12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var aðeins örstutt aths. út af þeim orðum hæstv. ráðh., að hann lét orð að því liggja, að ég hefði verið hér með sérstaka túlkun á einni setningu í grg. frv. og að mín túlkun væri í rauninni rangtúlkun. Hann þurfti ekki að taka það fram, að þessi setning, sem ég vitnaði til, væri ekki í frv., því að ég sagði það eins skýrt og hægt var, að ég væri ekki fullkomlega sammála öllu því, sem hann segði í grg. frv. En þessi setning í grg. frv., sem ég vitnaði í, að ég væri ekki sammála, er svona, og hún skal hér lesin upp í heilu lagi: „Í öðru lagi er l. ætlað að stuðla að aukinni hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarvara, svo að framleiðsluafköst í landbúnaði megi verða sem mest, miðað við fjármagn og vinnuafl, án þess að því fylgi aukin framleiðsla.“ Setningin er þarna öll, myndar heila málsgr. Þó að hæstv. landbrh. hafi ekki séð þetta og ekki hnotið um það eða ekki fundið neitt við það að athuga, fannst mér ástæða til að segja, að ég væri þessu ekki sammála. Það er allt og sumt, sem ég hef sagt í þessum efnum. Það er sem sagt alveg augljóst, að sú grg., sem fylgir með frv., mælir svo fyrir um, að þetta sé nú aðalverkefnið. Ég hef því ekki rangtúlkað hér nokkurn hlut í þessum efnum, heldur aðeins lýst afstöðu minni til grg. með því frv., sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér fram.