13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur um land allt. Sennilega hafa ekki margir áheyrenda minna komið inn á vinnustofu vísindamanns, sem hefur þann starfa að rækta bakteríur. Vökvinn í tilraunaglösunum hans getur sýnzt vera hreinn og tær og ómengaður, en skoðir þú hann í smásjá, getur komið í ljós, að krökkt sé af bakteríum í glasinu hans og ófagurt á að líta.

Nú, þegar líður að kosningum, er ekki nema sjálfsagt, að kjósendur taki fram tilraunaglös stjórnarinnar og bregði þeim undir smásjána, gangi þannig úr skugga um, hvað í þeim er raunverulega, leiti sannleikans. Ég tek aðeins fram eitt einasta glas. Á því stendur stóru og skýru letri: Verðstöðvun. Vökvinn sýnist hreinn og tær, gæti meira að segja verið Gvendarbrunnavatn, hreinasta vatn í heimi. En hvað er þetta? Undir smásjánni er vökvinn nánast sagt eins og þunnur grautur, allt á iði. Furðuljót kvikindi þeytast þarna fram og aftur hvert um annað þvert. Hvað hefur stjórnin verið að rækta í þessu glasi? Bakteríur verðbólgu og dýrtíðar og það með slíkum frábærum árangri. En á glasið setti hún samt áletrunina: Verðstöðvun. Ekki var það nú beinlínis vísindalegt, en svona er það nú einmitt með verðstöðvun hæstv. ríkisstj. Hún er yfirborðsfyrirbæri. Undir niðri er allt á ferð og flugi. Dýrtíð og verðbólga aldrei æðisgengnari en nú. Það er bara yfirborðsfyrirbærið vísitala, sem er stöðvuð. Henni er haldið kyrri með hundraða milljóna greiðslum úr ríkissjóði og úr ýmsum almannasjóðum. Vísitalan má ekki hækka fram yfir kosningar. Það er allt og sumt. Kosti hvað það kosta vill. Þetta er verðstöðvun hæstv. ríkisstj., en skuldadagarnir koma bara, góðir kjósendur, eftir kjördaginn.

Aðeins eitt dæmi til skýringar. Tryggingastofnun ríkisins gengur á sjóði sína um 40–50 millj. kr. á einu ári vegna verðstöðvunarlaganna. En á næsta ári verður hún að taka þá upphæð tvöfalda af hinum tryggðu, þ.e.a.s. þér og mér. Þannig er sýndarverðstöðvun stjórnarinnar. Þetta er sannleikur málsins.

Alþb. var heils hugar með stöðvun verðbólgu og dýrtíðar. Það vissi, að raunveruleg verðstöðvun var óhugsandi nema með því að þrengja að ýmsum, gera margvíslegar þjóðfélagsráðstafanir, sem gátu komið sér illa, og það bar fram fjölda margar till. í þá átt. En þær voru allar kolfelldar. Stjórnin vildi bara sýndarstöðvun fram yfir kosningar, og svo mátti flóðið koma. Þannig var nú með þetta tilraunaglas ríkisstj., þegar undir smásjána kom, og nú heiti ég á þig, hlustandi minn. Taktu hvert tilraunaglasið hjá stjórninni á fætur öðru, settu það undir smásjá dómgreindar þinnar, leitaðu sannleikans og myndaðu þér svo heilbrigðar þjóðmálaskoðanir; hvað sem moldviðri fjársterkra málgagna líður.

Ræðumenn Alþb. í fyrrakvöld, þeir Lúðvík Jósefsson, Geir Gunnarsson og Björn Jónsson, sýndu hlustendum með sterkum rökum, sem ekki hefur verið hnekkt, hvernig komið er í atvinnumálum þjóðarinnar, efnahagsmálum hennar, húsnæðismálum og á fleiri sviðum þjóðlífsins eftir nær 9 ára samstjórn íhaldsins og Alþfl., þrátt fyrir hið mesta uppgripagóðæri, sem yfir land og þjóð hefur nokkru sinni komið. Inn á þau svið sé ég því ekki ástæðu til þess að fara, enda er sá eldurinn heitastur, sem á sjálfum brennur, þ.e.a.s. reyndin er öllum orðum áhrifameiri. Ekki batnar heldur hlutur stjórnarinnar, ef smásjá dómgreindarinnar er beint að ástandi heilbrigðismálanna, skólamálanna eða dóms- og réttarfarsmálanna. Létu sérfræðingar í heilbrigðismálum nýlega til sín heyra hér í höfuðborginni um þann málaflokk og var þá sem hulu væri svipt frá margra augum. Við blasti ömurleg mynd ráðleysis, aðgerðaleysis og óstjórnar, eins og á flestum öðrum sviðum. Skal ég þó hlífa hlustendum við að endurvekja óhugnað þeirrar myndar. Líka skal ég að þessu sinni sleppa skömmum og skætingi í garð stjórnarinnar, nóg er nú samt, sem hún verður að heyra og þola um þessar mundir.

