01.11.1966
Neðri deild: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1696)

10. mál, áfengislög

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur hér mælt mjög ýtarlega fyrir þessu máli og skýrt mjög réttilega meginatriði þess, og get ég á allan hátt tekið undir allt það, sem hann sagði. Ástæðan til þess, að ég taldi rétt að standa hér upp og segja nokkur orð, er hins vegar sú, að n. sú, sem þetta mál hefur haft með höndum, var skipuð með nokkuð sérstökum hætti, þ.e.a.s. það var ákveðið, að í n. skyldu eingöngu kosnir alþm., og var svo gert. Og það var beinlínis gert með það í huga, að n. yrði í sérstökum tengslum við Alþ. og þingflokka, með það sjónarmið fyrir augum, að athugun málsins og síðari meðferð þess gæti átt sér formælendur í öllum flokkum og málið þar af leiðandi orðið skoðað á breiðari grundvelli en ella mundi verða. Það féll í minn hlut á sínum tíma að vera formaður þessarar n., og með hliðsjón af því, hversu n. er til komin, þó að það sé að sjálfsögðu óeðlilegt, að af hálfu n. sé farið að ræða mál, sem flutt er sérstaklega af ríkisstj., tel ég þó rétt að segja aðeins nokkur orð til þess að skýra þau meginsjónarmið, sem réðu í starfi nefndarinnar.

Hugmyndin með tilkomu þessarar n. og það, sem síðar varð leiðarljós hennar, var að reyna að kanna þessi mál með öðrum hætti en gert hefur verið, reyna að kanna þau algerlega hlutlaust og á breiðum grundvelli og reyna að komast, eftir því, sem mögulegt væri, að niðurstöðu um það, hverjar orsakir væru til þeirrar miklu áfengisneyzlu, sem óneitanlega er hér á landi. Hingað til hafa komið fram að sjálfsögðu margar till. um lausn áfengisvandamálsins. Það hefur verið reynt margt af þessum till. Við höfum haft áfengisbann, við höfum haft áfengisskömmtun, og við höfum yfirleitt haft alla hugsanlega skipan þessara mála. En það hefur jafnan endað með því, að mönnum hefur þótt ástandið í rauninni versna, eða a. m. k. ekki verða nein bót á því, þannig að frá öllum þessum úrræðum hefur verið horfið, og okkur langaði því mjög til þess í þessari n. að athuga, hvort hægt væri að kanna þessi mál til hlítar. Af þessum sökum tók starf n. æðilangan tíma, um tveggja ára skeið, og þótti sumum nóg um, að hún skyldi ekki fyrr ljúka störfum, ekki sízt þegar á daginn kom, að frá henni kom ekki lengra eða veigameira frv. en hér er um að ræða. En á það vil ég leggja áherzlu og taka undir það með hæstv. dómsmrh., að frv. er í rauninni ekki aðalatriði málsins hjá n. Því var vísað til hennar á sínum tíma, eftir að Alþ. hafði frestað afgreiðslu málsins, og n. taldi sér að sjálfsögðu skylt að taka það til meðferðar og athuga, hvort um það gæti orðið samstaða í einhverju formi. Um það var deila hér á Alþ., fyrst og fremst út af aldursmarki, sem þá var í frv., en hér er í rauninni um takmarkað vandamál að ræða að reyna að girða fyrir áfengisneyzlu unglinga, einkum með því að leggja þyngri skyldur á þá fullorðnu varðandi þeirra viðskipti við unglinga í sambandi við áfengi, og að öðru leyti að reyna að benda á úrræði til þess, að ungt fólk geti skemmt sér á þeim beztu skemmtistöðum, sem tiltækir eru, og þá fyrst og fremst í Reykjavík, sem ekki hefur verið hægt hingað til vegna áfengisveitinga þar.

