02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

Framkvæmd vegáætlunar 1966

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í nóvembermánuði s.l. var lögð fram hér í hv. Alþ. skýrsla um framkvæmd vegáætlunar 1966. Vegna anna tókst ekki að taka skýrsluna til umr. fyrir þinghléið. Fer því vel á því, að skýrslan sé nokkuð rædd í byrjun þingsins, eftir að það kemur saman til funda á nýja árinu. Á árinu 1965 var nokkur halli á vegáætluninni eða 5.9 millj. kr. Þessi halli var aðallega af auknu viðhaldi, sem stafaði af stórfelldum skemmdum á vegum og brúm vegna mikilla vatnavaxta á Suður- og Vesturlandi haustið 1965. Hallinn hefur verið jafnaður með framkvæmd vegáætlunar 1966, en á því ári hefur orðið hagstæður greiðslujöfnuður hjá vegasjóði, sem nemur um 2 millj. kr. Með breyt. á vegal., sem tók gildi 1. jan. 1966, var benzíngjald hækkað um 90 aura pr. lítra. Þungaskattur af dísilbifreiðum var einnig hækkaður um 30–35%. Var áætlað, að tekjur vegasjóðs á árinu 1966 myndu hækka um 56.5 millj. kr., en ráðstöfunarfé aukast um 9.5 millj., þar sem felld var niður úr fjárl. 47 millj. kr. fjárveiting til vegasjóðs, sem áður hafði verið gert ráð fyrir í vegáætlun. Með því að ráðstöfunarféð nam 9.5 millj. kr. meira en sú upphæð, sem tekin var út af fjárl., var mögulegt að ljúka þeim framkvæmdum á árinu 1966, sem frestað hafði verið á árinu 1965 samkv. sérstakri heimild í fjárl. fyrir það ár. Verðhækkanir urðu nokkrar á árinu 1966 og hafði það að sjálfsögðu áhrif á framkvæmdir í vegáætlun, sem kostuðu talsvert meira heldur en áætlað hafði verið. Það kom þó ekki að sök, vegna þess að tekjur vegasjóðs urðu nokkru hærri heldur en áætlað var og tókst því að mæta þeim aukna kostnaði, sem af kaupgjalds- og verðhækkunum leiddi. Veðurfar og náttúruhamfarir hafa oft gert stórspjöll á vegum og brúm víðs vegar um land. Þannig var það haustið 1965, að skemmdir urðu mjög miklar, en þar sem komið var langt fram á haust, var ekki unnt að gera fullnaðarviðgerð fyrr en á árinu 1966 og kom aukakostnaðurinn því til útgjalda á því ári. Snjóþyngsli valda oft miklum aukakostnaði, þar sem nauðsyn ber til að halda aðalvegunum opnum eftir því, sem kostur er á. Kröfur eru uppi um það, að vegagerðin annist snjómokstur umfram það, sem verið hefur, á ýmsum héraða- og hliðarvegum. Verði orðið við þeim kröfum, sem uppi eru um þetta, hefur það aukinn kostnað í för með sér fyrir vegagerðina. Eigi að síður er sjálfsagt að taka þetta mál til nákvæmrar íhugunar og ganga eins langt og hægt þykir til móts við óskir héraðanna.

Snjómokstur veturinn 1966 kostaði vegagerðina um 17 millj. kr. eða 10 millj. kr. meira en árið áður. Á s.l. ári var benzínsalan 4% umfram það, sem áætlað var. Tekjur af gúmmígjaldi mun hafa orðið um 7% umfram áætlun og tekjur af þungaskatti hafa orðið rúmlega eins og reiknað var með. Tekjur vegasjóðs hafa því orðið nokkru hærri heldur en áætlað var eða rúmlega 311 millj. kr. Unnið hefur verið að einstökum framkvæmdum vega og brúa samkv. áætluninni og viðhald veganna hefur miðast við það fjármagn, sem til ráðstöfunar var. Lán til framkvæmda miðast við heimild vegáætlunar 1966 og framkvæmdaáætlun ríkisstj. og rekstraráætlun til lagningar nokkurra þeirra vega, sem tilgreindir eru í III. kafla vegáætlunar 1966. Þannig voru föst lán til hraðbrauta 30.1 millj., til þjóðbrauta 32.3 millj. og landsbrauta 4.5 millj. eða samtals 66.9 millj. kr. Um skiptingu lána þessara vísast til grg. um framkvæmdir á einstökum vegum, sem sjá má í skýrslu þeirri, sem lögð hefur verið fram og þm. hafa á borðum sínum.

