08.04.1967
Sameinað þing: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

Fjárhagsafkoma ríkissjóðs árið 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið til hv. þm. bráðabirgðayfirliti um afkomu ríkissjóðs á árinu 1966. Er þar að finna sundurliðun tekna og gjalda ríkissjóðs á rekstraryfirliti, sundurliðað eftir fjárlagagreinum, sundurliðun eignahreyfinga og loks sjóðsyfirlit um síðustu áramót og sundurliðað yfirlit um það, hvernig greiðslujöfnuður ríkissjóðs á árinu er bundinn. Til þess að geta betur áttað sig á þessum tölulegu upplýsingum, tel ég rétt að láta fylgja nokkrar skýringar. Fyrst og fremst tel ég nauðsynlegt að leggja á það áherzlu, að hér er um bráðabirgðayfirlit að ræða. Reikningum var að vísu formlega lokað um áramót samkv. gildandi l., en engu að síður tekur það nokkra mánuði að vinna úr skilagreinum stofnana og embætta ríkisins og ýmsar tekjur koma ekki inn fyrr en alllöngu eftir áramót. Þótt ekki séu líkur til, að heildarniðurstöður breytist svo að nokkru nemi, tel ég nauðsynlegt að hafa hér á fyrirvara varðandi einstaka liði. Það er föst venja, að endanleg greinargerð um afkomu ríkissjóðs næstliðið ár er ekki gefin fyrr en við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Mun það að sjálfsögðu einnig verða gert í ár og mun ég því ekki í þessum skýringum mínum ræða ýtarlega einstaka liði, heldur gefa heildaryfirlit, sem á þó að geta sýnt í meginatriðum raunhæfa mynd af afkomu ríkissjóðs á árinu 1966.

Tekjur á rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1966 urðu 4 milljarðar, 642.2 millj. kr. og fóru því 847.8 millj. kr. fram úr áætlun. Munar þar mest um aðflutningsgjöld og söluskatt. Aðflutningsgjöld fóru 377.6 millj. kr. fram úr áætlun og söluskattur 242.6 millj. Stafar þetta af auknum innflutningi og aukinni viðskiptaveltu. Gjald af bifreiðum og bifhjólum fór 70.2 millj. kr. fram úr áætlun, enda óx innflutningur bifreiða stórlega frá næsta ári á undan. Þá fóru tekjur af ríkisstofnunum 94.9 millj. kr. fram úr áætlun og veldur því mjög aukin sala Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins. Er enginn vafi á því, að ólöglegur innflutningur áfengis hefur verulega minnkað og á það stóran þátt í aukningunni, þótt neyzla innanlands muni einnig hafa vaxið nokkuð. Loks fór tekju- og eignarskattur 63.5 millj. kr. fram úr áætlun og stimpilgjöld 11.4 millj. kr. Áætlun fjárlaga um gjöld af innlendum tollvörutegundum, lestagjald af skipum, vitagjald, hluta ríkissjóðs af þóknun af gengismun gjaldeyrisbankanna og aðrar tekjur stóðst svo til alveg, en aukatekjur urðu aðeins 54.2 millj, kr. í stað 70 millj., sem áætlað var. Með l. frá 22. des. 1965 voru aukatekjur ríkissjóðs hækkaðar allverulega og var gert ráð fyrir, að þessi hækkun mundi gefa um 22 millj. kr. í auknar tekjur. Mjög erfitt var að gera um þetta raunhæfa áætlun og auk þess mun það hafa ráðið nokkru, að hækkun þinglýsingargjalda var ekki látin ná til lánsskjala, sem afgreidd höfðu verið fyrir áramót, en komu ekki til þinglýsingar fyrr en eftir áramót.

