25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (1741)

33. mál, lausn deilu framreiðslumanna og veitingamanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. hefur nú gert grein fyrir setningu brbl. frá s.l. sumri, en þessi brbl. voru sett vegna deilu Félags framreiðslumanna gagnvart eigendum hótela og gistihúsa. Á s.l. sumri átti Félag framreiðslumanna í samningum um kaup og kjör ýmissa félagsmanna sinna og hafði gert þrenns konar kröfur. Kröfurnar voru um það að fá samræmi í vinnutilhögun á veitingahúsum, og það, sem þeir vildu þá miða við, var vinnutilhögun, sem viðhöfð hafði verið á því veitingahúsi borgarinnar, sem lengst hefur starfað og framreiðslumennirnir eða félag þeirra hefur samninga við, þ.e.a.s. Hótel Borg. Í öðru lagi fóru þeir fram á hækkun þjónustugjalds. Og loks báru þeir fram óskir um það, að fast kaup yrði greitt framreiðslumönnunum auk þjónustugjalds. Þá var það, þegar samningar tókust ekki, að til verkfalls kom. Þetta verkfall var löglega boðað og löglega hafið, og hefur enginn vefengt það, að svo hafi verið. Verkfall hafði staðið í 7 daga. Það hófst, að ég hygg, þann 8. júlí, en 15. júlí gaf hæstv. samgmrh. út brbl. um það, að þetta verkfall væri bannað. Ég tók eftir því áðan, þegar hæstv. ráðh. gerði grein fyrir efni laganna, þá bar mest á því í hans frásögn, að l. væru um setningu og skipan gerðardóms til að leysa þessa deilu. En frá mínu sjónarmiði er meginefni þessara l. í 3. gr. þeirra, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkföll, þar á meðal samúðarverkföll, í því skyni að knýja fram aðra skipan kjaramála, sem lög þessi taka til, eru óheimil, þ. á m. framhald verkfalls Félags framreiðslumanna, sem hófst 8. júlí 1966.“

Aðalefni þessa frv. er auk gerðardómsákvæðanna bann á löglegu verkfalli. Og mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. skuli vera hálffeiminn við að nefna það efni laganna. En samt sem áður er það staðreynd. Með þessum brbl. var löglega boðað og löglega rekið verkfall bannað með brbl. Það er, eins og alkunnugt er, forsenda fyrir setningu brbl. í stjórnarskránni, að brýn nauðsyn sé til að setja brbl. Sú brýna nauðsyn, sem fram var talin til setningar þessara laga, var talin þessi: Sáttatilraunir í þessari deilu höfðu ekki borið árangur og slæmar horfur um lausn deilunnar í bráð a. m. k. vegna djúpstæðs ágreinings um rétt Félags framreiðslumanna til afskipta af vinnutilhögun í veitingahúsum, og enn fremur, að Samband veitinga- og gistihúsaeigenda hafi ákveðið að loka veitingahúsum sínum fyrir alla nema erlenda dvalargesti, meðan verkfallið standi, og tilkynnt það samgmrn. bréflega. Muni þá ekki unnt að veita öðrum mönnum, þ. á m. farþegum erlendra skemmtiferðaskipa, almenna og samningsbundna þjónustu. Nú sé mesti annatími veitingahúsa vegna mikils fjölda erlendra ferðamanna og ferðamannaskipa, og verði ekki unnt að veita þessu ferðafólki sæmilega þjónustu, sé hætta á, að varanlega verði spillt árangri langrar og ötullar landkynningarstarfsemi, sem erfitt yrði að bæta og bitna mundi á öllum þeim aðilum hér á landi, sem hafa atvinnu af þjónustu við ferðamenn, og verða þjóðinni einnig til vansæmdar. Því telur ríkisstj. brýna nauðsyn bera til þess að koma í veg fyrir stöðvun á rekstri veitingahúsanna, og fyrir því eru hér með sett brbl. samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið.

