08.04.1967
Sameinað þing: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að ræða margt, sem komið hefur fram hjá þeim hv. þm., sem gert hafa frumræðu mína hér að umræðuefni, en þar sem tími er naumur, skal ég ekki fara langt út í þá sálma. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að ræða þær hugmyndir, sem komu fram hjá hv. 6. þm. Sunnl. um áætlunargerð og hvaða marki hún eigi að þjóna. Ég vil ekki fara langt út í það, en aðeins vekja athygli á þeirri staðreynd, að það er alveg hárrétt hjá honum, að það er hægt að haga áætlunargerð með vissu móti og út frá vissum grundvallarsjónarmiðum. Það er engum efa bundið, að það er hægt að hafa meiri áhrif með áætlunargerð, sem byggist á beinum höftum og ríkisafskiptum, og það er rétt, að sú áætlunargerð, sem hefur verið stunduð hér, og það, sem ég gerði hér að umtalsefni á því sviði, er ekki með það sjónarmið í huga, heldur byggist það á því kerfi frjálsræðis í athöfnum og viðskiptum, sem tekið var upp með stjórnarstefnunni 1960 og það er að sjálfsögðu sú meginstefna, sem hefur haft áhrif á það, hvernig áætlunargerðin er útbúin. Hitt er þó ekki rétt, að þetta sé allt látið vera tilviljunum háð. Það er að vísu satt, að það er fyrst og fremst um að ræða hreina áætlun eða við getum sagt ágizkun út frá ýmsum forsendum varðandi það, hvernig þessi stefna í viðskiptamálum og fjármálum, sem tekin hefur verið upp, mundi hafa áhrif á eflingu atvinnuveganna og fjárfestingu innan þeirra á vegum einkaaðila, en að öðru leyti er um að ræða miklu ákveðnari hugmyndir og ákveðna stefnu í sambandi víð fjárfestingu hins opinbera. Og það er fyrst og fremst það, sem áætlunargerðin sem slík og fjáröflun á hennar vegum hefur beinzt að. Hún hefur verið tvíþætt, annars vegar fjáröflun til framkvæmdasjóða atvinnuveganna og það hefur verið fengið á vald forráðamanna þeirra sjóða að meta það, hvað auðið væri að gera á sviði einstakra atvinnuframkvæmda og hvert ætti að beina fjármagninu, en ríkisvaldið ekki tekið það að sér í formi neinna sérstakra nefnda, eins og áður var, en á hinn bóginn hefur verið gerð ákveðin fjármagnsáætlun og fjáröflunaráætlun varðandi hinar opinberu framkvæmdir á ári hverju, og það hefur að sjálfsögðu verið um tiltekna áætlunargerð að ræða og röðun framkvæmda innan þess ramma, hvað snertir hið opinbera sjálft. Það er ekkert launungarmál, að á þessu byggist áætlunin og ég held hins vegar og um það fjallaði mín greinargerð, að það sé ekki ástæða til þess, nema síður sé, að gagnrýna það, hvernig þessi stefna hafi reynzt í framkvæmd. Hún hefur að vísu farið langt fram úr ramma áætlunargerðarinnar, sem var eðlilegt vegna þeirrar þróunar, sem verið hefur í okkar efnahagsmálum, en að öðru leyti held ég að ekki sé hægt að segja, að hún hafi þróazt með óeðlilegum hætti eða inn á óeðlilegar brautir, nema síður sé. Ég læt útrætt um það, en eins og ég sagði, þá væri það vissulega viðfangsefni út af fyrir sig að ræða um áætlunargerðir og hugsunina, sem á bak við þær liggur. Það er aðeins nauðsynlegt, tel ég, að gera sér grein fyrir því, að ef menn vilja taka þær upp með nýju formi og á þann veg, sem hv. þm. virtist helzt telja æskilegt, þá verður það ekki gert nema með auknum ríkisafskiptum í einhverju formi:

