12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. alþm. munu hafa kynnt sér frv. það, sem hér er um að ræða, en það gerir ráð fyrir, að stofnaður verði framleiðnisjóður fyrir landbúnaðinn.

Snemma á s.l. sumri ræddi ég við fulltrúa bænda í 6 manna n. og framkvæmdastjóra framleiðsluráðs um þá hugmynd að stofna framleiðnisjóð landbúnaðarins. Í framhaldi af þeim umr. var ákveðið að biðja framkvæmdastjóra framleiðsluráðs, Svein Tryggvason, og prófessor Ólaf Björnsson að gera drög að frv. um framleiðnisjóð. Luku þessir menn því í ágústmánuði s.l. Í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara á s.l. hausti kom þetta mál einnig til umr. Var samkomulag gert við fulltrúa bænda í 6 manna n. um að stofna framleiðnisjóð landbúnaðarins með 30 millj. kr. stofnframlagi. Var ákveðið, að af stofnframlaginu yrðu greiddar fyrir árslok 1966 20 millj. kr. og skal þeirri fjárhæð ráðstafað af stjórn sjóðsins að fengnum till. framleiðsluráðs.

Hinn 29. sept. s.l. skipaði ég 5 manna n. til þess að semja frv. um framleiðnisjóð landbúnaðarins, og var ákveðið að styðjast við þær frumtill., sem fyrir lágu samkv. áðurnefndu frv. Í n. voru skipaðir Ólafur Björnsson prófessor, Jón Þorsteinsson alþm., Gunnar Guðbjartsson formaður Stéttarsambands bænda, Kristján Karlsson fyrrv. skólastjóri og Gunnlaugur E. Briem ráðuneytisstjóri, sem var skipaður formaður n. Nefndin skilaði frv. að mestu shlj. því, sem hér hefur verið lagt fram og nú er til umr.

Frv. gerir ráð fyrir að stofna framleiðnisjóð landbúnaðarins með 50 millj. kr. stofnframlagi. Sjóðnum er ætlað að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar á bújörðum. Heimilt er að styrkja rannsóknir og framkvæmdir, er miða að lækkun framleiðslu- og dreifingarkostnaðar, svo og framkvæmdir, er stefna að því að samræma landbúnaðarframleiðsluna þörfum þjóðfélagsins miðað við markaðsaðstæður innanlands og utan á hverjum tíma. Lán og styrki úr sjóðnum má m.a. veita til einstakra bænda, vinnslustöðva, ræktunarsambanda og vísindastofnana. Við styrkveitingar til einstakra bænda skal að öðru jöfnu taka tillit til efnahags þeirra.

Í stjórn framleiðnisjóðs skulu vera 5 menn, er landbrh. skipar til fjögurra ára í senn. Einn þeirra skal skipaður samkv. tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, annar samkv. tilnefningu Stéttarsambands bænda og tveir án tilnefningar. Formaður sjóðsstjórnarinnar skal vera forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar eða fulltrúi hans. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Stjórn framleiðnisjóðs úthlutar lánum og styrkjum úr sjóðnum. Af því fé, sem ráðstafað verður úr sjóðnum á ári hverju, má eigi vera meira en 1/3 hluti til styrkveitinga. Stjórn framleiðnisjóðs skal við hver áramót láta landbrh. í té skýrslu yfir störf sín og fjárveitingar úr sjóðnum á liðnu ári. Jafnframt skal sjóðsstjórnin senda landbrh. .til athugunar fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir komandi ár og grg. um þau meginverkefni, sem að kalla.

Af stofnframlagi sjóðsins greiðast 20 millj. kr. á árinu 1966, og skal stjórn framleiðnisjóðs ráðstafa því að fengnum till. framleiðsluráðs landbúnaðarins til vinnslustöðva landbúnaðarins vegna endurbóta, sem gerðar hafa verið á árinu 1966. Eftirstöðvarnar, 30 millj. kr., skulu greiðast með jöfnum, árlegum greiðslum á árunum 1967–1969. Gert er ráð fyrir því, að Búnaðarbanki Íslands hafi umsjón með framleiðnisjóði, sjái um bókhald hans og rekstur samkv. samkomulagi við sjóðsstjórnina. Gert er ráð fyrir, að reikningar framleiðnisjóðs verði árlega birtir í Stjórnartíðindum. Þá er ætlazt til, að stjórn sjóðsins ákveði vexti af lánum og önnur lánskjör að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.

