12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég las þessa grg. fljótlega yfir, en ekki krítiskt, vegna þess að það voru svo góðir menn, sem sömdu hana. En endirinn á setningunni á alls ekki heima þarna, vegna þess að setningin verður meiningarlaus, þegar endirinn á setningunni er hafður með. Þess vegna er ég sammála hv. 5. þm. Austf., að ég er ekki samþykkur setningunni eins og hún er. En ég er samþykkur frv. og grg. yfirleitt og þeirri stefnu, sem frv. markar, og það er það, sem gildir, og það er það, sem verður byggt á, það verður hér lögfest, en ekki ein setning, sem hefur farið einhvern veginn þarna, orðið að hálfgerðri meiningarleysu. Ég hygg, að hv. 5. þm. Austf. sé mér sammála, ef setningin væri á þessa leið: „Í öðru lagi er l. ætlað að stuðla að aukinni hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða, svo að framleiðsluafköst í landbúnaði megi verða sem mest miðað við fjármagn og vinnuafl.“ Þá erum við sammála. Enda þótt setningin sé þarna, er það vitanlega frv. og það, sem verður lögfest, sem byggt verður á.

Ég vil þakka hv. 5. þm. Austf., að hann skuli ekki út af fyrir sig hafa annað til þess að finna að frv. eða málinu heldur en þessa setningu í grg., sem skiptir ekki neinu verulegu máli.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. minnti á skattlagningu á bændur til stofnlánadeildar landbúnaðarins, það væri mikill skattur og það, sem hér væri verið að rétta að bændunum, væri ekki meira en það, sem ríkisstj. væri búin að taka af bændum í þennan skatt til þess að byggja upp stofnlánadeild landbúnaðarins, til þess að bændur geti áfram fengið örugglega lán í Búnaðarbankanum. Og ég hygg nú, að hv. 1. þm. Norðurl. v. sé mér sammála um það, að bændur eigi greiðan aðgang að lánum úr stofnlánadeildinni og að stofnlánadeildin hafi eflzt, að þessi stofnun sé nú þegar orðin það öflug og hafi nú þegar sannað svo vel ágæti sitt, að jafnvel hv. 1. þm. Norðurl. v. mundi ekki treysta sér til að afnema þennan skatt, sem hann svo kallar, ef það væri borið undir atkv. hér í hv. Alþ.