25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1744)

33. mál, lausn deilu framreiðslumanna og veitingamanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. þarf að vera margorður í þessu máli, hann þarf að dylja margs konar vitnisburði annars aðilans í þessari deilu sér til afsökunar. Við, sem mælum gegn þessu frv., getum hæglega verið stuttorðir, af því að málið liggur ljóst fyrir, en verður flóknara, skýrist sízt af öllu við langar umr., við langa þvælu.

Málið hefur ekki verið leyst gegn öðrum aðilanum, segir hæstv. ráðh. Og hvernig lá málið fyrir? Það lá fyrir þannig, að lögmætt verkfall hafði staðið í viku, samningar voru í gangi. Þá gerist tvennt, sem markar afstöðu aðilanna til deilunnar. Það eru gerðar tvær samþykktir. Önnur er svo hljóðandi, orðrétt: „Stjórn félagsins samþykkir að gefa Hótel Sögu, Hótel Holti, Hótel Borg og Hótel Loftleiðum undanþágu til almennra veitinga fyrir hótelgesti og fyrir þá ferðamenn, sem hingað kunna að koma með erlendum skemmtiferðaskipum.“ Þetta býðst félagið til að gera. Þá eru gefin út brbl. um að banna löglegt verkfall þessa félags. Hins vegar er gerð samþykkt, og þá samþykkt gerir Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, hóteleigendurnir, um það að loka veitingahúsum sínum, þar með einnig þeim veitingahúsum, sem framreiðslumenn starfa ekki við og verkfallið tók ekki til, loka þeim fyrir öllum nema erlendum dvalargestum. Hver stofnaði til voðans, sem þurfti að afstýra? Hvaða brbl. þurfti að gefa út til að afstýra þjóðarvoða? Hæstv. ráðh. hefur hér lesið vitnisburði þeirra um það, hóteleigendanna, hvílíkur voði það hefði orðið fyrir þjóðina og tekjumissir og þar fram eftir götunum, ef verkfallið hefði staðið í allt sumar. En þegar hóteleigendurnir voru búnir að gera samþykkt sína um að loka hótelunum, ef brbl. áttu rétt á sér, áttu þau að vera um það, að hótelrekstrinum skyldi haldið áfram vegna þjóðarnauðsynjar, þó að hæstv. ráðh. hafi ekki komið auga á það enn þá.