13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti, góðir áheyrendur. Fyrir skömmu var ég á morgungöngu til vinnu minnar. Leið mín lá, eins og oftast, um Hljómskálagarðinn. Kemur þá gangandi á móti mér gamall skólafélagi minn og kunningi, búsettur úti á landi, en var að reka erindi í Reykjavík og hafði gengið sér til hressingar í Hljómskálagarðinn á góðviðrismorgni. Urðu þetta fagnaðarfundir, og tókum við tal saman. Hér er um vel menntaðan gáfumann að ræða, og hafði ég ánægju af samtalinu. Þó að hann sé óflokksbundinn, að því er ég bezt veit, hefur hann áhuga á stjórnmálum og vék m. a. að þeim.

Hann sagði, að nú ætluðum við að láta kjósa. Ég svaraði því til, að réttur tími væri kominn til þess skv. lýðræðisreglum. Þá sagði hann: Trúið þið því í raun og veru, að þið séuð að halda uppi lýðræði með þessum kosningum? Er ekki alveg sama, hvernig kosningarnar fara, er ekki alveg sama, hvort þið í stjórnarflokkunum vinnið eða stjórnarandstaðan sigrar? Gerir ekki ríkisstj. eftir kosningar alveg hið sama, hvort sem þið eruð í stjórn eða einhverjir aðrir? Heldurðu t.d., að Framsfl. hefði ekki gert eitthvað ósköp svipað og þið hafið verið að gera undanfarin ár, ef hann hefði verið í stjórn? Og heldurðu t.d., að verkalýðsforingjarnir í Alþb. hefðu beitt sér fyrir jafnmiklum kauphækkunum og þeir hafa gert undanfarin ár, ef þeir hefðu verið í stjórn? Ekki gerðu þeir það á vinstri stjórnar árunum. Nei, blessaður vertu, sagði hann, þeir sem stjórna þurfa að vera ábyrgir, hvort sem það eru þið eða aðrir. Þeir reyna alltaf að stjórna af viti, hverjir svo sem það eru, en hinir, sem eru í stjórnarandstöðu, eru alltaf óábyrgir og segja allt annað en þeir myndu gera, ef þeir væru í stjórn. Þess vegna held ég, að ekki skipti svo miklu máli, hvern maður kýs af þessum flokkum. Aðstæðurnar leiða í ljós, hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar, og þær verða gerðar, hver svo sem fer með völdin.

Ég hef oft áður orðið var við, að sumir telja, að það skipti í raun og veru litlu máli, hvaða flokkar fari með völd. Þeir hegði sér allir svipað við stjórnvölinn. Munurinn á flokkunum er að sjálfsögðu ekki eins mikill og deilurnar hér á þingi, að ég ekki tali um blaðadeilurnar, gefa tilefni til að halda. En það hefur engu að síður grundvallarþýðingu á mörgum sviðum, hverjir með völdin fara. Í þessum orðum mínum langar mig til að leiða rök að því, hvers vegna aukin áhrif, annaðhvort Framsfl. eða Alþb., nú, mundu verða til tjóns og hvers vegna skynsamir og ábyrgir kjósendur ættu ekki að efla þessa flokka.

Ég býst við, að ýmsum muni bregða, þegar þeir heyra mig segja, að ég telji Framsfl. nú vera mesta og í raun og veru eina afturhaldsflokk landsins. En ég skal færa rök fyrir þessari skoðun minni. Hvað er afturhaldssemi í stjórnmálum? Það er að vilja varðveita ríkjandi ástand, jafnvel þótt breyting myndi t.d. auka þjóðartekjur eða jafna lífskjör. Það er að vilja viðhalda þjóðfélagskerfi, jafnvel þótt það sé ranglátt og efli þrönga sérhagsmuni, en sé heildinni til tjóns. Það er að vilja ekki laga sig að breyttum aðstæðum og nýjum hugsunarhætti.