Vegna þess hve oft er rætt um lán til vegaframkvæmda, er rétt að gera sér grein fyrir þeim föstu lánum, sem tekin hafa verið til vegaframkvæmda. Í árslok 1966 námu föst lán til hraðbrauta 237.8 millj. kr. Þar af lán til Reykjanesbrautar 232.4 millj. kr. Lán til þjóðbrauta námu í árslok 60 millj. kr. og til landsbrauta 9.7 millj. eða alls 307.5 millj. kr. Þá er rétt að geta bráðabirgðalána, sem tekin hafa verið á s.l. ári til ýmissa framkvæmda vegna óska sýslu- og sveitarfélaga. Þeir aðilar, sem njóta framkvæmdanna, standa undir vöxtum af þeim lánum. Það hefur viðgengizt í áratugi, að hvers konar lán hafi verið tekin til þess að flýta framkvæmdum. Í árslok 1965 námu bráðabirgðalánin kr. 11 millj. 296 þús., en í árslok 1966 9 millj. 237 þús. kr. Hafa bráðabirgðalánin því lækkað á árinu um rúmlega 2 millj. kr. Viðhaldskostnaður þjóðveganna fer ört vaxandi, vegna þess að vegakerfið lengist árlega og umferðin vex hröðum skrefum. Við það bætast verðhækkanir, sem að sjálfsögðu hafa áhrif á kostnaðinn. Til vegaviðhaldsins var á árinu 1966 varið um 125 millj. kr. á móti tæplega 100 millj. kr. 1965. Þrátt fyrir þessa hækkun hefði vissulega verið þörf á auknu fé til viðhaldsins, til þess að vegirnir væru betri til umferðar. Á s.l. vetri gekk frostið mjög langt í jörð niður og sagði það til sín á s.l. vori, þegar hlýna tók í veðri og vegirnir fóru því mjög illa, meðan klakinn var að fara úr þeim.

Þjóðvegirnir munu vera um það bil 10 þús. km að lengd, sýsluvegir um 2 þús. km, en af þjóðvegunum teljast til hraðbrauta 350 km. Það er löngu viðurkennt, að þar sem umferðin er mest, verði vegunum ekki haldið í sæmilegu ásigkomulagi með því að bera ofan í þá möl eða annað laust efni. Aðeins varanlegt slitlag dugar á hraðbrautum. Reykjanesbrautin sýnir, hvernig vegirnir eiga að verða og sú framkvæmd ber vitni um það, hvað mögulegt er að gera í vegamálum hér á landi, þótt því fylgi mikill kostnaður. Það munu flestir vera sammála um, að verkefni næstu ára hljóti að vera varanleg gatnagerð, þar sem umferðin er mest og endurbygging og lagfæring vega annars staðar á landinu, þar sem ekki þykir að sinni fært að gera vegi með varanlegu slitlagi. En nú er verið að ræða um skýrslu framkvæmda s.l. ár, en ekki framtíðarverkefni. Um það mun verða rætt frekar við annað tækifæri.

Á árinu 1966 var gerð umferðartalning með sama sniði og undanfarin ár. Leiddi hún í ljós, að umferðin s.l. sumar var 10–20% meiri á ýmsum vegum en árið 1965. Umferð um Reykjanesbraut var í ágúst-sept. 1965 1350 bílar á dag, en á sama tíma 1966 1540 bílar. Á Vesturlandsvegi sunnan Þingvallavegamóta var umferðin 2020 bílar á dag 1965, en 2540 bílar 1966. Unnið hefur verið að því að setja upp vegamerki samkv. umferðarlögum. Vantar mikið á, að því sé lokið, þótt mikið hafi verið af því gert síðustu árin. Vegamerkin geta komið í veg fyrir slys og auka öryggi á vegunum. Fjárveiting til þessara framkvæmda þyrfti að hækka, til þess að vegmerkingunni mætti ljúka á næstu 2 árum.

Reykjanesbrautin hefur kostað um 270 millj. kr. og eru lán vegna þessara framkvæmda, eins og áður var á minnzt, 232.4 millj. kr. Vegurinn var opnaður til umferðar 26. okt. 1965 og þá jafnframt hafin innheimta umferðargjalds samkv. reglugerð frá 18. okt. 1965, sem sett var með heimild í 95. gr. vegal. Gert var ráð fyrir, að nettótekjur af umferðargjaldinu næmu á árinu 1966 um 13 millj. kr. og hefur sú áætlun staðizt. Nokkur úlfaþytur varð í byrjun vegna umferðargjaldsins, en nú virðast flestir hafa áttað sig á því, að það er eðlilegt að taka þetta gjald og þeir, sem nota veginn, þéna vel á því, miðað við að fara vonda vegi, eins og flestir verða að sætta sig við. Umferðargjaldið stendur ekki nema að litlu leyti undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum, sem á veginum hvíla, eins og augljóst er. Nokkuð var unnið við Þrengslaveg eða Suðurlandsveg á árinu eða samtals fyrir 8.3 millj. kr. og má telja, að undirbyggingu Þrengslavegar sé lokið: Á Suðurlandsvegi er nú verið að vinna að undirbyggingu 3 km kafla ofan Sandskeiðs. Vesturlandsvegur og Austurvegur hafa það mikla umferð, að ekki má langur tími líða, þangað til átak verður gert, sem um munar, til þess að koma varanlegu slitlagi á þessa vegi. Það verk þarf að vinnast á stuttum tíma, eftir að það hefur verið undirbúíð og nákvæmar áætlanir gerðar um framkvæmdirnar. Í skýrslum þeim, sem hér er um að ræða, eru tilgreindar framkvæmdir á þjóðbrautum og þarf því ekki að skilgreina það nánar en þar er gert og sjá má í skýrslunni. Sama máli gegnir með landsbrautirnar, að gerð er grein fyrir hverri framkvæmd fyrir sig í skýrslunni. Þá er og gerð grein fyrir fjallvegum, reiðvegum og því fé, sem varið hefur verið til ferjuhalds. Margar brýr voru byggðar á árinu 1966. Unnið var að brúargerð á Jökulsá á Breiðamerkursandi. Verður því verki væntanlega lokið n. k. sumar. Verður það mikið mannvirki og samgöngubót. Eru nú margir farnir að hugsa í alvöru um hringveg um landið og má nú segja, að Skeiðará sé aðalfarartálminn. Sá tími kemur, að unnið verður á þeim farartálma og leiðin opnast. Margar fleiri brýr voru byggðar á árinu, bæði stórar og smáar, og er það nánar tilgreint í þeirri skýrslu, sem liggur frammi. Þess skal geta, að 1965 var lengd þeirra brúa, sem byggðar voru, 493 m, en 1966 601 m, og eru það mestu brúarframkvæmdir á einu ári.