Alþb. er ungur flokkur. Ég tel því rétt að verja meginhluta máls míns til þess að gera hlustendum ljóst, hvað Alþb. vill á þeim alvörutímum, sem í hönd fara, ef kjósendur gefa því aðstöðu til úrslitaúrræða með dómsúrskurði sínum á kjördaginn. Auðvitað kemur þá fyrst í hugann uppbygging atvinnulífsins og hvernig Alþb. vilji standa að því höfuðmáli. Það er þá fyrst, að byggja verður upp ítarlega framkvæmda- og framfaraáætlun í nánu samstarfi við fulltrúa atvinnuveganna, héraðanna og hins vinnandi fólks. Styrkja verður þróun atvinnulífsins í þeim byggðarlögum, þar sem samdráttur eða stöðnun hefur orðið. Þannig skal vinna að þjóðhollu byggðajafnvægi. Reynslan sýnir, að séu gróðasjónarmiðin ein og skipulagsleysið látin ráða staðsetningu atvinnutækja, vilja þau hrúgast saman á mesta þéttbýlissvæðið og raska þannig þjóðfélagsjafnvægi.

Landhelgismálið er grundvallarmál, hvort sem á það er litið sem atvinnumál eða sem sjálfstæðismál, en það er hvort tveggja. Um það vil ég fyrst segja þetta. Alþb. telur, að samningar núv. ríkisstj. við Breta, þar sem ákveðið er, að Íslendingar séu háðir samþykki erlends dómstóls um stækkun landhelginnar, séu nauðungarsamningar og þannig ekki bindandi fyrir íslenzku þjóðina. Beri því að vinna að því, að þeir verði formlega niður felldir hið fyrsta. Landgrunnið allt verði friðað fyrir rányrkju og friðunarráðstafanir allar byggðar á fiskifræðilegum rökum og efnahagslegum þörfum íslenzku þjóðarinnar.

Sjávarútvegur og fiskiðnaður verða enn um langa framtíð undirstaða atvinnulífsins. Festa verður strax kaup á 5 nýtízku skuttogurum eftir till. sérfróðra manna. Aflinn sé heilfrystur á skipsfjöl, en síðan fullunninn í vinnslustöðvum í landi. Áframhaldandi uppbyggingu nýs togaraflota ber síðan að dreifa á nokkurt árabil. Smíði fiskiskipa að öðru leyti ber að færa inn í landið og gera smíði fiskibáta að fastri framleiðslugrein í nokkrum kaupstöðum og kauptúnum. Takmarkið er og hlýtur að vera það, að Íslendingar smíði öll sín fiskiskip sjálfir. Tryggja verður það, að fiskiskipastóll og fiskverkunarstöðvar séu fullnægjandi fyrir íbúana á hverjum stað. Því má blind tilviljun alls ekki ráða. Auðvelda ber rekstur útgerðarinnar með lækkun vaxta og útgerðarnauðsynjar eins og olíur, salt og veiðarfæri á að útvega útgerðinni á réttu verði. Okur í því efni er vitleysa. Vátryggingarkerfið verður einnig að endurskipuleggja útgerðinni til hags og styrktar. Þá ber einnig að lækka útflutningsgjöld sjávarafurða. Það eru hrein öfugmæli að tala um styrki til útgerðarinnar og það öfugmæli verður að hverfa. Þaðan koma nálega allar gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar. Sameinum svo reynslu og vísindi um uppbyggingu fiskiðnaðarins. Með því margföldum við verðmæti sjávarafurðanna. Nýtum enn um skeið saltsíldar- og saltfiskmarkaði eins og tök eru frekast á. Þá er hraðfrysting fiskafurða hvergi nærri fullnýtt enn þá. Niðursuðuiðnaðurinn í margs konar myndum á þó framtíðina. Komum upp lýsisherzluverksmiðju. Fullkomin fiskiðjuverksmiðja, sem framleiði tilbúna fiskrétti, hygg ég einnig, að eigi rétt á sér hér á landi. Komið verði á fót tæknistofnun sjávarútvegsins og leggja ber þunga áherzlu á hafrannsóknir og fiskileit. Loks verður hið opinbera að stjórna víðtækri og skipulegri markaðsleit fyrir íslenzkar framleiðsluvörur og leita þar engu síður til Afríku- og Asíulanda en til okkar fyrri viðskiptaþjóða.

