13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Núv. stjórnarflokkar hafa farið með völd í landinu í tvö kjörtímabil samfleytt. Þeir hafa því haft nægilegt ráðrúm til þess að framkvæma stefnu sína og standa við gefin heit. Þeir hafa ekki þurft að glíma við illt árferði eða ófyrirsjáanlega erfiðleika, því að líklega hefur engin innlend ríkisstj. búið við öllu hagstæðari ytri skilyrði en núv. stjórn. En hvernig hefur henni tekizt að halda á málum og valda verkefnum sínum? Það er sú spurning, sem menn verða að kryfja til mergjar um þessar mundir og einkanlega áður en þeir fella sinn dóm í kosningunum í vor. Á stefnuskrá stjórnarflokkanna fyrir nær 8 árum stóð það fyrirheit efst á blaði, að atvinnuvegum þjóðarinnar skyldi komið á traustan og heilbrigðan grundvöll til frambúðar. Það taldi stjórnin sitt höfuðverkefni. Það átti að gera með hinu svokallaða viðreisnarkerfi, sem m. a. átti að leiða til verðbólgustöðvunar, skattalækkunar, sparnaðar í opinberum rekstri og bættra lífskjara. Í viðreisnarpésanum stóðu m. a. þessi orð:

„Bótakerfi það, sem útflutningsframleiðslan hefur búið við síðan 1951, verði afnumið, en skráningu krónunnar breytt þannig, að útflutningsframleiðslan verði rekin hallalaust án bóta og styrkja.“

Já, atvinnuvegunum skyldi komið á traustan og heilbrigðan grundvöll, uppbótagreiðslum hætt og gengið rétt skráð. Hver er nú dómur reynslunnar um þetta fyrsta boðorð ríkisstj.? Standa ekki atvinnuvegirnir án allra styrkja á föstum fótum? Ónei, það er nú eitthvað annað en svo sé. Eftir nær 8 ára viðreisnarstjórn blasir sú kalda staðreynd við, að rekstrargrundvöllur undirstöðuatvinnuveganna er gersamlega brostinn. Þeir geta ekki með nokkru móti lengur staðið undir þeim tilkostnaði og því verðlagi, sem hinn öri verðbólguvöxtur hefur skapað í landinu. Öll útflutningsframleiðsla, að heita má, nema síldarafurðirnar fær nú beinar uppbætur í einu eða öðru formi. Ekki tugi millj., heldur hundruð millj. Þar fyrir utan eru svo allar niðurgreiðslurnar, sem í núgildandi fjárl. eru áætlaðar 708 millj. í 10 mánuði, en hvað þá tekur við, veit enginn. Útgjaldaárið er þar sem sagt stytt um tvo mánuði, og sífellt er af illri nauðsyn verið að auka uppbótagreiðslurnar, sbr. nýlega samþ. ráðstafanir til aðstoðar sjávarútveginum. Enginn heldur því fram, að of vel sé gert við sjávarútveginn. Hitt mun sönnu nær, að sú aðstoð, sem honum og fiskiðnaðinum er veitt, muni reynast allsendis ófullnægjandi. Svo grátt eru þessar atvinnugreinar leiknar eftir 8 ára viðreisnarstjórn og það þrátt fyrir einstæð aflabrögð undanfarinna ára og óvenjulega hagstæð markaðskjör. Hvernig ætli ástandið hefði verið, ef við hefðum búið við aflaleysi og markaðshrun? Hér er ekki aðeins um að ræða staðhæfingar stjórnarandstöðu eða barlóm atvinnurekenda sjálfra eins og forsrh. lét liggja að í umr. í fyrrakvöld. Stjórnskipaðar n. hafa komizt að sömu niðurstöðu. Vélbátanefndin svokallaða, er skipuð var af þm. úr öllum flokkum og skilaði áliti í júnímánuði s.l., var sammála um, að fiskverð til minni bátanna yrði að hækka um a. m. k. 10% frá því, sem það var þá, til þess að rekstrargrundvöllur bátaútgerðarinnar yrði ekki lakari en hann var árið 1962, en taldi jafnframt, að auk þess yrði að gera ýmsar aðrar ráðstafanir bátaútveginum til aðstoðar. Sést af þessu nál., hversu sigið hefur á ógæfuhlið frá því 1962.

