11.04.1967
Sameinað þing: 33. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hv. þm. Geir Gunnarsson kvað ríkisstj.flokkana vilja beina þeim atkv., er þeir kynnu að missa í alþingiskosningunum, til Framsóknar, vegna þess að Framsfl. gæti engan þm. unnið í næstu kosningum. Þetta eru tíðindi fyrir mig, og ég spyr ykkur, hv. hlustendur, hafið þið orðið sérstakra elskulegheita varir í garð Framsóknar úr herbúðum stjórnarflokkanna undanfarið? Með ummælum sínum kemur hv. þm. upp um þann ótta, sem inni fyrir býr, um að Framsfl. kunni að vinna viðbótarþingsæti í næstu alþingiskosningum. Síðustu sveitarstjórnarkosningar benda til þess, að svo geti orðið og þetta þarf alls ekki að gerast á kostnað Alþb., heldur á kostnað stjórnarflokkanna.

Eldhúsdagsumr. þessar fara fram tveimur mánuðum fyrir kosningar til Alþ. Því er eðlilegt, að sú stjórnarstefna, sem ráðið hefur í landinu rúm 7 ár, sé hér sótt og varin og mun ég leitast við að gera það, eftir því sem tími minn leyfir. Við dóm um árangur viðreisnarstjórnarinnar er rétt strax í upphafi að gera sér grein fyrir, hverju stjórnin stefnir aðallega að og hvernig til hefur tekizt í stærstu málum þjóðarinnar. Aukaatriði skipta minna máli. Um það er ekki deilt, að aðalstefnumál viðreisnarstj. var að koma atvinnulífi landsmanna á heilbrigðan grundvöll án uppbóta eða styrkja. Þetta átti að tryggja með því að stöðva verðbólguna og hækkandi framleiðslukostnað innanlands. Um þetta sagði Ólafur Thors, fyrrv. forsrh., í áramótaræðu í árslok 1962 m. a. þetta orðrétt:

„En takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum“.

Til þessara sannmæla hins þaulreynda, látna stjórnmálaforingja er vitnað til þess að undirstrika, hvað hann taldi þýðingarmest, og ég tel því ekki ósanngjarnt að byggja aðallega dóm minn um viðreisnarstj. á þessu atriði, þó að að öðru verði einnig vikið. Síðan ummæli þessi voru sögð í árslok 1962, hefur vísitala neyzluvöruverðs hækkað úr 123 stigum í 195 stig til ársloka 1966. Mun verðbólguvöxtur þessi vera einsdæmi í allri Íslandssögunni. Þessa staðreynd má ekki einasta rekja til getuleysis viðreisnarstjórnarinnar til þess að kljást við þetta vandamál, heldur einnig til þeirrar einkennilegu tregðu Bjarna Benediktssonar, hæstv. forsrh., að viðurkenna í tíma hættur verðbólgunnar fyrir efnahagslíf þjóðarinnar. Þannig hefur hann ítrekað bæði í orði og riti fjallað um þá kosti, sem verðbólgu séu samfara og yfirleitt fundið skýringar á verðbólguvextinum í flestu öðru en sjálfri stjórnarstefnunni. Stjórnarliðar segja nú í þessum umr., að margt hafi tekizt vel hjá stjórninni á undanförnum árum og lesa upp langa afrekaskrá því til sönnunar. Margt af því, sem þeir segja, er vafalítið rétt út frá vissum sjónarhól skoðað. En er ekki líka rétt sú staðhæfing mín, að vegna þess, hversu hrapallega ríkisstj. hefur tekizt í glímunni við verðbólguna, megi líka fullyrða, að í öllum atriðum hafi henni mistekizt.