Hv. 5. þm. Austf. ræddi ýmis atriði málsins og gagnrýndi þó sérstaklega, hvernig að þessari áætlun hefði verið unnið og að þetta hefði verið utan veggja þingsins, sem þessi framkvæmdaáætlun var gerð og þinginu naumast frá henni skýrt. Þetta er að vissu leyti rétt. Þetta er vinnuplan, sem ríkisstj. hefur gert sér varðandi þær framkvæmdir, sem nauðsynlegt er að sinna, og mat á þeirri fjáröflun, sem er talin óumflýjanleg vegna fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna hverju sinni, og sem ríkisstj. hlýtur, eðli málsins samkvæmt, hverju sinni að verða að sinna, en það er hins vegar ekki rétt, að fram hjá Alþ. sé gengið með þau atriði þessa máls, sem beinlínis varða ríkið og ríkisframkvæmdir, vegna þess að á hverju ári eru lagðar fyrir þingið till. í frv. formi um þær lántökur, sem nauðsynlegar eru til ríkisframkvæmda, þannig að Alþ. fær að segja til um það, hvort það vill veita ríkisstj. þetta fé og þá til þeirra þarfa, sem tilgreindar eru í þessu frv. Og einmitt nú liggur fyrir Alþ. frv., þar sem óskað er eftir heimild þingsins til þeirra fjárráðstafana, sem nauðsynlegar eru vegna opinberra framkvæmda á árinu 1967. Hvort hægt er að gera Alþ. grein fyrir þessari áætlun fyrr á árinu, eins og hv. þm. lagði áherzlu á, þá kann það að vera, en reyndin hefur þó verið sú, að þetta hefur ekki reynzt kleift. Það hefur verið reynt að vinna að þessum málum eins ötullega og auðið hefur verið, en í rauninni er ekki hægt í alvöru að sinna þessu fyrr en um áramót, eftir að ljóst er um fjárveitingar í fjárlögum og fyrir liggur miðað við reynslu s.l. árs, hvernig er ástatt um fjárfestingarlánasjóði atvinnuveganna. jafnframt þarf að meta horfurnar á því ári, sem áætlunin fjallar um, enda koma framkvæmdir þær, sem hér er um að ræða, yfirleitt ekki til fyrr en undir mitt ár, þannig að það veldur ekki neinni stöðnun í þeim, þó að þessi vinnubrögð séu við höfð, og ég sé ekki af minni reynslu af þessum málum, að auðið sé að haga þessum vinnubrögðum með öðrum hætti.

Hv. þm. gerði hér sérstaklega eina fyrirspurn varðandi byggingaráætlun ríkisins, þar sem hann taldi það til marks um lítinn áhuga á málinu, að tölurnar í áætluninni væru innan sviga, og sannast sagna þá er e. t. v. vafasamt að taka þetta inn í þessa framkvæmdaáætlun. Ástæðan til þess, að tölurnar eru innan sviga er sú, að hér er um algjöra bráðabirgðaáætlun að ræða, og sú áætlun er einmitt nú í endurskoðun og líkur til, að það fjármagn verði jafnvel ekki svo mikið, sem þarf á þessu ári, eins og þarna er gert ráð fyrir. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að þetta lenti að einhverju leyti á byggingarsjóði ríkisins, enda ekkert óeðlilegt. Ég tel hins vegar ekki eðlilegt, að fjáröflun til þessara framkvæmda verði til að skerða lánsfé til bygginga, t.d. annars staðar á landinu heldur en þar sem þessi hlunnindi eru veitt. Það hlýtur að sjálfsögðu að létta á öðrum byggingum á Reykjavíkursvæðinu, að þessi stórfellda áætlun er gerð og fyrst og fremst mun það hafa vakað fyrir mönnum að tryggja það, að hér yrði ódýrt húsnæði og tryggja það, að þeir, sem væru efnalitlir, gætu hér fengið húsnæði, en ekki að það mætti með engum hætti nota fé byggingarsjóðs ríkisins til þess að mæta þessum vanda. Að hve miklu leyti það verður gert, skal ég ekki um segja, en það er full ástæða til þess að halda, að það geti verið innan þess ramma, sem er vel viðráðanlegt. Það hefur verið endanlega samið við atvinnuleysistryggingasjóð um þessar 30 millj. kr. Hvort þarf eitthvað meira á því sviði umfram það, sem byggingarsjóður getur lagt fram, skal ég ekki um segja. Það má geta þess einnig, að innan þessa ramma er kostnaðarhluti Reykjavíkurborgar, sem þarna er ekki reiknaður með, en sem Reykjavíkurborg leggur fram, en að öðru leyti vil ég nú ekki á þessu stigi málsins fara nánar út í þetta, vegna þess að svo vill til, að það liggur hér fyrir hv. Alþ. sérstök fsp. um þetta mál, sem hæstv. félmrh. mun svara, innan skamms og mun þá gera ýtarlegri grein fyrir þessu máli. Og ég vonast til, að við hv. 5. þm. Austf. getum sætzt á að bíða þeirrar grg., þannig að ég þurfi ekki að fara að rekja það mál í einstökum atriðum hér. En þá má vænta þess, að það komi fram nákvæmar skýringar á því, hvernig ástand og horfur eru varðandi framkvæmdir og fjáröflun á þessu sviði.