N. sú, er samdi þetta frv., gerði ráð fyrir því, að ef til þess kæmi, að ekki væri þörf fyrir að nota að fullu þá upphæð, sem ætluð er til útflutningsuppbóta á landbúnaðarvörur, þ.e. 10% af heildarverðmæti landbúnaðarins hvert ár, gengi 0.25% af því, sem afgangs yrði, til framleiðnisjóðs. Sumir nm. lögðu talsvert upp úr því, að þetta ákvæði væri tekið inn í l. Nm. viðurkenndu þó, að ekki væri líklegt, að það lagaákvæði kæmi sjóðnum að gagni næstu árin, þar sem litlar líkur eru til, að ekki væri nauðsyn á að nota að fullu þá heimild, sem er til útflutningsuppbótanna. Það gefur að skilja, að síðar verður að endurskoða lög um framleiðnisjóð og tryggja honum tekjur til frambúðar, ef reynslan sýnir, að sjóðurinn gerir það gagn, sem vonir standa til. Þótt 50 millj. kr. stofnframlag sé myndarleg upphæð, má eigi að síður reikna með, að þörf verði á tekjum fyrir sjóðinn eftirleiðis, þegar reynsla er komin á starfsemina og sýnt er, hvernig fjármunirnir notast bezt til þess að tryggja framtíð íslenzks landbúnaðar.

Segja má, að tilgangur l. um framleiðnisjóð sé tvíþættur. Í fyrsta lagi er sjóðnum ætlað að stuðla að nauðsynlegum breytingum á landbúnaðarframleiðslunni, stuðla að því, að hún geti orðið fjölbreyttari og fullnægi sem bezt þörfum þjóðarinnar og sé í samræmi við markaðsaðstæðurnar bæði innanlands og utan. Þá er framleiðnisjóði einnig ætlað að stuðla að aukinni hagkvæmni í framleiðslu búsafurða, svo að framleiðsluafköst í landbúnaðinum megi verða sem mest miðað við fjármagn og vinnuafl. Allir munu sammála um, að nauðsyn beri til að haga framleiðslu búvara eftir því, sem þarfir þjóðarinnar krefjast, og sá hluti framleiðslunnar, sem út kann að verða fluttur, sé í sem beztu samræmi við markaðsaðstöðuna hverju sinni. Með því að hvort tveggja getur tekið breytingum með tiltölulega litlum fyrirvara, en það tekur ávallt nokkurn tíma að breyta framleiðsluháttum, getur verið nauðsynlegt að flýta fyrir breytingum á framleiðslunni, svo og að auka fjölbreytni hennar með beinni aðstoð, eins og lög þessi gera ráð fyrir.

Á undanförnum árum hefur landbúnaðarframleiðslan aukizt mikið, sérstaklega mjólkurframleiðslan. Hefur mjólkurframleiðslan vaxið undanfarin ár um 5–7% , og voru margir áhyggjufullir út af því, að erfitt væri að koma mjólkurvörunum í fullt verð í seinni tíð. Á þessu ári verður mjólkurframleiðslan nokkru minni en s.l. ár. Má gera ráð fyrir 3–4% minni framleiðslu en var á s.l. ári. Framleiðnisjóður getur vissulega haft það hlutverk ásamt öðrum að stuðla að því, að mjólkurframleiðsla dragist ekki saman, þar sem markaður er fyrir hendi. Sala sauðfjárafurða á erlendum markaði er miklu nær því að vera samkeppnisfær heldur en mjólkurvörurnar. Eðlilegt er að miða mjólkurframleiðsluna sem næst því, sem þörf er fyrir á innlenda markaðinum, en þá er óhjákvæmilegt, að nokkur umframframleiðsla verði í góðu árferði. Um leið og stuðlað er að aukinni sauðfjárframleiðslu, eftir því sem heyfengur og beitarþol landsins leyfir, munu flestir vera sammála um, að vinna beri að aukinni fjölbreytni í framleiðslunni og efla nýjar búgreinar, eftir því sem þurfa þykir. Á s.l. sumri varð heyfengur bænda tæplega í meðallagi. Heybirgðir eða varaforði mun ekki vera fyrir hendi. Þeir, sem töluðu um, að ræktun væri nægilega mikil og ekki þörf fyrir að halda áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið síðustu árin í ræktunarmálum, hafa vonandi sannfærzt um, að fátt er nauðsynlegra íslenzku þjóðinni en að bæta landið og halda áfram að rækta það, auka beitarþol í heimahögum og á afréttum.

