13.10.1966
Sameinað þing: 3. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í upphafi síðasta þings lýsti ég í fáum orðum meginstefnu stjórnarinnar og helztu viðfangsefnum. Þetta var þá eðlilegt vegna þess, hversu langt var liðið frá því, að ríkisstj. hafði tekið við völdum og gefið stefnuyfirlýsingu sína. Yfirlýsingin frá því í fyrra er enn í fullu gildi nema að því leyti, sem lokið er framkvæmd ýmissa þeirra mála, sem þar voru talin. En til viðbótar henni þykir rétt að rifja upp meginstefnu stjórnarinnar og gera í örfáum orðum grein fyrir helztu viðfangsefnum, sem nú blasa við.

Meginstefnan er hin sama og Ólafur Thors lýsti þegar í nóv. 1959: Að tryggja heilbrigðan grundvöll efnahagslífsins, svo að framleiðsla aukist sem örast, atvinna haldist almenn og örugg og lífskjör geti enn farið batnandi.

Vegna þeirra verðlækkana, sem orðið hafa síðustu mánuði á helztu útflutningsvörum landsmanna, eru viðhorfin í efnahagsmálum þjóðarinnar nú önnur en verið hafa undanfarin ár. Hér koma og til greina örðugleikar vegna vaxandi efnivöruskorts hraðfrystihúsanna, sem sprettur af minnkandi afla á veiðieiningu og af samdrætti togaraútgerðarinnar og einbeitingu stórvirkasta hluta bátaflotans að síldveiðum. Að svo vöxnu máli telur ríkisstj., að megináherzlu verði nú að leggja á stöðvun verðhækkana innanlands og helzt, að ekki verði hækkun á innlendu verðlagi frá því, sem var hinn 1. ágúst s.l. Í því skyni að vega upp á móti hækkun búvöruverðs, sem samkomulag varð um í 6 manna nefnd fyrir skemmstu, ákvað ríkisstj. að auka niðurgreiðslur á búvörum og hefur nú til athugunar fleiri ráðstafanir í þá átt til þess að draga úr áhrifum verðhækkana frá 1. ágúst. Skilyrði þess, að stöðvun verðlags fyrir atbeina ríkisvaldsins takist, er að ekki séu gerðar aðrar ráðstafanir, sem leiða hljóta til verðhækkana og veltur þá á miklu, að í þeim efnum takist samvinna milli ríkisstj. og Alþingis annars vegar og stéttarfélaga, verkalýðs og annarra launþega og atvinnurekenda hins vegar.

Þá þarf og skjótlega að taka ákvörðun um, hvort gera eigi með rýmkun veiðiheimilda innan fiskveiðilögsögunnar ráðstafanir til öflunar efnivöru til hraðfrystihúsanna og þar með létta undir með útgerð minni báta og togaranna jafnframt því, sem gerðar verði nauðsynlegar breytingar til að draga úr reksturskostnaði þeirra.

Af einstökum málum, sem lögð verða fyrir Alþ. eða þegar hafa verið lögð auk fjárlagafrv. og þeirra frv., sem eru í sambandi við það og frv. um staðfestingu á brbl. er þessara að vænta í upphafi þings:

Frv. til l. um Landhelgisgæzlu Íslands, frv. til l. um breyt. á l. um bann við botnvörpuveiði í landhelgi, frv. til l. um breyt. á áfengislögum, frv. til l. um fávitastofnanir, frv. til l. um breyt. á l. um almannavarnir, frv. til l. um skipun prestakalla og prófastsdæma, frv. til l. um kristnisjóð, frv. til l. um verðjöfnunargjald af veiðarfærum, frv. til l. um námslán og námsstyrki, frv. til skólakostnaðarlaga, frv. til l. um afnám Viðtækjaverzlunar ríkisins, frv. til höfundarlaga, frv. til l. um greiðslur til höfunda vegna útlána úr bókasöfnum, frv. til l. um breyt. á útvarpsl. vegna íslenzks sjónvarps, frv. til l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, það er sams konar hlutdeild sjómannasamtakanna og Landssambands ísl. útvegsmanna, frv. til l. um áframhald heimildar fyrir landanir erlendra veiðiskipa hér við land, frv. til l. um aðild verzlunarfólks að atvinnuleysistryggingum.

Enn fremur verða endurflutt frv. til l. um réttindi skipstjórnarmanna, um samábyrgð Íslands á fiskiskipum og um bátaábyrgðarfélög, svo og frv. til breyt. á laxveiðilögum.

Síðar á þinginu er að vænta frv. til nýrra heildarlaga um tollheimtu og tolleftirlit, frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda og frv. til l. um listamannalaun.

Í athugun eru frv. um eftirlit með opinberum framkvæmdum, um embættisbústaði og frv. til nýrra bókhaldslaga, svo og er í athugun endurskipulagning félagsheimilasjóðs og íþróttasjóðs.

Unnið er að endurskoðun hafnalaga og málefna Skipaútgerðar ríkisins og raforkulaga, enn fremur að till. um öflun nýrra tekna fyrir vegasjóð, svo og breytingu á l. um almannatryggingar vegna fyrirhugaðs afnáms ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, breytingu á orlofslögum, á l. um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og um rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Einnig er unnið að nýrri heildarendurskoðun á l. um opinbera aðstoð við íbúðabyggingar.

Þá er unnið að samningu frv. til l. um jarðakaupasjóð ríkisins og frv. um hagræðingarsjóð landbúnaðarins.

Það er stefna ríkisstj. að halda áfram að styðjast við sem ýtarlegasta áætlunargerð í viðleitni sinni við að halda jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar. Eins og á undanförnum árum mun verða samin áætlun um opinberar framkvæmdir og starfsemi fjárfestingarlánasjóða á árinu 1967 og fjáröflun í því sambandi. Jafnframt er hafinn undirbúningur að þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1967–1970. Þá mun haldið áfram að vinna að áætlunum um framkvæmdir og atvinnumál í einstökum landshlutum. Hér er þess og að minnast, að um næstu áramót kemur til framkvæmda löggjöf sú, sem síðasta Alþingi samþykkti um Framkvæmdasjóð Íslands, sem ætlað er að auðvelda samræmda heildarstjórn á opinberri fjárfestingu.

Um till. og ráðstafanir ríkisstj. mun sitt sýnast hverjum nú eins og endranær. Minni háttar ágreiningur skiptir litlu máli miðað við það, að nú megi takast að stöðva verðhækkanir innanlands, ella er afkomu helztu atvinnuvega og framleiðslu þjóðarinnar stefnt í voða og þar með því atvinnuöryggi, sem verið hefur traustasti hornsteinn góðrar afkomu almennings um langt skeið.