Ég álít nú, að það sé út í hött allt fjas um árangur af góðri landkynningarstarfsemi og einnig allt tal um miklar gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum, sem hafi verið í hættu vegna þessarar deilu, og umfram allt er það út í hött, að þessu hafi verið stofnað í hættu vegna aðgerða Félags framreiðslumanna, því að það liggur skjallega fyrir, að þeir héldu ekki af slíkri óbilgirni á málunum, að þeir hótuðu stöðvun á allri þessari þjónustu, heldur þvert á móti. Þeir buðu að láta alla þessa þjónustu í té, þó að verkfallið stæði. Það var á fyrsta degi verkfallsins, sem Félag framreiðslumanna tilkynnti svo hljóðandi ákvörðun sína, — þeir skrifuðu sem sé Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, og fjallaði 1. liður þess bréfs um önnur mál en hér er um að ræða og einnig sá þriðji, en annar liður bréfs þeirra var á þessa leið, — þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá var rætt um, hvort gefa beri einhverjar undanþágur vegna erlendra ferðamanna. Stjórnin samþykkti að gefa Hótel Sögu, Hótel Holti, Hótel Borg og Hótel Loftleiðum undanþágu til almennra veitinga fyrir hótelgesti og þá ferðamenn, sem hingað kunna að koma með erlendum skemmtiferðaskipum. Jafnframt var Nausti h/f gefin undanþága til þess, að hótelgestir frá City Hótel fái almennar veitingar framreiddar í Nausti.“

Nú segir hæstv. ráðh., að hann hafi sett þessi brbl. algerlega tilneyddur og bannað löglegt verkfall Félags framreiðslumanna, af því að þarna hafi allt verið í voða, gjaldeyristekjur ríkisins af erlendum ferðamönnum, og stofnað í voða árangri af góðri landkynningarstarfsemi margra undanfarinna ára, og þess vegna skyldi verkfall framreiðslumanna bannað. En það liggur hér skjallega fyrir, að á fyrsta degi verkfallsins bauð Félag framreiðslumanna að inna af hendi alla þessa þjónustu, sem hefði tryggt, að ekki hefði orðið skerðing á erlendum gjaldeyristekjum né heldur að góðum árangri af landkynningarstarfsemi undanfarandi ára væri á nokkurn hátt stefnt í voða eða þjóðinni á nokkurn hátt sköpuð hneisa af því, að þessi þjónusta fengist ekki. Hún var boðin fram af þessum aðila, sem brbl. var stefnt gegn. Ég verð því að segja hæstv. ráðh. það og öllum þingheimi, að ég er meðal þeirra manna, sem segja: Þessi bráðabirgðalagasetning þeirra er út í hött, tilefnislaus gagnvart Félagi framreiðslumanna, sem átti í löglegu verkfalli. Þeir buðu að inna þá þjónustu af hendi, sem tryggði allt það, sem fært er fram sem ástæða fyrir setningu brbl. í forspjalli að þeim. Hin brýna nauðsyn, sem verður að vera fyrir setningu brbl., er sannarlega ekki fyrir hendi og þannig ekki heimilt samkvæmt stjórnarskránni að setja brbl. í slíku máli sem þessu. Stjórnarskrárheimildina vantar, þegar forsendurnar eru ekki fyrir hendi. Þegar það liggur fyrir, að Félag framreiðslumanna bauðst til að inna alla þessa þjónustu af hendi, hver var þá ástæðan til setningar brbl.? Var hún kannske sú, að gagnaðilinn, hótelin, neitaði að hafa hótelrekstur? En átti þá ekki að setja brbl. gagnvart þeim?

