslendingar eru þannig gerðir, að þessar aðfarir munu ekki ná tilgangi sínum, heldur þvert á móti sýna, svo tæpast verður um villzt, að nú er komið nóg af þessu og þörf á því að breyta til.

Nú er líka að því komið, að menn verða að gera það upp við sig, hver og einn, hvort þeir vilja stuðla að því með atkvæði sínu í vor, að núverandi stjórnarflokkar geti farið með allt að sinni vild næstu fjögur árin eða ekki. Mættu menn þá minnast þess, að þessir flokkar sjá enga aðra leið en þá, sem farin er, og menn vita, hvert hún hefur leitt.

Minnast mættu menn þess einnig, að fram undan er að ákveða stöðu landsins til Efnahagsbandalags Evrópu. Vilja menn, að þessir tveir flokkar geri það eftir sínu höfði? Og að þeir geti einnig á sama hátt ákveðið hlut ísl. aðila og erl. aðila í þjóðarbúskap okkar í framtíðinni? Þannig mætti halda áfram að spyrja um stærstu þætti þeirra viðfangsefna, sem fram undan eru. Mundi ekki vera skynsamlegt að breyta til og ganga þannig frá, að dugi til þess að knýja fram stefnubreytingu og að reyndar verði nýjar leiðir. Það þarf tæpast að segja mönnum, hvað gera þarf til þess að tryggja breytingu, því það vita flestir, að Framsfl. er eini flokkurinn, sem er í vexti, og efling hans er eina leiðin út úr hinni hættulegu sjálfheldu.