11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1703)

10. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Nú er ekki gott í efni hjá hæstv. ríkisstj. Hún er greinilega komin í minni hl. í einni virðulegri þn., allshn. þessarar hv. d. Og átakanlegast er það fyrir hæstv. stjórn, að það eru nm. úr stjórnarflokkunum, sem hér hafa snúið baki við henni og eru með tillöguflutningi að reyna að spilla einu af hennar hjartans málum, frv. því, sem hér liggur fyrir.

Það var einu sinni fyrir mörgum árum bóndi í sveit, sem þurfti að taka sér ferð á hendur um langan veg til Reykjavíkur með konu sína sjúka til þess að leita henni læknishjálpar. Þetta var að vetrarlagi, og bóndinn fékk roskinn mann í sinni sveit til þess að stjórna búinu, meðan hann væri fjarverandi. Sá, sem hann fékk til þess, var merkur maður, skjótráður og duglegur. En nú gerðist það, nokkru eftir að hjónin voru að heiman farin, að það kemur upp einhver ágreiningur milli bústjórans og vinnuhjúa á heimilinu um eitthvað af því, sem þar þurfti að vinna. Ráðsmaður brá við skjótt og tók sér ferð á hendur á næstu landssímastöð til þess að gera bóndanum aðvart um, hvernig komið væri. Hann ákvað að senda honum símskeyti, og þá var náttúrlega sjálfsagt, eins og venja er, að reyna að koma efninu fyrir í sem fæstum orðum og símskeytið, sem hann skrifaði, var svo hljóðandi: „Ómögulegur undirlýður — kominn í minni hl. — komdu strax heim:“

En hvað gera nú hæstv. ráðh., þegar þeir eru komnir í svipaða aðstöðu og bústjórinn? Vitanlega gætu þeir tekið sér ferð á hendur út í landssímastöðina hér í miðborginni og skrifað skeyti til húsbóndans, herra forsetans á Bessastöðum, beðið hann að koma skjótlega og leysa þá frá öllu baslinu við bústjórnina. Þetta er auðvitað hlutur, sem þeir hefðu átt að vera búnir að gera fyrir löngu, því að flest hefur gengið öfugt í bústjórn þeirra frá fyrstu byrjun. En ég tel samt vafasamt, að hæstv. ráðh. hafi þann manndóm, sem til þess þarf að bregða á þetta eina rétta ráð. Hvað geta þeir þá gert? Líklega ekki annað en það að segja í sinn hóp það sama og ráðsmaðurinn sagði forðum: Þetta er ómögulegur undirlýður.

Ég er enginn aðdáandi núv. hæstv. ríkisstj. Ég tel ekki, að hún hafi til þess unnið. En ef hún flytur mál, sem ég tel til bóta, styð ég hana í því að koma þeim fram, og svo er hér. Þeir gætu þá, stjórnarflokkamenn, sparað fullyrðingarnar um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar í þessu tilfelli. Annars ráða þeir orðum sínum vitanlega, og mér er alveg sama, þó að þeir nefni þetta ábyrgðarleysi hjá mér, ef þeim þykir það við eiga.

Ég tel ákvæði frv. yfirleitt heldur til bóta og vil ekki skerða þau. Hins vegar langar mig til þess að bæta frv. nokkuð og flyt till. um það á þskj. 408.

Það hefur alllengi tíðkazt sá siður hér að nokkrir fyrirmenn, svo sem ráðh. og þingforsetar, hafa notið þeirra sérstöku viðskiptakjara hjá áfengisverzlun ríkisins að fá þar keypt áfengi með mjög niðursettu verði. Þetta tel ég óeðlilegt og hef gert tilraunir til þess að fá horfið frá þessari venju, þó að það hafi ekki borið árangur, og ég vil nú enn gera tilraun til þess að fá þetta afnumið. Um það er brtt. mín á þskj. 408. Það er till. um það, að framan við frv. komi ný grein, sem breyti einu ákvæði í 9. gr. áfengisl. Það ákvæði, sem ég vil breyta, hljóðar nú á þessa leið: „Óheimilt er að gefa veitingamönnum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings.“ En ég vil, að þetta verði þannig orðað: „Óheimilt er að gefa veitingamönnum eða öðrum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings:“ Þá er þar með fallinn niður sá möguleiki að láta þessa menn eða aðra hafa áfengi með niðursettu verði, enda styðst það ekki við nein lagaákvæði, þó að þetta hafi nú verið gert.

Það er öllum kunnugt, að það er varið stórfé nú úr ríkissjóði til niðurgreiðslu á vöruverði, og það er sérstakur liður á fjárl., ákaflega hár og vex mörgum í augum. En þó að það sé há upphæð, eru ekki allar niðurgreiðslur þar taldar. Það er nokkuð af þeim hjá áfengisverzlun ríkisins. Það eru niðurgreiðslurnar á áfenginu, en það vita menn ekki, hve mikil upphæð er samanlagt. Það hafa ekki fengizt upplýsingar um það, hefur ekki verið reiknað út. Nú ætti að vera auðvelt að reikna þetta út með þeirri nýju tækni, sem menn ráða yfir við útreikninga, og víst ætti að gera það. En þarna er nefnilega niðurgreiðsluupphæð, sjálfsagt allveruleg, sem ekki er talin með í niðurgreiðslunum á 19. gr. fjárl. Og það er þannig með þá niðurgreiðslu, sem er hjá áfengisverzluninni, öðruvísi en með hinar, að hún hefur engin áhrif á vísitölu framfærslukostnaðar, svo að ef menn hafa áhuga fyrir því að minnka eitthvað þessi útgjöld til niðurgreiðslu á vöruverði, er alveg sjálfsagt að byrja á því að fella niður þá niðurgreiðslu, sem þar er. Og um það er mín brtt.

Ég hef ríka ástæðu til að ætla, að hæstv. fjmrh. muni styðja mína brtt., og ber þar fleira en eitt til. Ef ég man rétt, var hann fyrsti formaður í félagsskap hér á landi, sem nefnist Landssamband gegn áfengisbölinu. Hann var líka formaður áfengismálanefndar, sem samdi þetta frv., sem hér liggur fyrir. Svo er á það að líta, að hann ber að sjálfsögðu umbyggju fyrir ríkissjóðnum og vill takmarka niðurgreiðslur sem auðið er og þá væntanlega sérstaklega þær, sem ekki hafa áhrif til hækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar, þó að felldar séu niður. Ég tel, að viðhorf hæstv fjmrh. til áfengismálanna sé þannig, að hann telji ekki ástæðu til að auðvelda drykkju með sérstaklega lágu áfengisverði, og allt þetta finnst mér styðja að því, að hann hljóti að styðja mína brtt.

Ég vona, að hæstv. forseti taki það ekki illa upp fyrir mér, þó að ég minni hér á ákvæði í þingsköpum, sem mun vera á þá leið, að alþm. megi ekki greiða atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín. Auðvitað er honum þetta jafnljóst og jafnvel ljósara en mér, og af þessu leiðir það að sjálfsögðu, að ef einhverjir af þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli og hér eiga sæti, skyldu freistast til þess að greiða atkv. gegn minni till., ber ekki að reikna þeirra atkv. sem mótatkv. gegn henni.

Ég vil svo, herra forseti, vísa til þess sérstaka nál. um málið, sem ég hef gefið út á þskj. 407. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi lesið það, og ég sé ekki ástæðu til að eyða naumum tíma þingsins í að endurtaka hér í ræðu neitt af því, sem þar er tekið fram. Get ég því lokið máli mínu.