13.10.1966
Sameinað þing: 3. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði um það alveg réttilega, að það ætti ekki að fela vandamálin. Um að gera að ræða vandamálin. Af hverju kom þá hæstv. forsrh. ekki með einu orði inn á það, hvort það hefði eitthvert gildi eða ekki neitt, að það væri frjáls verðlagning á vörum? Af hverju vildi hæstv. forsrh. fela þetta vandamál? Af hverju vildi hann ekki minnast á það, að það að afnema verðlagsákvarðanir, hvort heldur það væri hjá Eimskipafélagi Íslands, heildsölum eða öðrum, það þýðir að gefa þessum aðilum rétt til að skammta sér eins og þeim þóknast úr þjóðarbúinu? Af hverju á að vera að fela vandamálin? Ég þóttist einmitt hafa minnzt á þetta vandamál hérna áðan. Af hverju vill hæstv. forsrh. ekki ræða það? Er það vegna þess, að Morgunblaðið er eign verzlunarauðvaldsins í Reykjavík og búið að vera það í meira en 60 ár eða meira en 50 ár? Er það vegna þess, að sterkasta valdið í Sjálfstfl. er þetta verzlunarvald? Allt svo, við skulum ekki fela þessi vandamál. Þetta eru ökonomisk og pólitísk vandamál, sem þjóðin þarf að horfast í augu við. Ég nefndi það dæmi, að á síðustu 5 árum hefði verðlag tvöfaldazt. Hæstv. forsrh. var að tala hér um vísitöluna í þessu sambandi. Ég hef nú ekki Hagtíðindin hérna við, þau voru ekki inni á skrifstofunni nýrri en frá júlí 1966. Þar er verðlag á vörum og þjónustu miðað við marz 1959, þá er þessi a-liður sem sé, vörur og þjónusta, allar matvörur, hiti, rafmagn, fatnaður, ýmis vara og þjónusta komin upp í 224, miðað við 100 í marz 1959. Allt svo, gerir mun betur heldur en að tvöfaldast. Við skulum segja, að verðlag erlendis hafi dálítið hækkað á þessum tíma. Það mætti draga það frá, það eru kannske 30%, það er kannske eitthvað meira. Engu að síður vil ég leyfa mér að halda því fram, að verðlagshækkanirnar hér innanlands á þessu 7 ára tímabili séu höfuðvaldur þeirrar verðbólgu, sem hér hefur geisað. Og meðan hæstv. forsrh. sér ekki ástæðu í alllangri ræðu hér og ýtarlegri og heitri að minnast á þennan hlut, liggur mér við að segja, að hann sé að fela vandamálin og það höfuðvandamálið, af því að þetta vandamál snertir þá stétt, sem hefur verið voldugust því miður í Sjálfstfl. lengst af nema á örlitlu tímabili.

