01.11.1966
Neðri deild: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram fsp. og tilmæli til hæstv. menntmrh. út af atburði, sem gerzt hefur í Háskóla Íslands. Svo er mál með vexti, að Stúdentafélag háskólans hafði farið fram á að fá 1. kennslustofu háskólans til þess að sænska skáldkonan Sara Lidman mætti halda þar erindi og vararektor háskólans hefur neitað Stúdentafélaginu um þetta. Nú er það svo, að stúdentar háskólans hafa ekki sjálfir umráð yfir neinu félagsheimili eða slíku og háskólayfirvöld hafa fram að þessu verið, hvað á maður að segja, furðu frjálslynd í því að lána jafnvel félögum, sem eru algerlega utan háskólans meira að segja sjálfan háskólasalinn til fyrirlestrahalds og fundahalda. Stúdentafélag háskólans er nú endurvakið og ef það tekst að gera það að því, sem stúdentafélög háskóla eiga að vera, þannig að þar sé mjög frjáls ræðustóll fyrir allar mögulegar skoðanir, þarf að koma því inn frá upphafi í háskólayfirvöldin, að þau sýni frjálslyndi í slíkum málum og veiti stúdentum aðgang ýmist að sal háskólans sjálfum eða fyrirlestrasal, til þess að hægt sé að ræða slík mál. Ég álít þess vegna mjög illa farið, ef háskólayfirvöld, og þar á ég fyrst og fremst við vararektor háskólans, hafa ekki kjark í sér til þess að sýna slíka gestrisni og slíkt frjálslyndi. Hæstv. forsrh. hefur nýlega verið á ferð í Svíþjóð og mætt þar allri gestrisni, og hér kemur nú ein frægasta skáldkona Svíþjóðar, og þá eru þetta móttökurnar frá okkar æðstu menntastofnun.

Ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort hann hafi nokkuð um þetta vitað eða nokkurt samráð hafi verið við hann haft. Og satt að segja hef ég ekki trú á, að slíkt hafi verið gert, og komi það í ljós, vil ég bera fram þau tilmæli til hæstv. menntmrh., að hann beiti sínum áhrifum við viðkomandi háskólayfirvöld, svo að þau breyti þarna um stefnu og sýni það frjálslyndi, sem þarna á að eiga heima, og leyfi Stúdentafélaginu að halda þann fund, þann fyrirlestur og þau erindi, sem Stúdentafélagið hafði beðið sænsku skáldkonuna Söru Lidman um.