Af bréfi Félags framreiðslumanna, sem ég nú hef lesið allt það úr orðrétt, sem þetta mál varðar, sést, að félagið gerði allt, sem það gat, til þess að tryggja erlendum ferðamönnum og öðrum gestum hótelanna nauðsynlega þjónustu. Til sönnunar þessu skal ég nefna tvö dæmi. Um þær mundir, sem verkfallið stóð, var hér háð þing norrænna ungtemplara. Það var fjölmennt þing. Frá þeim mönnum, sem að framkvæmd þess stóðu hér á landi, barst Félagi framreiðslumanna ósk um það, að Hótel Sögu yrði veitt heimild til þess. að hafa kveðjuhóf fyrir þing ungtemplaranna. Halda menn nú ekki, að Félag framreiðslumanna hafi sýnt þá óbilgirni að neita þessu? Ó-nei, hafi menn haldið það, er það misskilningur. Félag framreiðslumanna heimilaði, að Hótel Saga hefði þetta kveðjuhóf fyrir hina erlendu gesti, hina norrænu ungtemplara. En samt var hófið ekki haldið. Af hverju? Af því að Hótel Saga neitaði að hafa það í sínum húsakynnum á sínum vegum. Það stóð ekkert í vegi frá hendi Félags framreiðslumanna, það heimilaði það. En hótelið neitaði. Það var ekki vínveitingagróðavon þarna, eins og betur kemur í ljós af næsta dæmi.

Það gerðist einnig, meðan á þessu verkfalli stóð, að annað erindi barst Félagi framreiðslumanna um undanþágu, vegna erlendra gesta hér á landi. Það erindi var frá borgarstjóranum í Reykjavík vegna norrænna gesta. Félagið veitti þá heimild líka að því tilskildu, að Hótel Saga sæi um framkvæmd þess. Og nú fékkst samþykki hótelsins. Þetta hóf var haldið. Það stóð hvorki á samþykki Félags framreiðslumanna né heldur í þessu tilfelli á heimild frá því hóteli, sem nýlega hafði neitað norrænum ungtemplurum um að halda sitt lokahóf þar. Því var bjargað, að vísu með öðrum húsakynnum, sem fengust til þess að halda það.

Í hvorugu þessu tilfelli er hægt að saka Félag framreiðslumanna um að hafa synjað um þá þjónustu, sem talin er í hættu í forsendum brbl. Og þannig var framkvæmd félagsins þessa 7 daga á verkfallínu, að félagið heimilaði að inna af hendi þá þjónustu, sem ráðh. hefur við orð að hafi verið gerð tilraun til að bjarga með setningu brbl. Forsendurnar eru því ekki réttar, þær eru falskar. Og sannleikurinn er sá, að málið liggur að öllu leyti þannig fyrir, að það var algerlega að tilefnislausu að setja brbl. á þetta stéttarfélag, eins og það hafði framkvæmt sína löglegu vinnustöðvun. Ef á það sjónarmið verður ekki fallizt, vil ég fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann í skýru máli geri grein fyrir því, að það, sem ég nú hef sagt um framkomu félagsins, sé rangt, ellegar þá gefi einhverja skýringu á því, hvers vegna brbl. voru samt sett gegn félaginu, gegn löglegu verkfalli þess. Eins og félagið rak sína vinnustöðvun, sá ég enga brýna nauðsyn hafa skapazt vegna aðgerða þess og þar með engin forsenda verið til fyrir setningu brbl., sem höfðu það aðalinnihald að banna löglega boðað og löglega rekið verkfall.

Enn eitt atriði vildi ég upplýsa í þessu máli, af því að það er kannske meginatriði þess. Það er þetta: Meðan á verkfalli Félags framreiðslumanna stóð, gerði Samband veitinga- og gistihúsaeigenda samþykkt um það að loka veitingahúsum sinum, þar með einnig þeim veitingahúsum, sem framreiðslumenn störfuðu ekki við og verkfallið tók alls ekki til af þeirra hendi, fyrir allri þjónustu nema til erlendra ferðamanna. Þetta var samþykkt, ekki Félags framreiðslumanna, heldur samþykkt Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, en þá áttu líka forsendur brbl. að veitast gegn þeim aðilanum, en ekki að banna löglegt verkfall hins aðilans. Það heitir að hengja bakara fyrir smið, og hefur aldrei þótt viðeigandi í réttarríkjum. Ég spyr þess vegna: Hver treystir sér til að rekja beint orsakasamband milli þessa tiltækis hóteleigendanna og hins vegar verkfalls Félags framreiðslumanna, sem réttlæti það, að ríkisstj. geri aðför að verkfallsréttinum hjá stéttarfélaginu? En verkfallsrétturinn hefur í flestöllum lýðræðisríkjum verið talinn til almennra mannréttinda hins vinnandi manns, og það er þessi réttur, sem er ráðizt á, að ég segi af hendi stéttarfélagsins alveg að tilefnislausu. Ég bið þess, að hæstv. félmrh. reki þetta orsakasamband og hvers vegna bannað er löglegt verkfall Félags framreiðslumanna vegna ákvörðunar, sem Samband veitinga- og gistihúsaeigenda tekur. Ég fæ ekki skilið sambandið þar á milli.

