13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

Almennar stjórnmálaumræður

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti, góðir Íslendingar. Að tveim mánuðum liðnum munum við Íslendingar ganga að kjörborðinu. Á Alþ. og í málgögnum stjórnmálaflokkanna má sjá þess mörg dæmi, að kosningar nálgast. Því er nauðsynlegt fyrir kjósendur að rifja upp hleypidómalaust, hvaða áhrif stjórnmálastefna Framsóknar hafði á sínum tíma á afkomu almennings og hag hvers einstaklings í landinu, nú þegar Sjálfstfl. hefur verið leiðandi aflið um stjórn landsins um 8 ára skeið. Ég vil vekja menn til umhugsunar um þessi atriði um leið og ég bendi á, að Framsfl. er sá flokkur, sem lengst hefur viljað ganga í stjórnarathöfnum og afskiptum í atvinnumálum, húsnæðismálum, verzlunar- og viðskiptamálum, að ógleymdu skömmtunarkerfinu, er náði til alls gjaldeyris og allra lífsnauðsynja. Svo ekki sé minnzt á, þegar Framsókn ætlaði á vinstri stjórnar árunum að víkja til hliðar nær helmingi þjóðarinnar, öllum sjálfstæðismönnum, og gera þá áhrifalausa. Það var þá talið forsenda þess, að hægt væri að stjórna þessu landi. En hvernig fór? Eftir 2½ árs forystu hljóp hún frá vandanum í annað sinn, í des. 1958, en í fyrra skiptið var það, eins og kunnugt er, árið 1938, þegar fyrra vinstri stjórnar tímabilinu lauk. Þá var leitað til sjálfstæðismanna og þjóðstjórnin mynduð. En hver var aðkoman, þegar sjálfstæðismenn tóku við 1959? Allir gjaldeyrissjóðir tómir, miklar skuldir í erlendum gjaldeyri og lánstraust landsins alveg þrotið. Það var því ærið verkefni fyrir viðreisnarstjórnina að rétta við lánstraust þjóðarinnar og mynda gjaldeyrissjóði. Öllum mun vera ljós nauðsyn trausts efnahags hverju sjálfstæðu ríki, er lifa vill menningarlífi við vaxandi velmegun, okkur Íslendingum eigi síður en öðrum þjóðum, vegna þeirrar miklu uppbyggingar, sem þjóðinni er lífsnauðsyn vegna þeirrar kyrrstöðu, er ríkti um aldaraðir. Viðreisnarstjórninni hefur tekizt að rétta við lánstraust og álit þjóðarinnar það vel, að nú standa alþjóðalánastofnanir henni opnar. Einmitt þess vegna hefur reynzt kleift að ráðast í stærstu mannvirkjagerð, sem er lykill að stóriðju á Íslandi, er rennir fleiri stoðum undir atvinnulíf og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Það er ekki ætlun mín að segja, að ekkert megi finna að stjórnarfari síðustu 7–8 ára. Nei, alltaf er hægt að finna eitthvað, sem betur má fara. En höfuðverkefnin, er viðreisnarstjórnin tók að sér, hefur tekizt að leysa. Í því sambandi endurtek ég myndun gjaldeyrissjóðs, endurheimt lánstraust þjóðarinnar, aukna sparifjármyndun og að aldrei hefur verið flutt inn jafnmikið af stórvirkum atvinnutækjum til lands og sjávar, að ógleymdum loftflota landsmanna. Hafizt hefur verið handa um stærstu virkjun landsins, Búrfellsvirkjun, er gerir kleift að hefja stóriðju á Íslandi. Á það má minna, að stjórnarandstaðan var á móti þessum framkvæmdum, þ.e.a.s. álverksmiðjunni. Aðeins tveir framsóknarmenn sátu hjá við afgreiðslu þessa máls. Myndun gjaldeyrisvarasjóðs er forsenda frjálsra viðskipta við aðrar þjóðir og má benda á, að þrátt fyrir hinn mikla innflutning, er átt hefur sér stað síðustu árin, og frjálsræði um sölu erlends gjaldeyris, var gjaldeyrissjóður landsmanna um síðustu áramót nær 2 milljarðar kr.

