19.04.1967
Sameinað þing: 39. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

Þinglausnir

Forseti hæstaréttar (Gizur Bergsteinsson):

Handhafar valds forseta Íslands hafa gefið út svofellt bréf:

„Handhafar valds forseta Íslands samkv. 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsrh., forseti sameinaðs Alþingis og forseti hæstaréttar, gjöra kunnugt:

Þar eð Alþ. það, er nú situr, 87. löggjafarþing, hefur samþ. frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, ber samkv. 79. gr. stjórnarskrárinnar að rjúfa Alþingi nú þegar og stofna til almennra kosninga að nýju.

Samkv. þessu er Alþingi hér með rofið frá og með 11. júní 1967. Jafnframt er ákveðið, að almennar kosningar til Alþingis skuli fara fram nefndan dag, sunnudaginn 11. júní 1967.

Alþingi, er nú situr, mun væntanlega ljúka störfum 19. þ. m. Veitum vér hér með forseta hæstaréttar, Gizuri Bergsteinssyni, umboð til þess í voru nafni að slíta Alþingi, 87. löggjafarþingi, er það hefur lokið störfum.

Gjört í Reykjavík, 19. apríl 1967.

Bjarni Benediktsson,

Birgir Finnsson,

Gizur Bergsteinsson.

Bjarni Benediktsson.

Bréf handhafa valds forseta Íslands um þingrof, almennar kosningar til Alþingis og þinglausnir.“

Samkv. þessu bréfi, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að þessu þingi, sem nú hefur lokið störfum, er slitið.

Ég óska þingmönnum velfarnaðar, þjóðinni allra heilla og bið alþm. að minnast forseta Íslands og fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.

Þingheimur stóð upp, og forsrh., Bjarni Benediktsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þm. undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.