07.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1967

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þeim tölulegu upplýsingum, sem fylgja þeirri skýrslu, sem hæstv. fjmrh. hefur nú flutt, var ekki útbýtt fyrr en á þessum fundi og hefur lítið tóm gefizt til þess að kanna þær, þó að ýmsar af þeim tölum hafi að sjálfsögðu áður verið kunnar. Mér sýnist strax augljóst af þeim tölum, sem hér eru ráðgerðar fyrir árið 1967, að um enga stefnubreytingu sé að ræða hjá hæstv. ríkisstj. og að ekki beri mikið á viðleitni hér til þess að spjara sig við að rækja þau opinber framkvæmdaverkefni, sem vanrækt hafa verið á undanförnum árum.

Ég mun þó ekki gera hér að umræðuefni einstakar tölur og einstaka þætti í skýrslu fjmrh. Það er eðlilegt, að þær skýrslur, sem fram hafa verið lagðar, séu athugaðar og það gefast sjálfsagt önnur tækifæri til þess að ræða þær, en á hinn bóginn gefur skýrsla hæstv. fjmrh. tilefni til nokkurra almennra athugasemda.

Óstjórnin í framkvæmdamálum hér á landi hefur ásamt óðaverðbólgunni verið eitt megineinkennið á ísl. efnahagslífi undanfarin ár. Í mesta góðæri, sem yfir landið hefur komið, hafa opinberar framkvæmdir lent í megnasta ólestri og orðið fyrir barðinu á hnífnum hjá hæstv. ríkisstj. oftar en einu sinni, þegar hún hefur þurft að gera ráðstafanir til að hella meiri fjármunum í verðbólgufenið.

Þó að hér í landi séu nú orðnar nærri 40 þús. bifreiðar og þó að við flytjum nú inn á ári hverju hátt á fimmta þúsund eða 5 þús. bifreiðar, ef ég man rétt, eru fjölförnustu vegir landsins að verða algerlega ófærir langtímum saman. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir um þetta leyti í fyrra, þegar hann flutti skýrslu af svipuðu tagi, að fjárhagsgrundvöll skorti fyrir framkvæmdir í þessum efnum. Og hann endurtók þá yfirlýsingu hér í skýrslu sinni áðan, þó að hann í öðru orðinu væri nokkuð drjúgur yfir því, að vegaframkvæmdir mundu nú aukast frá því, sem hefði verið. Það er nú ástæða til að benda á það, hver sú aukning raunverulega sé, sem hæstv. ráðh. var svo drjúgur yfir. Í töflu V hér í þessum plöggum, sem útbýtt hefur verið, má sjá, að fjármunamyndun í vegum og brúm hefur á undanförnu 5 ára tímabili numið að jafnaði 182 millj. kr. á ári, miðað við verðlag ársins 1966, og nú er gert ráð fyrir því, að þetta hækki upp í 200 milljónir. Þetta eru nú öll ósköpin. En aftur endurtekur hæstv. ráðh. þá yfirlýsingu, að fjárhagsgrundvöll skorti fyrir bráðnauðsynlegar aðgerðir í vegamálum og skýrir frá því, að hvorki Vesturlandsvegur né Suðurlandsvegur muni koma til neinna framkvæmda á þessu ári.

Skortur á skólahúsnæði í landinu fer vaxandi. Sjúkrahúsmálin hafa verið í sviðsljósinu nú að undanförnu. Hæstv. heilbrmrh. hefur keppzt við að sína fram á, að sífellt sé eytt til sjúkrahúsabygginga meiru og meiru fé, og hæstv. fjmrh. vildi halda því sama fram hér áðan um skólabyggingar. Ég hef ekki kannað, hvað rétt kann að vera í þeim fullyrðingum, en séu þær réttar, sýnir ekkert betur óstjórnina í framkvæmdamálum en hvað lítið verður úr þeim fjármunum.

