13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þessar útvarpsumr. eru nú á enda. Talsmenn stjórnarflokkanna hafa með skýrum rökum dregið upp mynd af mesta framfaratímabili í sögu þjóðarinnar og bent jafnframt á þau margvíslegu viðfangsefni, sem nú þyrfti að beita samstilltum átökum að, svo auðið verði að treysta betur það velferðarþjóðfélag, sem við nú lifum í.

Það er eftirtektarvert, að stjórnarandstæðingar hafa ekki gert tilraun til þess að hrekja þær tölulegu staðreyndir, sem bent hefur verið á, heldur staðhæft í einum kór, að allt hið góða, sem gerzt hafi síðustu árin, hafi orðið án tilverknaðar ríkisstj., en allt hið slæma hafi verið hennar sök. Geta hlustendur naumast komizt hjá því að álykta, ef þeir á annað borð taka eitthvert mark á orðum forystumanna stjórnarandstöðunnar, að annaðhvort hljóti ráðherrarnir að vera fábjánar eða illmenni eða þá hvort tveggja, því þeir virðast hafa lagt sig fram um það undanfarin 8 ár að vera þjóðinni til óþurftar og reyna að hagnýta sér sem verst hinar góðu gjafir máttarvaldanna. Þau ummæli eins framsóknarþm., að þessi ár mætti kalla ár hinna glötuðu tækifæra, eru raunar einkennandi fyrir ræður allra hv. stjórnarandstæðinga í þessum umr. Það eina, sem stjórnarandstæðingar hafa vendilega forðazt að minnast á nema í þokukenndum upphrópunum, er hvernig hefði átt að nota betur tækifærin og eftir hvaða leið þeir ætla að leiða þjóðina í land hinna miklu fyrirheita, þar sem bíða betri lífskjör fyrir launþega, betri hagur atvinnuveganna, nóg húsnæði fyrir alla, minni skattar, meiri framkvæmdir, nóg lánsfé, lægri vextir og engin verðbólga, svo nokkuð sé tíundað af dýrðarlýsingunum. Stjórnarflokkunum hugkvæmist ekki að halda því fram, að ekki hafi eitt og annað mátt betur fara í þeirra stjórnartíð. En enginn réttsýnn og góðviljaður maður getur neitað því, að á flestum sviðum þjóðfélagsins hafa á síðustu árum verið meiri framfarir en áður hafa þekkzt, og við búum nú í betra þjóðfélagi og við jafnari og betri lífskjör en nokkru sinni áður.

Skipting arðsins af þjóðarbúinu er grundvallarágreiningsefni hér á landi sem víðast annars staðar. Það er því flestum viðfangsefnum brýnna að finna úrræði til friðsamlegrar lausnar þess vanda. Það skiptir meginmáli, að allir aðilar finni, að réttar leikreglur séu notaðar og ekki reynt að falsa staðreyndir. Ég efast um, að nokkur ríkisstj. hafi lagt sig meir fram um að sætta fjármagn og vinnu í þjóðfélaginu, enda aldrei verið lagt eins mikið kapp á að afla hlutlausra upplýsinga um grundvallaratriði efnahagsmálanna.