Gjöld á rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1966 urðu 3 milljarðar, 928.7 millj. kr. og fóru því 320.5 millj. kr. fram úr áætlun. Helztu skýringar þessara umframgjalda eru launahækkanir, auknar niðurgreiðslur, auknar útflutningsuppbætur og útgjöld vegna sérstakra laga. Launahækkanir þeirra, er taka laun eftir launakerfi ríkisins, eru taldar hafa numið 134 millj. kr. umfram það, sem áætlað var á einstökum fjárlagaliðum. Er þar bæði um að ræða afleiðingar af kjaradómi frá ársbyrjun 1966, þar sem kveðið var á um 7% hækkun grunnlauna opinberra starfsmanna, nokkrar launatilfærslur, sem síðan hafa verið gerðar, og afleiðingar vísitölubreytinga. Hér við bætist svo um 40 millj. kr. hækkun, sem er vegna launahækkana annars starfsfólks og launa nýrra starfsmanna, sem nefnd samkv. l. um eftirlit með starfsmannafjölgun, hefur heimilað. Á 19. gr. voru veittar sérstaklega 107 millj. kr. til þess að mæta væntanlegum launahækkunum, þannig að raunveruleg umframgreiðsla á launaliðum er um 67 millj. kr. Þá hefur framlag til eftirlauna og tillag til lífeyrissjóðs hækkað um rúmlega 14 millj. kr. umfram áætlun fjári. Útgjöld til félagsmála hafa einnig orðið um 15 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun og stafar það einkum af launahækkunum.

Niðurgreiðslur fóru 54 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Stafar það annars vegar af hinni miklu hækkun niðurgreiðslna á s.l. hausti í sambandi við verðstöðvunina og hins vegar af því, að bókfærðar eru á árið 1966 rúmar 37 millj. kr., sem inntar voru af hendi á því ári, en eru raunverulega niðurgreiðslur vegna ársins 1965. Niðurgreiðslur, er námu 62 millj. kr. vegna ársins 1966, sem fram fóru eftir s.l. áramót, eru hins vegar taldar með í bráðabirgðayfirliti um gjöld ríkissjóðs árið 1966 og tekið tillit til þess í bráðabirgðayfirliti um greiðslujöfnuðinn. Raunveruleg hækkun niðurgreiðslnanna er þó mun hærri en þessar tölur sýna, því að áformað hafði verið að mæta útgjaldaauka ríkissjóðs vegna aðstoðar við sjávarútveginn á þann hátt að lækka niðurgreiðslur. Voru niðurgreiðslur í þessu skyni lækkaðar verulega nokkru fyrir mitt ár, m. a. afnumdar niðurgreiðslur á fiski. En hinir miklu erfiðleikar, sem tóku að steðja að útflutningsframleiðslunni síðari hluta ársins sökum mikils verðfalls á erlendum mörkuðum, leiddu til þess, að hverfa varð frá þessum ráðstöfunum og taka í þess stað upp auknar niðurgreiðslur til þess að koma í veg fyrir aukinn tilkostnað útflutningsframleiðslunnar. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir fóru 34 millj. kr. fram úr áætlun, sem stafar fyrst og fremst af því, að greiðslur færðust á milli ára og útgjöld samkv. heimildarlögum og sérstökum lögum námu samtals um 92 millj. kr. Stafa þessi útgjöld öll af hinum sérstöku ráðstöfunum vegna sjávarútvegsins. Annars vegar voru greiddar 14.3 millj. kr., sem voru eftirstöðvar af áætluðum framlögum til sjávarútvegsins á árinu 1965, og 77.6 millj. kr. hins vegar, sem veittar voru til aðstoðar sjávarútveginum með l. nr. 16 frá 1966. Af þeirri upphæð runnu 50 millj. til framleiðniaukningar í frystihúsum, 20 millj. kr. til uppbóta á línu- og handfærafiski og 7.8 millj. kr. til verðuppbóta á skreið o. fl. Þar sem hverfa varð frá lækkun niðurgreiðslna til þess að mæta þessum aukaútgjöldum ríkissjóðs, var hér um hreinan útgjaldaauka að ræða. Alls nema umframgreiðslur vegna þeirra liða, sem nú hafa verið taldir, um 275 millj. af áðurnefndum 326.5 millj. kr. umframgreiðslum. Aðrar umframgreiðslur dreifast nokkuð á ýmsa liði, en erfitt er að gera grein fyrir þeim í einstökum atriðum, þar sem endanlegum frágangi reikninga er víða ólokið.