Um það er vart ágreiningur, að forsenda fyrir mannsæmandi menningarlífi í landinu er sú, að þannig sé búið að atvinnuvegunum af hálfu hins pólitíska valds, að þeir geti staðið undir sér með eðlilegum hætti og eigi hvað sízt sé búið vel að þeim atvinnuvegum, er standa að verulegu leyti undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Enginn atvinnuvegur í landinu er jafn áhættusamur og sá þáttur sjávarútvegsins, er að hráefnaöflun lýtur. Hann er jafnframt sá þáttur, sem þjóðin nú sízt án vera. Að mínu áliti eru það nokkrir samverkandi þættir, sem verða að vera til staðar, svo þjóðin njóti ávaxta af þeim auði, er fiskimið okkar bjóða upp á: Nægilegur fjöldi dugandi sjómanna, er sækir gull í greipar Ægis á hverjum tíma. Athafnamenn, er bæði hafa vilja og þor til að hætta, fjármunum sínum í þennan áhættusama atvinnurekstur, sem fiskveiðar eru. Nægilegt fjármagn til byggingar fiskiskipa sé fyrir hendi á hverjum tíma. Til séu verksmiðjur og verkunarstöðvar til úrvinnslu aflans. Fyrir hendi sé þekking á markaðsmálum og sölusamtök fyrir ísl. sjávarafurðir. Í sjötta lagi, ekki hvað sízt þarf að ríkja skilningur hjá þeim stjórnmálamönnum, er með völdin fara hverju sinni. Eðlileg aukning og uppbygging þessa atvinnuvegar er ekki aðeins lífsnauðsyn fyrir þá, sem næst honum standa, heldur einnig vegna þjóðarheildarinnar. Þá getur verið rík nauðsyn, að ríkisvaldið komi til aðstoðar, þegar sérstaklega stendur á.

Ósanngjarnt væri að segja annað en að vaxandi skilnings hafi gætt hjá öllum stjórnmálaflokkum á síðustu árum. Einn er sá flokkur þó, þ.e.a.s. Framsókn, er fram eftir árum hafði hvað minnstan skilning á þessum málum og beinlínis vann á móti eðlilegri þróun þeirra, þegar sá flokkur var í stjórnaraðstöðu. Og staðreynd er, að Framsókn hefur verið utan dyra á mestu uppbyggingartímum sjávarútvegsins, sem var á nýsköpunarárunum og viðreisnartímabilinu s.l. 8 ár.

Ég vil nú taka nokkur dæmi. máli mínu til sönnunar. Í árslok 1938, þegar Framsókn leitaði á náðir Sjálfstfl. og þjóðstjórnin var mynduð, var vélbátafloti landsmanna samtals 496 bátar eða tæpar 13 þús. smál. Af þessum fjölda voru 218 fleytur undir 12 lestum, 400 undir 30 lestum. Á þessum tíma var bannaður innflutningur fiskibáta og einn mektar útvegs- og athafnamaður var sektaður fyrir að gera tilraun til vöruskipta á síld til Svíþjóðar og fiskibáti til Íslands. Það er ekki fyrr en að verka nýsköpunarstjórnarinnar fór að gæta, að aukning varð á vélbátaflotanum á árunum 1947–1949. Bátarnir stækkuðu og þeim fjölgaði. Á þessum árum nær tvöfaldaðist rúmlestafjöldi þeirra, komst upp í tæpar 26 þús. rúmlestir og nær helmingur þeirra yfir 30 rúmlestir.

Í árslok 1958 fór vinstri stjórnin frá völdum. Þá var bátafjöldinn 649, samtals röskar 28 þús. rúml. Það er athyglisvert, að þegar 1. kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar lauk, var bátafloti landsmanna 787 skip, tæpl. 42 þús. rúml., og nú um s.l. áramót, þegar ½ ár er eftir af öðru kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar, er fjöldinn 761 bátur, að rúmlestatölu tæpl. 55 þús. lestir.

Við þetta má bæta, að í smíðum voru um s.l. áramót 34 bátar, samtals 10 800 rúmlestir. Mér virðist, að þessar tilvitnanir sýni, að þegar Sjálfstfl. hefur stjórnarforystu, þá leyfir hann einstaklingunum að njóta sín. Hann vill laða fram dug og dáð og leyfir þeim innan hæfilegra marka að njóta ávaxta af hugkvæmni sinni og dugnaði, til velferðar sér og sínum. Enginn getur náð langt í þessum efnum, nema samborgararnir og þjóðfélagsheildin njóti þar einnig góðs af. Þetta sýnir, að fjármagnið hefur leitað í stærri bátana, þ.e.a.s. síldarbátana, en sjómenn hafa leitað þangað, sem meiri hagnaðarvon er. Þess vegna hefur mjög lítið verið byggt af bátum, sem fyrst og fremst eru ætlaðir til bolfiskveiða. Þetta er áhyggjuefni vegna hráefnisöflunar fyrir fiskvinnslustöðvarnar víðs vegar um landið og verð ég að láta nægja að benda á þáltill., er við þrír þm. stjórnarflokkanna höfum flutt, um athugun á sérstökum ráðstöfunum til endurnýjunar smærri vélbátanna og bættum rekstrargrundvelli fyrir þá.