Iðnaðurinn var orðinn annar aðalatvinnuvegur íslenzku þjóðarinnar, en nú er mjög að honum þrengt og liggur við hruni hans. Það verður að kanna vandlega, hvaða iðngreinar hafi mesta þjóðhagslega þýðingu. Sýna ber hráefnum nauðsynjaiðnaðarins tollahlífð, sem um munar. Það er óviturlegt að spilla innanlandsmarkaði með óþörfum innflutningi iðnaðarvara, svo sem niðursoðnum síldarvörum og kökubotnum. Iðnfræðslan verður að svara nútímakröfum og tæknimenntun verður að efla í landi okkar. Vegna smæðar þjóðfélagsins verður öll stóriðja á Íslandi að vera ríkiseign. Þar höfum við góða reynslu af Síldarverksmiðjum ríkisins og Sementsverksmiðjunni og Áburðarverksmiðjan á einnig að verða ótvíræð ríkiseign. Alþb. telur rétt að skipa stóriðjunefnd, sem með aðstoð hæfustu sérfræðinga geri t.d. 10 ára áætlun um þróun stóriðju á Íslandi, um beztu hagnýtingu auðlinda þjóðarinnar, svo sem vatnsorku, raforku og jarðhita og um það, hvaða íslenzk hráefni og erlend geti orðið gagnlegust íslenzkri stóriðju. Ef svona væri að iðnaðarmálunum staðið, mundi iðnaðurinn í senn geta tryggt ómetanlegt jafnvægi og öryggi í íslenzku atvinnulífi.

Um landbúnaðinn vil ég segja þetta. Bændum ber óskoraður samningsréttur gagnvart ríkisvaldinu um verðlagsmál landbúnaðarins, um önnur hagsmunamál stéttarinnar og margvíslegar nauðsynlegar ráðstafanir, sem jafnan hljóta að fylgja þessum málum. Gera ber áætlun til nokkurra ára um þróun landbúnaðarins. Það sé meginstefna í framleiðslumálum landbúnaðar, að hann sé jafnan fær um að fullnægja þörfum vaxandi þjóðar um landbúnaðarvörur. Þeir menn eru óheilir landbúnaði, sem halda því fram, að útflutningsuppbætur gefi bændum til lengdar tekjuöryggi; sem þeir geti treyst. Þar kemur fyrr en varir að óyfirstíganlegum takmörkum. Og versnaði í ári, gæti hæglega svo farið, að ríkið yrði að fella slík útgjöld niður með öllu, og það gæti verið hart áfall og þungt fyrir landbúnaðinn. Lengja ber lánstíma og lækka aftur vexti landbúnaðarlána, styrkir eiga helzt að hverfa, þeir eru svo lágir og litlir, að engu munar. Auk þess eru þeir niðurlægjandi fyrir stéttina. Efla ber mjólkurframleiðslu, þar sem ræktunar- og markaðsskilyrði eru bezt, en sauðfjárræktina, þar sem bezt eru beitilöndin. Efla ber fiskirækt í ám og vötnum, ekki bara sem sport, heldur sem arðvænlega framleiðslugrein í landbúnaði.

Ullariðnaður á Íslandi býr yfir miklum möguleikum. Ef engin ull væri flutt óunnin úr landi, mundi verðmæti ullarframleiðslunnar margfaldast. Á sama hátt má vinna dýrmætar iðnaðarvörur til útflutnings úr íslenzkum skinnum, og verður að teljast sjálfsagt, að bæði ullar- og skinnaiðnaðurinn verði í miðstöðvum sveitanna. Þá er það stefnumál Alþb., að því fólki, sem við landbúnað starfar, tryggi þjóðfélagið lífvænleg kjör, sem séu í fullu samræmi við kjör starfandi fólks í öðrum atvinnugreinum.

Að lokum þetta um landbúnaðinn: Alþb. telur, að vísindalegar rannsóknir í þágu landbúnaðarins verði að stórauka og þó einkum sé það nauðsynlegt, að ráðstafanir séu gerðar til þess, að niðurstöður rannsóknanna og árangur geti sem allra fyrst komið landbúnaðinum að almennum notum. Þetta verð ég að láta nægja um stefnu Alþb. í atvinnumálum, en verð að sleppa mörgu úr stefnu þess varðandi önnur minni háttar málefni.