Síðan reynir hæstv. forsrh. að sýna fram á, að verkamenn hafi nú fyllilega fengið sitt. Hann talar um það gósentímabil, sem verið hafi á undanförnum árum. Ég hef líka minn útreikning á þessum hlutum og hef lengi lagt hann fram hér í Alþ. og ég held nú næstum því, að hæstv. forsrh. hafi jafnvel stundum gjarnan viljað styðjast við hann líka. Kaupmáttur tímakaupsins, þá var miðað við 1945, var 1959 101, eitt af því hæsta, sem hann hefur komizt. Í nóvember 1965 var hann 93 og miðað við Dagsbrúnartaxtann, ef maður miðar við kaupmátt vikukaupsins, 86. Ég hafði reiknað þetta út man ég eftir, í fyrra. Ef maður reiknar með þeim tilfærslum, sem orðið hafa, að þeir, sem áður voru á fyrsta taxta, hafnarverkamennirnir m. a., væru komnir upp í 3. taxta núna, enn fremur þeim 5%, sem þeir fengju í sínum samningum, þegar þeir væru búnir að vera 2 ár, þótt maður reiknaði allt saman þetta með, allar þessar tilfærslur, kemst maður samt ekki nema upp í það sama. Raunverulegur kaupmáttur vikukaups núna, er sá sami og hann var 1959, þannig að framhjá þessu verður ekki komizt. Það er rétt, að þetta tímabil hefur verið mjög gott tímabil, sérstaklega vegna þess, hve mikil atvinna hefur verið. Það hefur skapað mönnum betri kringumstæður með að fá sér ýmislegt og annað slíkt, en það hefur um leið svipt menn öllu, sem heitir frístundir. Það er rétt, að það lifa máske ekki margir eins vel í Evrópu eins og Íslendingar hafa gert, en það vinnur ekki nokkur verkalýðsstétt í Evrópu eins og Íslendingar hafa gert, eins mikið og eins lengi, svo að við skulum athuga það alveg hreint fyllilega, þegar við erum að ræða um þessi mál. Og svo verður að taka tillit til eins, að í öllum þessum útreikningum, sem við erum með um verðlagið, matvöruna, framfærslukostnaðinn og annað slíkt, er húsaleigan aldrei með. Og ég þarf ekki að ræða um það, við vitum það allir, hvernig hún muni vera fyrir þá, sem núna eru að brjótast í því að afla sér húsnæðis, þannig að raunverulega hefur kaupmáttur tímakaupsins hjá verkamönnum lækkað, ef ætti að taka tillit til húsaleigunnar líka. Ég skal náttúrlega viðurkenna, að þar er mjög misjafnt innan sjálfrar verkamannastéttarinnar. Þeir, sem búa í gömlu húsnæði, standa þarna miklu betur að vígi, en þeir, sem eru að flytja inn í nýjar íbúðir, stynja aftur á móti undir þessum hlutum, enda þrældómurinn alveg gífurlegur fyrir þær fjölskyldur. Hæstv. forsrh. þótti ég tala fulldjarft um, að verzlunarauðvaldið hefði fengið nokkuð mikið í sinn hlut og vildi spyrja, hvernig t.d. KRON vegnaði. Ég vil nú segja honum, að þegar ég tala um verzlunarauðvald, á ég fyrst og fremst við þá stóru heildsala og þá aðila, sem hér hafa alveg sérréttindi, hvað snertir álagningu og slíkt. KRON er fyrst og fremst matvælaverzlun, sem fyrst og fremst miðar við það að reyna að halda verðlaginu niðri og hefur ekki til þess notið neinna fyrirgreiðslna stjórnarvalda eins og tíðkast þó í gegnum alla banka til handa þeim, sem voldugir eru og inn undir. Og KRON hefur reynt að vinna að þessu eftir frekustu getu. KRON er ekki rekið til þess að safna gróða, heldur til þess að reyna að útvega mönnum ódýra vöru. Aftur á móti skal ég gjarnan taka undir það, að það væri nú rétt að athuga, eins og hæstv, ráðh. var að tala um, hvernig væri með þessa gróðaskiptingu. Mér er ekki grunlaust um, að t.d. hjá bílasölum og jafnvel olíusölum, sem kvarta mikið út af rekstursfjárleysi þessa dagana, þar safnist alveg gífurlegur gróði.