Jafnvægi í efnahagsmálum er af öllum ábyrgum hagfræðingum talið grundvallarforsenda heilbrigðrar efnahagsstarfsemi, prófsteinninn á hæfni hverrar ríkisstj. til þess að veita málefnum landanna forystu. Á því prófi hefur viðreisnarstjórnin kolfallið. Afleiðingar þess blasa nú hvarvetna við augum. Í vaxandi erfiðleikum og stöðvun margra atvinnugreina, lánasvelti og vaxandi öryggisleysi í afkomu launafólks og er þá fátt eitt talið. Hvernig hefur þetta mátt gerast á tímum mesta góðæris, sem yfir þjóðina hefur komið? Ég álít, að sjálf stjórnarstefnan eigi hér mesta sök. Ríkisstj. hóf valdaferil sinn með því að stórfella gengið tvívegis á rúmu ári og hækkaði um leið alla vexti í landinu. Jafnframt þessu var í nafni frelsisins svo til allur innflutningur og verðlagning gefin frjáls. Allt skyldi frjálst nema vinnulaun þeirra, sem semja verða um þau. Við framkvæmd þessarar frjálshyggju naut Bjarni Benediktsson dyggilegs stuðnings Gylfa Þ. Gíslasonar, hæstv. viðskmrh. og varalorm. Alþfl., en sá flokkur telur sig enn þá aðhyllast sósíalisma. Örlög Gylfa Þ. Gíslasonar, hæstv. ráðh., í stjórnmálum síðasta áratugs eru ærið torskilin og vandfundinn samfelldur þráður í stjórnmálaathöfnum hans. Þannig minnist ég þess, að á fyrstu árum viðreisnar hélt hann mikla ræðu, þar sem hann taldi til merkari afreka hjá viðreisnarstjórninni að gefa innflutning og viðskipti frjáls. Líkti hann þessu við þýzka efnahagsundrið og mátti skilja, að hann ætlaðist til þess að vera talinn íslenzkur dr. Erhardt. Svo þegar verðstöðvunarlögin voru til umr. í okt. s.l., brá svo við, að hann lýsti yfir heils hugar stuðningi sínum og síns flokks við þau, enda þótt augljóst væri, að þau gengju þvert á frjálshyggjuboðskap þann, er hann áður átti tæpast nógu sterk orð til að prísa. Áhrif gengislækkananna, vaxtahækkananna, stóraukinna skattaálaga ríkisins ásamt frjálsræðinu í verðlagningu sögðu fljótt til sín, því að verðlag hækkaði óðar í stökkum. Launastéttirnar fundu fljótlega, að þær gátu ekki lifað af kaupi sínu, og um mitt árið 1961 hófust launadeilur. Framhaldið þekkja allir, svo að óþarfi er að lýsa því. Ætla mætti, að reynsla undangenginna ára hefði fyrir löngu átt að sanna frjálshyggjupostulunum, hversu fjarri er, að hin svo kallaða frjálsa samkeppni tryggi hér á landi lægsta verðlag og að allir njóti sannvirðis vinnu sinnar. Kenningar Adams Smith og annarra klassíkera um kosti frjálsrar samkeppni eru settar fram við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú eru fyrir hendi. Í nútímaþjóðfélagi verður ríkisvaldið sjálft með lagasetningu og ströngu eftirliti að reyna að tryggja, að kostir frjálsrar samkeppni fái notið sín og gengur það þó oft erfiðlega. Engin lög og ekkert eftirlit er til hér á landi í þessum efnum, enda reynslan eftir því. Ég þykist vita, að hv. sjálfstæðismenn grípi tækifærið og reyni í tilefni þessara orða að stimpla mig sérstakan haftapostula. Því vil ég svara með því að minna á, að hægt er að hafa stjórn á efnahagslífinu án beinna hafta. Það er vel þekkt fyrirbæri annars staðar frá. Jafnframt vil ég minna á, að einkaframtakið og félagsframtakið býr nú við meiri höft en oftast áður vegna lánsfjárskorts og gífurlegra skattaálaga. Þær miklu verðhækkanir, sem hér hafa orðið á öllum sviðum, hafa óhjákvæmilega leitt til mikilla kauphækkana, án þess þó að launastéttirnar hafi gert betur en halda sínu hlutfalli í síhækkandi þjóðartekjum frá því, sem það var fyrir viðreisn. En með þessu var aftur komin í gang víxlhækkun kaupgjalds og verðlags í skyldleika við það, sem tíðkaðist á styrjaldarárunum, með hinum geigvænlegustu afleiðingum fyrir undirstöðuatvinnuvegina og þá fyrst og fremst útflutningsatvinnuvegina, eins og nú sést vel.

Fyrsta atvinnugreinin, sem galt verulegt afhroð vegna viðreisnarstefnunnar, var íslenzkur iðnaður. En í skjóli frjálshyggjunnar var erlendum iðnvarningi rutt inn í landið undir því yfirskini, að verið væri að lækka verðlag með því að stofna til samkeppni við innlendan iðnað. Hitt var minna rætt, að í leiðinni væru ómældar tollatekjur teknar í ríkissjóðinn af innflutningi þessum, en án gífurlegra tollatekna af þörfum og óþörfum innflutningi gat ríkissjóður ekki verið og viðreisnin var í strandi. En íslenzkur markaður er smár og ekki til skiptanna, þannig að íslenzku iðnfyrirtækin eru nú að leggja upp laupana hvert af öðru, ekki fyrst og fremst vegna þess að verðlag þeirra sé of hátt heldur vegna þess að velta þeirra verður of lítil og það ásamt lánsfjárskorti hindrar hagkvæmni í rekstri.