Þegar bráðabirgðayfirlitið er skoðað, ber að hafa í huga, að launahækkunum þeim, sem veittar voru í einu lagi í 19. gr. fjárl., hefur verið skipt niður á viðeigandi fjárlagagreinar, sem á við um mikinn hluta launaskatts, þannig að lítill hluti hans kemur fram á 19. gr., þó að hann hafi allur verið áætlaður þar í fjárl. Skýrir það í mörgum tilvikum að verulegu leyti mun fjárlagatölu og reikningstölu, einkum á þeim gjaldagreinum, þar sem laun eru hlutfallslega mjög stór liður. Má í því sambandi nefna stjórnarráðið, dómgæzlu- og lögreglustjórn, tollheimtu og skattheimtu, heilbrigðismál og fleiri liði. Kostnaður vegna stjórnarráðsins fer nokkuð fram úr áætlun vegna vanáætlunar og einnig kostnaður við skattkerfið, m. a. vegna athugunar á staðgreiðslukerfinu. Einnig fer kostnaður um heilbrigðismál töluvert fram úr áætlun, sem einkum stafar af þeim kjarasamningum við lækna, sem gerðir voru á árinu. Útgjöld vegna samgangna á sjó fara rúmlega 10 millj. kr. fram úr áætlun, enda var raunar vitað fyrirfram, að þessi liður var vanáætlaður, því að til Skipaútgerðar ríkisins voru aðeins veittar 24 millj. kr., en reksturshalli þess fyrirtækis hafði orðið 42 millj. kr. á árinu 1965. Reksturshalli Skipaútgerðarinnar varð á árinu 1966 35.2 millj. eða 7 millj. kr. lægri en árið áður og er það fyrst og fremst að þakka endurskipulagningu á starfsemi fyrirtækisins. Lögbundin framlög til fiskveiðasjóðs og aflatryggingasjóðs reyndust 6.5 millj. umfram áætlun og styrkir vegna jarðræktarlaga urðu 6 millj. kr. umfram áætlun. Halli þjóðleikhúss og sinfóníuhljómsveitar umfram áætlun var um 3 millj. kr. og ýmis rekstursútgjöld ríkisstofnana hækkuðu umfram áætlun fjárl. um 13 millj. kr. Óviss útgjöld urðu 19.8 millj. kr., en voru áætluð í fjárl. 19.1 millj.

Meðtalinn er hér kostnaður vegna skiptimyntar, 2.3 millj., sem eru alger bráðabirgðaútgjöld. Venjulega hefur verið hagnaður á skiptimyntinni, en þannig hefur staðið á sendingum árið 1966, að halli hefur orðið. Að þessum lið frátöldum eru óviss útgjöld því 2.1 millj. kr. undir áætlun. Eignahreyfingar samkv. 20. gr. þarfnast ekki margra skýringa. Tekin lán á árinu námu 126 millj. kr., en þar af eru spariskírteinalán rúmlega 100 millj. Voru öll þessi lán tekin innan ramma framkvæmdaáætlunar ríkisins fyrir árið 1966 og fénu öllu ráðstafað í árslok að undanskildum 12.1 millj. af spariskírteinaláni. Veitt lán eru alls rúmlega 50 millj. kr. á árinu. Þar af er rúmlega helmingur tollalán, sem veitt hafði verið Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun samkv. sérstökum lagaheimildum, og tæplega 7 millj. kr. hafa verið lánaðar til Borgartúns 7, sem er skrifstofubygging í eigu ríkisins með sérstöku reikningshaldi. Önnur lán eru öll skyndilán vegna ýmissa framkvæmda eða stofnana á vegum ríkisins og eru hæst þeirra lána 3 millj. vegna rannsóknastofnana atvinnuveganna að Keldnaholti, 2 millj. vegna atvinnumálanefndar Norðurlands, 2 millj. vegna Iceland Food Centre, 3.4 millj. vegna kalnefndar og 1.5 millj. vegna Sementsverksmiðjunnar.

Eru lán þessi annaðhvort þegar greidd eða verða greidd alveg á næstunni.

Útgjöld til hinna ýmsu framkvæmdaliða á 20. g. hafa farið 15 millj. kr. fram úr áætlun. Hafa þau umframútgjöld verið óumflýjanleg af ýmsum ástæðum. Skiptast þessar umframgreiðslur á allmarga liði og tel ég ekki ástæðu til þess að rekja sérstaklega orsakir þeirra nema sérstakt tilefni gefist til.

Greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1966 varð 474 millj. kr. alls, samkv. bráðabirgðaniðurstöðu, en er samkv. reglum Seðlabankans ekki talinn vera nema um 400 millj. Greiðsluafgangur kemur þannig fram við uppgjör við áramót, að sjóður hjá ríkisféhirði hefur aukizt um 1.4 millj. kr., staðan á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum hefur batnað um 398 millj. og bankainnstæður hafa hækkað um 15.8 millj. Sjóðs- og bankainnstæður hafa þannig aukizt um 415.2 millj. kr. á árinu. Þegar saman eru taldir allir viðskiptareikningar ríkissjóðs og ríkisstofnana í Seðlabankanum, var nettóinnistæða á þessum reikningum í árslok 1966 samtals 434.3 millj. í stað 103.1 millj. í árslok 1965. Heildarstaða ríkisins við Seðlabankann batnaði því á árinu um 331.2 millj. kr. Innistæður ríkissjóðs hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og innheimtumönnum hafa vaxið um 91.5 millj. kr., en meginhluti þess fjár hefur komið inn á fyrstu mánuðum þessa árs. Þá hafði ekki verið skilað tekjum af rekstri Keflavíkurflugvallar, sem nam um 9 millj. kr.

Fyrirframgreiðslur vegna fjárl. 1967 hafa verið 96.1 millj. kr. hærri en fyrirframgreiðslur voru vegna fjárl. 1966. En geymdar fjárveitingar frá fjárl. 1966 og eldri fjárl. hafa hækkað um 161.3 millj. kr. miðað við geymt fé í ársbyrjun 1966. Helztu fyrirframgreiðslur vegna fjárl. 1967 eru 40 millj. kr. til styrktar togurunum, því að vegna vaxandi rekstursörðugleika þeirra á s.l. ári, var fallizt á að greiða til þeirra fyrirfram alla fjárveitinguna á árinu 1967, sem raunár var rekstursstyrkur til togaranna fyrir árið 1966, en styrkurinn hefur alltaf verið greiddur ári eftir á: Þá voru alls 20 millj. kr. greiddar fyrirfram vegna reksturskostnaðar skóla, 6.5 millj: kr, vegna vita- og hafnarmála, 3.5 millj. vegna kaupa á húsi í Vonarstræti og nokkrar millj. kr. til þess að geta staðið við greiðslur samkv. verksamningi í sambandi við byggingu Menntaskólans í Hamrahlíð og Menntaskólans á Laugarvatni. Þá var og ráðstafað fyrir áramót samkv. heimild í fjárl. 23.4 millj. kr. af greiðsluafgangi 1966. Eru það greiðslur í framleiðnisjóð landbúnaðarins og til aðstoðar við bændur á kalsvæðum 1965.

Starfsemi ríkisábyrgðasjóðs var með svipuðum hætti og verið hefur s.l. ár. Fjöldi nýrra ábyrgða var svipaður og næstu ár á undan, en upphæð þeirra hins vegar miklu hærri. Munar þar einkum um hin erlendu lán, sem tekin voru vegna virkjunar Þjórsár. Einnig voru veittar stórar ábyrgðir vegna kaupa á flugvélum og síldarflutningaskipum. Greiðslur vegna vanskila á lánum með ríkisábyrgð hafa farið stöðugt lækkandi þau ár, sem ríkisábyrgðasjóður hefur starfað, og varð lækkunin um 20 millj. kr. á s.l. ári. frá því, sem var 1965. Þrjú síðustu ár hafa greiðslur verið sem hér segir í millj. kr.: 1964 voru innleystar kröfur 155 millj. og endurgreiðslur skuldara 46 millj. eða nettógreiðslur 109 millj. 1965 voru innleystar kröfur 179 millj., endurgreiðslur skuldara 124 millj. og nettógreiðslur 55 millj. Og 1966 voru innleystar kröfur 108 millj., endurgreiðslur skuldara 73 millj. og nettógreiðslur 35 millj. Meðtaldir í nettógreiðslum eru vextir, sem reiknaðir hafa verið á vanskilaskuldir, en þeir voru 8 millj. kr. 1964, 6 millj. kr. 1965 og 4 millj. kr. 1966. Tölur þær, sem að framan getur, taka til allra þeirra greiðslna, sem ríkisábyrgðasjóði ber að standa straum af, þ. e. greiðslna vegna ríkisábyrgðalána og greiðslna vegna endurlána á lántökum ríkissjóðs. Greiðslur eru að heita má eingöngu vegna lána með sjálfskuldarábyrgð, en eftir því, sem þeim fækkar, ætti greiðslubyrði ríkisábyrgðasjóðs að léttast: Greiðslur sjóðsins skiptast í höfuðatriðum þannig árið 1966, en til samanburðar eru hliðstæðar tölur fyrir árið 1965:

Vegna hafnarlána 7 millj. árið 1966, en 12 millj. 1965. Vegna lána til fiskiðnaðar, síldar- og fiskimjölsverksmiðja 14 millj. á árinu 1966, en 15 millj. á árinu 1965. Vegna togaralána 6 millj. á árinu 1966, en 18 millj. á árinu 1965 og vegna annarra lána 8 millj. árið 1966 á móti 10 millj. 1965.

Af þessu sést, að það eru einkum greiðslur vegna hafnarlána og togaralána, sein dregizt hafa saman, en greiðslur vegna annarra lána hafa sem næst staðið í stað.

Árin 1962 og 1963 var verulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði, 161 millj. 1962 og 124 millj. 1963. Var þessum greiðsluafgangi ýmist varið til skuldagreiðslna eða til annarra þarfa og af greiðsluafgangi 1962 voru sérstaklega lagðar til hliðar 100 millj. kr. í jöfnunarsjóð, er nota skyldi, ef uni greiðsluhalla yrði að ræða. Á árinu 1964 varð verulegur greiðsluhalli hjá ríkissjóði, 257.8 millj. kr. af ástæðum, sem ég hef áður skýrt í fjárlagaræðu 1965. Á árinu 1965 varð enn 90.7 millj. kr. greiðsluhalli, en á því ári voru sérstakar ráðstafanir gerðar til að koma ríkisbúskapnum aftur í jafnvægi. Með því að nota jöfnunarsjóðinn frá 1962 að fullu upp í greiðsluhallann, verða eftirstöðvar hans um 247 millj. kr. Það hlýtur að vera eðli málsins samkvæmt, enda hin brýnasta nauðsyn á þenslutímum, að jafna yfirdráttarskuldir vegna greiðsluhalla strax og hagur ríkissjóðs leyfir. Sú nettóupphæð er til ráðstöfunar getur verið á greiðsluafgangi ársins 1966, er því tæplega 230 millj. kr. og er þá ekkert tillit tekið til aukinnar rekstursfjárþarfar. Af þessu er hv. þm. væntanlega ljóst, að greiðsluafgangi ársins hefur þegar verið ráðstafað að fullu. 140 millj. hafa verið lagðar til verðtryggingasjóðs vegna sjávarútvegsins, 30 millj. varið til hagræðingarsjóðs landbúnaðarins, 3.2 millj. vegna aðstoðar, við bændur á kalsvæðum og 53 millj. kr. er lagt til að verja til vega og skóla og sjúkrahúsa innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar 1967. Loks mun ekki verða hjá því komizt að færa 20 millj. af fyrirframgreiðslu til togaranna á s.l. ári sem umframgreiðslu á því ári, til þess að auðið verði að greiða til þeirra á miðju þessu ári 20 millj. vegna úthaldsins fyrri hluta ársins.

Vitanlega hefði verið skynsamlegast að leggja greiðsluafganginn nú að verulegu leyti í jöfnunarsjóð, því að ekki þarf mikið út af að bera, svo að reksturshalli geti orðið 100–200 millj. kr., miðað við hina miklu veltu ríkissjóðs og margs konar óvissu um afkomu hans þegar á þessu ári. Þetta var þó ekki talið auðið, fyrst og fremst vegna hinnar brýnu nauðsynjar að geta veitt útflutningsframleiðslunni aðstoð án nýrrar skattlagningar. Það má líka teljast talsvert mikilvægt spör að hafa getað jafnað að fullu halla áranna 1964 og 1965, þannig að hreint borð sé að þessu leyti við Seðlabankann.