13.10.1966
Sameinað þing: 3. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að stefna ríkisstj., eins og henni hefði verið lýst í upphafi, væri enn í góðu gildi, og það væri að tryggja heilbrigðan grundvöll framleiðsluatvinnuveganna og þar með atvinnuöryggi. Það er einmitt þessi stefna, sem allan tímann hefur verið að mislukkast. Og afleiðingin af því, að hún hefur verið að mislukkast allan hennar stjórnartíma, er að koma í ljós í dag. Hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. reyna að skjóta sér á bak við þær verðlækkanir, sem nú hafa orðið erlendis á vissum afurðum okkar, en sannleikurinn er, að þessi síðustu fimm til sex ár hefur ríkisstj. fleytt sér á því að fá eindæma verðhækkanir erlendis, og þessi stjórnarstefna hefði verið komin í strand fyrir tveim til þrem árum, ef þær verðhækkanir hefðu ekki dunið yfir.

Nú lýsir hæstv. forsrh. því yfir, að nú verði að stöðva verðhækkanir innanlands. Þetta fyrirheit var gefið sem höfuðboðorð ríkisstj. í upphafi stjórnartímabilsins og meira að segja betur orðað en þetta. Þá var því lýst yfir, að ríkisstj. mundi ekki leyfa verðhækkanir innanlands, þó að kaupgjald hækkaði. Þeir menn, sem hugsuðu þau orð, höfðu auðsjáanlega einhverja hugmynd um atvinnurekstur og að það var eðlilegt, að kaup hækkaði á hverju ári, og að atvinnuréttindastéttin tæki það á sig með því að skipuleggja sinn atvinnurekstur betur. Þetta var hugsunin, sem lá á bak við þá yfirlýsingu, sem var gefin í upphafi stjórnartímabilsins, að ríkisstj. mundi ekki láta verðlag hækka, þó kaupgjald hækkaði. En hvað hefur svo gerzt? Verðlag í landinu hefur tvöfaldazt á síðustu fimm til sex árum, án þess að raunverulegt kaupgjald hafi hækkað. Þessi yfirlýsing hæstvirts ráðh. kemur raunverulega fimm til sex árum of seint eða réttara sagt gerðirnar í þessum efnum. Það hefði verið nær að standa við það 1961, þegar kaupgjaldið var hækkað, að breyta ekki genginu þá og setja verðbólguna af stað. Það er of seint að iðrast eftir dauðann. Ég efast ekki um, að það eru frómar og góðar óskir hjá hæstv. ríkisstj., að hún vill gjarnan reyna að stöðva verðhækkanir, þó að hún sjái það anzi seint, en á slíkri stundu verðum við að reyna að grafast fyrir um, hvernig stendur á þessu, hvernig stendur á, að hæstv. ríkisstj. hefur rekið svona pólitík allan tímann. Af hverju gafst hún upp strax fyrir fimm til sex árum í þessu og fer að tal,a um þessa hluti núna? Og mín trú er sú, að það mein verði ekki læknað, sem við eigum þarna við að glíma, nema grafist verði fyrir orsakir þess, hinar pólitísku orsakir þess. Og þær eru þær, að það er stefna verzlunar- og braskvaldsins í landinu, sem hefur ráðið fyrst og fremst stefnu ríkisstj. allan þennan tíma. Það hefur verið reynt að koma ýmsum öðrum áhrifum að, en það er þessi stefna og það er þetta vald fyrst og fremst, það verzlunar- og braskvald, sem orðið er eins voldugt eins og sjá má á Suðurlandsbraut og víðar hér í Reykjavík, það er það, sem hefur ráðið stefnunni og knúið hana fram. Undir því fagra nafni frelsis eins og frjálsrar verzlunar hefur dýrtíðin verið aukin á 6 árum, þannig að hún hefur tvöfaldazt. Og það, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram til þess að þetta gæti gerzt svo að segja á altari verzlunarvaldsins í Reykjavík, var afnám verðlagsákvæðanna og það heyrðist ekki eitt orð um afstöðuna til þess í yfirlýsingu hæstv. forsrh. Það á kannske að borga niður einhverjar vörur, kannske hjá kaupmönnunum líka. En frelsið til álagningar, sem er undirrótin að allri þessari dýrtíð, það er það, sem fyrst og fremst verður að taka til endurskoðunar meira en nokkuð annað.