Togaranefndin, sem skilaði áliti í nóv. s.l., komst að þeirri niðurstöðu, að árlegur rekstrarhalli á olíukyntum nýsköpunartogara mundi vera 5–6 millj. á ári. Hér er um að ræða dóm flokksmanna, já, trúnaðarmanna ríkisstj. sjálfrar. Í tíð núv. ríkisstj. mun togurum hafa fækkað um rúman helming. Hér er vissulega um mikið vandamál að tefla, eitt allra alvarlegasta vandamálið, því að hvar erum við stödd, ef þessar undirstöður þjóðfélagsins hrynja? En aðgerðir stjórnarvaldanna í þessum málum hafa svo sannarlega ekki við það miðazt að koma atvinnugreinum þessum á traustan og varanlegan grundvöll, heldur hitt að fleyta þeim aðeins í bili með sífelldum bráðabirgða úrræðum. Og enn hefur t.d. nær ekkert verið framkvæmt af till. vélbátan. Þess hefði þó ekki verið vanþörf, því að bátarnir, sem stunda þorskfiskveiðar, eiga við sívaxandi erfiðleika að etja og hefur farið fækkandi ár frá ári, en sú þróun á aftur sinn þátt í hráefnisvandamáli hraðfrystihúsanna. Vandamál togaranna bíða úrlausnar. Þar virðast engin ný úrræði vera á ferðinni af stjórnarinnar hálfu. Hjá þeim er þó ekkert fram undan nema algert þrot, ef ekki verður neitt að gert. Hafa þó togaraskipstjórar margbent á þá nauðsyn að endurnýja togaraflotann og búa skipin nýtízkutækjum til úthafsveiða. Þeir hafa og bent á nauðsyn bættrar aðstöðu í landi. Auðunn Auðunsson skipstjóri segir t.d. í sjómannablaðinu Víkingi 1966:

„Út af fyrir sig má segja, að löndunaraðstæður í Reykjavík og Hafnarfirði eigi mikinn þátt í, hvernig komið er fyrir togaraútgerðinni, því að það tekur 3–5 daga að fá afgreiðslu á 350 tonna afla, 3 daga í löndun og 1 dag að ísa aftur er algengt. Tæknina vantar svo gersamlega í löndunarstarfsemina, að þar er um algera kyrrstöðu að ræða. Og oft verða skipin að vera lengur úti, stundum viku, en æskilegt er, vegna þess að enginn möguleiki er til þess að fá aflanum landað.“

Hvað er gert til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi? Mér er það ekki kunnugt. Nú hefur stjórnin hins vegar rétt fyrir kosningar gefið út tilkynningu um það, að hún muni beita sér fyrir kaupum á 4 skuttogurum. Það hefði hún svo sannarlega átt að gera fyrr.

Afkoma iðnaðar og landbúnaðar er því miður einnig allt annað en glæsileg. Þar er við mörg vandamál að glíma, svo sem hækkandi tilkostnað og lánsfjárskort. Iðnaðurinn á í mörgum greinum í vök að verjast, í sumum tilfellum vegna vaxandi samkeppni, og sum iðnfyrirtæki hafa blátt áfram gefizt upp. Landbúnaðurinn á einnig við ýmis sérstök vandamál að stríða, en ég mun ekki gera þau hér að umtalsefni, enda verður það gert af öðrum ræðumanni hér á eftir. En svona fór nú um fyrsta boðorð stjórnarinnar. Í stað atvinnuvega á traustum grunni án allra styrkja og uppbóta sjáum við atvinnugreinar, sem riða til falls, þrátt fyrir það, að nú sé varið miklu hærri fjárhæð til útflutningsuppbóta og niðurborgana en gert var, þegar viðreisnarstjórnin tók við. Ég held, að þetta ástand atvinnuveganna feli í sér þyngsta áfellisdóminn yfir stjórnarstefnunni, því að vissulega er það hún og hennar afleiðingar, sem mestu valda um, hvernig komið er.

En hvað segir reynslan um annað boðorð um stöðvun verðbólgunnar. Það var eitt af höfuðmarkmiðum núv. stjórnar að vinna bug á verðbólgunni. Því var lýst yfir í stjórnarmyndunarræðu 1959, að ríkisstj. legði á það höfuðáherzlu að halda þannig á málum, að ekki leiddi til verðbólgu og á þessu var síðan hert af þáv. forsrh. í áramótaræðu, er hann sagði, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna, væri allt annað unnið fyrir gýg. En þrátt fyrir hin stóru orð og fögru fyrirheit hefur verðbólgunni alls ekki verið haldið í skefjum. Hún hefur þvert á móti magnazt ár frá ári á valdatímum núv. stjórnarflokka. Þá sögu þekkja allir, en það er bezt að leiða vitni, sem stjórnin mun ekki andmæla. Í skýrslum Efnahagsstofnunarinnar til hagráðs í ágústmánuði s.l. segir m. a. svo:

„Á undanförnum 5 árum hefur verðlag hér á landi hækkað ört og miklu örar en í nálægum löndum. Meðalhækkunin á ári yfir tímabilið 1960–1965 er 11%, sé miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, en 12%, sé miðað við vísitölu neyzluvöruverðlags. Á sama tíma hefur meðalhækkun verðlags í nálægum löndum numið 5–6% á ári, þar sem hún hefur verið mest, í Danmörku og Finnlandi, en meðalhækkun í 11 Evrópulöndum hefur verið um 4%.“

Ljóst er af þessari skýrslu Efnahagsstofnunarinnar, að Ísland á ótvírætt Evrópumet í verðbólguvexti. Lætur nærri, að hann sé hér þrefalt meiri en í nálægum löndum. Skaðlegar afleiðingar þessarar óðaverðbólgu blasa við í öllum áttum. Þær eiga mesta sök á hallarekstri atvinnuveganna, sem áður er lýst. Þær birtast í óeðlilegri eignatilfærslu í þjóðfélaginu, auknum aðstöðumun þjóðfélagsþegnanna, óviðráðanlegum byggingarkostnaði, alls konar spákaupmennsku og mætti þannig lengi telja. Öll viðureign stjórnarflokkanna við verðbólguna einkennist af ósigrum og flótta. Þeirri hrakfallasögu verður ekki breytt né bundinn á hana endir með innantómum slagorðum um stöðvunarstefnu nú rétt fyrir kosningar.

Hin svokallaða verðstöðvun, eins og til hennar er stofnað nú, er því miður að verulegu leyti blekking. — Víxill, sem þarf að greiða eftir kosningar. — Verðstöðvunarlögin, sem samþ. voru fyrir áramótin, eru aðeins staðfesting þeirra heimilda, sem stjórnin hefur frá upphafi haft, nema hvað bannað er þar að hækka útsvör og önnur opinber gjöld án stjórnarleyfis. En heimildirnar til að ákveða álagningu og verðlag notaði stjórnin lítt eða ekki. Kjörorðið var frelsi, ótakmarkað álagningarfrelsi, verðmyndun án verðlagseftirlits. Nú er í ofboði kúvent. Allt skal sett fast. Verðlagseftirlit á öllum sviðum. Ef verðstöðvunin er þvílíkt bjargráð nú, sem látið er í veðri vaka, er spurt: Hvers vegna var ekki gripið til hennar fyrr? Hvers vegna vanrækti stjórnin að beita heimildum sínum í 7 ár? Hvers vegna notaði hún ekki þetta töfralyf fyrr? Þeirri spurningu verður stjórnin að svara.

Að vísu má segja, að betra sé seint en aldrei og verðstöðvunin er út af fyrir sig spor í rétta átt, og hún gæti sjálfsagt gert gagn, ef allt væri rétt í pottinn búið. En ef raunveruleg verðstöðvun ætti að takast, hefði fyrst þurft að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan rekstrargrundvöll. Það hefur verið vanrækt. Þess vegna kom það strax á daginn eftir áramótin, sem sagt hafði verið fyrir, en ekki var þá á hlustað, að veita þurfti sjávarútveginum aukinn stuðning. Fjárlög gerðu ekki ráð fyrir því. Þá var gripið til þess óyndisúrræðis að klípa af fjárveitingu til verklegra framkvæmda. Fjárl. eru augljóslega við það miðuð, að spennan haldi áfram, innflutningur verði sá sami og áður og í sömu hlutföllum, að því er hátollavörur snertir. Slíkt er í rauninni útilokað, ef verðstöðvun tækist eða bæri einhvern verulegan árangur. Þá eru litlar líkur til, að tekjuáætlun fjárl. stæðist. Þetta er viðurkennt í skýrslu Seðlabankans nýútkominni. Þar segir:

„Þótt með þessu móti hafi tekizt að stöðva verðhækkanir um sinn, munu þessar aðgerðir fyrirsjáanlega hafa í för með sér versnandi afkomu ríkissjóðs á árinu 1967, einkum vegna aukinna útgjalda til að greiða niður verðlag.“

En niðurgreiðslurnar til að stöðva dýrtíðina eru aðeins miðaðar við 10 mánuði, þ. e. til 1. nóv. þetta ár. Menn gætu ímyndað sér, hvað þá tæki við, ef stjórnin héldi velli. Menn muna 1959. Þá var slagorðið einnig stöðvun. Þá var sagt fyrir kosningar, að verðbólgan væri stöðvuð, en strax eftir kosningar var stórkostleg gengisfelling talin óhjákvæmileg. Það er ekki að ástæðulausu að margir óttast, að nú sé verið að leika sama sjónarspilið og þá. Það dylst engum hugsandi manni, að hin svokallaða verðstöðvun ræður ekki við kjarna vandamálsins, heldur er fyrst og fremst við það miðað að skjóta vandanum á frest fram yfir kosningar — sem sagt, vísitölustöðvun með niðurborgunum fram yfir kosningar. — Þetta er auðvitað hinum greindari mönnum stjórnarflokkanna ljóst. Sjálfur forsrh. kallaði verðstöðvunarlagafrv. neyðarúrræði til bráðabirgða. Það er einmitt það rétta. Það er mergur málsins.