En þetta er auðvitað ekki nema einn þáttur málsins. Höfuðvandamálið, sem við er að glíma, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í flestum öðrum löndum og raunar öllum, þar sem við áfengisvandamál er að glíma, er að gera sér grein fyrir því, hvers vegna menn neyta áfengis og hvaða orsakir liggja því til grundvallar, að einn maður verður áfengi að bráð og annar ekki. Það er vitanlegt, að það eru sumir menn þegar frá upphafi dæmdir til að verða áfengissjúklingar, ef þeir neyta áfengis, en aðrir geta gert það sér að skaðlitlu langa ævi. Það er einnig ljóst, að áfengisneyzla er mjög mismunandi mikil eftir ýmsum aðstæðum. Hún eykst á vissum tíma, minnkar jafnvel á öðrum, og það er alveg ljóst, að hér koma til greina margvísleg félagsleg og sálræn viðfangsefni. Í þetta hefur verið lagt mikið fé í mörgum löndum, þó að það hafi ekki verið gert hér á landi, til að rannsaka þetta vísindalega. Það hefur að vísu einn merkur vísindamaður hér á landi gert nokkra athugun á þessu máli, prófessor Tómas Helgason, og n. átti við hann rækilegar viðræður, og álitsgerð frá honum fylgir með nál., og einmitt í framhaldi af þeim viðræðum og athugunum lagði n. til, og ég tel það í rauninni veigamest hennar tillagna, að hér verði hafizt handa um vísindalegar rannsóknir á áfengisvandamálinu. Það er skoðun okkar, að það sé kannske auðveldara að gera þetta en í flestum öðrum löndum og það geti verið grundvöllur fyrir því, að það væri hægt að fá alþjóðlega samvinnu um það að velja Ísland, sem er lítið þjóðfélag, en á við flest þau félagslegu og þjóðfélagslegu vandamál að glíma, sem aðrar miklu stærri þjóðir eiga einnig við að glíma í dag, er velmegunarþjóðfélag og getur fyllilega verið nokkurs konar módelþjóðfélag, ef svo má segja, sem vel væri hægt að taka sem, ef svo má segja, heiminn í hnotskurn, til þess að rannsaka þessi mál. Og þess vegna er á það bent, hvort ekki væri rétt og mögulegt að fá aðstoð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til þess að gera um þetta athuganir hér á landi.

Það kom í ljós við allt starf n., að skýrslugerð í þessu efni er ákaflega takmörkuð, og þess vegna er það vissulega svo, að það er margt, sem í þetta álit áfengismálanefndarinnar vantar. Við höfum haft löngun að kynna okkur miklu betur áhrif áfengis á afbrot og samhengi þar á milli og ótalmörg önnur atriði slík, svo sem áhrif áfengis á ýmis félagsleg atriði í samlífi fólks, sem reynt er sums staðar að víkja að, en eru alls staðar áætlanir um, vegna þess að um þetta skortir allar tölulegar upplýsingar. En þetta er viðfangsefni, sem n. hefur aflað sér þeirra upplýsinga um, sem tiltækar eru í þjóðfélaginu. Um þetta vantar, eins og ég sagði, alla nauðsynlega skýrslugerð, og þetta er viðfangsefni, sem er áreiðanlega hin mesta nauðsyn, ef á að vera hægt að kanna þetta til hlítar.

Ég mundi því álíta, að þetta væri hvað brýnast til þess að þoka þessu máli áleiðis, að reyna að taka þetta mál alveg frá rótum hleypidómalaust. Það er ekki þar með sagt, að það sé nein auðveld lausn á þessu og kannske engin lausn á því. Það kann vel svo að vera, að við þetta verði ekki ráðið, og þær ábendingar, sem við gefum varðandi það frv., sem fylgir með okkar till., það er auðvitað ómögulegt að fullyrða, hvort það er nákvæmlega rétt eða hvort eitthvað annað ætti að gera. En það er auðvitað ekki hægt að skjóta öllu á frest í skjóli þess, að þetta sé svo víðtækt vandamál og eigi eftir að rannsaka svo mikið, að þar af leiðandi sé ekki hægt að hafa nógu fast land undir fótum. Það er engum efa bundið, að áfengisvandamálið er mesta félagslega vandamál þjóðarinnar í dag, og það er á ótal sviðum, sem þar eru djúp sár, sem erfitt er að græða, en vissulega hin mesta þjóðfélagsnauðsyn, að hægt sé fyrst og fremst að koma í veg fyrir og að öðru leyti að græða, þar sem þau eru þegar komin.

Ég vil aðeins að lokum á það leggja ríka áherzlu, sem ég sagði í upphafi míns máls. Til n. þessarar var stofnað í því skyni að reyna að fá sem breiðasta þátttöku í að hugsa um þetta mál og reyna að gera sér grein fyrir því hleypidómalaust, og það er rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði: Meginkjarninn í till. n. liggur ekki í því frv., sem hér liggur fyrir, heldur í þeim ábendingum, sem er að finna í nál. hennar og við erum sammála um að séu þess eðlis, að mikil nauðsyn sé að þoka áleiðis. Þar þarf vissulega samstöðu og samstarf margra aðila, eins og hæstv. dómsmrh. benti á, og það er mikils um vert, að það fái sem breiðastan og víðtækastan skilning og samhug hér á hinu háa Alþingi, því að hér er vissulega um hið mikilvægasta vandamál og viðfangsefni að ræða.