25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1743)

33. mál, lausn deilu framreiðslumanna og veitingamanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Meginkjarni þess máls, sem hér er til umr., er sá, að ríkisstj. hefur tekið sér vald til þess með brbl. að banna löglega boðað verkfall. Þetta er grundvallaratriðið, og allt orðskrúð um ýmsa aðra þætti er hér, held ég, til lítils. Ríkisstj. getur talizt skv. stjórnarskránni hafa þetta vald, þegar brýna nauðsyn ber til. Í forsendum brbl. og alveg sér í lagi í ræðu hæstv. landbrh. hér um þetta mál er lögð á það áherzla, að veigamikil atvinnugrein landsmanna hafi verið í voða og verið stefnt í algera tvísýnu, þ.e.a.s. ferðamannastraumnum til landsins. Hins vegar liggur það fyrir, að Félag framreiðslumanna hafði veitt allar undanþágur, sem nauðsynlegar voru, til þess að ferðamenn fengju hér viðhlítandi afgreiðslu. Þetta liggur fyrir og verður ekki um deilt. Þar með eru þær forsendur fallnar, sem hæstv. ráðh. leggur höfuðáherzlu á. Hann styður síðan mál sitt með umsögn atvinnurekenda, hvort þeim hafi ekki fundizt rétt að banna verkfallið með brbl. Ég held þetta sýni, hve þessi hæstv. ráðh. er víðs fjarri því að skilja, hvað er um að ræða, þegar verið er að grípa til slíkra ráðstafana af hálfu ríkisvaldsins eins og að banna verkföll með lögum og setja gerðardóma. Þetta eru ekki fyrstu brbl., sem Alþingi fær til meðferðar af völdum þessa hæstv. ráðh. Það er oftar en einu sinni búið að berja hér að dyrum okkar með sams konar boðskap.

Ég ætla ekki að fara að deila um það út af fyrir sig, hvort það sé í valdi eins ráðh. eða annars að gefa út brbl. varðandi vinnudeilur í tilteknum tilvikum. Manni finnst ákaflega eðlilegt, að það eigi að vera á valdi félmrh., í hans verkahring. En hvað um það, hvort nú ríkisstj. vill hafa þessa skipan mála á, finnst mér a. m. k. óþarfi, að við hér í Alþingi förum að láta málin endilega renna í sömu rásina og fara að vísa þessu máli til samgmn. Ef það væri ekki félmn., sem á að fjalla um þetta mál, þá veit ég ekki, hvað sú n. á að fjalla um. Hins vegar teldi ég bezta og réttasta meðferð málsins, að málið færi ekki lengra en aðeins til þessarar umr. nú, því að Alþingi er vansæmd gerð með því að leggja svona mál fyrir.

Hæstv. ráðh. er að reyna að réttlæta þessar gerðir með því að lesa hér fyrir okkur alls konar umsagnir atvinnurekenda, sem áttu í deilu við framreiðslumennina, að vísu nokkurra annarra, en þeir hafa nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta. Ef hæstv. ráðh. telur þetta næga ástæðu og telur, að ákvæðum stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn fyrir brbl. sé fullnægt með slíkum umsögnum og áliti slíkra manna, hvaða vinnustöðvun boðaða eða komna í framkvæmd væri þá ekki hægt að banna í þessu landi á nákvæmlega sömu forsendum? Hvenær mundu atvinnurekendur segja: Nei, við álítum, að þetta sé sjálfsagt, teljum enga ástæðu til þess að stöðva þessi verkföll? — Ég held, að það kæmi seint, a. m. k. ef þeir töluðu frá eigin hjarta. Það er fjarri því, að hv. alþm. geti tekið slík rök gild, og þau eru alveg víðs fjarri, en sýna hins vegar mjög vel, hvað það er og hvers konar afstaða það er, sem þessi hæstv. ráðh. lætur mótast af, þegar hann er að gefa út þessi eilífu brbl. Mig furðar ekkert á því, þó að þeir, sem í atvinnurekendaaðstöðunni eru, líki verkföllum við Molbúahátt, eins og hér var lesið upp áðan frá einum þeirra, heldur ekki það, að það hafi verið forðað mannorði þjóðarinnar, eins og einn atvinnurekandinn sagði, með því að gefa út þessi brbl. Mig furðar ekkert á þessu, heldur því, að hæstv. ráðh. skuli taka þetta sem fyrstu og helztu rök fyrir verki, sem hann var búinn að vinna og vissi að hann var í rökþrotum með.

Ég ætla ekki að hafa hér langt mál um þetta frv. Ég tel, að það sé sjálfsagt, að Alþingi felli það, svo framarlega sem það verður látið komast svo langt hér í gangi mála. Það liggur fyrir, að þeir, sem til verkfallsins stofnuðu, voru reiðubúnir og höfðu lýst því yfir, að þeir mundu veita þær undanþágur, sem þurfti til að veita þá þjónustu, sem notuð er sem aðalefni forsendna þessara brbl. Og það var aldrei reynt á það, hvort þessir menn væru kannske reiðubúnir til að ganga eitthvað lengra. Það var aldrei reynt. Hins vegar var þá, eins og nú við síðari meðferð málsins, rætt við atvinnurekendur, og auðvitað voru þeir þá á sama máli og þeir eru nú, að brbl. hefði átt að gefa út. Þannig liggur málið fyrir, og ég ætla algerlega kinnroðalaust, enda tel það sjálfsagða skyldu mína, að hvetja alla hv. alþm. til þess að greiða atkv. gegn þessum brbl.