Það er enginn vafi á því, að þjóðin finnur mjög til þess og það er flestum ljóst, hversu alvarlegt stjórnleysisástandið í framkvæmdamálum þjóðarinnar er orðið, og hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar virðast einnig gera sér þetta ljóst, því að nú, þegar kosningar eru að nálgast, verður vart talsverðrar viðleitni af hálfu stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstj. til þess að láta líta svo út sem nú eigi að fara að starfa eitthvað skipulegar en gert hefur verið og nú eigi að fara að taka upp einhvers konar skipulag og áætlanir. Þetta hefur komið fram með ýmsum hætti hér á hæstv. Alþ. að undanförnu. Ég skal ekki eyða tímanum í að rekja það, það má nú nefna þá alkunnu skipulagstiltekt hæstv. ríkisstj., þegar nú er talin á því hin mesta nauðsyn að loka einhverju talsverðu af þeim frystihúsum, sem byggð hafa verið á undanförnum árum. Að vísu teljum við sumir, að þar sé svolítið öfugt að farið og hefði nú átt að hugsa um skipulag svolítið fyrr, en það er nú annað mál. Umr., sem hér urðu á hv. Alþ. fyrir páskana um sjávarútvegsmálin, vörpuðu líka ljósi á það stjórnleysi og skipulagsleysi, sem verið hefur á málum á því sviði. Og í framhaldi af því birtist svo frv. frá allmörgum hv. þm. Sjálfstfl. um að setja nú á stofn nýtt apparat til þess að finna út einhverja stefnu í sjávarútvegsmálum. Einn lið í þessari viðleitni hæstv. ríkisstj. til þess að villa á sér heimildir má nefna frv. til l., sem lagt var fram í hv. Ed. nú fyrir nokkru, um skipulag framkvæmda á vegum ríkisins. Alvaran á bak við það var nú ekki meiri en svo, að þegar til kom, var ekki ætlunin að afgreiða það frv., og það má nú raunar segja í því tilfelli, að það var bættur skaðinn, því þó að meginhugsunin, sem á bak við það frv. liggur, sé rétt og eðlileg, er frv. svo illa úr garði gert, að það var óhugsandi, að hægt væri að samþ. það nema með mjög verulegum breytingum.

Nú, og síðasta viðleitnin frá hæstv. ríkisstj. í þessu efni er svo sú skýrsla, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið í dag, til þess að láta líta svo út sem hæstv. ríkisstj. ætli að fara að vinna eftir áætlun og nú hefur verið lagt fram það, sem kallað er framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1967, en fjórðungur liðlega af því ári er nú raunar þegar liðinn. Þegar talað er um framkvæmdaáætlun, er þýðingarmikið, að menn geri sér grein fyrir, hvað menn eiga við, þegar um það er talað. Minn skilningur á slíku hefur alltaf verið sá, að þar sé um að ræða áætlun, sem feli í sér stefnumótun — feli í sér markmið, sem keppt skuli að, og þeim tækjum, sem þjóðfélagið ræður yfir, skuli einbeitt skv. þeirri áætlun að þeim markmiðum. Því fer víðs fjarri, að hér sé um slíka áætlun að ræða eða neitt þvílíkt, enda kom það greinilega fram í máli hæstv. fjmrh., að hér er um allt annars konar áætlun að ræða. Hér er um að ræða getgátur um það, hvað muni gerast, ef heldur áfram svo sem horfir. Þetta kom fram í orðalagi hæstv. ráðh. líka, þegar hann var að skýra frá þeim tölum, sem hann birti fyrir árið 1967, þá sagði hann: „eins og telja má sennilegt, að það verði“ í einu tilviki. Í öðru tilviki sagði hann: „Sennilegt er, að þetta muni reynast“ svo og svo. Þetta kalla ég ekki framkvæmdaáætlun. Þetta er getgáta um það, hvað muni verða uppi á teningnum í stjórnleysisástandinu, enda er sannleikurinn sá, að eins og hæstv. ríkisstj. hefur hagað málum, er næsta lítill grundvöllur fyrir gerð framkvæmdaáætlana af því tagi, sem ég er að tala um, sem eitthvert hald eða gagn væri í.

