11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á öllum tímum Íslandsbyggðar hafa ártölumenn verið uppi, þótt í mismunandi mæli hafi verið og hafa ávallt hlotið verðskuldaðan dóm sögunnar sem mestir óþurftarmenn. Sannleikurinn er og sá, að hefðu þessir menn ráðið stefnunni í þjóðmálum okkar, væri hér á landi á annan veg umhorfs en þær staðreyndir, sem nú blasa við okkur. Þessi hópur manna siglir gjarnan undir yfirskini hins gamla spakmælis, að ekki valdi sá, er varir. En miklu fremur mæti færa iðju þeirra undir orðin „þeim er ótta von, sem illt gerir“. Þess munu dæmi, að menn geti um sinn aukið valdaaðstöðu sína eða samtaka sinna með slíkri iðju. En ávallt hefur sagan endurtekið sig á sama hátt, að erfiðasta úrlausnarefni þeirra hefur verið að sigrast á sínum eigin fyrri úrtölum og neikvæða starfi. Erfið veðrátta og tímabundnir erfiðleikar í sölu afurða okkar erlendis eru vandamál, sem þjóðin hefur glímt við áður og með dugnaði og þrautseigju sigrazt á við margfalt verri aðstæður en nú. Þeir, sem velja sér slíkt ástand til pólitísks framfæris, verða því að flokkast undir úrtöluhópinn.

Hverjir þessir úrtölumenn íslenzkra þjóðmála eru, munu útvarpshlustendur sjálfir geta metið og ekki mun á því standa, að þeir kynni sig sjálfir, því að það hafa þeir þegar gert, það, sem af er umr., með því að mála dökku litina nægilega sterka. Alþfl. er andvígur slíkum bardagaaðferðum og telur, að fátt hafi skaðað íslenzkt atvinnulíf meira. Hann mun því láta öðrum flokkum eftir að beita þeim. Þeir einir, sem trúlausir eru á glæsta framtíð íslenzku þjóðarinnar, geta á slíkum vopnum haldið.

Þar sem þetta eru síðustu eldhúsdagsumr. Alþ. fyrir alþingiskosningar þær, sem fram eiga að fara nú í vor, er bæði eðlilegt og sjálfsagt, að litið sé um öxl yfir helztu þætti félags- og atvinnumála s.l. kjörtímabil og framtíðarhorfur metnar á grundvelli þess, sem gerzt hefur í þeim málum fyrir forgöngu ríkisstj. Ég mun nú leitast við að gera það umfram það, sem þegar hefur verið gert.

Á kjörtímabilinu hafa verið sett ný lög og breytingar á eldri l. félagsmálalöggjafarinnar um 30 talsins. Skal nú minnzt á það helzta úr lagasetningum þessum umfram það, sem þegar hefur verið drepið á af hæstv. utanrrh. Bætur almannatrygginga, aðrar en fjölskyldubætur, voru í upphafi kjörtímabilsins hækkaðar um 15% og ári síðar var ákveðið að greiða sömu bætur með 32.25% álagi. Þá var aukin aðstoð til sjúkra manna, örkumla eða fatlaðra, sérstaklega hvað viðkemur æfingarmeðferð og öðrum þörfum þeirra. Rýmkaðir voru verulega ferðastyrkir sjúklinga, sem leita þurftu læknishjálpar erlendis. Aukin voru verulega gjöld þau, er renna til lána og styrkveitinga til hælisbygginga vegna vangefinna, fatlaðra og öryrkja og ákveðin var aðild hjarta- og æðaverndarsamtakanna að þessum gjöldum til byggingar rannsóknarstöðva, og hafa fjárframlög þessi mjög örvað til slíkra bygginga. Alþfl. telur enn brýna nauðsyn bera til að leiðrétta það misræmi, sem enn er í gildi á ellilífeyrisgreiðslum til hjóna annars vegar og hins vegar til tveggja einstaklinga. Samræming á þessu atriði kostar hins vegar allmikið fé, sem nauðsynlegt er að tryggja, áður en breyting verður þar á gerð, sem telja verður sanngirnis- og réttlætismál.

Hátíðisdagur verkafólksins 1. maí var lögskipaður hvíldardagur allrar þjóðarinnar. Aðild verzlunar- og skrifstofufólks að atvinnuleysistryggingasjóði var lögfest.

