23.02.1967
Efri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1687)

119. mál, jarðræktarlög

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af hv. 4. þm. Austf. ásamt mér, og er efni þess, að inn í jarðræktarlögin verði tekinn nýr liður um framlag til vatnsveitna til heimilis- og búsþarfa, 1/3 hluti af samþykktum stofnkostnaði.

Um alllangt skeið hefur ríkið veitt aðstoð við vatnsveitur samkv. l. nr. 93 frá 1947. Samkv. þeim l. veitir ríkið sveitarfélögum eða sérstökum vatnsveitufélögum styrk til vatnsveitna, þ. e. til stofnæða, vatnsgeyma, jarðborana og til dælukaupa, allt að helmingi kostnaðar. Á fjárl. fyrir yfirstandandi ár eru veittar í þessu skyni 6.8 millj., en þar að auki eru veittar til 10 heimila sérstakar upphæðir, allt frá 15 þús. kr. og upp í 60 þús. kr., og nema þessar fjárveitingar samtals 295 þús. kr. Um þetta er gott eitt að segja, og þegar er komið fordæmi í þessum efnum, eins og ég hef þegar lýst, og þar með grundvöllur fenginn til þess að færa út kvíarnar og gera alla jafna að lögum, sem leggja í kostnaðarsamar vatnsveitur.

Ríkið veitir bændum framlög til ýmissa framkvæmda samkv. 10. gr. jarðræktarlaganna. Okkur flm. finnst að athuguðu máli, að bezta lausnin í þessum efnum sé sú að taka upp ákvæði um vatnsveitur inn í jarðræktarl., enda hefur Búnaðarfélag Íslands með framkvæmd þeirra að gera og það hefur líka sérfróðum mönnum á að skipa á þessu sviði, sem og fjölmörgum öðrum sviðum, sem tilheyra starfsemi félagsins. Það má líka á það benda, að þetta leiðir til þess, ef Búnaðarfélagið hefur þessi mál með höndum, að þá verður allur undirbúningskostnaður minni fyrir ríkisvaldið en ella mundi verða, auk þess sem það verður hentugra fyrir bændur að fá þær upplýsingar, sem þeim er nauðsynlegt.

Um nauðsyn vatns fyrir hvert heimili þarf ekki að fjölyrða hér. Það er vitað mál, að ekkert heimili getur án þess verið. Það er líka vitað mál, að eftir veturinn 1965–1966 hefur margur þurft að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir til vatnsöflunar, því að þá kom það betur í ljós en oft áður, hversu mikils virði örugg vatnsból eru og hve þýðingarmikið það er að ganga vel frá vatnsleiðslum. Það lætur nærri, að kostnaður við 1 km vatnsleiðslu í tommuplaströrum sé nálægt því 30 þús. kr. Vel frágengið vatnsból kostar varla undir 10–20 þús. kr., og skurðgröftur og mokstur yfir vatnsleiðslur kostar allmikið, ég þori ekki að nefna þær upphæðir, því að þær eru sjálfsagt mjög misjafnar eftir því, hvernig landið er, en það er ekki fjarri lagi að áætla þann kostnað á km nálægt 10 þús. kr., svo að það er fljótt að koma upp í nokkurra tugþús. kr. kostnað, þó að ekki sé nema um litla vatnsveitu að ræða. Það virðist því vera full þörf á því og ekki heldur frekt af stað farið, þótt ríkið taki á sig 1/3 hluta af kostnaði vatnsveitna til heimilis- og búsþarfa, þegar það er haft í huga, að ríkið tekur að sér allt að helming kostnaðar hjá sveitar- og vatnsveitufélögum við þær framkvæmdir, sem þau félög hafa með böndum. Ég vænti því þess, að hv. þm. sýni máli þessu skilning og samþykki þetta frv., sem hér liggur fyrir, og að lokinni þessari umr. óska ég eftir því. að því verði vísað til 2. umr. og landbn.