Því ber vissulega að fagna, að verulegur jákvæður árangur hefur orðið af þessari viðleitni. Forystumenn áhrifaríkustu hagsmunasamtaka launþega og framleiðenda hafa sýnt lofsverðan skilning á mikilvægi skynsamlegra viðbragða um kröfugerð á síðustu árum, og reynslan hefur þegar sannað, að með nýjum vinnubrögðum er hægt að stuðla að betri lífskjörum almennings. Þetta nýja andrúmsloft í samskiptum atvinnurekenda, launþega og ríkisvalds hefur tryggt lengri samfelldan vinnufrið heldur en áður. Því miður hafa ýmsir stjórnmálamenn, sem hafa viljað telja sig sérstaka vini bænda og verkamanna og sumir hafa látið ljós sitt skína hér í þessum umr. og fordæmt ríkisstj. fyrir dýrtíðarstefnu, beinlínis lagt sig fram um að spilla þessum samstarfsvilja forystumanna stéttarsamtakanna, sem þó er forsenda þess, að hægt sé að ráða við verðbólguna. Sú saga er ljót, ef hún væri öll sögð. Og jafnvel á opinberum vettvangi hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar lýst furðu sinni og sárindum yfir því, hversu forystumenn stéttarfélaganna hafa verið vinsamlegir við ríkisstj. Auðvitað hafa forystumenn þessara samtaka ekki verið að ganga erinda ríkisstj., heldur hafa þeir áttað sig á því, að ný vinnubrögð hentuðu betur hagsmunum umbjóðenda þeirra.

Ríkisstj. lætur sér það svo í léttu rúmi liggja, hvort einhverjir telja sér henta að halda því fram, að í sambandi við samningagerðir þessar hafi hún verið neydd til að fallast á umbætur í húsnæðismálum eða atvinnumálum. Allir vita, að þar var um vandamál að ræða, sem ríkisstj. hefði orðið að leysa, en kjarni málsins var, að hagsmunasamtökin gerðu sér grein fyrir því, að kröfugerðarstefna síðustu áratuga hefur ekki leitt til þeirra hagsbóta, sem að var stefnt, heldur varð að finna raunhæfari úrræði.

Allir fordæma verðbólgu í orði. En því geta menn þá ekki sameinazt um að vinna gegn henni? Ætli skýringin sé ekki fyrst og fremst sú, að þótt verðbólga sé meinsemd, þá getur verið töluvert sársaukafullt að skera þá meinsemd burtu og slíkar aðgerðir kosta pólitísk óþægindi. Það er t.d. vægast sagt barnaleg fullyrðing að halda því fram, að aðgerðir, sem allar þjóðir með svipað hagkerfi og við beita gegn verðbólgu, eigi ekki við á Íslandi. Hvaða furðuverk halda þessir menn að efnahagskerfi okkar sé? Vitanlega er orsök þessara fullyrðinga sú, að í þjóðfélagi, sem ólgar af athafnavilja, er óvinsælt að takmarka útlán og hafa háa vexti. Og af því að kosningar eru í nánd og fjárhagsörðugleikar eru hjá mörgum vegna erfiðrar vertíðar og verðfalls afurða, þá er jafnvel gengið svo langt, að lagt er til, að aflað verði fjár til ríkisframkvæmda á þessu ári með því að láta Seðlabankann leggja fram allt féð, sem væri sama og að hella olíu á eld verðbólgunnar. Þá voru önnur viðbrögð stjórnarandstöðunnar í Finnlandi, sem nýlega átaldi ríkisstj. þar harðlega fyrir að leysa fjárhagserfiðleika ríkissjóðs þar með lántöku hjá seðlabanka Finnlands.

Það er engum efa bundið, að stefna ríkisstj. í fjármálum hefur unnið gegn verðbólgu. Hitt er annað mál, að kenna má ríkisstj. um verðbólguna að því leyti, að alltaf er hætta á verðbólgu á miklum framkvæmda- og velmegunartímum. Ef hér hefði ríkt atvinnuleysi, þá væri verðbólguvandinn minni. Þá má með nokkrum rétti saka ríkisstj. um það að hafa ekki haft meiri hemil á framkvæmdum, en það skal fúslega játað, að hún hefur heldur viljað tefla á tæpt vað en skapa atvinnuleysi eins og ýmsar þjóðir beinlínis skipuleggja til baráttu gegn verðbólgu. Einnig á þessu sviði stangast ádeilur stjórnarandstæðinga harkalega á. Þeir átelja óhæfilega þenslu í framkvæmdum, en strax og dregur úr yfirvinnu og hinni miklu eftirspurn eftir vinnuafli, en þessi eftirspurn er einmitt þensluvaldurinn, er óskapazt yfir minnkandi vinnu.