Við skulum eigi álíta, að ekki hafi orðið erfiðleikar á vegi þjóðarinnar, sem stjórninni hefur ekki tekizt að hafa í fullu tré við. Verðbólgan hefur verið það verkefni, sem þessari stjórn hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum á, frekar en öðrum ríkisstj., er með völdin hafa farið allt frá stríðslokum. Það eru svo mörg samverkandi öfl, sem við er að glíma, en sérstaklega veldur þetta útflutningsatvinnuvegunum miklum erfiðleikum. Þegar þar við bætist, að mikið verðfall hefur orðið á ýmsum aðalútflutningsvörum okkar, svo sem síldarmjöli, síldarlýsi og hraðfrystum fiski, þá er vandinn þeim mun meiri.

Alþ. samþ. á s.l. hausti verðstöðvunarlög, er gilda skulu til 31. okt. n. k. Svo bezt ná lög þessi tilgangi sínum, að kaupgjaldið hækki ekki umfram það, sem atvinnuvegirnir geta borið. Þá hefur hæstv. ríkisstj. samið við útflutningsatvinnuvegina um nokkrar uppbætur og verðtryggingu á útflutningsafurðum hraðfrystiiðnaðarins og eru tekjur til þessara ráðstafana fengnar án nýrrar skattlagningar.

Minnisstæð frá umr. um frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins verða mér ummæli hv. stjórnarandstöðuþm. og þá sérstaklega hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar, en þar lék hann svo tveim skjöldum, að jafnvel er einsdæmi, þegar hann gaf í skyn, að 260 millj. kr., sem er millifærsla frá útgerðinni sjálfri, vátryggingariðgjöld og greiðslur í aflatryggingarsjóð, væru uppbætur úr ríkissjóði. Þeir eru margir, er telja, að of langt sé gengið til stuðnings hraðfrystiiðnaðinum, og átti þessi kafli í ræðu Lúðvíks að ná eyrum þeirra manna. Hins vegar var sá kafli, er ætlaður var frystihúseigendum. Um þeirra óánægju vissi hann, en þeir telja, að of skammt sé gengið til móts við þeirra þarfir vegna þess verðfalls, sem þegar er skollið yfir og horfur eru á, að verði á frystum afurðum. En í sambandi við lögin um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins vil ég benda framleiðendum á hugmyndina um verðtryggingarsjóði, sem þar kom fram, og er að mínu viti mjög athyglisverð. Við framleiðendur eigum að veita þeirri hugmynd verðskuldaða athygli, — svo við verðum betur undir það búnir að taka verðsveiflum, sem alltaf geta orðið á afurðum sjávarútvegsins. Það eru ýmis vandamál, er bíða úrlausnar, eins og alltaf verður, bæði varðandi útgerð báta og togara sem og vinnslustöðva í landi.

Því miður leyfir tími minn ekki að fara langt út í þá sálma nú. Ég vil aðeins benda á mál, sem varða þessar greinar sjávarútvegsins, þó ekki verði nema upptalning.

Fyrir Alþ. liggur frv. til l. um fiskimálaráð, flutt af 8 þm. Sjálfstfl., um samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máli, um mótun heildarstefnu í áframhaldandi uppbyggingu sjávarútvegsins, aukningu fiskiskipastólsins, um eðlilegt jafnvægi milli hinna mismunandi útgerðargreina, svo og uppbyggingu fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtækja, sem og samvinnu um markaðsmál. Einnig þáltill. um endurbyggingu togaraflotans o. fl., flutt af 4 þm. Sjálfstfl. Þá vil ég einnig minna á þrjú mikilsverð mál, sem núv. ríkisstj. hefur til lykta leitt, til hagsbóta fyrir útvegsmenn og sjómenn.

Það eru í fyrsta lagi lögin um verðlagsráð sjávarútvegsins, er sett voru árið 1961, en þau auka samstöðu útvegsmanna og sjómanna. Í verðlagsmálum ferskfiskafla eiga þeir samleið, eins og á þeim málum hefur verið haldið frá árinu 1960. Einnig fyrirbyggja lögin stöðvun vegna ágreinings um skiptaverð til sjómanna. Þá var á síðasta þingi sett löggjöf um sameiningu stofnlánasjóða sjávarútvegsins, fiskveiðasjóðs og stofnlánadeildarinnar. Það er trú mín, að þessi sameining með auknu fjármagni verði til mikilla hagsbóta fyrir sjávarútvegsframleiðendur. Í þriðja lagi vil ég benda á, að fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstj. var tekin upp á s.l. ári vigtun á allri bræðslusíld á Austur- og Norðurlandi. Við nokkrir þm. Sjálfstfl. bárum fram þáltill. um það mál á þinginu 1964, en mál þetta hafði verið baráttumál útvegsmanna og sjómanna um langan tíma.

