31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1721)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var ekki vegna frýjunarorða hv. 5. þm. Norðurl. v., að ég kvaddi mér hljóðs hér, því að þótt við stuðningsmenn ríkisstj. séum ekki í öllum atriðum samþykkir þeim frv., sem stjórnin kann að leggja fram, og óskum á þeim breytinga, þýðir það að sjálfsögðu ekki, að við tölum á móti okkar eigin stjórn. Við höfum okkar ákveðnu reglur fyrir stuðningi við hana.

En í sambandi við þetta frv. vil ég taka það fram, að ég er mjög samþykkur því, sem hér kom fram bæði hjá hæstv. iðnmrh. og fleirum, að íslenzk veiðarfæragerð er mjög æskileg og getur verið nauðsynleg. Ég tel, að það hafi sýnt sig, eins og hæstv. ráðh. minnti á, að á stríðsárunum kom það sér mjög vel og var undirstöðuatriði fyrir útgerðina hér á landi, að til var veiðarfæragerð í landinn, bæði Hampiðjan hér í Reykjavík, Netagerð Vestmannaeyja og fleiri veiðarfæragerðir. En hins vegar, ef svo er komið nú, að þessi iðngrein þarf stuðning þess opinbera, er það mín skoðun, að það verði að gerast á annan hátt en með beinni skattálagningu á ákveðna atvinnugrein, útgerðina, sem réttilega hefur verið bent á hér, bæði af hæstv. ráðh. og öðrum, að nú berðist í bökkum. Ég tel, að stuðningurinn til þessarar iðngreinar verði að koma á einhvern annan hátt, ef það er talið nauðsynlegt að gera slíkar ráðstafanir og talið nauðsynlegt og æskilegt, að slík iðngrein sé í landinu.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál frekar við 1. umr., en vildi láta koma fram, að ef þetta frv. kemur ekki í grundvallaratriðum breytt frá þeirri n., sem það fær til meðferðar, mun ég ekki treysta mér til þess að fylgja því áfram hér í d. og mun þá að sjálfsögðu greiða atkv. gegn því, nema, eins og ég sagði, að það komi í grundvallaratriðum breytt hér inn í d. aftur frá þeirri n., sem fær það til meðferðar.