12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Ég vil eftir þessa ræðu hæstv. ráðh. treysta því, að við það verði staðið að greiða út til vinnslustöðvanna þessar 20 millj., áður en árið er liðið.

Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í það, hefja neina deilu við hæstv. ráðh. nú á þessari stundu um aðbúnaðinn að landbúnaðinum, en hann var að gefa í skyn, að hann mundi hafa verið eitthvað lakari á stjórnarárum framsóknarmanna heldur en nú. Ég vil aðeins benda á, að það fjárframlag, sem lagt er til að komi í framleiðnisjóð landbúnaðarins, er sennilega ekkert meira en sú upphæð, sem hæstv. ráðh. og stjórn hans er búin að taka af bændum nú síðustu árin í skatt til einnar ríkisstofnunar, — skatt, sem þeir hafa ekki mátt telja með kostnaði við búreksturinn, þegar fundið er út verðlag á landbúnaðarvörum. Slík skattlagning þekktíst ekki á bændastéttina fyrr en nú síðustu árin, í stjórnartíð núv. hæstv. ríkisstjórnar.