Það hefur komið fram af hálfu forstjóra Efnahagsstofnunarinnar við ýmis tækifæri, en sú stofnun er væntanlega sú eina, sem hugsanlega gæti gert eitthvað í þessa átt, að Efnahagsstofnunin hafi engin tök á því að gera raunverulegar framkvæmdaáætlanir, eins og hennar högum sé nú háttað. Það hefur heldur ekki farið fram nein rannsókn né athugun á fjárfestingarþörfum eða framkvæmdaþörfum í atvinnuvegunum. Einn alvarlegasti þátturinn í þróun framkvæmdamála á undanförnum árum er það mikla misvægi, sem hefur átt sér stað milli þróunar í einstökum þáttum atvinnulífsins. Hér verður ekki vart við neina tilburði til þess að rétta þann halla af eða leiðrétta það misvægi. Hér er raunar ekki um neina stefnu að ræða. Hér er um að ræða áætlun um það, hvað mikið fé ýmsir opinberir sjóðir þurfi til þess að láta hlutina veltast áfram með svipuðum hætti og gert hefur verið. En útlánastefna er engin, hvorki í þessu né öðru. Hæstv. ríkisstj. hefur haft mikla trú á því hagstjórnartæki, sem hún kallar ráðstafanir í peningamálum, þ.e.a.s. binding sparifjár, útlánatakmarkanir hjá bönkum og lánastofnunum, en að nokkur stefna hafi nokkurn tímann verið lögð um það, hvernig útlánum skuli í rauninni hagað, að hvaða marki lánapólitík í landinu skuli yfirleitt stefna, það hefur aldrei skeð, það er víðs fjarri og slíkt er ekki heldur hér að finna. En kjarni málsins í þessu sambandi er ekki fólginn í þeim krónufjölda, sem látinn er renna í gegnum ákveðna sjóði, til þess að framkvæma eitthvað, sem menn hafa í rauninni ekki gert sér hugmynd um, hvað skuli vera, heldur í hinu, hvernig þeir fjármunir, sem notaðir eru, nýtast.

Í frv., sem ég nefndi áðan, um skipulag á framkvæmdum ríkisins, er að finna nokkra lýsingu á því, hvernig fjármunirnir nýtast í því efnahagsástandi, sem hér hefur ríkt að undanförnu. Þar segir m. a. í skýrslu til fjmrh. frá þeirri n., sem hefur undirbúið það frv.: „Til grundvallar skipunar n. um opinberar framkvæmdir mun hafa legið sú vissa, að opinberar framkvæmdir hér á landi séu að jafnaði dýrari en vera þyrfti. N. telur þessa ályktun rétta og telur liggja til þess fjölmargar orsakir, sem hún telur ógerlegt að gera tæmandi grein fyrir. Viðleitni til að finna slíkar orsakir og fyrirbyggja þær hlýtur eðli málsins samkv. að vera verk, sem er óaðskiljanlegur hluti vinnunnar við undirbúning verka og framkvæmd þeirra, og verður aldrei lokið.“ Enn fremur segir: „Nokkrar helztu orsakirnar vill n. draga saman hér á eftir, orsakir, sem lúta að stefnu í fjármálum opinberra framkvæmda. Ráðizt er í fleiri framkvæmdir í einu en fjármagnið leyfir, sem til þeirra er veitt, svo að unnt sé að halda hverju verkefni áfram með þeim hraða, sem nauðsynlegur er, til að hagkvæm framkvæmd verkanna geti átt sér stað. Þessi aðferð hefur keðjuverkandi áhrif, sem öll leiða til óhæfilegs kostnaðar hvers mannvirkis og fækkunar þeirra mannvirkja, sem lokið er ár hvert. Sífelldur fjárskortur veldur töfum, sem verða beinn kostnaðarauki og draga auk þess verk óeðlilega á langinn og valda þannig óbeinum aukakostnaði. Fjárskortur veldur því, að hugsun þeirra, sem framkvæma verkin, beinist meira að fjáröflun en góðri nýtingu fjárins. Fjárskorturinn leiðir viljandi eða óviljandi til heimildarlausra fjárskuldbindinga og samsafns af reikningum, sem ekki eru tök á að greiða, þegar þeir eru gjaldfallnir.“