Öngþveiti því, sem röng stefna ríkisstj. í efnahagsmálum hefur valdið og skilur nú eftir sig, hefur verið lýst af mörgum í þessum umr. Þar vil ég engu við bæta. En ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, að Alþb. vill miða stefnu sína og allar aðgerðir í efnahagsmálum við það, að allar helztu framleiðslugreinar atvinnulífsins búi við öruggan rekstrargrundvöll, svo að hægt sé að fullnýta framleiðslutæki þjóðarinnar og vinnuafl hennar. Sé á þessum grunni byggt, munu mörg önnur vandkvæði efnahagsmála leysast eins og af sjálfu sér. Og eitt legg ég alveg sérstaka áherzlu á. Það verður að sameina öll ábyrg þjóðfélagsöfl um það verkefni, að verðlagsþróunin hér á landi verði ekki hraðari en í helztu viðskiptalöndum okkar. Sem einstakar aðgerðir í efnahagsmálum leggjum við Alþb.-menn ríka áherzlu á þetta: 1. Að vextir verði lækkaðir. 2. Að söluskatti verði létt af brýnustu lífsnauðsynjum. 3. Að álagning verði lækkuð, þar sem rannsókn sýnir, að hún sé umfram nauðsyn. 4. Að dregið verði úr verzlunarkostnaði, sem stafar af skipulagsleysi, svo sem sóun vinnuafls. 5. Að íbúðarhúsnæði verði lækkað með félagslegri byggingarstarfsemi og ráðstöfunum af hendi ríkisvaldsins. 6. Löggjafarráðstafanir verði gerðar til þess að ákvarða hóflega húsaleigu. 7. Verðlagseftirlit verði skerpt, m. a. með nánu samstarfi við almannasamtök. Þá telur Alþb., að ríkisvaldið verði að hafa örugga yfirstjórn á utanríkisviðskiptum þjóðarinnar, einkum með það fyrir augum, að sala á útflutningsvörum og innkaup á vörum til landsins séu í samræmi við hagsmuni þjóðarheildarinnar, en ekki ákvarðaðar af sérhagsmunum einstaklinga.

Nú sé ég, að ég verð tímans vegna að stikla á stóru. Þó vil ég enn nefna nokkra, einstaka drætti í stefnu Alþb. og minni hér á þetta. Til varðveizlu þjóðernis og þjóðmenningar verður í fyrsta lagi að tryggja, að allar menningarmiðstöðvar í landinu séu undir íslenzkri stjórn. Í öðru lagi verður þjóðin sjálf að hafa full og óskoruð umráð yfir atvinnulífi landsins, auðlindum þess og efnahagskerfi. Alþb. lýsir yfir andstöðu sinni við þá stefnu að hleypa erlendum auðhringum til úrslitaáhrifa í íslenzkt atvinnulíf. Það er stefna Alþb., að atvinnutæki og náttúruauðæfi öll á Íslandi eigi landsmenn einir að eiga, Alþb. vill engar herstöðvar þola á íslenzkri grund á friðartímum. Það telur, að Ísland eigi að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu, strax og samningstímabilinu lýkur eða árið 1963.

Ísland á að stuðla að því, að öll hernaðarbandalög verði leyst upp og í krafti vopnleysis síns og hlutleysis á það afdráttarlaust að fordæma beitingu vopnavalds í samskiptum ríkja, hvar sem er í heiminum og hver sem í hlut á. Alþb. vill, að Ísland taki virkan þátt í störfum Sameinuðu þjóðanna og einnig vill það efla praktíska norræna samvinnu, sérstaklega á sviði menningarmála og félagsmála og viðskiptamála. Alþb. telur nauðsynlegt, að tekin verði upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum samkv. fyrirfram gerðum áætlunum. Nauðsynlegt er að skipuleggja fjárfestingu landsmanna með alþjóðarhag fyrir augum í stað þess að láta blind peningalögmál og gróðasjónarmið ráða þar stefnunni. Ríkið sjálft á að annast mikilvægar greinar innflutningsverzlunarinnar, svo sem t.d. olíuverzlunina. Alþb. vill leita félagslegra úrlausna á margvíslegum vandamálum nútímaþjóðfélags. Það vill, að komið verði á fót lífeyrissjóði og ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Vilji Ísland með réttu heita menningarþjóðfélag, ber sérstaklega að tryggja framfærslurétt og öryggi barna og öryrkja, einstæðra mæðra, ekkna og aldraðs fólks.

