13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það mátti glöggt heyra á lokaorðum Eggerts G. Þorsteinssonar í umr. hér í fyrrakvöld, að Alþfl. er farinn að óttast verulegt fylgistap, eftir 8 ára auðsveipa þjónustu í þágu Sjálfstfl. Ráðh. taldi nauðsynlegt að minna á, að tveir þm. Alþfl. væru nú mjög valtir. Í fyrsta lagi sá af kjörnum þm. flokksins í Reykjavík, sem aftar ríður á merinni, þ. e. ráðh. sjálfur, og í öðru lagi Benedikt Gröndal í Vesturlandskjördæmi, sem helzt gæti fallið fyrir frambjóðanda Alþb., Jónasi Árnasyni.

Ótti Alþfl. við fylgistap er vissulega ekki ástæðulaus, eins og hann er orðinn, þessi forustuflokkur verkalýðsins, sem nú á sér enga aðra hugsjón en sitja í ríkisstj. og fá þó engu ráðið. Alþfl. var eftir styrjöldina aðili að nýsköpunarstjórninni, og þó er eins og flestir séu búnir að gleyma stjórnaraðild hans. Í vitund almennings var þetta fyrst og fremst samstjórn Sósfl. og Sjálfstfl. Eins var þessu varið með vinstri stjórnina, þar voru Alþb. og Framsfl. í forustu, en jafnvel leiðtogar Alþfl. hafa eftir á talað um vinstri stjórnina eins og þeir hafi þá verið í stjórnarandstöðu. Og alveg það sama mun gilda um núv. stjórnarsamstarf. Fólkið í landinu mun fyrst og fremst minnast þess, að sú stjórn, sem kenndi sig við viðreisn, var harðvítug íhaldsstjórn. Alþfl. er eins og hundur í smalamennsku. Það er mjög gott að hafa hann með, til þess að hægt sé að smala, en eftir á minnist enginn á það, að hundurinn hafi smalað. Það gerði húsbóndinn, enda réði hann ferðinni.

Birgir Finnsson og Sigurður Ingimundarson voru að miklast af því hér á þriðjudagskvöldið, að Alþfl. hefði stuðlað að því, að ríkisstj. gerði svokallaða þjóðhags- og framkvæmdaáætlun 1963–1966. Þetta áttu að vera hin góðu áhrif Alþfl. Ég held, að varla hafi verið unnt að finna ömurlegra dæmi um áhrif Alþfl. og sýndarmennsku ríkisstj. en einmitt þessa margumtöluðu áætlunargerð. Það er skemmst frá að segja, að slík áætlun hefur aldrei verið til. Í þessu mikla plaggi, sem nefnt var framkvæmdaáætlun, voru næstum engar framkvæmdir nefndar á nafn, og þær hagfræðilegu hugleiðingar, sem í því fólust, stefndu ekki að neinu ákveðnu marki, eins og sérhver áætlun hlýtur þó að gera. Hvernig gat líka annað verið, þegar húsbóndinn á stjórnarheimilinu, Sjálfstfl., hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni, að ríkisvaldið skuli hafa sem minnst afskipti af fjárfestingu og uppbyggingu atvinnuveganna. Gróðasjónarmiðin eiga ein að ráða, hvaða fyrirtæki eru byggð og hvar þau eru byggð. Raunveruleg áætlunargerð er auðvitað vonlaus frá upphafi, meðan slík efnahagsstefna er allsráðandi. Áhrif Alþfl. hafa því engin verið á þessu sviði fremur en öðrum, þegar allt kemur til alls. Og eins og til að kóróna vanmátt Alþfl. lýsti Magnús Jónsson fjmrh. yfir því fyrir fáeinum dögum, að ríkisstj. hefði algerlega gefizt upp við að gera nýja þjóðhags- og framkvæmdaáætlun til nokkurra ára, a. m. k. fyrst um sinn.

Fyrir tæpum tveimur árum beitti norðlenzk verkalýðshreyfing afli sínu, undir róttækri forustu, og knúði fram það loforð, að gerð yrði áætlun um atvinnuframkvæmdir á Norðurlandi, sem tryggði öllu vinnufæru fólki viðunandi atvinnu. Hvað líður svo þessari áætlunargerð? Sá grunur styrkist óneitanlega með degi hverjum, að Norðurlandsáætlun verði ekki öllu merkilegra plagg en hin innantóma þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem aldrei var nema nafnið tómt. Þeir, sem unnið hafa að þessari áætlun, hafa skýrt frá því, að hún verði ekki birt fyrr en eftir kosningar. Hvers er að vænta, þegar ríkisstj. þorir ekki að sýna Norðurlandsáætlunina, þetta langþráða afkvæmi sitt, fyrir kosningar. Er áætlunin svo fátækleg, að hún er ekki einu sinni nothæf sem kosningabeita?

