11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. næstsíðasti ræðumaður, 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, átti ekki nógu sterk orð yfir það, hversu verðbólga hefði vaxið í tíð núv. ríkisstj. og taldi það einbera sýndarmennsku, sem gert væri nú til verðstöðvunar, líkt og hefði átt sér stað 1959, sagði hann. Hann virtist hafa gleymt því, að verðbólguvöxturinn 1958, þegar hann sjálfur sat við stjórnvölinn, var svo gífurlegur, að stjórnin neyddist til þess að hrökklast frá. Hún réði ekki við verðbólguna og hún gafst hreinlega upp. Hins vegar tókst Alþfl. stjórninni 1959 að halda verðlaginu stöðugu meðan hún sat, og nú hefur tekizt að halda verðstöðvuninni síðan lög þar um gengu í gildi:

Núv. ríkisstj. hefur setið við völd í 7½ ár, tvö kjörtímabil samfleytt eða lengst allra ríkisstj. íslenzkra. Samstarf stjórnarflokkanna nær þó einu ári lengra aftur í tímann eða til ársins 1958, þegar Alþfl. myndaði sína minni hl.-stjórn með óbeinum stuðningi Sjálfstfl. Á þessu 8½ ári, sem síðan er liðið, hafa farið fram þrennar kosningar til Alþ. og í öll skiptin hefur þjóðin vottað þessu samstarfi traust.

Fyrir stjórninni var ekki spáð vel af stjórnarandstöðuflokkunum, þegar hún tók við. Var talið víst, að í kjölfar hennar mundi koma það, sem þeir kölluðu móðuharðindi af mannavöldum, atvinnuleysi og ýmiss konar harðræði, sem stjórnin með stefnu sinni og starfi mundi leiða yfir þjóðina. Þegar þetta stóðst nú ekki og atvinnuleysi hafði aldrei verið jafn fjarlægt og í tíð hæstv. stjórnar, var blaðinu snúið við og hætt að tala um móðuharðindin, en í þess stað var sagt, að stjórnarstefnan væri röng og með óákveðnu orðalagi, að heilbrigðara og betra mundi hafa verið að fara „hina leiðina“, sem raunar enginn vissi, hvað þýddi. Menn hafa þó verið að reyna að geta sér þess til, hvað hér væri um að ræða, ef það væri nokkuð nema innantóm orð, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri fyrst og fremst að ræða um höft og bönn, sem takmörkuðu frelsi borgaranna, fyrst og fremst til innflutnings og fjárfestingar, sem nú um skeið hefur verið lítið sem ekkert takmarkað. Frelsi í samskiptum einstaklingsins við samfélagið hefur verið. eitt meginatriðið í stefnu núv. ríkisstj. Hafa því verið afnumin svo að segja öll innflutningshöft og innflutningsverzlunin gefin að heita má fullkomlega frjáls. Hið sama má segja um fjárfestinguna. Menn hafa á undanförnum árum getað stofnað til fjárfestingar án þess að þurfa um nokkurt leyfi að sækja, en þeir, sem muna svo sem 10 ár aftur í tímann, geta gert sér grein fyrir því, hvílíkur reginmunur er á ástandinu þá og ástandinu nú, þá, þegar allt var háð leyfum og enginn mátti hreyfa sig nema hann fengi til þess tilskilin leyfi. Þetta er kerfið, sem framsóknarmenn vilja sennilega innleiða á ný og kom það raunar einnig að nokkru leyti fram í ræðu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, áðan. Þetta gera þeir til þess að geta veitt skjólstæðingum sínum leyfi til athafna, sem öðrum er synjað um. Þetta er sennilega „hin leiðin“. Það, sem einkennir stjórnarandstöðuna hér í dag, bæði Framsókn og Alþb., er það, að hún er neikvæð. Hún dregur úr og vill ekki, að rekin sé hin jákvæða pólitík, sem ríkisstj. hefur haft uppi. Hún hefur verið á móti því frelsi, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir í viðskiptamálum. Hún hefur verið á móti söfnun gjaldeyrisvarasjóðs, sem orðið hefur til m.eð bindingu sparifjárins að nokkru leyti og er nú orðinn um 2000 millj. kr. eða sem svarar til upp undir hálfs árs innflutnings, þó að ekkert komi á móti. Menn beri þetta saman við upphaf tímabilsins, þegar enginn gjaldeyrisvarasjóður var til og raunar minna en það, þegar bankarnir lifðu á erlendum yfirdrætti og áttu undir högg að sækja, hvort væri hægt að leysa inn erlendar kröfur, sem bárust fyrir nauðsynlegustu vörusendingar. Skilyrðið fyrir því, að þessi gjaldeyrissöfnun væri möguleg, var, að sparifjárinnlögin væru að nokkru leyti bundin, en á móti því hefur stjórnarandstaðan jafnan barizt.