Í krafti þeirra einkaréttinda, sem verzlunin og braskið hafa fengið á undanförnum 5–6 árum, hefur t.d. eins og nú síðasta ár 40% af öllum nýjum mannafla þjóðarinnar farið til verzlunar og þjónustu. Í krafti einkaréttinda þessa valds hefur meiri hlutinn af allri lánsfjáraukningu t.d. á síðasta ári farið til verzlunarinnar og lengst af öll þessi ár hefur meiri lánsfjáraukning farið til verzlunarinnar heldur en til sjávarútvegs og iðnaðar samanlagt. Það er þetta vald, sem er meinið, sem við eigum þarna við að stríða, það er þetta vald, sem er að sliga framleiðsluatvinnuvegina og hefur smátt og smátt verið að því allan þennan tíma. Og ef menn þora ekki að horfast í augu við það, lækna menn ekkert í þessum efnum. Við skulum reyna að horfast í augu við staðreyndirnar, eins og þær blasa við í dag. Hrunið, sem hæstv. ríkisstj. hefur undirbúið með 5 ára óðaverðbólgu, er hafið. Það er ekki framundan núna það hrun, það er byrjað. Og það er ekki til neins að ætla að skjóta sér á bak við það í dag, að ef verkalýðsfélögin hækka kaupið, kaup, sem ekki hefur raunverulega hækkað í 7 ár, sé þar með verið að gera einhverja ástæðu til hruns, hrunið er byrjað sem afleiðing af 5 ára óðaverðbólgu, sem afleiðing af 5 ára yfirráðum verzlunarvaldsins yfir allri efnahagsstefnu í landinu. Og þetta hrun heldur áfram nú næstu mánuði af fullum krafti, ef ekki verður breytt um stefnu. Iðnaðarfyrirtækin eru að loka nú þegar. Ýmis stærstu og beztu hraðfrystihús, t.d. í Reykjavík og Hafnarfirði, eru nú þegar að loka og eru að segja upp sínu starfsfólki. Helmingur togaraflotans held ég að sé þegar seldur úr landi miðað við það, sem hann var fyrir nokkrum árum síðan, og hinn helmingurinn á kannske að fara sömu leið með að vera lagt. Þar með er kippt gersamlega grundvellinum undan öllum þeim hraðfrystihúsum og þeirri fiskframleiðslu, sem togararnir hafa fyrst og fremst séð fyrir hráefni hér sunnanlands. Þar með er allur grundvöllurinn til reksturs hraðfrystihúsanna hér syðra að brotna. Það þarf enginn að segja mér, að hann hefði brotnað, ef það væri verðlagið 1961. Smærri bátarnir úti um land eru að stöðvast og grundvöllurinn undir rekstri hraðfrystihúsanna þar er að brotna líka. Það er nauðsynlegt að horfast í augu við þessa hluti og vera ekki að tala um, að þetta sé það, sem blasir kannske við í framtíðinni, ef verkamenn fengju eitthvað hækkað kaup. Þetta er staðreynd í dag sem meira að segja Morgunblaðið getur ekki dulið, hvernig sem það reynir að setja græn augu á sína lesendur í leiðurunum og láta útvarpa þeim. Græn gleraugu geta kannske passað stundum fyrir kýrnar, eins og sagt var í gamla daga, en þau passa áreiðanlega ekki fyrir íslenzka lesendur yfirleitt.

