13.10.1966
Sameinað þing: 3. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef með athygli hlýtt á aths. hv. talsmanna stjórnarandstöðunnar og það er sérstaklega eitt atriði þar, sem kom fram hjá þeim báðum, sem gleður mig. Einkanlega verð ég þó að segja, ef þeir láta þar verk fylgja sínum orðum. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það þyrfti að kanna til hlítar, hverjar væru orsakir verðhækkananna og miða frambúðarráðstafanir við þetta. Hv. 1. þm. Austf. sagði sem sína lokalausn á vandamálum þjóðfélagsins nú, að það þyrfti að fara fram úttekt á þjóðarbúinu. Við höfum að vísu heyrt þá stefnuyfirlýsingu áður, og einhvern veginn fór það nú svo, að úttektargerðin, sem framin var 1956 og 1957, var aldrei birt. Manni var sagt, að hún hefði farið fram, en birting á henni fékkst aldrei. Þegar til átti að taka, virtist svo sem skorti hugrekki til þess að horfast í augu við þær staðreyndir, sem þar blöstu við.

Ég verð að segja það, að hin sama veila virtist nokkuð koma fram hjá þessum hv. þm. báðum enn. Þeir vilja ekki til hlítar viðurkenna, í hverju vandamálin eru fólgin. Hv. 3. þm. Reykv. hefur að vísu eina allsherjar skýringu á þeim vandamálum. Það á að vera hin mikla ágengni verzlunarauðvaldsins í landinu, sem einkanlega lýsi sér í hinum miklu byggingum hér inn með Suðurlandsbraut. Nú er um þær byggingar að segja, að þar er um að ræða atvinnuhúsnæði, sem brýn nauðsyn var fyrir þennan bæ að fá. Sams konar byggingar höfðu verið reistar á haftatímum víðs vegar um landið, sjálfsagt nauðsynlegar þar, en ekki síður nauðsynlegar hér í Reykjavík. En er það þá svo, að verzlunarauðvaldið hafi grætt svo mikið á undanförnum árum? Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. er nákunnugur starfsemi KRON hér í Reykjavík. Er það virkilega svo, að sá öflugi félagsskapur hafi stórgrætt undanfarin ár? Er það virkilega svo, að þau innflutningsfyrirtæki, sem nánir vinir hv. 3. þm. Reykv., sumpart á flokksgrundvelli, hafa efnt til, standi með miklum blóma og hafi stórgrætt? Mér er þetta ekki kunnugt. Hann getur svarað því, ef hann vill sjálfur.

Hann getur spurt nágranna sinn og hálfsálubróður, hv. 1. þm. Austf., varaform. Samb. ísl. samvinnufélaga, sem ég hygg, að sé stærsti innflytjandi á landinu. Er hagur þessa mikla heildsala með sérstökum blóma í dag? Hefur það grætt svo á sínum innflutningi, að það gefi efni til þeirra fullyrðinga, sem hv. 3. þm. Reykv. áðan viðhafði? Um þetta skulum við ekki hafa neinar fullyrðingar og það er ástæðulaust að standa hér þing eftir þing og ár eftir ár og vera með um þetta fullyrðingar. Þetta hlýtur að vera hægt að kanna og skoða.