Á fáum sviðum hefur verið jafn rækilega reynt að villa fólki sýn og í umr, um verðbólguna og orsakir hennar. Það er talað um skattheimtu ríkisins sem verðbólguvald, þótt skattarnir komi jafnan eftir á til að mæta verðhækkunum. Við heyrum oft sagt og síðast í þessum umr. oftar en einu sinni, að nær væri að verja fé ríkissjóðs til einna eða annarra umbótamála heldur en ausa því í verðbólguhítina og er þá átt við niðurgreiðslur og útflutningsstyrki. Hér er um grundvallarmisskilning að ræða. Það væri ekki hægt í senn að stöðva verðbólgu og halda öllu þessu fé nema þá með stórfelldri kjaraskerðingu, því að mikið af því er tilkomið vegna verðbólgunnar og er því aðeins hér um millifærslur að ræða. Þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að verðbólgan stafar af ýmsum ástæðum, svo sem mismunandi gjaldþoli og framleiðni atvinnuveganna. Það er ekki verðbólgan, sem hefur valdið vandræðum togara og minni báta, heldur allt annað. Það má ekki skrifa alla erfiðleika á reikning verðbólgunnar.

Meðal fárra skynsamlegra aths. stjórnarandstöðunnar í þessum umr. voru þau orð Jóns Skaftasonar í fyrrakvöld, að það hefði átt að forðast verðbólguáhrif hinnar miklu hækkunar síldarafurðaverðs með því að taka kúfinn í verðjöfnunarsjóð. Þetta er vissulega rétt, en hver fæst til þess að geyma sína jólaköku hér á Íslandi? Sigldi ekki allur síldarflotinn í höfn, af því að smávægileg tilfærsla var gerð á verði síldar í salt og bræðslu? Þar var þó ekki einu sinni um það að ræða að taka neitt af síldarverðinu. Og var ekki málgagn Jóns Skaftasonar þá að venju háværast allra í að fordæma ríkisstj.? Stjórnarandstæðingar halda því fram, að viðreisnin hafi nú beðið skipbrot. Því fer víðs fjarri. Einmitt erfiðleikarnir nú sanna, hversu skynsamlega hefur verið á haldið. Hvenær halda menn, að hefði áður verið auðið hér á landi að mæta stórfelldri lækkun á verði meginhluta útflutnings þjóðarinnar án þess að grípa samstundis til viðskiptahafta og jafnvel skömmtunar og greiða hundruð millj. kr. til að lækka vöruverð og til aðstoðar útflutningsframleiðslunni, án þess að leggja á nýja skatta? Er þetta ekki ljós sönnun þess, hversu traustum fótum við stöndum efnahagslega? Verðstöðvun í eitt ár er framkvæmanleg án kjaraskerðingar. Verðstöðvunin er engin kosningabeita, heldur raunhæf aðgerð til þess að mæta erfiðleikum atvinnuveganna sökum verðfalls, sem varla er hugsanlegt, að geti orðið varanlegt, þar eð verðlag í flestum löndum fer almennt hækkandi. Í framhaldi af verðstöðvuninni þarf að marka þá stefnu í verðlags- og kjaramálum, er sé í samræmi við greiðslugetu atvinnuveganna.

Íslendingar búa nú við betri lífskjör en flestar aðrar þjóðir og áreiðanlega eru allir sammála um að reyna að tryggja þau lífskjör. Þar skiptir meginmáli að reyna að halda uppi sem arðbærastri framleiðslu og auka framleiðni atvinnuveganna þannig, að hver vinnandi hönd afkasti sem mestu. Þetta hafa atvinnurekendur skilið, enda hefur fjármunamyndun í vélum og tækjum aukizt geysilega síðustu árin. Er brýn nauðsyn, að þjónustustofnanir atvinnuveganna haldi uppi leiðbeiningastarfsemi varðandi vélvæðingu og margvíslega hagræðingu í rekstri.