Þegar ég minntist á byggingarnar við Suðurlandsbraut, var það nú meira eins og ég hef gert hér áður, til þess að minna á, hve vitlaust þeim gróða er ráðstafað. En það er alveg rétt, að um þetta þýðir náttúrlega ekki að vera að hafa stór orð og deila mikið. Ég vil bjóða hæstv. forsrh. upp á eitt, til þess að úr þessu fáist skorið. Ég vil bjóða honum upp á það, að við látum fara fram í okkar þjóðfélagi algera eignakönnun núna, nú þegar, samþykkja lög um það á þessu þingi, láta fara fram algera harðvítuga eignakönnun, til þess að það sjáist, hvert það fjármagn, sem skapað hefur verið í þjóðfélaginu með vinnu verkamanna og annarra á undanförnum árum, hefur farið. Ég vona, að hæstv. forsrh. taki þessu. Ég vona, að hann álíti ekki, að það sé neinu að leyna hjá neinum manni, sem ríkisstj. eða Sjálfstfl. hefði ástæðu til þess að vernda í þessum efnum. Það er alveg eins gott að fá að vita það, hvert þetta mikla fjármagn hefur farið og í eigu hverra það er. Ég veit, að við slíka eignakönnun mun það koma í ljós, sem er mjög ánægjulegt og er ein afleiðingin af baráttu verkalýðsfélaganna á undanförnum árum, að mikill þorri af verkamönnum hefur eignazt íbúðir, sem þeir ekki áttu fyrr. En þorrinn af þessu er ég hræddur um, að hafi farið á tiltölulega fáa staði. Og það, sem verra er, ég þykist hafa orðið var við það, að það væri meira að segja tilhneiging hjá hæstv. ríkisstj. til þess að leyna því, hvar þessi gróði — hvar þessi auður sé.

Hér hefur á undanförnum árum hvað eftir annað verið sett í gegnum þing ákvörðun um að selja skuldabréf með þeim skilyrðum, að þau séu tryggð gagnvart verðbólgu, að þau fái tiltölulega háa vexti og það þurfi ekki að telja þau fram til skatts og því skuli leynt, hverjir eiga þau. Og ég veit, að þegar slík skuldabréf eru boðin út, eru þau keypt upp á 1½ klukkutíma og ég vil spyrja, hvort menn haldi, að það séu þeir smáu í þjóðfélaginu, sem keyptu skuldabréfin upp. Og ég vildi óska eftir, að þeir menn, sem eru að einhverju leyti að tala um, að gróðinn hafi farið svo víða í þjóðfélaginu, gefi upplýsingar um, í hve marga staði þau skuldabréf fóru, sem seld voru núna fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan. Og um leið, hvort mönnum finnst ekki tími til kominn að hætta að gefa út bréf, sem séu fyrst og fremst ætluð skattsvikurum, eða hvort það eigi að vera þáttur í því að fela vandamálin, að það eigi að sjá um, að svo og svo mikill hluti af auðmannastéttinni geti komið sínum skattsviknu peningum í slík bréf, svo að þeir þurfi aldrei að telja fram framar sínar eignir eins og þær eru. Ég þykist vita, að ef hér ætti að vera eignakönnun í dag, sem ég vona, að hæstv. forsrh. gangi inn á, muni vera tilhneiging til að setja inn í þau lög um eignakönnun ákvæði um, að þessi bréf skuli ekki talin fram, það eigi að koma þeim undan skatti. Því vil ég spyrja: Hverjir eru það, sem vilja leyna því, hvert gróðinn, sem skapazt hefur á Íslandi á undanförnum árum, hefur farið? Það er bezt, að það komi í ljós. Þess vegna vonast ég til þess, að ef hæstv. ríkisstj. vill ekki fela vandamál, gangist hún fyrir löggjöf um eignakönnun, þannig að það komi greinilega í ljós, hvert peningarnir hafa farið.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að hraðfrystihúsin væru að loka. Það væri nú, hélt hann, frá mínu sjónarmiði ekki nema ágætt. Ég hefði talað um, að þau væru of mörg. Jú, ég hef leyft mér að benda á það á nokkrum undanförnum árum, að það væri ýmislegt vitlaust í rekstri okkar ágætu kapítalista á Íslandi og hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekið mikið tillit til þeirra ábendinga. Henni hefur ekki þótt það neitt undarlegt, þótt þorski væri skipað þannig upp í Reykjavík, að fyrst væri farið með hann nokkra kílómetra út á Seltjarnarnes og síðan væri tekinn hausinn af honum og beinin og keyrt með það alla leið inn að Kletti. Henni hefur fundizt þetta glimrandi fyrirkomulag, þetta væri frjáls samkeppni, svona ætti að stjórna þjóðfélaginu. Svona þorskhausahringavitleysa hefur verið hennar frelsi. Og nú segir hæstv. forsrh., þegar hraðfrystihúsin hérna, þau, sem liggja næst tjörninni, eins og sænska frystihúsið og þau, sem liggja á hafnarbakkanum, eins og Bæjarútgerðin í Hafnarfirði, eru að loka: Nú getur víst hv. 3. þm. Reykv. verið ánægður.