Mér fannst augljóst af því, sem ég nú hef sagt, að hér hafi verið framið ranglæti. Aðgerðum ríkisstj. með setningu brbl. er beint gegn saklausum aðila. Stöðvun þjónustu, að svo miklu leyti sem um það var að ræða, var bein afleiðing af ákvörðun hóteleigendanna, en ekki Félags framreiðslumanna. Þessi þjónusta, sem lögin áttu að tryggja, var samkv. samþykkt gerðri á fyrsta degi verkfallsins heimil af hendi stéttarfélagsins. Þetta er ekki aðeins mín skoðun um þetta mál. Þetta er einnig skoðun Alþýðusambands Íslands. Miðstjórn Alþýðusambandsins hélt fund og ræddi m. a. þetta mál miðvikudaginn 27. júlí og gerði þá um þetta svo hljóðandi ályktun:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands vill enn þá einu sinni, að nýgefnu tilefni, lýsa því yfir, að hún telur verkfallsrétt verkalýðsfélaganna helgan rétt, sem ekki megi skerða, og nauðsynlegt tæki stéttarfélaganna í vörn fyrir áunnum réttindum meðlima þeirra og til betri lífskjara fyrir þá. Hinn 15. þ. m. var löglega boðað verkfall Félags framreiðslumanna bannað með brbl., sem sett voru fyrir atbeina samgmrh., m. a. á þeim forsendum, að félagsskapur eigenda veitinga- og gistihúsa hafi ákveðið að loka veitingahúsum sínum fyrir alla nema erlenda dvalargesti, meðan verkfallið stæði, en það muni aftur hafa í för með sér hættu á, að varanlega verði spillt árangri langrar og ötullar landkynningarstarfsemi, eins og segir í forspjalli fyrir brbl. Á fyrsta degi verkfallsins gaf Félag framreiðslumanna hins vegar fjórum hótelum og einu veitingahúsi í Reykjavík undanþágu til að afgreiða ferðamenn. Þessi undanþága framreiðslumannanna sýnir það, að af völdum félags þeirra var afgreiðsla til ferðamanna ekki stöðvuð og þau rök, sem voru fyrir setningu brbl. gagnvart Félagi framreiðslumanna, því haldlaus. Miðstjórn Alþýðusambandsins telur setningu brbl. sýna algert virðingarleysi fyrir verkfallsréttinum, sem þó nýtur verndar íslenzkra laga, og mótmælir því harðlega setningu þeirra sem ofbeldisaðgerð gagnvart verkalýðshreyfingunni,“ — ekki einungis gegn þessu félagi, heldur gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Því segi ég: Þeir stjórnarsinnar, sem ekki vilja verða berir að því að ráðast á verkfallsréttinn almennt sem mannréttindi og fótumtroða hann, eiga þess vegna að fella þetta frv. Þeir eiga ekki að taka á sig, að svona frumhlaup hefur verið gert, og þar með að leggja sína sæmd við að samþykkja svona brbl.