Aðgerðarleysi ríkisstj. gagnvart atvinnuvandamálum Norðlendinga er óvenjuskýrt dæmi um þá óstjórn og skipulagsleysi, sem nú er ríkjandi á flestum sviðum. Í miðju góðærinu, á þeim tíma, þegar Íslendingar eru ein tekjuhæsta þjóð í heimi, er verulegt atvinnuleysi ríkjandi í mörgum sjávarplássum, en svo að segja ekkert er gert árum saman til að ráða á því bót. Þetta er ekki mál, sem varðar Norðlendinga eina. Þetta ástand sýnir og sannar landsmönnum öllum, hvar sem þeir eru búsettir, hvers er að vænta af núv. ráðamönnum, ef atvinnuleysisvofan ber að dyrum víðar en á Norðurlandi.

Í þessum umr. hafa margir ræðumenn sýnt fram á, hvernig stjórnarstefnan hefur kippt grundvellinum undan helztu útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar. Segja má, að í þessu efni hafi ríkisstj. ekki verið sjálfrátt og gáleysi ráði gerðum hennar. Öðru máli gegnir um sinnuleysi hennar gagnvart uppbyggingu atvinnulífsins. Þar er um ásetning að ræða. Afskiptaleysi ríkisvaldsins er einmitt mikilvægur liður í sjálfri stjórnarstefnunni.

Við Alþb.-menn mótmælum þessari stefnu, og bendum enn á nauðsyn þess, að tekin verði upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum og gerðar raunverulegar áætlanir um framkvæmdir og fjárfestingu til langs tíma. Jafnframt minnum við sérstaklega á nauðsyn þess, að ríkisvaldið sinni forustuhlutverki sínu í uppbyggingu ísl. atvinnuvega og komi þegar til aðstoðar til að útrýma atvinnuleysi, hvar og hvenær sem það birtist.

Vafalaust verða atvinnumál þjóðarinnar efst á dagskrá í komandi kosningum. En þegar landsmenn ganga að kjörborðinu, mættu þeir einnig minnast þess, að á næsta kjörtímabili verður utanríkisstefna landsins tekin til gagngerðrar endurskoðunar og úr því skorið, hvort Ísland heldur áfram hernaðarsamvinnu við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið.

Að undanförnu hefur mátt sjá þess glögg merki, að kalda stríðinu er að ljúka, a. m. k. í Evrópu. Loksins rofar fyrir heiðum himni eftir tveggja áratuga púðurreyk og pólitískt þrumuveður. Evrópuþjóðir í austri og vestri rísa yfir hálffallið járntjaldið og hefja margvísleg samskipti, og smám saman eru stríðsbandalög stórveldanna, NATO og Varsjárbandalagið, að tærast upp og liðast í sundur eins og bryndrekar frá löngu horfnum tíma. Ef svo fer sem nú horfir, að Atlantshafsbandalagið leysist upp í frumparta sína að fáum árum liðnum, verða Íslendingar staddir á vegamótum. Þá vofir sú hætta yfir, að Íslendingar verði eina þjóðin í Evrópu, sem eftir situr í hernaðarneti Bandaríkjanna. Þá geta orðið síðustu forvöð fyrir Íslendinga að gera það upp við sig, hvort þeir ætla að slíta sig lausa eða ekki.

Nú þegar landsmenn ganga að kjörborðinu til að kjósa það Alþ., sem marka mun stefnuna, eiga þeir heimtingu á því að vita, að hverju flokkarnir vilja stuðla. Vitað er, að áhrifamikil öfl í ríkisstj.-flokkunum báðum munu leggja á það ofurkapp, að núv. hernámsstefnu verði haldið áfram og myndu því ekki harma, þó að Ísland héngi eitt eftir á spýtunni í höndum Bandaríkjamanna.

Afstöðu Alþb. til þessa máls þekkja allir. Við munum beita öllum áhrifum okkar til að losa landið undan áhrifavaldi Bandaríkjamanna. Við viljum, að Ísland taki upp óháða og sjálfstæða utanríkisstefnu, afneiti hvers konar vígbúnaði, segi sig úr NATO, strax og samningar leyfa og lýsi yfir hlutleysi í hernaði. Jafnframt viljum við, að Ísland leiti eftir náinni samvinnu við hin Norðurlöndin.

En þá er komið að gömlu spurningunni: Hvað gerir Framsókn? Hver verður afstaða Framsóknar? Eins og kunnugt er, hefur Framsfl. nánast verið stefnulaus í þessu máli um árabil, sveiflazt til, og frá, eftir því hvaðan hann blés í það og það skiptið. Loksins í vetur ákvað flokksforustan að reyna að koma sér upp stefnu í málinu og sullaði saman tillögubræðingi, sem átti að heita stefna flokksins fram yfir kosningar. Í till. þessum er ráð fyrir því gert, að íslenzkir menn taki við störfum erlendra sérfræðinga við gæzlu hernaðarmannvirkja, en herinn sjálfur fari af landi brott á fjórum árum.