Hv. 1. þm. Austf. lagði áherzlu á, að það væru tvö atriði, sem væru sérstaklega mikilvæg í sambandi við það, sem ég hefði sagt í minni ræðu, og væru hvor tveggja merkileg. Annað atriðið, sem hann að því er mér skildist taldi nú merkast, get ég ekki séð, að sé á neinn hátt merkilegt. Og það er, að það sé erfitt að gera nú langtímaáætlun vegna þeirrar óvissu, sem sé ríkjandi. Það gerir það ekkert auðveldara að gera þessa áætlun, þó að samþ. hafi verið og ákveðin verðstöðvun til eins árs. Það vita allir, að það þarf að gera einhverjar ákveðnar ráðstafanir í framhaldi af þeirri verðstöðvun og það þarf auðvitað að nota þetta tímabil til þess að gera sér grein fyrir, hvernig staðan verður varðandi ástand útflutningsframleiðslunnar, þegar að lokum þessa tímabils kemur og vinna að því að fá þá samkomulag þeirra aðila, sem þessi mál varða, um eðlilega þróun í verðlags- og kaupgjaldsmálum að því tímabili loknu, miðað við það ástand, sem útflutningsframleiðslan þá býr við. Þetta held ég, að hljóti að vera ljóst öllum mönnum. Það er hins vegar svo mikil óvissa um framtíðarhorfur varðandi verðlag útflutningsframleiðslunnar, sem hlýtur að sjálfsögðu að hafa áhrif á þróun hennar og inn á hvaða brautir hún fer. Ef um varanlega verðlækkun verður að ræða á einstökum liðum meira en á öðrum liðum, hlýtur þróun framleiðslunnar sjálfrar að breytast og beinast inn á nýjar brautir og vitanlega er það fyrst og fremst forsenda áætlunargerðar sem þessarar að reyna að gera sér grein fyrir, hverjar þjóðartekjur og þjóðarframleiðsla sé, og hvað verði til ráðstöfunar til þess að mæta þeim framkvæmdum, sem áformaðar eru og taldar sennilegar innan ramma áætlunargerðarinnar. Þess vegna held ég ekki, að það geti vakið undrun neinna, þótt sú skoðun komi fram, að það sé eðlilegt, bæði af þessum sökum og einnig af því, að áætlunargerðinni er ekki þegar lokið og það eru framundan kosningar og rétt, að ríkisstj., sem þá verður, hver sem hún verður, fái þá tækifæri til þess að leggja lokahönd á þá áætlun, að hvort tveggja þetta geri það að verkum, að það sé síður en svo ámælisvert, að þessi næsta fjögurra ára áætlun hafi ekki verið endanlega fullgerð nú, heldur látið nægja að leggja fram fjáröflunar- og framkvæmdaáætlun fyrir yfirstandandi ár. Ég held ekki, að þetta geti verið neinn sérstakur áróðursgrundvöllur í sambandi við framhaldsdeilur um stjórnmálin á næstu vikum og mánuðum. En ef þetta getur þjónað í þá átt að verða einhver punktur í „hina leiðina“, er þetta gott og blessað. Ekki mun af veita að fá einhvern efnivið í hana.

En það, sem mér finnst nú merkilegra mál og vissulega rétt að ræða um, er það, sem hv. þm. sagði um bankana og lánakerfið. Hv. 6. þm. Sunnl. sagði að vísu hér í gær, að ámælisvert væri, að það væri sýnilegt, að ekki ætti að sinna mörgum verkefnum í framkvæmdaáætlun þessa árs og taldi, skildist mér, að þar væri of lítið að gert en hitt. Hv. 1. þm. Austf. bendir hins vegar á, að hér sé við að glíma mikinn vanda hjá bönkum landsins og þess vegna verði að hafa hóf í þessum efnum. Vegna reynslu hans og þekkingar geri ég ekki ráð fyrir, að hann sé talsmaður þess að fara hömlulaust að taka erlend lán, nema þá að því marki, sem er beinlínis í þágu aukningar útflutningsframleiðslu þjóðarinnar og það er sú meginstefna, sem fylgt hefur verið við erlendar lántökur á undanförnum árum. Ég geri nú sannast sagna heldur ekki ráð fyrir, að það sé skoðun hans, að það eigi að verja í stórum stíl fé út úr Seðlabankanum, eins og ástatt er, til þess að lána í fjárfestingarframkvæmdir. En látum það vera. Hann vék að því, að með þessum ráðstöfunum væri núna sérstaklega þrengt að bankakerfinu umfram það, sem verið hefði. Þetta er mikill misskilningur. Það er að vísu