Samkv. stjórnarstefnunni skyldi komið á sparnaði í opinberum rekstri, og fjárlög áttu að vera hallalaus. Illa hefur stjórninni gengið að fylgja þessu boðorði. Það hefur ekki borið á sparnaði í opinberum rekstri, heldur þvert á móti. Nefndum hefur verið fækkað, embættum og stjórnarstofnunum hefur verið fjölgað. Parkinsonslögmálið hefur verið í góðu gengi. Fjárlög hafa sífellt hækkað ár frá ári. Fjárlög þessa árs eru nær 5 milljarðar og hækka á einu ári um nær því 1 milljarð. Álögur fara síhækkandi, vitaskuld sumpart af verðbólguvöldum.

Eitt boðorð stjórnarstefnunnar var jafnvægi í peningamálum. Á það mál má líta frá ýmsum hliðum. En ég held, að það sé næstum sama, frá hvaða sjónarhóli er á það lítið. Niðurstaðan yrði alltaf sú sama, að sjaldan hefði ríkt hér meira jafnvægisleysi í peningamálum en einmitt í tíð núv. stjórnar og er þá ekki aðeins hið hríðfallandi verðgildi íslenzku krónunnar haft í huga.

Það væri synd að segja, að núv. ríkisstj. hafi verið stefnuföst. Hún hefur tekið upp uppbótastefnu, sem í upphafi var fordæmd. Hún ætlaði ekki að hafa nein afskipti af vinnudeilum, en hefur snarsnúizt frá þeirri stefnu, svo sem alkunnugt er, og hefur innleitt þá stefnu, að í vinnu- og verðlagssamningum er farið að semja um ýmis þjóðfélagsmál og löggjöf. Hún boðaði frelsi í innflutnings- og verðlagsmálum, en hefur nú að nafninu til horfið að víðtækari verðlagsbindingu og verðlagseftirliti en áður eru dæmi til og mun reynast ókleift að halda því verðlagseftirliti í framkvæmd og innflutningsfrelsið hefur ekki hvað sízt miðazt við það að ýta undir innflutning hátollavarnings til landsins. Kaupgjaldsvísitala var í upphafi fordæmd og aftekin. En 1964 var um hana samið og hún lögfest á nýjan leik. Þannig mætti lengi telja.

Ég hef hér gagnrýnt nokkuð misheppnaða stjórnarstefnu og ráðleysi ríkisstj. Um einstakar stjórnarathafnir hef ég ekki rætt, enda þótt þar mætti benda á sitthvað, sem miður hefur farið að mínum dómi. Það má að sjálfsögðu segja, að það sé auðveldara hlutskipti að gagnrýna og finna að, ekki sízt eftir á, en fara með ákvörðunarvald og bera ábyrgð. Það er rétt. En gagnrýnin er heldur ekki nema annar þátturinn í hlutverki stjórnarandstöðu. Hinn þátturinn er að benda á ný úrræði, aðrar leiðir en stjórnin hefur farið, svo að kostur sé að velja þar á milli. Framsfl. hefur á nýafstöðnu flokksþingi sínu samþ. ítarlega stefnuskrá, ekki aðeins almennar stefnuyfirlýsingar, heldur og nánari útfærslu að því er varðar einstaka málaflokka. Vil ég hvetja alla til að kynna sér þá stefnuskrá sem rækilegast.

