24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

Minning látinna fyrrverandi alþingismanna

forseti (BF):

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég minnast nokkrum orðum fyrrv. alþm., séra Sigurðar Einarssonar í Holti, sem lézt í gær í sjúkrahúsi hér í borg, 68 ára að aldri.

Sigurður Einarsson var fæddur 29. okt. 1898 á Arngeirsstöðum í Fljótshlíð. Foreldrar hans voru Einar bóndi þar og síðar í Móakoti í Garðahverfi Sigurðsson bónda á Fagurhóli í Landeyjum Einarssonar og kona hans, María Jónsdóttir bónda á Arngeirsstöðum Erlendssonar. Hann lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavík vorið 1922, stundaði síðan guðfræðinám við Háskóla Íslands og lauk prófi snemma árs 1926. Þá um vorið varð hann sóknarprestur í Flatey á Breiðafirði, en fékk lausn frá því embætti síðla árs 1928. Snemma á því ári fór hann utan til námsdvalar og kynnti sér uppeldis- og skólamál í ýmsum löndum Evrópu um nær tveggja ára skeið. Hann var eftirlitsmaður með kennslu í æðri skólum 1929–1930, kennari við Kennaraskólann 1930–1937, dósent í guðfræði við Háskóla Íslands 1937–1944, skrifstofustjóri fræðslumálaskrifstofunnar 1944–1946 og loks sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum frá 1946 til dauðadags. Jafnframt þessum aðalstörfum var hann fréttamaður erlendra frétta ríkisútvarpsins 1931–1937 og fréttastjóri ríkisútvarpsins 1937–1941. Í útvarpsráði átti hann sæti 1943–1947. Hann var landsk. alþm. fyrir Alþfl. 1934–1937, sat á fjórum þingum alls.

Sigurður Einarsson var þjóðkunnur af störfum einum við ríkisútvarpið á fyrstu árum þess. Hann flutti þar mál sitt af þrótti og mælsku, og orðsins list lá honum létt á tungu. Þessum hæfileikum beitti hann í ríkum mæli í öllu ævistarfi sínu, í kennslustofum, útvarpi, í sölum Alþingis og í kirkjum. Hann var einarður og djarfmæltur og stóð fyrrum styrr um ýmsar skoðanir hans, er hann sótti mál sitt og varði í ritdeilum og kappræðum. Hann átti sæti í fjvn. og menntmn. Alþingis og lét þar mörg málefni til sín taka. Ritverk hans eru mikil að vöxtum og margvísleg. Hann samdi kennslubækur, ritgerðir um ýmis málefni líðandi stundar, skáldsögur og leikrit og orti ljóð. Einnig var hann mikilvirkur þýðandi erlendra bóka. Hann var viðförull og miðlaði löndum sínum óspart í ræðu og riti fróðleik um framandi lönd og þjóðir.

Sigurður Einarsson var afburða kennari og kennimaður, vinsæll og dáður af flutningi talaðs orðs í útvarpi og á öðrum vettvangi, snjall rithöfundur, ágætt skáld og skemmtilegur í víðræðum. Við fráfall hans á þjóð vor á bak að sjá miklum hæfileikamanni.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Sigurðar Einarssonar með því að rísa úr sætum. [Þingmenn risu úr sætum]