Lengi má um það deila, hvaða innlendan iðnað beri að fóstra í landinu. En hitt ætti ekki að þurfa að deila um, að þegar búið er að koma upp tilteknum iðngreinum með ærinni fyrirhöfn og fjárútlátum, þurfa sterk rök að liggja til þess að mylja þær holt og bolt niður, eins og nú virðist vera gert. Hæstv. iðnmrh., Jóhanni Hafstein, hefur æði oft orðið skrafdrjúgt um þá mola, sem hann hefur látið falla af borðum ríkisstj. til iðnaðarins. M. a. hefur hann reiknað út háa prósentaukningu í útlánum iðnlánasjóðs á valdatímabili viðreisnarstj:, en þó vantar alla lán. Sannleikurinn mun þó sá, að allir molar hæstv. iðnmrh. vega létt á vogarskálum iðnaðarins á móti þeim hnullungum, sem viðreisnin hefur lagt á hina vogarskálina. Þetta þarf ekki að skýra neitt nánar, því að iðnrekendur og iðnverkafólk þekkir bezt, hvar skórinn kreppir og frá þeim hafa birzt margar yfirlýsingar um ástandið. Við venjulegar aðstæður hefði sjávarútvegurinn verið enn harðar leikinn af völdum viðreisnarstefnunnar en iðnaðurinn, enda minnir mig, að hv. samþm. minn, Sverrir Júlíusson, hefði á sínum tíma líkt áhrifum viðreisnarstefnunnar á sjávarútveginn við lömun á mannslíkamanum. En þá komu til hjálpar óvænt og óvenjuleg höpp, kraftblökkin og asdictækin ásamt annarri tækni, sem leiddi til stóraukins afla, og þá fyrst og fremst á síldveiðum. Samtímis fór verðlag sjávarafurða hækkandi ár eftir ár.

Vegna þessa, sem hæstv. ríkisstj. hefur á barnalegan hátt viljað þakka sér ávextina af, hefur útgerðinni að mestu tekizt að þrauka, en ekki án mikils fjárhagsstuðnings frá því opinbera. Hinn mikli síldargróði gaf gullið tækifæri, sem ríkisstj. hefði átt að hafa forystu um að nýta skynsamlega, styrkja alhliðagrundvöll sjávarútvegsins og þar með afkomumöguleika þjóðarinnar. Þetta var hægt að gera með því að festa um stundarsakir toppana í síldargróðanum, til þess annars vegar að koma í veg fyrir óeðlilegt launamisræmi innan sjávarútvegsins og hins vegar tryggja alhliða nýbyggingu fiskveiðiflotans á vinnslustöðvar í samræmi við heildaráætlun. En forystuleysið og skipulagsleysið réð sem fyrr. Og nú blasa vandamálin við, hvert sem litið er. Togara- og bátaflotinn dregst saman, þar sem hann hefur engan rekstrargrundvöll og fiskvinnslustöðvarnar loka hver af annarri vegna hráefnisskorts og lélegrar afkomu. Ofan á bætist, að vegna viðskiptastefnu ríkisstj. hafa tapazt dýrmætir markaðir fyrir frysta síld í Austur-Evrópu og við það hafa mörg frystihúsanna misst mikilvægt verkefni, enda er sannast sagna hráefnisskorturinn meira vandamál margra þeirra en margumrædd verðlækkun, sem nú er kennt um alla erfiðleika.

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að minna á þá fjölmörgu smáskatta, sem lagðir hafa verið á sjávarútveginn á viðreisnartímanum og skipta tugum. En nóg virðist ekki að gert, því að í frv. til hafnalaga, sem lagt var fram í gær, er ráðgerður einn nýr skattur, hafnarbótasjóðsskattur, á skip yfir 5 smál. og veiðarfæraskatturinn illræmdi er afturgenginn í breyttu formi og hann á nú að lemja í gegn á Alþ. Af framantöldu er hag sjávarútvegsins nú þannig komið, að hann getur hvorki keppt um fjármagn eða vinnuafl við ýmsar starfsgreinar í landi. Sanngjarnt og eðlilegt væri að launa sjómenn hærra en margra landvinnumenn vegna eðlis starfsins og fjarvista frá heimilinu. En slíkt er í flestum tilfellum ekki hægt, enda fjölgar ekkert í sjómannastétt og þannig mætti áfram rekja söguna.

Með sanni má segja, að nú í lok viðreisnar sé við margan vanda að stríða, eins og í upphafi hennar. En það fer hins vegar ekki fram hjá neinum, að mikill munur er á forystumönnum nú og þá. Hermann Jónasson gerði sér fulla grein fyrir vandamálunum í árslok 1958 og æskti samstarfs sem flestra flokka um lausn þeirra. Bjarni Benediktsson hefur ítrekað farið hinum háðulegustu orðum um þessa stjórnmálalegu ábyrgðartilfinningu Hermanns. Sjálfur hefur hann talið sig þess umkominn að leysa vandann. Hann fékk tækifærið. Öll ljótu orðin um uppgjöf og fleira, sem hann viðhafði um Hermann Jónasson, hafa sannazt á honum í reynd, því að nú blasir við upplausn og hrun á mörgum sviðum atvinnulífsins, stórum ægilegra og óviðráðanlegra en í árslok 1958. Mun erfitt að finna þess dæmi, að nokkur íslenzkur stjórnmálamaður hafi hlotið jafnharðan pólitískan dóm og Bjarni Benediktsson.

Góðir hlustendur. Eftir 2 mánuði gefst ykkur tækifæri til þess að kveða upp dóm yfir viðreisnarstjórninni. Haldi hún meiri hl. sínum, mun sama óstjórnin ríkja og við þekkjum hvert og eitt okkar. Er ekki breytingar þörf? Ég vænti þess, að gæfa landsmanna dugi til þess að tryggja ótvíræðan ósigur stjórnarflokkanna í kosningunum 11. júní. — Góða nótt.