Árið 1960 var gerbreytt um stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Horfið var að frelsi í viðskiptum og framkvæmdum í stað hafta og ríkiseftirlitskerfis, sem hafði leitt til stöðnunar í hagvexti og lakari lífskjara en í mörgum nálægum löndum. Þjóðin var furðu fljót að taka við sér eftir hin lamandi ríkisafskipti. Lífsþróttur og framtak var leyst úr læðingi og framkvæmdir á öllum sviðum jukust ár frá ári. Með endurskipulagningu og mikilli eflingu stofnsjóða atvinnuveganna og fyrirgreiðslu við ýmsar framkvæmdir stuðluðu stjórnvöldin að því að beina fjármagni að nauðsynlegum framkvæmdum, en að öðru leyti var hugviti og framtaki einstaklinganna og frjálsra félagasamtaka fengið það hlutverk, sem pólitískar nefndir áður höfðu, að meta það, hvað væri hagkvæmt og nauðsynlegt. Vitanlega hefur fé ekki alltaf verið varið skynsamlega, en hverjum dettur í hug, að hinar pólitísku nefndir hafi verið trygging skynsamlegra ráðstafana? Staðreyndin er sú, að síðustu árin hefur stærri hluti þjóðarteknanna farið til fjármunamyndunar hér en hjá flestum öðrum þjóðum og langmest hefur aukning verðmæta verið í framleiðsluatvinnuvegunum.

Oft er talað um, að öll ógæfa stafi af byggingu verzlunarhalla. Allt er þetta orðum aukið. Fjárfesting í verzlunarhúsum, og þá einnig meðtaldir olíugeymar, gistihús og ýmsar þjónustubyggingar, nemur aðeins 5% af fjármunamynduninni. Sagt er í átölutón, að fjárveitingar ríkissjóðs til verklegra framkvæmda hafi dregizt mjög saman. Á þenslutímum er nauðsynlegt, að opinberar framkvæmdir séu hóflegar, svo að fé og vinnuafl sé ekki óeðlilega dregið frá atvinnuvegunum. Engu að síður hafa fjárveitingar ríkisins til verklegra framkvæmda hækkað að meðaltali um 128% frá árinu 1958, miðað við fasta byggingarvísitölu. Íbúðarbyggingar hafa aukizt verulega og var á s.l. ári fjárfest í íbúðarbyggingum um 1700 millj. kr. Með gerð framkvæmdaáætlana hefur af stjórnvalda hálfu verið fylgzt með þróun inni og jafnframt með sérstakri fjáröflun tryggt, að nauðsynlegar framkvæmdir yrðu ekki út undan. Form. Framsfl. sagði í þessum umr., að ríkisstj. hefði gefizt upp við gerð framkvæmdaáætlana. Þetta er rangt. Vinna er þegar hafin við enn nákvæmari áætlanagerð en hægt var að koma við, þegar fyrsta langtímaáætlunin var samin. En talið var rétt að bíða fram eftir árinu með að ganga frá henni vegna óvissunnar í verðlagsþróun útflutningsframleiðslunnar, sem vitanlega hefur úrslitaþýðingu varðandi það fjármagn, sem til ráðstöfunar verður. Fyrsta skipulega byggðaáætlunin hefur verið hafin. Einn hv. framsóknarmanna lýsti hér í umr. áhuga Framsfl. á þessu máli. Þar kemur fram eins og á mörgum öðrum sviðum, hvað framsóknarmenn verða miklir umbótamenn, þegar þeir eru ekki í ríkisstj., því að á samstjórnarárum Framsfl. og Sjálfstfl. flutti ég ásamt fleiri þm. Sjálfstfl. þing eftir þing frv. um ráðstafanir til byggðajafnvægis, en þetta merkilega mál komst fyrst á rekspöl, eftir að framsóknarmenn voru farnir úr stjórn. Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar vegna erfiðleika útgerðar á Norðurlandi og var furðulegt að heyra ummæli Ragnars Arnalds um það mál.