Útiloka ber með löggjöf, að húsnæðisneyð fólks sé gerð að gróðalind húsaleiguokrara og fasteignabraskara. Það er þjóðfélagslega mikilvægt fyrir okkar fámennu þjóð, að stórátak sé gert til þess að bæta aðstöðu kvenna til þátttöku í atvinnulífinu, t.d. með byggingu nægilegra dagheimila, leikskóla og vistheimila fyrir börn. Alþb. hóf fyrir löngu baráttuna fyrir launajafnrétti kvenna og karla og vill halda áfram baráttunni fyrir algerri jafnréttisaðstöðu kynjanna. Með námslaunakerfi verður að tryggja æskufólki fullt jafnrétti til náms og mennta án tillits til efnahags. Alþb. telur, að jafna verði fjárhagslega aðstöðu þegnanna án tillits til stéttargreiningar með látlausri baráttu fyrir réttlátri skiptingu þjóðartekna. Í þeirri jafnréttisbaráttu vill Alþb. standa við hlið verkalýðssamtakanna og annarra launþegasamtaka og veita þeim allt það brautargengi, sem það megnar. Nú verð ég að hætta hér að lýsa stefnu Alþb., en ég skýri frá því, að Eðvarð Sigurðsson mun ræða verkalýðsmálin sérstaklega í þessum umr.

Í kosningum velja kjósendurnir um leiðir. Þetta er í megindráttum leið Alþb. Leið stjórnarstefnunnar er blindgata að mínu áliti. Það er hin hæga leið, sem hallar undan fæti, eins og skýrt hefur komið fram í þessum umr. Og eins og vænta mátti dugði Framsókn ekki ein leið fremur en fyrri daginn. Hún býður nú upp á þrjár leiðir, „hina leiðina“, nýju leiðina og nú seinast jákvæðu leiðina. Nafngiftin virðist benda til þess, að rétt hafi þótt að láta hana heita vel eins og Eiríkur rauði orðaði það, þegar hann gaf Grænlandi nafn, og eins og hann bætti við „svo að fleiri skyldi fýsa þangað“. En annar Íslendingur löngu síðar sagði um þetta land:

„Landið hátt við lýðapróf

litur grænn ei skrýðir.

Það er grátt af geitnaskóf,

gamburmosa og víðir.“

Já, skyldi jákvæða leiðin e. t. v. eiga eitthvað skylt við gambur þeirra framsóknarmanna við kjósendur núna fyrir kosningarnar? Og sennilegast þykir mér nú, að heitið á leiðinni þeirra, framsóknarmanna, sé sízt meira réttnefni en nafnið Grænland á landi geitnaskófar og gamburmosa.

Ég fagna þeirri ágætu samstöðu, sem ríkt hefur í röðum Alþb.-manna úti um allt land. Þeir gengu rösklega og snemma frá öllum framboðsmálum sínum. Var það ólíkt eða hjá hinum flokkunum, sem sums staðar áttu í hinum mestu hörmungum með að lemja lista sína saman og eru raunar ekki enn komnir frá þeim mannraunum. Ég var farinn að vona, að við kæmumst kannske einir flokka klakklaust yfir kosningaundirbúninginn. En því miður fóru framboðsmál Alþb. ekki eins vel úr hendi hjá þeim, sem úrslitum réðu í Reykjavík. Það verð ég mjög að harma. Að því framboði var ekki staðið af þeim sama einhug og einingarvilja og út um landið og hvað af því kann að hljótast, get ég ekki sagt á þessari stundu. Ég og margir aðrir í verkalýðshreyfingunni höfum barizt fyrir stjórnmálalegri einingarstefnu verkalýðshreyfingarinnar og þeirri baráttu verður hiklaust áfram haldið, þótt hún verði fyrir áfalli á einum fundi í einu kjördæmi landsins. Sú stefna fer nú sigurför um Vestur-Evrópu og alveg sérstaklega um Norðurlönd. Hún verður borin fram af fólkinu sjálfu á Íslandi. Ef ég þegði og mínir samherjar, mundu steinarnir tala. Og vissulega geta kosningarnar nú orðið mikilsverður áfangi á þeirri braut.

Herra forseti. Að lokum þetta: Ég heiti á ykkur, Alþb.-fólk úti um allt land, að standa vel saman, að starfa og berjast fyrir góðum málstað Alþb. Það getur mikið oltið á styrkleika þess, hvernig samansöfnuð og óleyst vandamál viðreisnarstjórnarinnar leysast að kosningunum loknum. Gerum Alþb. að úrslitaaðila í því örlagaríka uppgjöri. — Góða nótt.