En það er líka alveg ástæðulaust fyrir hv. 3. þm. Reykv. að fullyrða það, að dagkaupi verkamanna hafi farið hér hrakandi á s.l. árum. Það er til skýrsla, sem er nú alveg nýkomin, var afhent hér held ég, lögð á borð okkar 1. dag þingsins frá kjararannsóknarnefnd, þar sem nokkrir þm. og aðrir oddvitar í þjóðfélaginu eru ábyrgir fyrir, það eru Björn Jónsson, Björgvin Sigurðsson, Helgi Bergs, Hjalti Kristgeirsson, Sigurvin Einarsson og Þorvarður Ólafsson. Hvað segja þeir nú um þá breytingu, sem á hefur orðið í þessum efnum hin síðustu ár? Í þessari skýrslu er á síðu 14 tafla yfir samningsbundið tímakaup í dagvinnu og mér telst til, að frá árinu 1961 til 1965 hafi á því orðið 79% hækkun. En skv. síðu 21 er hækkun á framfærsluvísitölu á sama tíma 59% og ef einungis er tekin vísitala neyzluvöru er hækkunin 63%, þannig að eftir þessari skýrslu, sem þessi góða nefnd með mjög skilríkum fulltrúum í lætur afhenda okkur hér á fyrsta degi þingsins, er það alveg ótvírætt, að kaupmáttur dagkaupsins hefur aukizt á þessu tímabili, sem hér er um að ræða.

Sjálfur hef ég fengið um það óyggjandi upplýsingar, að frá því að júní-samkomulagið var gert þangað til nú í vor, jókst kaupmáttur í lægstu flokkum Dagsbrúnar, kaupmáttur tímakaupsins, 15–20% eða jafnvel meira í einstökum tilfellum. Nú getur verið, að þetta séu rangir reikningar, en þá er að sanna, að þeir séu rangir og upplýsa, í hverju villan er fólgin. Ég hef ekki löngun hér til þess að standa og segja mönnum rangt frá eða byggja mína hugsun eða aðgerðir á röngum upplýsingum. En menn verða að vita um hvað er verið að tala og hverjar staðreyndirnar eru í raun og veru í þjóðfélaginu. Annars verður ekki við neitt ráðið.

Það tjáir ekki að koma og segja, að vandræðin séu að kenna verzlunarauðvaldinu, vandræði togaraútgerðarinnar, vandræði litlu bátanna, vandræði hraðfrystihúsanna. Í fyrsta lagi, hvar er þessi auður og óhóflegi gróði verzlunarauðvaldsins? Hvað segja þessar skýrslur, sem ég vitnaði hér til? Hvað segir enn fremur skýrsla Efnahagsstofnunarinnar um þessi efni, þar sem berum orðum er fram tekið, á síðu 23, þar sem raktar eru hækkanir síðustu tveggja ára og borið saman í sambandi við áhrif þeirra á nýjan og gamlan vísitölugrundvöll. Þar er sagt berum orðum á síðu 23, ég skal ekki fara að þreyta menn hér með rökstuðningnum, en niðurstaðan segir:

„Enda þótt margar þessara innlendu verðhækkana séu miklar, eru þær þó hér um bil undantekningarlaust minni en hækkun tímakaups á hinu umrædda tímabili, en hún var 36.5%.“

Ef þetta er röng fullyrðing, er að sanna, að hún sé röng, koma með gögn fyrir því. En það þýðir ekki að fullyrða alveg það gagnstæða og segja: Af því að togurum gengur illa, af því að litlu bátunum gengur illa, af því að hraðfrystihúsin eru nú í vandræðum, er það vegna þess að verzlunarauðvaldið hefur tekið svo mikið til sín og af því einnig, að kaup verkalýðsins hefur lækkað á þessu umrædda tímabili. Hér er algerlega farið með staðlausa stafi, vægum orðum sagt hringavitleysu, framsetta hjá hv. 3. þm. Reykv. Hún var enn þá skýrari hjá honum, hvernig sem á því nú stóð, heldur en hjá hv. 1. þm. Austf., hvort sem hans hugarfar er nú þokukenndara eða aðrar ástæður eru að verki, en hann hafði fleiri orð og umvafði sína hugsun þess vegna í dálítið ógagnsærri hjúp.