rétt, að sparifjáraukning er ekki, það sem af er þessu ári, minni heldur en hún var um sama leyti í fyrra, þannig, að maður sér ekki nú, hver útkoman verður á þessu ári. En það, sem er ætlunin að leggja á bankana sem aukin útgjöld í þessu efni, er aðeins 25 millj. kr. aukning í sölu spariskírteina, — að svo miklu leyti sem gera má ráð fyrir, að það sé fé, sem fari út úr bönkunum. En það, sem beðið er um frá bönkunum að öðru leyti, er sama prósenttala eins og í fyrra af aukningu sparifjár og það er áætlað, að það sé mun lægri upphæð í krónutölu, af því að áætlunin er nú ekki hærri en hún er. Hitt er svo aftur á móti rétt að benda á á móti, vegna þess að hv. þm. talaði um, að þessu væri ekki hægt að mæta nema á þann hátt að draga úr bindiskyldu, að bindiskyldan mun mjög minnka á þessu ári af eðlilegum ástæðum. Bindiskyldan var aukin upp í 30% á s.l. ári af innlánsaukningunni, en hámarksbinding er bundin við 20%, og á s.l. ári munu flestar stofnanir hafa greitt 30% bindingu, bindiskyldu, en eins og nú standa sakir munu allar helztu lánastofnanir vera komnar upp í hámark, þannig að bindingin á þessu ári verður ekki nema 20% í staðinn fyrir 30% í fyrra, þannig að hér er beinlínis létt af bankakerfinu af þessum sökum og það er ekki ætlun Seðlabankans að auka bindingu, sem þessu nemur, á þessu ári eða sem sagt gera neina aukningu bindingar, þannig að þegar á þetta er litið, kemur í ljós, að hér léttir verulega á bankakerfinu, þannig að ég mundi segja, að hér væri þegar á heildina er litið, beinlínis um minni kvaðir á bankakerfið að ræða heldur en var á s.l. ári. Það er vitanlega alveg rétt hjá hv. þm., að það eru miklar kvartanir um, að erfitt sé með rekstrarfé. Aftur á móti hygg ég ekki, að okkur hv. 1. þm. Austf. greini á um það, að hin geysilega útlánaaukning bankakerfisins síðustu tvö árin bendi ótvírætt í þá átt, að hér sé ekki eingöngu um rekstrarfjárþörf að ræða, heldur hafi féð farið inn á einhverjar fleiri brautir, sem viðskiptabankarnir hafa lánað. Það er nefnilega síður en svo, að það hafi verið þrengt að með rekstrarlán bankanna eða við skulum segja, útlán bankanna, svo að við orðum það almennt, því að á s.l. ári liggur það fyrir, að útlán bankanna munu hafa hækkað um nálægt 40% og á síðustu tveimur árum nálægt 40% og á s.l. ári jukust útlán bankanna um 200 millj. kr. umfram það, sem þeir höfðu til ráðstöfunar, og sem var því beint útstreymi úr Seðlabankanum umfram bindiféð. Það var sem sagt hreint útstreymi úr Seðlabankanum til viðskiptabankanna, sem nam um 200 millj. kr. á s.l. ári. Og útlánaaukning á því ári varð mun meiri heldur en öll sparifjáraukningin á því sama ári. Ég held, að það liggi í augum uppi, að það er miklu fremur hægt að segja, að útlánastarfsemi banka hafi verið ógætileg heldur en hún hafi óeðlilega verið heft á því ári. Hvað kann að vera á þessu ári, skal ég engu um spá, en það er ekkert, sem gefur ástæðu til þess að segja það í dag, að það hafi verið haldið þannig á útlánum bankanna almennt séð, að ráðstöfunarfé þeirra að þessu leyti hafi verið skert. Og það var hinn góði hagur ríkissjóðs, sem hafði sín miklu og góðu áhrif á möguleika bankanna til útlána á s.l. ári og tryggði, að hér var ekki beinlínis um verðbólgumyndandi áhrif í stórum stíl að ræða. Það skal játað, að ekki eru horfur á eins góðum hag ríkissjóðs á þessu ári, þannig að það kann að takmarka á einhvern hátt lánagetu bankanna að þessu leyti eða a.m.k. það, að þeir geti lánað út meira fé heldur en kemur inn í þá.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar, en ég taldi þó nauðsynlegt, að þetta kæmi fram miðað við þessi einstöku atriði, sem á hefur verið drepið af hv. þm. og skal ekki að öðru leyti taka upp almennar umr. um efnahagsmálin.