12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 1. þm. Norðurl. v. spurði, hvort það væri öruggt, að þessar 20 millj, yrðu greiddar á þessu ári. Ég tók það fram í minni frumræðu, að það yrði lögð áherzla á það að reyna að fá þetta frv. að l. fyrir þinghlé. Og ég vona, að hv. þm. veiti aðstoð til þess, að svo megi verða. Það mun verða lagt kapp á það, m.a. til þess að þessar 20 millj. kr. verði greiddar, eins og talað hefur verið um.

Hv. þm. talar um frv., sem framsóknarmenn hafi flutt í Ed. til aðstoðar atvinnuvegunum, sem hafi verið miklu stærra í sniðum, með þessu frv. sé smátt skammtað af hendi ríkisstj. til landbúnaðarins. Það er rétt, að síðan hv. framsóknarmenn komust í stjórnarandstöðu, hafa þeir flutt till. stórar í sniðum til útgjalda fyrir ríkissjóð. En það fór minna fyrir því að fjárveitingarnar væru svo stórar í sniðum í sambandi við lagasetningar til stuðnings atvinnuvegunum, landbúnaði og öðrum, á meðan þeir voru í stjórn og báru ábyrgð á ríkissjóði. Það voru þá, eins og alltaf hefur verið, takmörk fyrir því, sem ríkissjóður gat látið af hendi. Ég held, að það hefði farið bezt á því, um leið og þessi hv. þm, sagði, að hér væri stigið spor í rétta átt, að taka fram, að þetta væri nýjung, sem ekki hefði þótt fært áður að gera að veruleika, en þó hafi alltaf verið þörf fyrir í íslenzkum landbúnaði, að auka fjölbreytnina, hagræðingu og framleiðni. Hér er um 50 millj. að ræða samkvæmt þessu frv. til framleiðnisjóðs, því að þær 20 millj., sem nú verða greiddar, eru veittar vegna kostnaðar, sem stöðvar landbúnaðarins hafa ráðizt í á þessu ári til þess að að auka framleiðnina. Hitt er svo sjálfsagt að fyrirgefa hv. þm., þó að hann beinlínis vilji ekki þakka fyrir með hrifningu. Ég býst við, að þótt þetta frv. hefði verið með 100 millj. kr. stofnframlagi, hefði hv. þm. sagt sem svo, að það hefði þurft langtum meira. Það er spor í rétta átt að hans dómi. Það meinar hann ábyggilega. Þess vegna styður hann frv.

Vitanlega fer málið til n. Það má vel vera, að þar komi einhverjar brtt. Ég vil leggja áherzlu á, að þetta verði að l. fyrir þinghlé, hvort sem það verður með eða án breytinga.

Hv. 5, þm. Austf. sagði eitthvað svipað og 1. þm. Norðurl. v., sagði frá því, að hann hefði flutt till., stóra till. með hárri upphæð til útgjalda úr ríkissjóði. Þetta er alveg rétt. Hann hefur flutt till., sem hefur verið prentuð hér á pappír, en aldrei lögfest, aldrei komið að neinu gagni fyrir þann atvinnuveg, sem það átti að þjóna. Ég held, að það sé meira atriði að miða till. og upphæð fjárhæðarinnar við það, sem getur orðið að veruleika og orðið að lögum. Það er það, sem getur orðið að gagni, en ekki till. sjálf, þótt hún hafi verið prentuð og henni hafi verið útbýtt hér á Alþ. og svo ekki meir.

Hv. þm, talar um, að það sé ekki ætlazt til með þessu frv., að landbúnaðarframleiðslan aukist. Það stendur hvergi í frv., að það sé ekki gert ráð fyrir, að hún aukist. Hitt getur verið rétt, að það sé ein setning í grg., sem hv. þm. getur hártogað, en það stendur hvergi í frv., og það er ekki meiningin með frv. að hindra það, að framleiðslan geti aukizt. Í framsöguræðu minni áðan tók ég það alveg sérstaklega fram, að það bæri að auka þær framleiðslugreinar, sem helzt væru líklegar til að svara bezt kostnaði til útflutnings. Mjólkurframleiðslan skyldi sem næst miðuð við það, sem þörf væri fyrir innanlands, en yrði þó alltaf einhver umframframleiðsla í góðum árum. Sauðfjárframleiðslan skyldi aukin, eftir því sem heyfengur og beitarþol heimahaga og afrétta leyfi, og nýjar búgreinar verði teknar upp, eftir því sem henta þykir. Það er þess vegna meiningin með þessu frv., að framleiðslan geti aukizt, hvað sem ein setning í grg. gæti gefið í skyn, ef hún væri þannig túlkuð. Ég hélt það væri aðalatriðið, hvað væri í frv., hvað verður í l., sem við ætlum að samþ. Þetta vildi ég taka alveg sérstaklega fram, að það er meiningin, að landbúnaðarframleiðslan geti aukizt, eftír því sem ástæður eru til, og því betur sem framleiðnin er meiri, tæknin verður meiri og þekkingin, sem byggð er á rannsóknum, verður meiri.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég veit, að þessir hv. þm, tveir, sem hafa talað, meina það, að frv. stefnir í rétta átt. Það er svo þeirra mál, þó að þeir haldi því fram, að það sé smátt og naumt skammtað. En ég tók það fram í framsöguræðu minni, að auðvitað hlytu þessi lög að verða endurskoðuð, þegar reynsla væri á þau komin, og ef þau reynast eins vel og vonir standa til, verður ekki hjá því komizt að tryggja þessum sjóði tekjur til frambúðar.