Þetta fjallar um framkvæmdir þess opinbera, en það liggur auðvitað í hlutarins eðli, að þetta getur alveg eins átt við ástandið í framkvæmdamálum þjóðarinnar yfirleitt, þegar engin viðleitni er sýnd til þess að raða framkvæmdaverkefnum upp í hæfilega forgangsröð, með tilliti til þarfa þjóðfélagsheildarinnar. Við höfum raunar dæmi um það frá næstliðnum árum, hver áhrif þessa ástands verða hér. Rétt fyrir seinustu kosningar birti hæstv. ríkisstj. þjóðhags- og framkvæmdaáætlun og sú áætlun, eða réttara sagt fjáröflunin í sambandi við hana, var að verulegu leyti byggð á erlendri lántöku. Það eru ófagrar sögur af því, hvernig því láni var í einstökum tilfellum varið. Ég skal nú ekki fara út í það, en víst er um hitt, að þegar það fé var sett út á framkvæmdamarkaðinn, án þess að neinar ráðstafanir væru gerðar til að tryggja, að það þýðingarmesta kæmist fram, þá verkaði þetta auðvitað eins og olía á verðbólgueldinn með svipuðum hætti og lýst var í þeim kafla, sem ég las úr skýrslu n., sem undirbjó frv. um skipulag framkvæmda á vegum ríkisins, hér áðan. Fjármagnið ézt upp í óstjórninni, í verðbólgunni, sem leiðir af skipulagsleysinu, ef ekki er reynt að skapa stefnu og hafa forystu í framkvæmdamálum þjóðarinnar. Ríkisvaldinu er skylt að marka þá stefnu og veita þá forystu.

Sú skýrsla, sem hér hefur verið gefin, og þau plögg, sem henni fylgja, virðast ekki benda til þess, að hæstv. ríkisstj. geri sér þessa staðreynd ljósa. Þess vegna er hér ekki um að ræða framkvæmdaáætlun í þeim skilningi, sem þarf að leggja í það orð, í þessu felst engin stefna, það felast getgátur um það, hvað ske muni, ef haldið er áfram svo sem horfir, og það fer nú að verða fleirum og fleirum ljóst, að ekki verður hjá því komizt að taka þessi mál öðrum tökum en gert hefur verið. Kjarni málsins er ekki fólginn í því, hvort hægt er að kría út innanlands eða utan einhverjar lánskrónur til þess að skrifa á blað, að þessar krónur megi nota fyrir þessu eða hinu. Kjarni málsins er ekki fólginn í því, heldur í hinu, hver framkvæmdageta þjóðarinnar í raun og sannleika er, við hana miðast það, sem við getum komið í framkvæmd. Og á undanförnum árum er það alveg ljóst, eins og greinilega kom fram í því nál., sem ég áðan las, að það hefur verið bruðlað með framkvæmdagetu þjóðarinnar. Framkvæmdagetan markast af því vinnuafli, þeim vélum og þeirri verktækni, sem þjóðin hefur yfir að ráða, og það verkefni, sem við stöndum frammi fyrir í þessu sambandi, er tvíþætt, annars vegar að auka framkvæmdagetuna svo sem mest má verða með bættri verktækni, auknum vélbúnaði, og við það verður að miða fjármála- og útlánastefnu í landinu, og hins vegar að tryggja það, að framkvæmdagetan nýtist til fulls við þau verkefni, sem þjóðinni í heild eru nauðsynlegust.

Viðleitni í þessa stefnu hefur ekki komið fram hjá hæstv. ríkisstj., hvorki nú eða í annan tíma. Þess er sjálfsagt ekki af henni að vænta, miðað við það, sem á undan er gengið, en eigi að síður hlýtur að verða að harma það.