Erfiðleikar togaranna eru miklir. Verðbólgan innanlands á vissulega sinn þátt í því, það er alveg rétt. En við vitum, að það eru allt aðrar ástæður, sem þar ráða úrslitum. Það er útilokun þeirra frá þeirra gömlu veiðimiðum. Það er sú staðreynd, að þeir hafa fleiri menn um borð en sambærileg skip hjá öðrum. Það er vegna þess, að þeir verða sumpart að kaupa dýrari vörur hér innanlands, ekki vegna verðbólgu, heldur vegna verðjöfnunar. Það er vegna þess að þeir verða að sætta sig við toll á erlendum markaði, sem samkeppendur þeirra þar þurfa ekki að bera. Þetta eru ástæður, sem þarna ráða úrslitum og vandræði togaranna verða ekki leyst nema því aðeins, að menn geri sér grein fyrir þessu og hafi kjark til þess að reyna að leysa þessi verkefni.

Alveg eins er það með litlu bátana. Við vitum það, að verulegur hluti minni bátanna bjargar sér nú með fiskveiðum í landhelgi. Þetta vitum við, jafnt ríkisstj. og Alþingi. Það er horft í gegnum fingur um þetta. Ég segi, þessi háttur dugar ekki til lengdar. Menn verða að horfast í augu við, að þarna verður breyting að vera á gerð, það verður að framfylgja l. og ef það er nauðsynlegt, verður að veita þessum bátum aukna veiðiheimild, en fara ekki eins að og nú. Hvort það dugar, er svo annað mál, vegna þess að erfiðleikar litlu bátanna eru auðvitað fyrst og fremst þeir nú, að þeir standa sig ekki í samkeppni við hin nýju, stóru tæki, þar sem stóru bátarnir eru. Það er skuggahliðin af tækniframförunum, sem þarna birtist. Þetta er ekki sérstakt íslenzkt fyrirbæri. Þetta hefur alls staðar átt sér stað, þar sem tæknibylting hefur orðið. Þetta er vandamál og mjög mikið vandamál — og það verður ekki leyst með því að loka augunum fyrir því og kenna það allt öðrum orsökum. Það verður leyst með því að leggja höfuðið í bleyti, hvernig á að leysa þetta sérstaka vandamál og viðurkenna, að það sé vandamálið.

Þessar orsakir aftur á móti, ósamkeppnishæfni og veiðileyfatakmörkun, bæði minni bátanna og togaranna, eiga hins vegar ríkan þátt í því, að hraðfrystihúsin eru nú í erfiðleikum. Nú er vafalaust, að orsök erfiðleika hraðfrystihúsanna í dag er ekki sízt verðfallið erlendis. Það á þar ríkan þátt í. Hversu það er mikið og nær til margra vara og hversu það verður viðvarandi, það fyrra liggur ekki ljóst fyrir enn þá, er ekki upplýst til hlítar enn þá, hið seinna verður ekki séð fyrir í dag. En það er atriði, sem við ráðum ekki við nema að litlu leyti. En þá er það efnivöruskorturinn, sem fyrst og fremst er hraðfrystihúsunum að tjóni nú. Og ég spyr: Hvaða ástæða er til þess fyrir hraðfrystihús að hafa opið og tapa á því að hafa opið, meðan það fær ekki efnivöru og tapar á sínum rekstri? Og hver hefur oftar hér í sölum Alþingis heldur en einmitt hv. 3. þm. Reykv. gert það að umræðuefni, hversu það væri óhagkvæmt að hafa þessi mörgu hraðfrystihús og hversu það væri fjarri lagi að slík hús gætu til frambúðar í raun og veru staðizt eðlilega samkeppni eða veitt þeim, sem að ynnu, eðlileg kjör? Þetta gat gengið, meðan þau fengu mjög mikið af verkefni, sem barst að. Þegar verkefnið fjarar út, af því að segja má, að kjarninn úr flotanum leggur nú stund á aðra atvinnu, sem sagt síldveiðarnar, þá skapast sérstakt ástand hjá hraðfrystihúsunum, ástand sem vissulega er vandamál, sem verður að skoða og skoða útfrá orsökum þess vandamáls en ekki í allt öðru ljósi og fela það bak við slagorðið um verðbólgu.