Við skulum taka annað dæmi. Undanfarin ár hafa farið fram samningaviðræður við svissneskt alúminíumfirma um byggingu alúminíumbræðslu á Íslandi. Ísland er ekki ríkt af náttúruauðæfum, sem svo eru kölluð, en þau eru þó til og sum í mjög ríkum mæli. Á ég þar við orkulindirnar, sem bundnar eru í íslenzkum fallvötnum og jarðhita. Hvorugt þetta hefur verið nýtt að nokkru ráði enn sem komið er. Fossaaflið er talið munu nema alls virkjanlegt um 4 millj. kw. Þar af er ekki virkjað í dag nema um 100 þús. kw. eða aðeins 1/40 hluti. Getur þetta mikla afl orðið undirstaða undir ýmiss konar merkilegum iðnaði, sem veitt getur atvinnu þúsundum manna. Samningar hafa tekizt við hið svissneska firma um kaup á mikilli orku eða um 100 þús. kw. til alúminíumbræðslu í verksmiðju, sem reist verður í Straumsvík fyrir sunnan Hafnarfjörð. Með þeim samningi var í fyrsta lagi skapaður möguleiki til hagkvæmrar virkjunar í Þjórsá við Búrfell og í öðru lagi atvinnumöguleikar fyrir nokkur hundruð manns í þessari verksmiðju. Eru með virkjun þessari og verksmiðjubyggingu mörkuð tímamót í íslenzkri atvinnusögu, þegar fossaorkan er í fyrsta sinn tekin í notkun til stóriðnaðar á heimsmælikvarða. En auðvitað þurfti hin neikvæða afstaða stjórnarandstöðunnar að koma hér fram eins og alls staðar annars staðar. Báðir stjórnarandstöðuflokkarnir, Framsókn og Alþb., hömuðust á móti því, að þessi samningur yrði gerður og lögfestur hér á Alþ. og þar með á móti því, að verksmiðjan yrði reist og hægt væri að haga virkjunarframkvæmdunum í Þjórsá á þann hátt, sem hagkvæmast var.

Í öllum þeim umr., sem fram hafa farið frá fyrstu tíð, er farið var að ræða um hagnýtingu vatnsaflsins á Íslandi, veit ég ekki betur en alltaf væri út frá því gengið, að sá orkufreki stórrekstur, sem hagnýting vatnsaflsins byggðist á, væri rekinn af erlendum aðilum, því að Íslendingar hefðu ekki fjárhagslegt bolmagn til þeirrar fjárfestingar, sem nauðsynleg væri, auk ýmissa annarra ástæðna, sem gerði slíkan rekstur óviðráðanlegan fyrir Íslendinga. Og þó beit Framsfl. höfuðið af skömminni með því að láta í það skína, að hann mundi e. t. v. hafa getað fylgt málinu, ef verksmiðjan yrði reist á öðrum stað, þar sem allar aðstæður voru erfiðari, verksmiðjan dýrari í stofnkostnaði og rekstrarafkoman hæpnari. Öll var þessi afstaða tækifærissinnuð í mesta máta og ekki hugsað um alþjóðarheill. En þannig hefur afstaðan verið í flestum málum, þó að fleiri dæmi verði ekki nefnd hér.