Það þýðir ekki að taka hlutina svona. Við stöndum hér frammi fyrir vandamálum, sem við eigum að reyna að leysa, en ekki vera að tala um, að við því hafi nú verið varað á undanförnum árum, að það kynni að koma til einhvers hruns í þessu, ef ekki væri gætt meiri hagræðingar í sjálfu atvinnulífinu heldur en gert hefur verið. Það er hugmyndin um skipulagsleysið og stjórnleysið í atvinnulífinu, sem Sjálfstfl. sérstaklega hefur beitt sér fyrir, sem er höfuðvandamálið í þessu. Ef menn hefðu ekki gengið með þessar grillur um frjálsa álagningu og frjálsa verzlun og stjórnleysi í atvinnuvegunum, hefði verið hægt á undanförnum árum að hagnýta öll þau uppgrip, sem við höfum haft, miklu, miklu betur. Hæstv. forsrh. sagði um togarana, að vandi þeirra stafaði af því, að þeir hefðu verið lokaðir úti frá sínum beztu miðum. En má ég spyrja, veiða ekki aðrar þjóðir hérna í kringum okkur? Eru ekki aðrar þjóðir að byrja á að byggja sér togara líka til þorskveiða til að veiða fyrir hraðfrystihús? Eru ekki stórfyrirtæki í kringum okkur eins og t.d. Findus í Noregi eða önnur slík að byggja sér alveg hámóðins togara til þess að veiða fyrir sín hraðfrystihús? Heldur hæstv. forsrh., að við gætum ekki gert þetta sama, ef hugsað væri um það fyrirfram, að það þyrftu að vera togarar til á Íslandi og hvers konar togarar það þyrftu að vera? En hæstv. ríkisstj, hefur álitið, að það að kaupa togara til Íslands ætti ekki að vera neinn höfuðverkur einnar ríkisstj. Ríkisstj. ætti ekki að skipta sér af slíku. Það ætti að vera verkefni einkaframtaksins. Það hefur þó ekki verið verkefni einkaframtaksins að heita má í 30 ár á Íslandi að sjá um togarakaup. Togaraútgerðin, sem grundvölluð var á einkaframtaki og hugsun einstakra togaraeigenda, dó eftir 1930 smátt og smátt út. Og þegar togararnir voru endurnýjaðir, var það vegna þess, að ríkisstj. Íslands hugsaði um það og hafði forgöngu um það og keypti þá togara. Og þegar einkaframtakið sýndi ekki meiri skilning en svo, að forkólfar þess voru upphaflega á móti kaupunum og vildu fá kolatogara, en ekki olíu- eða dieseltogara og vildu ekki kaupa þá alla, þegar þeir komu, þá voru stofnaðar bæjarútgerðir til þess að reka þá, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði, eða réttara sagt, gamla útgerðin í Hafnarfirði tók marga og það var stofnuð meira að segja í Reykjavík bæjarútgerð til að reka þá.