Með nýju vegalögunum voru sýsluvegasjóðirnir mjög efldir frá því, sem áður var. Tekjur þeirra hafa margfaldazt og er það þegar komið í ljós, að viðhald og gerð sýsluvega hefur stórum batnað síðan fjárlög til þeirra voru aukin. Var unnið í sýsluvegum á s.1. ári fyrir um 17 millj. kr. Til vega í kaupstöðum og kauptúnum var varið á árinu rúmlega 35 millj. kr. Hefur það komið sér vel fyrir kaupstaði og kauptún að fá þetta fé til gatnagerðar, en það nýmæli var upp tekið í vegalögum 1963 að verja nokkrum hluta af tekjum vegasjóðs til vegagerðar í þéttbýli. Véla- og áhaldakaup hafa verið aukin hjá vegagerðinni síðustu árin. Þess gerðist og mikil þörf að endurnýja og auka vélakost vegagerðarinnar. Er enginn vafi á því, að vinnuafköstin verða miklu meiri, þegar vélarnar eru í góðu lagi og á þær má treysta. Gömlu og slitnu vélarnar, sem vegagerðin varð lengi að sætta sig við að nota, gerðu hvort tveggja að tefja vinnuafköstin og til þeirra varð að verja allt of miklu fé til viðhalds og viðgerða. Á árinu 1966 voru keyptar vélar til vegagerðarinnar fyrir rúmlega 18 millj. kr.

Tilraunir við vega- og gatnagerð voru gerðar á árinu og til þess varið um 2.5 millj. kr. Tilraunir voru gerðar með olíumöl á 2 km kafla á Álftanesveginum og 300 m kafla á Suðurlandsvegi í Svínahrauni. Enn sem komið er sér ekki slit á vegarkaflanum í Svínahrauni, sem sérstaklega var ætlað að sýna, hver áhrif akstur á keðjum hefði á olíumöl. Það er mikilvægt atriði, ef það sýnir sig, að olíumöl reynist vel, þar sem umferð er tiltölulega mikil. Olíumöl er miklu ódýrari heldur en malbik, en um það skal ekkert fullyrt hér, hver árangur verður af þeim tilraunum, sem nú eru hafnar. Ýmsar fleiri tilraunir hafa verið gerðar að tilhlutan vegagerðarinnar og rannsóknir á ýmsum efnum, sem til greina koma í vegagerð. Hér hefur verið gerð lítillega grein fyrir vegaframkvæmdum á s.l. ári og eins og sagt hefur verið, hefur vegáætluninni verið fylgt. Tekjur vegasjóðs hafa reynzt nokkru meiri heldur en áætlað var og hefur aukinn tilkostnaður því ekki dregið úr framkvæmdum. Útgjöld vegasjóðs á árinu, að meðtöldum lánum, námu alls 340 millj. kr. Nú, þegar tímabil vegáætlunar er hálfnað, verður að gera ráðstafanir til að endurskoða áætlunina og umreikna ýmsa liði hennar miðað við þær tekjur, sem vegasjóður hefur til umráða, og lagfæra annað með hliðsjón af verðbreytingum, sem orðið hafa. Þá er það einnig til athugunar hjá ríkisstj., hvort tekjur vegasjóðs verða auknar að þessu sinni í sambandi við þá endurskoðun og umreikning, sem fram verður að fara, Enda þótt vegafé sé nú tiltölulega meira en áður og þótt framkvæmdir í vegamálum hafi síðustu árin verið mun meiri en fyrr, geta allir verið sammála um að gera ráðstafanir til þess að flýta ýmsum framkvæmdum, sem bíða. Má þar nefna m. a. að gera varanlegt slitlag á hraðbrautir og lagfæra ýmsa vegi í ýmsum héruðum landsins, sem enn eru ekki í góðu ásigkomulagi.