Eitt það gæfusamlegasta í tíð núv. stjórnar tel ég vera, að atvinna hefur verið næg fyrir alla þetta tímabil. Hefur það fyrst og fremst byggzt á góðum aflabrögðum hjá þeim, sem sjávarútveg hafa stundað, sérstaklega síldveiðum. Hefur þar verið um metafla að ræða. En þessi metafli hefur því aðeins verið mögulegur, að skip hafa verið byggð og fengin til landsins, sem hentuðu þessum veiðum. Hefur fjárfesting í þessum skipastól verið gífurleg og því aðeins möguleg, að fiskveiðasjóði hefur verið gert kleift að tryggja erlend lán að 2/3 hlutum af skipsverðinu, sem hefur verið þetta frá 12–20 millj. kr. á skip. Enn hafa verið byggðar margar síldarverksmiðjur á Austurlandi og Suðurlandi, svo að afköstin þar hafa aukizt mikið frá því, sem áður var. Áhyggjum veldur þó, að þorskstofninn virðist ganga saman og er það ekki eingöngu íslenzkt fyrirbrigði, heldur munu þorskveiðar í N.-Atlantshafi einnig hjá öðrum fiskimönnum, sem þar stunda veiðar, vera á sama hátt minnkandi. Er þetta mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga og tilefni til að freista þess að vernda uppeldisstöðvarnar á landgrunninu. Verður það sjálfsagt eitt merkasta og um leið erfiðasta viðfangsefni þeirrar ríkisstj., sem hér fer með völd næsta kjörtímabil að fá landgrunnið friðað fyrir veiðum, sem skaðsamlegar eru ungviðinu.

Fiskveiðarnar hafa verið og eru nú undirstöðuatvinnuvegurinn, sem öll okkar góða afkoma byggist á. Þess vegna verður að tryggja þessar veiðar eins vel og frekast eru tök á. Fjöldamargt annað mætti nefna, sem ríkisstj. hefur tekizt að færa til rétts vegar á þessu tímabili. Ég nefni af áhugamálum Alþfl. t.d. grundvallarbreytingar, sem gerðar hafa verið á tryggingalöggjöfinni, afnám skerðingarákvæðisins svokallaða, en þetta skerðingarákvæði fól í sér, að ef maður, sem kominn var á þann aldur, að hann ætti rétt á lífeyri, vann sér inn nokkrar tekjur, minnkaði fyrst ellilífeyririnn, en hvarf síðan með öllu, ef eigin tekjur náðu vissu marki, sem þó var ekki hærra en tvöfaldur ellilífeyrir. Þetta ákvæði var nú fellt úr l. og nú njóta allir fulls ellilífeyris, þó að þeir hafi einhverjar atvinnutekjur. Hitt atriðið í sambandi við tryggingalöggjöfina, sem ég tel ástæðu til að minnast á og lagfæring hefur fengizt á á þessu tímabili, er afnám verðlagssvæðanna svokölluðu þannig að nú fá allir, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, sama ellilífeyri, en á því var mikill munur áður.

Fjölda margt annað mætti nefna. Húsbyggingamálin hafa þokazt verulega í rétta átt með því að aukins fjármagns til þeirra hefur verið aflað. Konur fá nú sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Afkoma almennings hefur verið góð og menn hafa getað aflað sér meiri neyzluvarnings en nokkru sinni áður. Fjármunamyndun hefur þó verið meiri heldur en nokkru sinni áður. Áætlunargerð um opinberar framkvæmdir hefur verið tekin upp og gefizt vel og stefnt að því, að hún verði víðtækari. Stjórnarsamstarfið hefur verið, að ég vildi segja, gott. Höfuðstefnumið samstarfsflokkanna eru að vísu mjög ólík, en þeir hafa hvorugur haldið þeim til streitu, heldur einskorðað sig við lausn vandamála dagsins og ég tel, að það hafi tekizt vel. Ég tel mig mega fullyrða, að á engu tímabili Íslandsbyggðar hafi orðið eins miklar og örar framkvæmdir og betri afkoma hjá almenningi en á þessu tímabili núv. stjórnarsamstarfs. — Góða nótt.