Hér er þess ekki kostur að gera grein fyrir þeirri jákvæðu stefnu nema að litlu leyti. Ég vík aðeins að örfáum atriðum. Þar segir m. a., að það sé nauðsynlegt, að tekin sé upp ný stefna í efnahags- og atvinnumálum og nýjum viðhorfum sé mætt með nýjum úrræðum. Hin nýja stefna og endurreisn atvinnuveganna skal byggð á eftirfarandi grundvallaratriðum: Stjórn efnahags- og peningamála verði við það miðuð að efla atvinnuvegina og stefna að örum hagvexti, framförum og aukinni framleiðni án ofþenslu og verðbólgu. Lífskjör þjóðarinnar verði bætt og tryggt, að allir landsmenn eigi kost á fullri atvinnu. Tekin verði upp skipuleg stjórn í fjárfestingarmálum þjóðarinnar undir forystu ríkisvaldsins í samstarfi við fulltrúa samtaka atvinnulífsins. Meiri háttar framkvæmdir séu gerðar samkv. fyrirfram geðri áætlun, þar sem verkefnum sé raðað og þau látin sitja fyrir, sem mest þörf er á, að leyst séu. Ríkisvaldið tryggir, að nauðsynlegar framkvæmdir í þágu alþjóðar sitji í fyrirrúmi. Megináherzla skal lögð á skipulega uppbyggingu atvinnulífsins og byggingu nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis. Ríkisvaldið hafi í nánu samstarfi við einstaklingsframtak og félagsframtak forystu um ráðstafanir til eflingar og stuðnings atvinnulífsins og um val verkefna og framkvæmd þeirra. Ríkisvaldið taki upp náið samstarf og stuðning við atvinnuvegina um markaðsrannsóknir og markaðsöflun, er verði grundvöllur að nýrri sókn í útflutningsframleiðslunni. Samhliða heildaráætlun um þróun þjóðarbúsins og einstakra þátta þess skulu gerðar áætlanir um þróun tiltekinna landsvæða og þannig stuðlað að blómlegum vexti atvinnuveganna og lífvænlegri aðstöðu fólks um allt land. En það skiptir að dómi Framsfl. meira máli en flest annað, að takast megi að efla jafnvægi í byggð landsins. Ráðstöfun ríkisfjármuna verður á komandi árum að verulegu leyti að vera við það miðuð, og ríkisvaldið þarf með það fyrir augum að beita áhrifum sínum á staðsetningu framkvæmda og atvinnureksturs í landinu.

Nánari útfærsla er svo í stefnuskránni á einstökum málaþáttum, svo sem landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, iðnaðarmálum, menningarmálum og félagsmálum. Er eigi kostur að rekja það nánar hér. Fyrir framkvæmd þessarar stefnu mun Framsfl. beita sér eftir kosningar, eftir því, sem hann fær aðstöðu til. Engum er hollt að fara lengi með völd í senn. Í lýðræðisþjóðfélagi verður farsælast, að flokkarnir skiptist nokkuð á að fara með völd. Með því móti leita þjóðfélagsöflin jafnvægis. Núv. stjórnarsamsteypa hefur setið að völdum í 8 ár. Hún hefur fengið meira en nóg tækifæri. Árangurinn sýnir sig. Vegur hennar er varðaður glötuðum tækifærum. Nú þurfa valdahlutföllin að breytast. Það þarf að gefa öðrum tækifæri til að sýna, hvað þeir geta gert. Áhættan er í sjálfu sér engin, því að engum getur verr tekizt en núv. stjórn.

Framsfl. er aðalstjórnarandstöðuflokkurinn. Hann er eini flokkurinn hér á landi, sem er vaxandi. Það liggur því í augum uppi, að leiðin til að hnekkja núv. stjórnarsamstarfi er að efla Framsfl. Það er stjórnarflokkunum ljóst. Þeir beina nú, eins og allir heyra, skeytum sínum fyrst og fremst að Framsfl. Í því er viss viðurkenning fólgin. Fyrir hana er út af fyrir sig vert að þakka. Hins vegar verður að vara við þeim villandi og varhugaverðu blekkingum Alþb.-manna hér í fyrrakvöld, að atkvæðafjölgun Framsfl. komi ekki að fullu gagni, þar sem hann hafi ekki möguleika til þess að bæta við sig þingsætum. Þetta er alrangt. Með svipuðum vexti og í alþingiskosningunum og sveitarstjórnarkosningunum síðustu eru einmitt allar líkur til þess, að Framsfl. vinni þingsæti af stjórnarflokkunum, og getur það oltið á einu atkv. hvar sem er á landinu. Fram á það mætti sýna með tölum, ef tími væri til. En áþekkur áróður Alþb. átti sinn þátt í að tryggja stjórnarflokkunum áframhaldandi meiri hl. í alþingiskosningunum 1963 og bjarga íhaldsmeirihl. í Reykjavík í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Kjósendur, sem á annað borð vilja breyta til, þurfa að sjá til þess, að sú saga endurtaki sig ekki í vor. Það þarf vissulega, góðir áheyrendur, að hreinsa til í eldhúsi núv. ríkisstj. Það þarf að opna glugga og hleypa inn nýju lofti. Ég held, að æ fleiri skilji, að hér þarf nýja stefnu, ný vinnubrögð og nýja menn. — Góða nótt.