Verðbólgunni er vissulega nógu margt að kenna, þó að ekki séu lagðar á hana aðrar sakir en hún ber. Og það tjáir ekki að ætla að fela margháttaðan óteljandi samanþjappaðan vanda þjóðfélagsins bak við þetta slagorð. Og það er e. t. v. ein af orsökunum til þess, að svo illa hefur gengið í baráttunni við verðbólguna nú í heilan aldarfjórðung, að menn hafa verið að fela ýmis önnur vandamál á bak við þetta orð í staðinn fyrir að gera sér grein fyrir eðli þess sérstaka vanda, sem hverju sinni varð að leysa.

Hv. 1. þm. Austf. gerir bændum t.d. ákaflega lítinn greiða með því, þegar hann segir, að það sé fyrst og fremst verðbólgan, eða þótt hann kalli það óðaverðbólgu, sem er orsök að þeirra erfiðleikum nú í dag. Hitt er því miður miklu nær sanni að segja, að stærsta orsökin til verðbólgunnar á Íslandi, til verðhækkananna, sé landbúnaðurinn. Við skulum bara lesa það, sem hér hefur komið fram við rannsókn um vöruverðshækkanir síðustu tvö ár. Í skýrslu hagráðs segir á síðu 23:

Athyglisvert er, að hve miklu leyti má rekja meginþunga verðhækkunar tveggja undanfarandi ára til tiltölulega fárra liða.Sé ekki tekið tillit til niðurgreiðslna og annarra beinna opinberra aðgerða eru landbúnaðarafurðirnar hér langþyngstar á metunum. Til þeirra má rekja um 45% allrar verðhækkunarinnar samkv. núgildandi grundvelli, en um 33% samkv. nýja grundvellinum. Verðhækkun á fiski og fiskvörum hefur valdið 8% allrar verðhækkunarinnar samkv. núgildandi grundvelli, en 4% samkv. þeim nýja. Opinber þjónustugjöld eru völd að 12%, af heildarhækkuninni samkv. báðum grundvöllunum.

Ef þetta er ekki rétt, þarf að afsanna þetta með rökum. Og ég segi: Þetta kemur því máli ekkert við, hvort við viljum hafa landbúnað á Íslandi eða ekki. Ég segi: Ég teldi þann mann halda fram meiri fjarstæðu en svo, að honum þyrfti að svara, sem segði, að það setti að hætta við íslenzkan landbúnað. Landbúnaður er okkur eins sjálfsagður eins og það, að við séum sjálfstæð þjóð, en það kostar að vera sjálfstæð þjóð og það kostar að halda uppi landbúnaði á þessu landi.

Ég sá, að hv. 1. þm. Austf. kvaddi sér hljóðs, þegar ég var að tala um landbúnaðinn. Hann vildi þá kannske skýra það fyrir mér um leið, þegar hann kemur hér upp, sem stóð í Tímanum ekki alls fyrir löngu. Það hefur vakið athygli, að þar hafa birzt í haust nokkrar óvenjulega skynsamlega skrifaðar greinar eftir ungan pilt, hagfræðing að því er ég hygg eða hagfræðinema, þar sem hann ræddi um skýrslu Efnahagsstofnunarinnar, reyndi að kryfja hann til mergjar. Það skiptir ekki máli, hvort menn eru sammála honum í einu og öllu eða ekki. Hann reyndi að velta málunum fyrir sér, benti á það, að það þyrfti að móta nýja stefnu. Það var eins og hjá hv. 1. þm. Austf., það var meira, að það þyrfti að kanna málin heldur en hann benti á ákveðnar lausnir. En við skyldum nú ætla samkv. upphafi, sögu og venjulegu tali framsóknarmanna, að það væri þó eitt mál, sem þeir kynnu lausn á, eitt mál, sem þeir hefðu markað ákveðna stefnu í og það væru landbúnaðarmálin. En hvað segir í Tímanum hinn 20. september í grein eftir þennan myndarlega pilt? Með leyfi hæstv. forseta:

„Það þarf að móta heildarstefnu í markaðsmálum landbúnaðarins og gera verðlagskerfið svo úr garði, að það lagi framleiðsluna að þörf innlenda markaðarins og að möguleikum á samkeppnishæfum útflutningi og stuðli um leið að eðlilegri þróun og aukinni fjölbreytni í framleiðslu jafnhliða því að veita bændum viðunandi kjör. Hvernig þessi stefna skuli framkvæmd í reynd, er þraut, sem enginn hefur enn leyst.“

Þetta stendur orðrétt. Það er ekki ónýtt að hafa svona leiðbeinendur. Og þetta eru mennirnir, sem þykjast kunna öll ráð við vandamálunum. (Gripið fram í: Hvað segir Ingólfur?) Hvað segir Ingólfur? Landbúnaðinum hefur aldrei vegnað eins vel eins og síðan Ingólfur Jónsson varð landbrh. og jafnvel framsóknarmenn eru farnir að viðurkenna það opinberlega, að ef þeim lánaðist nú að komast inn í stjórn með íhaldinu, mundu þeir auðvitað halda Ingólfi Jónssyni sem landbrh.

Nei, vandamálin í okkar þjóðfélagi eru ákaflega mörg og margþætt, og því fer auðvitað fjarri, að núv. ríkisstj. hafi tekizt að leysa þau öll. Og það er auðvitað augljóst, að svo glöggur og greinargóður maður sem hv. 1. þm. Austf., sagði margt rétt í sinni ræðu, bæði um það, hverju væri ábótavant og hvað væri hægt að gera, a.m.k. hvað þyrfti að athuga, því að lengra komst hann nú yfirleitt ekki í sínum leiðbeiningum.

En um sumt sýnist hann nú eitthvað hafa villzt af leið. Hann sýnist t.d. ekki vita það, að nú er búið í 1½ ár í samvinnu við verkalýðsfélögin að reyna að gera stórmerka tilraun til að lækka byggingarkostnað hér í Reykjavík. Það var alveg eins og hv. þm. kæmi ofan af fjöllum, þegar hann var að lýsa þörf á þessum aðgerðum. Það var þó upplýst fyrir 1½ ári, að þetta skyldi gert. Að þessu hefur öfluglega verið unnið og ég hygg, að umboðsmaður flokks hv. þm. sé í þeirri n., sem með þessu hefur fylgzt. A. m. k. ætti sá maður, sem vill fylgjast með þjóðlífinu að hafa einhverja hugmynd um þetta.

Eins verð ég að segja við þessa hv. þm. Þeir tala um, að hér séu mörg fyrirtæki að komast í þrot. Auðvitað veit ég það, að fyrirtæki eru misjafnlega árangursrík — vel rekin. Sumum gengur vafalaust miður heldur en öðrum. En hvað eru það nú mörg af meiri háttar atvinnufyrirtækjum, sem hér eru við lýði, sem t.d. við síðustu áramót voru algerlega í þrotum, þannig að það sé hægt að sýna af skattskýrslum og þeim gögnum, sem fyrir liggja, að þessi umsögn þessara hv. þm. fái staðizt? Það er vafalaust hægt að benda á einstök fyrirtæki. Ég efast ekki um það. Svo hlýtur ætíð að verða. En stenzt þetta í heild? Er hægt að færa rök fyrir þessu? Mundi hitt ekki vera sanni nær, að fyrirtæki hér almennt, við skulum ekki tala um þá, sem leggja nú stund á síldveiðar, þá útvegsmenn eða atvinnurekendur, sem þar eiga hlut að máli, en mundi það ekki vera sanni nær, að hraðfrystihúsin hafi yfirleitt staðið sig sæmilega, a.m.k. fram á s.l. vor, og það, sem síðan hefur að þeim kreppt, sé að kenna ástæðum, sem síðan hafa orðið til, svo sem efnivöruskortinum yfir sumarlagið og svo kvíði og sumpart réttmæt og auðskilin vandræði vegna verðlækkunar eða a.m.k. sölustöðvunar, vegna þess að þeir vilja ekki selja á því verði, sem í boði hefur verið? Mundi þetta ekki vera sönnu nær heldur en láta svo sem öll þessi fyrirtæki, þessi mikilvægi atvinnuvegur, væri kominn að hruni og hrunið væri hafið? Og það leyndi sér ekki, að a.m.k. hv. 3. þm. Reykv. taldi það síður en svo leið tíðindi, að nú skyldi loks að því komið, að ríkisstj. fengi hrunið ofan á sig.