Ég skal víkja í lok máls míns aðeins að atriði, sem að vísu er aukaatriði. Ef ég man rétt, held ég, að það sé þannig kveðið á í forsetaúrskurði um skiptingu starfa á milli ráðh., að vinnudeilur heyri undir félmrh. Hér var um vinnudeilu að ræða. Mér finnst það dálítið skjóta skökku við, að það skyldi ekki koma í hlut hæstv. félmrh. að setja þessi brbl. Var hann kannske ekki reiðubúinn til þess? Taldi hann ekki alveg upplagt að ráðast í þessu tilfelli á verkfallsréttinn, og var þá til sjálfboðaliði í ríkisstj. til þess samt sem áður, þó að ekki heyri undir bann samkv. forsetaúrskurði um skiptingu starfa milli ráðh. að gera þetta? Ég hefði talið eftir forsetaúrskurðinum, að eðlilegast hefði verið, að hæstv. félmrh. skakkaði hér leikinn, ef hann teldi þess brýna þörf. En hann gerði það ekki. Og ég á erfitt með að trúa því, að hann hefði talið tilefni til þess í þessu tilfelli. En vitanlega er öli hæstv. ríkisstj. samábyrg um þetta. Ég legg ekki ábyrgðina af þessum verkum eingöngu á herðar hæstv. samgmrh., nema hann hafi gert þetta án samráðs við ríkisstj., og það kemur ekki til mála, það er útilokað. Ríkisstj. öll og þ. á m. hæstv. félmrh. ber sök á þessu frumhlaupi.

Hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan í sinni framsöguræðu, hverjir gerðardómsmenn væru, sagði nokkuð frá störfum þeirra, en niðurstaða frásagnar hans var sú, að störfum gerðardómsins væri nú langt komið í októbermánuði, en ekki lokið. Þetta saklausa stéttarfélag hefur því verið svipt verkfallsrétti allan þann tíma, frá því að brbl. voru sett og fram á þennan dag, og enginn veit enn, hve lengi þetta stéttarfélag er svipt sínum verkfallsrétti, þrátt fyrir það, þótt það stæði í löglega boðuðu og löglega reknu verkfalli. Þetta tel ég meira en lítið vítavert. Og ég spyr: Hvenær fær gerðardómurinn lokið sínum störfum? Hvenær á því að linna, að þetta stéttarfélag sé svipt sinum verkfallsrétti?

Hæstv. ráðh. sagði í afsökunartón áðan, að lögunum væri ekki stefnt að öðrum aðilanum. Þetta er rangt. Með því að banna verkfallið, sem Félag framreiðslumanna stóð í, er lögunum beint gegn þeim aðilanum, en ekki gegn veitingahúsaeigendunum. Því er því stefnt gegn röngum aðila. Og svo segir hæstv. ráðh.: Ég hef spurt hóteleigendurna að því, hvort þeir hafi ekki talið ástæðu til setningar brbl. Hóteleigendurnir, sem höfðu einmitt gert samþykkt um að stöðva þá þjónustu, sem um getur í forsendum fyrir brbl., það stendur ekki á því, þeir svara í kór. Þeir voru hjartanlega ánægðir með það, að brbl. voru gefin út og gagnaðili þeirra sviptur mannréttindum. Það var ekki stigið á strá hóteleigendanna, sem ákvörðun höfðu tekið um stöðvun þeirrar þjónustu, sem brbl. áttu að tryggja.

Ég álít, að þetta hafi farið mjög óhöndulega hjá hæstv. ráðh., og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar. Þetta er einfalt mál og skýrt, og það liggja fyrir gögn um það, að sá aðilinn, sem hér var ráðizt á, Félag framreiðslumanna, hafði boðið að inna þessa þjónustu af hendi, sem síðan eru sett brbl. um undir því yfirskini, að verið sé að tryggja. Hinn aðilinn hafði hótað að torvelda og synja um þessa þjónustu. En gegn honum var brbl. ekki stefnt. Það var löglegt verkfall stéttarfélagsins, sem var bannað. Það er meginefni þessara laga.

Ég legg það til, að þetta frv. fái ekki staðfestingu, þessi brbl. fái ekki staðfestingu hins háa Alþ. Ég teldi það vansæmandi fyrir Alþ., eins og skýr rök liggja fyrir í þessu máli .Ég álít, að þetta frv. eigi hv. Alþ, að fella.