Í sveitarstjórnarmálum hafa verið gerðar margvíslegar lagabreytingar og eru þær merkastar, að ný lög voru sett um skipulag bæja og kauptúna og aukin aðstoð ríkisins við landakaup kaupstaða og kauptúna. Orlofslögunum var breytt til hækkunar úr 6% í 7% af launum. Sérstök n. vinnur nú að því að endurskoða framkvæmd l. með það fyrir augum að gera orlofslögin og upphaflegan tilgang þeirra raunhæfari í framkvæmd. Skipuð var af félmrn. sérstök n. til að semja frv. um almennan, lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn eftir nákvæma frumathugun Haralds Guðmundssonar, fyrrv. form. Alþfl.

Húsnæðismálin hafa á kjörtímabilinu svo sem lengi áður verið ofarlega á baugi og hafa í þeim efnum átt sér stað gerbreytingar á öllum fjárhagsgrundvelli í útlánastarfsemi stofnunarinnar. Undirstaða hins aukna fjármagns er fyrst og fremst til komin í fyrsta lagi vegna hækkunar á skyldusparnaði úr 6% í 15%, í öðru lagi vegna 1% launaskatts og í þriðja lagi vegna aukinna lána úr atvinnuleysistryggingasjóðnum. Á fyrstu 5–7 árum í starfi Húsnæðismálastofnunarinnar hlóðst upp mikill fjöldi lánsumsókna, sem óx ár frá ári og enga fyrirgreiðslu gat fengið. Þetta getuleysi stofnunarinnar kom svo fram í ótrúlegum fjölda hálfbyggðra íbúða, sem sliguðu hlutaðeigandi byggjendur og framkölluðu sífellt lengri byggingartíma, enda þá ekki til ráðstöfunar nema 40–60 millj. kr. á ári. Það var svo ekki fyrr en með milligöngu ríkisstj., og samkomulaginu milli verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda í júní 1964 og júlí 1965, að nýr skriður kemst á fjárhagslega undirbyggingu lánastarfseminnar með þeim árangri, að á s.l. ári voru lánaðar á vegum stofnunarinnar 343 millj. 399 þús. kr. eða sem svarar til 940 fullra lána með þágildandi hámarksláni, kr. 280 þús. á íbúð, að viðbættum lánum til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, 16 millj. 965 þús. kr. Í fyrrgreindu samkomulagi við verkalýðssamtökin var ákveðið að reyna að tryggja lán til 750 íbúða á ári. Á s.l. ári hefur því verið lánað til nálega 200 fleiri íbúða en lofað var við áðurnefndar samningagerðir. Á yfirstandandi ári er áætlað, að ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar muni verða rúml. 380 millj. kr. og mun húsnæðismálastjórn nú innan skamms tíma hafa ráðstafað í lánum og tímasettum lánsloforðum, sem svarar til 670 fullra lána það, sem af er þessu ári. Að hinni nýju byggingartilraun, sem um var samið að reyna fyrst í Reykjavík á vegum sérstakrar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, hefur þegar verið unnið mikið en nauðsynlegt undirbúningsstarf og munu sjálfar byggingarframkvæmdir væntanlega geta hafizt nú með vorinu. Þar sem hér er um algera nýjung að ræða í byggingarháttum landsmanna, hefur eðlilega verið við ýmsa byrjunarörðugleika að etja og verður sjálfsagt, meðan fyrstu húsin eru að komast í söluhæft ástand. Erlend reynsla er sú, að alllangan aðlögunartíma þurfi við slíkar tilraunir, til að umtalsverður árangur náist í lækkuðum byggingarkostnaði, án þess að gengið sé á gæði íbúðanna. Það gæti því orðið nokkuð hættuleg blekking, ef við teldum, að hér á landi væri hægt að komast hjá öllum slíkum reynslutíma. Við verðum að reka okkur á það, sem fyrir fram er ekki hægt að koma í veg fyrir, en læra þeim mun betur af reynslunni og þá yfirstígum við vandann í þessum efnum og fáum fram það, sem að er keppt, lægri húsnæðiskostnað, sem tvímælalaust er ein af raunhæfustu leiðunum til kjarabóta almennings. Eitt af því nauðsynlegasta er að koma upp almennri og sem allra víðtækastri samkeppni einstaklinga og félaga um land allt um byggingu ódýrra íbúða, án þess að gengið verði á nauðsynlega gæðastöðu þeirra. Verðlauna ætti þá aðila, er fyrir slíkum byggingum standa, með sérstakri forgangsfyrirgreiðslu þess opinbera. Ýmsir atburðir síðustu tíma benda til, að almennari vakning en oft áður eigi sér nú stað um, að það geti einnig verið eftirsóknarvert markmið að sýna áþreifanlegan árangur til lækkunar á veigamesta útgjaldalið almennings, húsnæðiskostnaðinum.