Og nú skal ég nefna nokkur dæmi um afturhaldssamar skoðanir Framsfl. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að síðustu tvo áratugi hafa allar þjóðir á Vesturlöndum aukið frjálsræði í viðskiptum og til framkvæmda, samtímis því sem þær hafa eflt heildarstjórn efnahagsmála með beitingu markvissrar stefnu í peninga- og fjármálum og hagnýtingu áætlunargerða til langs tíma í vaxandi mæli. Með þessu móti hafa orðið meiri efnahagsframfarir og betra jafnvægi náðst í efnahagsmálum en nokkru sinni fyrr. Jafnframt hefur verið horfið frá hvers kyns höftum í viðskiptum og framleiðslu. Þessari sömu stefnu hefur verið fylgt hér á landi á undanförnum árum. Framsfl. hefur hins vegar enn trú á höftum og úthlutunarnefndum sem hagstjórnartæki. Hann hefur beitt sér gegn ráðstöfunum ríkisstj. til þess að auka viðskipta- og athafnafrelsi. Hann hefur engan skilning á gildi gjaldeyrisvarasjóðs fyrir viðskiptafrelsi og lánstraust þjóðarinnar erlendis. Hann hefur engan skilning á nauðsyn ábyrgrar stefnu í peningamálum. Framsfl. telur sig að vísu hlynntan áætlunargerð. En þegar flokkurinn var í ríkisstj. og hafði tækifæri til að stuðla að áætlunargerð, var áhuginn fyrir henni enginn. Og þetta var raunar eitt helzta ágreiningsefnið innan vinstri stjórnarinnar milli Framsfl. annars vegar og Alþfl. og Alþb. hins .vegar. Heilindin í þessu máli eru ekki heldur meiri en það nú, að í öðru orðinu tala fulltrúar flokksins um áætlunargerð sem allra meina bót, en í hinu orðinu ráðast þeir á þá áætlunargerð, sem framkvæmd hefur verið á undanförnum árum og er fyrsta viðleitni hér á landi í þessu efni. Einn ræðumaður flokksins í fyrrakvöld réðst meira að segja með offorsi á þær endurbætur í skipulagi skólabygginga, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum 3 árum, og orðið hafa til að flýta fyrir skólabyggingum víða um land. Á þessu mikilvæga sviði, þ.e.a.s. að því er snertir sjálfa stjórn efnahagsmálanna, sem hefur verið þungamiðja stjórnarathafna, bæði hér á landi og annars staðar á undanförnum áratugum, eru skoðanir Framsfl. því afturhaldssamar, en ekki framsæknar. Aðild hans að ríkisstj. mundi tvímælalaust leiða til þess, að hætt væri að beita stefnunni í fjármálum og peningamálum til að tryggja efnahagsjafnvægi og örva hagvöxt, og að hætt væri við beitingu áætlunargerðar í fullri alvöru. Í stað þess mundi koma afturhvarf til haftakerfis og nefndafargans, með öllum þeim töfum á framkvæmdum og framförum og allri þeirri spillingu, sem þeirri skipan fylgir.

Ég skal nefna annað dæmi. Allir skynsamir menn munu nú hafa gert sér grein fyrir því, að eitt brýnasta viðfangsefni ísl. efnahagsmála er að endurskipuleggja málefni íslenzks landbúnaðar og dreifbýlisins yfirleitt. Ísl. landbúnaður á ekki að framleiða fyrir erlendan markað, heldur til innanlandsneyzlu. Framleiðsluaukning landbúnaðarins á undanförnum árum hefur verið keypt dýru verði með gífurlegri fjárfestingu, en hún hefur ekki aðeins verið verðlaus að mestu fyrir þjóðfélagið í heild, heldur hefur hún jafnvel um skeið orðið bændastéttinni sjálfri til tjóns. Þær gífurlegu fjárfúlgur, sem greiða verður í uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, eru mjög þungur baggi á skattgreiðendum í landinu. Hér þarf nýja stefnu. En Framsfl. bendir ekki á hana. Sú stefna, sem nú hefur leitt til offramleiðslunnar og byrðanna á skattgreiðendurna, var að verulegu leyti mótuð af Framsfl. og verður áreiðanlega ekki breytt í samstarfi við hann. Á þessu sviði vill hann enn gömlu stefnuna. Hann er afturhaldsflokkur, og hið sama verður uppi í dreifbýlismálunum yfirleitt. Á því sviði er framsækin stefna auðvitað fólgin í því, að færa byggðina skipulega saman, skv. vandlega gerðri áætlun, til þess að bæta afkomuskilyrði og menningarlíf fólksins. En það er ekki stefna Framsfl. Hann vill viðhalda því, sem er, með því að viðhalda hvers konar styrkjum og jafnvel auka þá. Framsfl. spyr t.d. aldrei þeirrar spurningar, hvað það kosti að leggja rafmagn eða veg til afskekkts bæjar. Meðan bærinn er þarna, skal hann fá bæði rafmagn og veg, jafnvel þótt líklegt sé, að fólkið flytji burt að ári. Þetta er afturhaldsstefna.