Gerbreyting hefur orðið til batnaðar í tolla- og skattamálum á viðreisnartímabilinu og heildarskattheimta hins opinbera á borgurunum er nú hér minni en í flestum nálægum löndum, beinir skattar miklum mun lægri og söluskattur lægstur hér á Norðurlöndum. Var næsta kaldhæðnislegt að heyra Halldór E. Sigurðsson fordæma núv. ríkisstj. fyrir skattaæði, þegar hafðar eru í huga hinar dæmalausu skattaálögur í fjármálastjórnartíð Framsfl. Eigi síður blygðunarlaust var hjá sama ræðumanni að halda fram þeim ósannindum, að ríkið sé í vanskilum við sveitarfélögin um 1 milljarð kr.

Það er höfuðviðfangsefni næstu ára að treysta og efla undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og gera ný átök til að hagnýta auðlindir landsins. Það verður mikið vandamál að sjá hraðvaxandi þjóð fyrir nægri atvinnu, því að trygging lífskjaranna er einmitt fólgin í fækkun mannshandanna við framleiðsluna. Það er því mikilvægt að hafa augun opin fyrir nýjum viðfangsefnum. Það mun ekki gleymast, hverjir voru andvígir álbræðslu og kísilgúrverksmiðju. Afrek hafa verið unnin í uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega á síðustu árum. Verðlag hefur verið hagstætt í sjávarafurðum, en árgæzka síður en svo meiri en oft áður. Síld hefur verið áður austur í hafi, meðan engin veiddist hér við land. Með miklu framtaki útvegsmanna og vegna efnahagsmálastefnunnar hefur nú verið á fáum árum byggður stór floti nýtízku síldveiðiskipa, sem flutt hefur hinn mikla afla að landi. Þannig hefur vélvæðing og tækni haldið innreið sína á mörgum sviðum og þarf enn að aukast. En öll þessi stóru átök í þjóðfélaginu, sem gerbreytt hafa lífskjörum þjóðarinnar og aukið henni trú á framtíðina og á mátt sinn og megin, hafa farið fram hjá forystumönnum stjórnarandstöðunnar. Þeir hafa ekki séð til sólar allt þetta tímabil. Jafnhliða því, sem atvinnuvegirnir auka fjármuni sína um þúsundir milljóna, eru þeir komnir á vonarvöl að dómi stjórnarandstæðinga. Að þeirra dómi eru síðustu 8 ár tímabil hinna glötuðu tækifæra.

Þessir svartsýnismenn biðja nú þjóðina um að velja sig til forystu. Þeir fara ekki dult með það, að þeir ætla að stefna inn á nýjar brautir. Frelsið er þeim þyrnir í auga. Allt hlýtur að ganga á tréfótum, nema pólitískir eftirlitsmenn raði framkvæmdum og úthluti leyfum til þeirra, sem þóknanlegir eru taldir. Allar vestrænar þjóðir hafa hafnað haftastefnunni. „Hin leiðin“ er að vísu af stjórnarandstæðingum búin í sætlegan þokuhjúp og kölluð skipulagt frelsi. Sjálfstfl. boðar þjóðinni áframhald þeirrar frjálslyndu efnahagsstefnu, sem á fáum árum hefur gerbreytt til batnaðar hinu íslenzka þjóðfélagi. Hann býður ekki þjóðinni nein óséð hnífakaup. Hann biður um það eitt að verða dæmdur af verkum sínum og varar þjóðina alvarlega við afleiðingum þess, ef ríkjandi stjórnarstefnu verður hafnað og stöðnun og spilling haftakerfisins heldur á nýjan leik innreið sína. Mennirnir, sem gáfust upp á brún hengiflugsins 1958, mega ekki fá tækifæri til að leiða þjóðina fram af brúninni. Það væri þjóðarógæfa. Góða nótt.