En vita þá ekki þessir menn t.d. um þá gerbreytingu, sem orðið hefur í íslenzku þjóðfélagi frá því að vinstri stjórnin hætti 1958? Vita þeir ekki eða vilja þeir ekki kynna sér það, að örugg gögn eru til um það, að í atvinnuvegunum hafi raunverulegt fjármagn, ekki talið í verðlausum krónum eða í minnkandi krónum, heldur í raunverulegum verðmætum á, því stutta árabili, sem síðan er liðið, aukizt um nær 50% frá árslokum 1958 til ársloka 1965? Og ég bið þá að benda á eitthvert annað slíkt vaxtartímabil í íslenzku atvinnulífi. Og ég bið þá líka um að benda á eitthvert annað slíkt vaxtartímabil í framsókn íslenzks almennings eins og á þessu tímabili. Um það eru til óhnekkjandi gögn, að á árinu 1960 fram til 1965 hafa raunverulegar tekjur, ráðstöfunartekjur þjóðfélagsstéttanna í heild aukizt frá þriðjungi og upp yfir 2/5, úr 33 og yfir 40%. Sumt af þessu hefur kannske verið fengið með aukinni vinnu, með ýmiss konar öðru greiðsluformi, hlunnindum, heldur en áður var, en sumpart með auknum kaupkrafti fyrir tímakaupið. Það er óhnekkjanleg niðurstaða, að atvinnustéttirnar, almenningur, verkalýðurinn, bændur, hvernig, sem þið viljið orða það, hafa fengið fyllilega sinn hlut og meira en honum nemur úr þeirri gífurlegu aukningu þjóðartekna, sem á þessu tímabili hefur átt sér stað, þannig að hagur þessa fólks stendur nú svo miklu betur en áður var, að ekki þarf um að deila. Og þessir menn gera sig að hreinu viðundri, þeir ganga um eins og í þoku, ef þeir skilja ekki þetta.

Hitt er svo annað mál, að einmitt vegna þess, hversu almenningur hefur fengið mikinn hlut af þeim arði, sem á land hefur borizt, þola atvinnuvegirnir verr að verða fyrir skakkaföllum, heldur en þeir mundu gera, ef þeir hefðu fengið að halda meiru hjá sér. Þetta liggur í augum uppi. Þess vegna segir verðfallið til sín og skapar atvinnuvegunum örðugleika. En einmitt vegna þessarar öruggu undirstöðu, sem atvinnuvegirnir annars vegar hafa, og hinnar stórauknu velmegunar, sem almenningur á við að búa, er ekki verið að fara fram á neinar fórnir, neitt, sem er ekki í raun og veru hverjum og einum sjálfum helzt til heilla þegar sagt er: Nú skulum við, við breyttar aðstæður staldra við, til þess að skapa ekki okkur sjálfum örðugleika. Þetta er meginkjarninn í okkar stefnu. Þetta er það, sem gera þarf, og ég vil heita á þessa hv. þm., svo glöggir og greindir menn sem þeir eru: Setjist þeir nú niður, geri fyrst og fremst úttekt á sínu eigin rangsnúna hugarfari, skoði staðreyndirnar í réttu ljósi og þá mun verða hægt við þá að tala og vinna með þeim að lausn þeirra vandamála, sem raunverulega eru fyrir hendi.