Enginn vafi er á því, að framleiðnisjóður hefur mikilvægu verkefni að gegna fyrir landbúnaðinn. Það er hagur ekki aðeins fyrir bændur, heldur fyrir þjóðina alla, ef framleiðni í landbúnaðinum er aukin. Í grg. fyrir frv. er komizt svo að orði m.a.:

„Talið er, að heildarverðmæti landbúnaðarins verðlagsárið 1965–1966 sé um 2200 millj. kr. Ef tala bænda er sögð vera 5500, samsvarar þetta um 400 þús. kr. á hvern bónda að meðaltali. Þó er bændastéttin sem heild talin tekjulægsta stétt þjóðfélagsins, þegar allur tilkostnaður hefur verið dreginn frá. Þetta bendir til þess, að mjög mikill mismunur sé á tekjum bænda innbyrðis, og einnig, að óhagkvæmni gæti í sjálfum rekstrinum. Vitað er, að margir bændur hafa góðan arð af búum sínum, þó að ekki sé um stórbú að ræða, en margur bóndinn, sem þó býr stórbúi, á ekkert eftir að lokum. Hvað veldur þessum mismun? Sjálfsagt koma þarna til greina hin margvíslegustu atriði, allt frá sjálfri jarðræktinni til fóðrunar búpeningsins. Hér verða þessi atriði ekki talin, en gert er ráð fyrir því, að stjórn sjóðsins verji allmiklu fé til hagfræðilegra rannsókna á því, hvað veldur hinni mismunandi góðu afkomu hjá bændum, og styrki síðan þá bændur til umbóta og breytinga, sem vilja koma betra lagi á búskap sinn, enda séu þá þær endurbætur gerðar að ráði og undir eftirliti sérfróðra manna, er stjórn sjóðsins viðurkennir, og er þá gert ráð fyrir, að áðurnefndar rekstrarrannsóknir verði lagðar til grundvallar slíkum breytingum á rekstri búsins. Kjörorðið verður að vera: Minni tilkostnaður á hverja framleiðslueiningu.“

Þá talar n. um nauðsyn á því að bæta sláturhúsin, sem mörg eru úrelt og fullnægja ekki kröfum tímans. Búreikningaskrifstofa landbúnaðarins hefur verið rekin mörg undanfarin ár, en lengst af búið við fjárskort. Síðustu árin hefur fjármagn til búreikningaskrifstofunnar verið aukið verulega, og má því ætla, að hún geti gert mikið gagn í sambandi við þær nauðsynlegustu leiðbeiningar og hagfræðilegu upplýsingar, sem þurfa að liggja fyrir, þegar unnið er að aukinni hagkvæmni í landbúnaðinum.

Hér hefur verið drepið á, hver er höfuðtilgangur l. um framleiðnisjóð. Vonandi verður þessari lagasetningu vel tekið og framkvæmdin þannig, að að sem mestu gagni megi koma fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina.

Nauðsyn ber til, að málinu verði hraðað gegnum þingið, eftir því sem föng eru á, og að því stefnt, að frv. geti orðið að l. fyrir þinghlé.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni þessari umr.