Nú hafa ýmsir velt því fyrir sér, hvers vegna framsóknarmenn leggja til, að herinn fari á fjórum árum, en ekki á einu ári, eins og samningar gera ráð fyrir. Íslendingar eiga ekki, skv. þessum till., að taka við störfum hersins, heldur aðeins við sérfræðingastörfum, og þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að herinn hypjaði sig á brott á einu ári. Hvers vegna vilja þá framsóknarmenn miða brottförina við fjögur ár? Skýringin er sú, að kjörtímabil Alþ. er fjögur ár. Skv. herstöðvarsamningnum frá 1951 verður fyrst að liða a. m. k. hálft ár, frá því að krafa kemur fram um endurskoðun samningsins, þar til unnt er að segja honum upp eða breyta honum með nýjum samningi. Bandaríkjamenn munu því raunverulega fá frest í tæp fimm ár a. m. k., ef talið er frá næstu alþingiskosningum. Ef till. Framsóknar næðu fram að ganga, yrði herinn ekki farinn úr landi, þegar næsta kjörtímabili lyki. Þetta nýja loforð er því eins konar kosningavíxill, sem búinn er þeim einstæða eiginleika, að hann fellur ekki í gjalddaga á næsta kjörtímabili. Framsókn mundi því geta gengið til kosninga aftur 1971, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af þessu vandræðamáli. Eftir kosningarnar þá yrði svo vafalaust unnt að finna nýjar ástæður til þess að slá málinu á frest enn einu sinni.

Framsóknarflokknum er því ekki treystandi, hvorki í þessu máli né öðru. Enginn veit, hvaða afstöðu hann tekur, þegar til kastanna kemur. Til þess að reyna að breiða yfir stefnuleysi flokksins hafa framsóknarmenn reynt að undanförnu að gera afstöðu Alþb. tortryggilega með því að spyrja, hvort við myndum setja það að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj., að hugsanlegir samstarfsflokkar lofuðu einnig brottför hersins. Alþb. knúði fram slík loforð í vinstri stjórninni 1956, en þau dugðu þó skammt, því að Framsfl. og Alþfl. sviku loforð sín við fyrsta tækifæri. Þá, eins og nú, er það ekki afgerandi um heilindi flokka, hvort þeir hafa mátt til að knýja fram stefnu sína í ríkisstj., heldur hitt, hvað þeir vilja, þegar á reynir. Afstaða Alþb. hefur alltaf verið skýr og ótvíræð. Sé þess nokkur kostur, mun Alþb. knýja það fram, að tekin sé upp sjálfstæð og óháð utanríkisstefna og herinn hverfi úr landi. Hins vegar getur enginn vitað fyrirfram, á hvora sveifina Framsfl. muni hallast. Það gerir gæfumuninn.

Góðir tilheyrendur. Tími minn er senn á þrotum. Í þessum umr. hefur verið minnzt á þann ágreining, sem varð um framboð Alþb. í Reykjavík. Ágreiningur um menn á framboðslista er vissulega ekkert nýnæmi. Skemmst er að minnast hinnar hatrömu baráttu á Vestfjörðum, bæði innan Framsfl. og Sjálfstfl. Ég vil minna á það hér, að ágreiningur um menn á lista er aldrei alvarlegur, ef ekki er deilt um málefni. Það er staðreynd, sem enginn getur mælt á móti, að í Alþb. er fullkomin samstaða og einhugur um öll höfuðatriði íslenzkra stjórnmála í dag.

Við Alþýðubandalagsmenn munum minnast þess, að það veltur á framgöngu okkar, hvort ríkisstj. missir meiri hluta sinn í kosningunum nú í vor. Framsfl. getur hvergi unnið ný þingsæti, þó að hann bæti við sig atkvæðum. En hann fær heldur ekki uppbótarþm. og hefði Ólafi Jóhannessyni, sem talaði hér rétt áðan, ekki enzt öll nóttin til þess að sanna hið gagnstæða, þótt hann hefði reynt það. Því aðeins fellur ríkisstj., að Alþb. vinni sigur og fái fleiri landskjörna þm. en seinast. Ég vil því sérstaklega taka hér undir þau orð, sem Björn Jónsson mælti í umræðunum á þriðjudag:

„Allan ágreining, stóran og smáan, innan Alþb. ber að harma, en hann getur ekki og má ekki hindra það, að allt hið stóra, sem sameinar, ráði úrslitum, þegar meira er í húfi í tvísýnni baráttu fyrir framtíð íslenzku þjóðarinnar en nokkru sinni áður.“