Í sjávarútvegsmálum hafa á kjörtímabilinu verið lögfest 14 ný lög og breytingar á eldri l. Veigamesta lagasetning þessa málaflokks verður áreiðanlega talin hin nýju lög um Fiskveiðasjóð Íslands- og sú sameining í lánamálum sjávarútvegsins, sem þar átti sér stað, ásamt lagasetningu um smíði síldarleitarskips. Hið alvarlega verðfall, sem átti sér stað á helztu útflutningsvörum okkar á miðju s. l. ári, og óhjákvæmilegar afleiðingar þess hafa svo skilmerkilega verið ræddar á opinberum vettvangi, að óþarft er að endurtaka það hér í einstökum atriðum. Öllum heilskyggnum mönnum er ljóst, að þegar verðfall á síldarlýsi komst í 29% og síldarmjöli í 15%, eftir að síldarverð hafði verið ákveðið og á meginhluta frystra fiskafurða um 11%, hlaut svo þungt högg að segja til sín í rekstursafkomu veiðiflotans og vinnslustöðvanna í landi og annarra þeirra, sem afkomu sína byggja á þeim störfum, og um leið á fjárhagsafkomu þjóðarinnar allrar. Skylt er að viðurkenna, að sjómenn og útgerðarmenn sýndu á þessum erfiðleikatímum sanngirni og rétt mat á aðstæðum, er þeir sættu sig við lægra síldarverð s. l. sumar. Það er of oft og á stundum ómaklega rætt um heimtufrekju og ósanngirni í launamálum og þess vegna rétt að minnast þess einnig, þegar með sanngirni er fundin lausn viðkvæmra deilumála. Erfiðleikar hafa verið í rekstri togaraflotans og minni vélbáta með þeim afleiðingum, að úr vinnslugetu hraðfrystihúsanna hefur dregið með minnkandi bolfiskafla. Hverjir svo sem skipa ríkisstj., þá ráða þeir ekki við náttúruöflin, veðurfar eða fiskigengd og þaðan af síður við markaðsverð erlendis. Margt má þó bæta til að draga úr áhrifum vonandi tímabundinna erfiðleika af þessum völdum. Það hefur ríkisstj. gert og vinnur stöðugt að því að tryggja, svo sem verða má, þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem öruggastan rekstur. Stærsti liður þeirrar viðleitni eru verðstöðvunarlögin og síðasta lagasetning um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Fiskiskipastóllinn hefur mjög verið efldur og bættur á kjörtímabilinu og reyndar öllum starfstíma stjórnarinnar. Á árunum 1959–'65, að báðum árum meðtöldum, jókst rúmlestatala fiskiskipaflotans úr 57 800 í 77 900 rúml. og fiskiskipum fjölgaði á þessum árum úr 707 í 830. Allt s.l. ár og það, sem af er þessu, hafa fiskveiðiflotanum enn verið að bætast ný og fullkomin veiðiskip. Hin aukna og bætta aðstaða sjómanna til sjósóknar og alls búnaðar um borð í hinum nýju fiskveiðiskipum kemur m. a. fram í því, að fjöldi starfandi sjómanna virðist mun stöðugri en hann var fyrir komu þessara skipa eða 6000–6300, þegar mest er í hámarki vetrarvertíðar og sumarsíldveiða og fer ekki niður úr 4000 sjómönnum þess á milli. Fyrir komu þessara skipa komst tala sjómanna milli aðalvertíða niður 2300–2600.