Ég get ekki stillt mig um að vekja athygli á ummælum hv. þm. Eysteins Jónssonar s.l. þriðjudagskvöld, þar sem hann gerði að umtalsefni framlög ríkissjóðs til hafnarframkvæmda og sagði m. a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj, hefur nú lagt fram frv., sem gerir ráð fyrir að fella úr lögum skyldu ríkissjóðs til þess að leggja fé í hafnirnar.“ Sannleikur málsins er sá, að skv. 6. gr. frv. greiðir ríkissjóður 75% stofnkostnaðar hafnargarða, dýpkana á siglingaleið að og frá höfn og hafnarsvæða innan marka, sem ákveðin eru af rn., í stað 40% áður. Af stofnkostnaði annarra styrkhæfra hafnarmannvirkja verða greidd 40%, eins og verið hefur hingað til.

Þá eru í nefndu frv. till. um eflingu hafnabótasjóðs, bæði með auknu framlagi úr ríkissjóði og heimild til lántöku allt að 350 millj. kr.

Ég spyr, með hvaða hugarfari hefur hæstv. formaður Framsfl. lesið frv. þetta? Að mínu viti er frv. þetta til mikilla hagsbóta fyrir hafnarframkvæmdir í landinu. Það er nú til athugunar í sjútvn. Alþ. og vonandi vinnst tími til að afgreiða það á þessu þingi.

Það fer ekki á milli mála, að afkoma landsmanna fer eftir því, hvernig að atvinnuvegunum er búið, og þá ekki hvað sízt undirstöðuatvinnuvegunum. Ég sýndi hér áðan, hvernig var að vélbátaflotanum búið, þegar Framsókn hafði að mestu ráðið um 10 ára skeið, eða árið 1938. Það er ekki fjarri sanni, að þá muni góðar meðaltekjur háseta á vélbátaflotanum hafa numið um 2000 kr. á ári, en það jafngildir, miðað við neyzluvísitölu ársins 1938 og 1966, 45 704 kr. Skv. nýjasta hefti Hagtíðinda eru meðaltekjur sjómanna, þ.e.a.s. háseta, árið 1965 kr. 290 þús., en meðaltekjur allra kvæntra karla á aldrinum 25–66 ára árið 1965, kr. 248 þús. Meðaltekjur sjómanna 1938 hafa því verið um 16 af hundraði, miðað við tekjur þeirra árið 1965. Ég held, að þessar tölur tali sínu máli. Ef nokkuð líkar aðstæður væru nú fyrir hendi, yrðu miklar lífsvenjubreytingar að eiga sér stað með þjóðinni.

Framsfl. hefur nú nýlega haldið sitt 14. ársþing og haldið upp á 50 ára afmæli flokksins. Hefur að vonum verið gert mikið úr þessum tímamótum í málgagni flokksins, en við lestur samþykkta þeirra framsóknarmanna hef ég ekki getað varizt þeirri hugsun, að í trúarlegum efnum er talað um, að menn geti frelsazt, jafnvel hér á jörðu, og fengið fyrirgefningu synda sinna. Mér virðast þeir framsóknarmenn ætla nú að reyna að telja landsmönnum trú um, að eitthvað svipað þessu hafi gerzt með flokk þeirra og nú ætli þeir að bæta ráð sitt og lifa og stjórna sem réttlátir menn eftirleiðis og hætta að veita þeim framsóknargæðingum forgang, þar sem þeir gætu komið því við.

En hver trúir því? Mín vissa er, að nógu margir Íslendingar muni þeirra valdatíð og forði því, að ofstjórn Framsóknar hefji innreið sína aftur hér á landi. Þeir munu fylkja sér um Sjálfstfl., svo áfram verði haldið við uppbyggingu til farsældar fyrir land og lýð, tryggja með því áframhaldandi velmegun og réttlátt stjórnarfar í landinu, minnugir þess, að aðalkosturinn við frjálsa stjórnskipan þjóðarinnar er sá, að einstaklingurinn fær að hugsa sjálfur. Þökk þeim er á hlýddu. — Góða nótt.