Það eru 20 ár síðan, og það þurfti að hafa hugsun á því að fara að endurnýja þennan togaraflota, hvort heldur það áttu að vera stórir togarar eða mun smærri og slíkt er verkefni ríkisstj. á Íslandi og ógæfan hjá okkur er ekki sú, að það væru ekki máske menn í hæstv. ríkisstj., sem mundu vilja hafa þennan hátt á og hugsa um þetta, heldur hitt, að það hefur verið uppi sú kenning, að atvinnulífið ætti að vera eingöngu þannig, að nokkrir einkaframtaksmenn ættu að hugsa um það og sjá um það, hugsa svo að segja fyrir þjóðina. Kenningin hefur verið sú, að helzt ætti að leggja niður bæjarútgerð, leggja niður ríkisafskipti og annað slíkt og það er þessi kenning, sem er að eyðileggja togaraútgerðina í dag. Ef það hefði verið kenning hæstv. ríkisstj., að það væri verkefni ríkisstj. að útvega togara til Íslands og sjá um, hvers konar togarar það yrðu, þá efast ég ekki um, að líka þessi hæstv. ríkisstj. hefði verið búin að hugsa um þetta. Gallinn er sá, að hún byggir í öllu sínu á röngum forsendum, svo að meira að segja, þótt ýmsir innan hennar vildu vel, þá væri það ekki gert. Og þess vegna stöndum við í dag frammi fyrir enn einu skipbroti einkaframtaksins á Íslandi, þess einkaframtaks, sem hélt, að það mundi fara að lifa einhverja nýja gósentíma 1959, en hefur þó eingöngu getað grætt vegna þess, að til kom ný tækni í síldinni og verð á henni hækkaði erlendis, en ekki vegna sinna eigin dáða eða vegna stefnu ríkisstj. Og það, sem við þurfum að sjá, er, að þessa stefnu verður að yfirgefa, af því að hún hefur beðið skipbrot. Ísland og þess atvinnurekstur er því miður ekki stærri en svo, að þar þurfa allir aðilar að leggjast á eitt til þess að sjá um, að það sé í sífellu atvinnugrundvöllur á Íslandi. Og ef atvinnureksturinn er látinn í hendur nokkurra einkaatvinnurekenda, brotnar grundvöllurinn undan okkar atvinnuöryggi. Í Noregi líta menn svo á, að stórir hringar eigi að sjá fyrir atvinnutækjunum og Findus og þess háttar aðilar gera það. Hér á Íslandi eigum við að líta þannig á, að þetta sé verkefni ríkisins og ef það verður ekki gert, þykist ég alveg sjá, hvað bíður okkar. Það vantar ekki áhuga fyrir að koma upp hraðfrystihúsum á Íslandi, þó að þau loki í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég vissi ósköp vel, að þegar verið var að ræða um hugsanlega inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið, þá var áhugi hjá þeim stóru erlendu hringum að koma upp hraðfrystihúsum á vissum stöðum hér, sem lágu vel við fiskimiðunum. Ef íslenzka ríkið ekki hugsar um grundvöll okkar atvinnureksturs, þýðir það að biðja útlendinga, volduga útlenda auðhringa, að sjá um að gera það. Og það er það, sem við viljum forðast. Og frelsiskenningin í þessu efni, skipulagsleysið, áætlanaleysið, fyrirhyggjuleysið þýðir að kasta sér í fangið á þessum útlendu auðhringum.

Það var nú ekki meining mín og ég held, að ég hafi nú ekki talað það langt, að þetta ætti að vera neitt upphaf að eldhúsdegi. Það má bíða síns tíma. Þetta hefur nú spunnizt svona, af því að vafalaust erum við, sem hér höfum talað, miklir skapmenn, og margt, sem í mönnum býr og menn vilja segja. En hvernig svo sem okkur greinir á í þessum efnum, er hitt höfuðatriðið, að við virkilega þorum að ræða orsakirnar til ófarnaðarins, horfast í augu við þær. Ef okkur greinir á um, skulum við segja, hvert gróðinn hefur farið, er mergurinn málsins, að við þorum að láta rannsaka hann, felum ekkert en látum staðreyndirnar koma í ljós. Og hvernig sem annars gengur hjá okkur á þessum fundi vona ég, að það gæti a.m.k. orðið eitthvert samstarf um að skapa einhvern grundvöll, þó ekki væri þá nema til að deila um, en a.m.k. að við séum ekki með staðhæfingar, sem hvor um sig heldur fram og trúir, að séu réttar, en við getum aldrei fengið hagskýrslu, sem við virkilega getum byggt á.