Sú mikla bylting, sem átt hefur sér stað í stækkun og fjölgun skipa í fiskveiðiflotanum, kallar á aukið hafnarrými og þá um leið aukna aðstoð þess opinbera til þeirra framkvæmda. Með hliðsjón af þessum staðreyndum hefur ríkisstj. nú lagt fyrir Alþ. frv. til nýrra hafnalaga, sem tryggja ætti, ásamt bættu skipulagi, þessa grundvallarstefnu, ef að lögum verður. Í ársbyrjun 1961 var heildarafkastageta frystihúsanna í landinu miðað við 16 klst. vinnslu á sólarhring talin vera 1929 lestir. Í ársbyrjun 1965 hafði hún aukizt upp í 2503 lestir miðað við sama vinnslutíma. Afkastageta síldarverksmiðjanna á öllu landinu var árið 1955 talin 70 840 mál á sólarhring. Árið 1965 var þessi afkastageta komin upp í 120250 mál á sólarhring. Á s.l. ári er talið, að verksmiðjur á svæðinu frá Raufarhöfn suður til Djúpavogs hafi aukið afkastagetu sína um nálega 33% á því eina ári. Þróarrými verksmiðjanna var árið 1955 talið 414500 mál, en í árslok 1965 var það orðið 700 þús. mál. Nýtt og fullkomið síldarleitarskip er væntanlegt til landsins í júlímánuði n. k. og er fyrsta skipið, sem sérstaklega er smíðað fyrir vísindamenn okkar og ætti að gjörbreyta aðstöðu þeirra við hin mikilvægu störf. Rétt um þessar mundir er verið að ljúka við útboðslýsingu á smíði fullkomins hafrannsóknaskips og þegar hafa verið gerðir nokkrir undirsamningar um smíði einstakra hluta í skipið. Á vegum sjútvmrn. hefur að undanförnu verið leitað eftir því erlendis að fá hingað til lands, leigða nýtízku skuttogara til reynslu við íslenzkar aðstæður, sem byggja mætti síðar á við endurnýjun togaraflotans. Þessar tilraunir hafa enn ekki borið árangur. Meðan þessi athugun fór fram, hafa nokkrir innlendir aðilar gefið sig fram og látið í ljós áhuga fyrir kaupum á slíkum skipum, en með mismunandi stærðir í huga. Með hliðsjón af þessu ákvað ríkisstj. að leita fyrir sér með kaup á 4 nýjum skuttogurum tveggja þilfara af mismunandi stærðum og hefur hún nýlega falið sérstakri n. að gera till. um framkvæmd málsins.

Góðir hlustendur. Samstarfið í núv. ríkisstj. hefur í heild verið gott. Ágreiningsmál hafa verið leyst með sanngirni og án pólitískra hrossakaupa. Grundvallarágreiningur í stefnumálum stjórnaaflokkanna er að sjálfsögðu enn fyrir hendi og verður seint leystur. Látnir hafa verið sitja í fyrirrúmi þeir málaflokkar, sem samstaða hefur tekizt um. Alþfl. gengur ótrauður til þeirrar kosningabaráttu sem fram undan er og treystir á rétt mat kjósenda á störf hans á kjörtímabilinu. Ástæða er til að vara flokksfólk og aðra velunnara flokksins við þeim lævíslega áróðri, sem þegar hefur verið leynilega hafinn, að Alþfl. muni án fyrirhafnar berast fylgisaukning og þess vegna geti þeir nánast beðið aðgerðalausir eftir kosningaúrslitunum. Það er glöggt, hvað andstæðingar okkar vilja með slíkum áróðri. Þeir telja m. ö. o. nauðsynlegt að slæva starf Alþfl.-fólks. Af því stendur þeim óttinn. Staðreyndin er hins vegar sú, að í síðustu alþingiskosningum fékk flokkurinn 4 kjördæmakjörna þm. og 4 landskjörna eða samtals 8 þm. Tveir af hinum 4 kjördæmakjörnu þm., þ. e. 1. maður A-listans á Vesturl. og 2. maður A-listans í Reykjavík, náðu kosningu með naumum meiri hl. Það er á slíka möguleika, sem er einblínt, þegar reynt er að draga úr starfi Alþfl.-fólks og velunnara jafnaðarmanna. Sú staðreynd blasir því enn einu sinni við, að Alþfl. þarf á öllum sínum starfskröftum að halda og ekkert annað en þrotlaust starf fyrir málefnunum sjálfum mun færa okkur ánægjuleg úrslit, úrslit, sem tryggja áframhaldandi og aukin áhrif flokksins á gang íslenzkra þjóðmála. — Góða nótt.