08.04.1967
Sameinað þing: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

Framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1967

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða meira um óvissuna, við getum gert það síðar, og verður sjálfsagt gert og þá breyt., sem orðin er á í sambandi við áætlunargerðina. En það hefur ekki mikið verið talað um óvissu í þessum efnum undanfarið, þegar talað hefur verið um slíkar áætlunargerðir, svo að okkur er það ljóst, að eitthvað hefur bilað í einhverju í þessu sambandi og einhvers staðar. Og það verður áreiðanlega rætt um það, hvað það er, sem hefur bilað.

Ég vil svo segja það, að mér urðu það mikil vonbrigði, að mér finnst hæstv. ráðh. ekki hafa nógu góðan skilning á því, hvernig ástatt er um reksturslánaveitingar í landinu um þessar mundir. Ástandið í þeim efnum er alveg geigvænlegt og hættulegt og hefur áreiðanlega stórkostlega hættulegar afleiðingar í för með sér, ef ekki verður úr því bætt. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel ekki fært að halda áfram þeirri bindingu, sem nú er, og jafnvel þó að þessar breyt, hafi orðið á henni vélrænt, sem hæstv. ráðh. gat um, þá tel ég, að það sé alveg óhjákvæmilegt að minnka sparifjárbindinguna, breyta reglunum og minnka sparifjárbindinguna frá því, sem nú er, ef á að láta viðskiptabankana leggja inn í fjárfestingarplanið þetta fjármagn, sem fyrirhugað er, og ef ætlunin er að drífa í sölu öll þau sparifjárskírteini, sem talað hefur verið um. Þetta, verði að gera til þess að bjarga frá hættulegum afleiðingum þess í atvinnurekstrinum, hjá framleiðslulífinu og hjá þjónustufyrirtækjunum, óhjákvæmilega verði að minnka sparifjárbindingu.

Ef menn alls ekki vilja það, endurtek ég þá skoðun, sem ég setti fram áðan, því að mér fannst, að það hefði eitthvað farið fram hjá ráðh. í því, að ég tel, að það sé heilbrigt, eins og nú standa sakir, og eðlilegt, að í staðinn yrði farin sú leið, að Seðlabankinn legði meira fé beint í fjárfestingaráætlunina en gert er ráð fyrir. Ég endurtek þessa skoðun, og það getur Seðlabankinn gert og er eðlilegt. að hann geri, eins og nú er ástatt vegna þess hversu mikið fé hann tekur frá bankakerfinu inn til sín í bindingunni, og einnig m. a. vegna þess, hve ríkissjóður hefur mokað stórkostlega fé inn í Seðlabankann á s.l. ári eins og mun koma fram, þegar hæstv. ráðh. gefur skýrslu sína hér á eftir um afkomu ríkissjóðs.

Það er ekki aðeins, að Seðlabankinn hafi fengið þetta bindingarfé, sem við þekkjum, heldur hefur einnig verið mokað inn í hann fé með því að leggja skatta á þjóðina langt umfram það, mörg hundruð millj. umfram það, sem ríkissjóður þurfti á að halda og því hefur nálega öllu verið mokað beint inn í Seðlabankann. Ég tel því, að eins og ástatt er núna með okkar efnahags- og fjármál og atvinnumál, sé fullkomlega eðlilegt, að þessi stofnun, sem er orðin svona gífurlega sterk og sem sópað hefur verið inn í fé frá landsfólkinu með sköttum, eins og gert var á s.l. ári, komi með aukið fjármagn í fjárfestinguna. Og eins og nú standa sakir, verði að leita þangað til þess að fjármagna lífsnauðsynlega fjárfestingu og þ. á m. nýjar stórkostlegar ráðstafanir til þess að auka vélvæðni og hagræðingu í atvinnurekstrinum og annað slíkt til þess að komast út úr þeim mikla vanda, sem orðinn er, og ég tel að þangað sé talsverðs fjár að leita í þessu sambandi, enda hefur því verið þangað skóflað með skattaálögum m. a. og með því að taka hluta af sparifénu og leggja inn í þessa stofnun. Og þegar svona er ástatt, endurtek ég það enn, að það nær engri átt að ætla sér að ganga á rekstrarlánabankana eða viðskiptabankana eins og ráðgert er að gera.