Og þriðja dæmið skal ég nefna. Á undanförnum áratugum hefur þróunin orðið sú, ekki aðeins í V.-Evrópu, heldur einnig í A.-Evrópu, og ekki aðeins í Evrópu, heldur einnig í öðrum heimsálfum, að efnahagssamstarf og viðskiptatengsl landa í milli hafa aukizt og jafnvel verið efnt til ýmiss konar efnahags- og viðskiptabandalaga. Þetta hefur yfirleitt haft í för með sér aukin milliríkjaviðskipti og aukna framleiðslu. Íslendingar standa enn að mestu utan þessarar þróunar. Enginn vafi er þó á því, að á næstu árum og áratugum á Ísland eftir að tengjast umheiminum sterkari viðskiptaböndum en nú á sér stað. Það er framsækin stefna og frjálslynd að taka þátt í þessari alþjóðaþróun. Í þessum efnum fylgir Framsfl. hins vegar þröngsýnni og úreltri einangrunarstefnu.

Flokkurinn telur sig eflaust vera að halda á lofti þjóðernisstefnu, og væri það út af fyrir sig lofsvert, ef hún kæmi ekki fram sem innilokunarstefna, í algerri mótsögn við það, sem aðrar þjóðir hafa verið að gera og eru að gera í þessum efnum. Að þessu leyti er Framsfl. tvímælalaust afturhaldsflokkur. Og nú finnst mér ekki frekar þurfa vitnanna við um það, að Framsfl. stendur því miður ekki lengur undir nafni sínu. Þessi flokkur er ekki lengur það, sem hann var á dögum hinna frjálslyndu foringja, Tryggva Þórhallssonar og Jónasar Jónssonar. Hann er ekki lengur það, sem hann var, meðan hann naut enn raunhæfrar forystu Hermanns Jónassonar og stefndi að því að byggja stjórn landsins á einlægri samvinnu við launþegasamtökin. Framsfl. kafnar nú undir nafni.

Þá er að víkja að Alþb. Skyldu aukin áhrif þess geta orðið til góðs? Engum heilskyggnum manni mun nú geta blandazt hugur um, að kommúnistar ráða lögum og lofum í Alþb. og móta stefnu þess. Hafi nokkur einhvern tíma verið í vafa um það, hlýtur sá efi að hafa horfið eins og dögg fyrir sólu, þegar framboðslisti Alþb. í Rvík var kunngjörður fyrir fáeinum dögum. Þótt sá listi sé talinn listi Alþb., er hann alveg augljóslega framboðslisti Sósíalistafélagsins í Rvík, hins forna vígis þeirra hörkukommúnista, sem ekkert hafa lært og engu gleymt af þjóðfélagsþróun síðustu áratuga. Hversu margir sem þeir menn eru enn þá innan Alþb., sem hafa í raun og sannleika allt aðrar skoðanir en þessir kommúnistar, þá fer ekki á milli mála, að Alþb. er stjórnað af mönnum, sem engan skilning hafa á gildi lýðræðis, málfrelsis og mannréttinda. Því er stjórnað af mönnum, sem aldrei dettur annað í hug en að þeir hafi alltaf rétt fyrir sér, og mundu því taka allt vald í hendur lítils harðsnúins minni hluta, ef þeir hefðu aðstöðu til. Slíkt hefur gerzt í fjöldamörgum löndum á undanförnum áratugum, t.d. í A.-Evrópu. Hafið þið nokkurn tíma heyrt leiðtoga ísl. kommúnista gagnrýna einræðið í A-Evrópu, skoðanaófrelsið, skortinn á mannréttindum? Nei, auðvitað ekki. Þeim finnst einræði kommúnistaflokks jafnréttlátt og þeim fyndist einræði einhvers annars flokks ranglátt. Slíkir menn eru satt að segja varhugaverðir. Þetta geta verið greindarmenn og persónulega bezta fólk. En þeir eru slegnir blindu á sálinni. Sú blinda er eflaust hættulítil, meðan þeir eru áhrifalitlir. En ef þeir verða áhrifamiklir, getur þessi hörmulega sálarblinda orðið afdrifarík. Meðan Alþb. er undir forystu slíkra manna, geta aukin áhrif þess í ísl. stjórnmálum ekki orðið til góðs.