Það er stefna verzlunarvaldsins í landinu, sem er að sliga undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, hefur verið að því í mörg ár, en nú er þessi stefna að brjóta þá niður. Það hefur stundum verið sagt á þessum árum, að það hafi verið eitthvert kapphlaup á milli verðlags og kaupgjalds. Það er ekki rétt. Það kapphlaup hefur ekki verið til í þeirri merkingu, sem venjulega er reynt að telja mönnum trú um. Kaupið á Íslandi hefur frá því 1959 varla haldið í við verðlagið. Það hefur alltaf verið á eftir. Raunverulegt kaupgjald í dag er sízt betra en það var fyrir þá almennu dagvinnu fyrir 7 árum síðan. Verðlagningunni hefur verið sleppt lausri allan þennan tíma. Verzlunar- og braskvaldinu hefur verið selt sjálfdæmi í landinu allan þennan tíma á kostnað sjávarútvegsins og með því um leið að gera íslenzkum iðnaði ómögulegt að keppa við útlendan iðnað hvað neyzlu í landinu snertir. Allar hömlur hafa smátt og smátt verið afnumdar, til þess að verzlunin fengi ekki aðeins að eyða gjaldeyrinum, sem hún fær frá sjávarútveginum, og það oft mjög óskynsamlega, heldur líka að græða á honum. Sjávarútvegur og iðnaður hafa verið látin komast í kreppu og tapa, en verzlunin hefur orðið að blómgast. Það er þessi stefna, sem veldur ófarnaðinum, sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta frelsi með verzlunarálagninguna, sem búið er að básúna út allan þennan tíma sem grundvöll stjórnarstefnunnar, það er það, sem er að koma öllu í strand, sjávarútvegi og iðnaði, og ófarnaðurinn, sem blasir við stafar fyrst og fremst af því. Allar kauphækkanir í 7 ár hafa verið afleiðingar af þeim einkaréttindum, sem verzlunarvaldinu í landinu hafa verið fengin til þess að leggja á þjóðina skatta eins og því þóknast. Og samt hefur aldrei í sögu Íslands verið annað eins tækifæri til þess að láta raunverulegt kaup hækka, raunverulegt dagkaup hækka eins og á undanförnum 5 árum. Í fyrsta lagi vegna stórhækkunar á verðlagi okkar afurða erlendis, í öðru lagi vegna tvöföldunar á því aflamagni, sem okkar sjómenn hafa dregið úr sjó. Við höfum upplifað heila vélbyltingu, heila iðnbyltingu í okkar flota, meira en tvöfaldað aflamagnið. Verðlagið hefur hækkað erlendis þangað til nú. Náttúran og markaðurinn hafa leikið við okkur. En öllum þeim ávinningi og bættum kjörum, sem t.d. verkamenn og aðrir launþegar gátu haft af þessu, hefur verið fórnað fyrst og fremst á altari verzlunarauðvaldsins.

Það var ekki meining okkar að fara í almennar umr., heldur aðeins að reyna að drepa á það, sem við álítum, að sé aðalatriðið í sambandi við það, sem nú er framundan. Afstaða Alþb. til þessarar ríkisstj. og hennar stefnu er óbreytt eins og hún hefur verið. Það er þessi óheillastefna óðaverðbólgunnar, sem er nú að sigla framleiðsluatvinnuvegunum í strand. Það hefur hins vegar ekki vantað, að jafnt Alþb. sem þau samtök, sem það hefur mikil áhrif í, alþýðusamtökin í landinu, hafi viljað koma í veg fyrir þennan ófarnað og hafi verið og séu reiðubúin til skynsamlegra ráðstafana til þess að bjarga út úr þeim ófarnaði, sem búið er að koma þjóðinni í með þessari stefnu. Alþýðusamband Íslands bauð strax vorið 1964 hæstv. ríkisstj. samstarf um að reyna að stöðva nú verðbólguna. Samtölin voru tekin upp, en samstarfinu var ekki sinnt. Óðaverðbólgan var látin geisa áfram. Því var ekki sinnt, að það þurfti að breyta um stefnu til þess að ekki yrði siglt í strand. Nú erum við að stranda og eigi að vera hægt að draga skútuna út, verður fyrst af öllu að gerbreyta stefnunni, þó að það yrði að draga hana út aftur á bak til að byrja með. Allt svo gerbreytingin á stjórnarstefnunni er fyrsta skilyrðið til þess að bjarga út úr þeim ófarnaði, sem þegar er kominn yfir okkur vegna stjórnarstefnunnar öll þessi ár.