Góðir áheyrendur! Alþfl. hefur nú átt aðild að ríkisstj. í næstum 11 ár. Það er lengri samfelld stjórnarþátttaka en dæmi eru til um áður í ísl. stjórnmálasögu. Á þessum árum hefur Alþfl. lagt sig allan fram að stuðla að þess konar skipan á efnahagsmálum þjóðarinnar, sem leitt geti til sem mestra þjóðartekna. Hann hefur lagt sig allan fram að stuðla að þess konar skipan á félagsmálum þjóðarinnar, að jöfnuður og réttlæti ríkti. Hann hefur lagt sig allan fram að stuðla að þess konar skipan á menningarmálum þjóðarinnar, að menntun æskunnar yrði sem bezt og listir og vísindi gætu blómgazt og bætt líf þjóðarinnar og fegrað það. Enginn sanngjarn maður mun bera á móti því, að mikið hafi áunnizt á öllum þessum sviðum á undanförnum 11 árum, og að Alþfl. eigi þar farsælan hlut að, þótt mér komi auðvitað ekki til hugar að eigna honum einum allt það, sem vel hefur verið gert á undanförnum árum. En Alþfl. hefur lagt ríkari áherzlu á að stuðla að framgangi góðra mála og ná þeim árangri, sem völ er á hverju sinni, en að halda fast í bókstaf gamalla yfirlýsinga, hvað þá að starf hans hafi nokkurn tíma verið kreddubundið. Og Alþfl. hefur jafnan lagt sérstaka áherzlu á að vera drengilegur aðili í samstarfi. Það vill hann ávallt vera.

Alþfl. er því miður minnsti stjórnmálaflokkurinn, þótt ekki muni að vísu miklu á fylgi hans og Alþb. En það jafngildir ekki því, að hann sé áhrifaminnsti stjórnmálaflokkurinn. Alþfl. hefur haft mikil áhrif á ísl. stjórnmál undanfarna áratugi, bæði meðan hann hefur verið í stjórnarandstöðu og einkum þó, þegar hann hefur verið í stjórn. Ef áhrif Alþfl. í ísl. stjórnmálum minnkuðu, yrði það til mikils tjóns. Hann er sá ísl. stjórnmálaflokkur, sem af mestu frjálslyndi og minnstri kreddufestu hefur hagað störfum sínum eins og hann hefur talið, að þjóðarheildinni væri fyrir beztu hverju sinni. Hann hefur aldrei látið neins konar ofstæki stjórna gerðum sínum. Hann hefur aldrei viljað hundsa eða lítilsvirða neinn minni hluta, hvað þá lumbra á honum, heldur ávallt verið reiðubúinn til þess að virða skoðanir annarra og taka sanngjarnt tillit til þeirra. Hann hefur viljað láta skynsemi, góðvild og drengskap stjórna gerðum sínum. Af þessum sökum yrði það áreiðanlega til góðs í íslenzkum stjórnmálum, ef kosningarnar í sumar leiddu til aukinna áhrifa Alþfl. Hann mundi nota þau auknu áhrif til þess að halda áfram að stuðla að betra þjóðfélagi á Íslandi, þroskaðra þjóðlífi, fegurra mannlífi.