08.12.1966
Neðri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1756)

72. mál, skipun prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar enn um nokkrar ákvarðanir og breytingar á aðstöðu þess evangelísk-lúterska trúarflokks á Íslandi og þeirra sérréttinda, sem hann nýtur í þjóðfélaginu. Það var svo áður fyrr, eins og hæstv. dómsmrh. lýsti hér áðan, að hin lúterska kirkja átti að sjá um það sjálf að kosta sína presta, og það var svo tekið upp síðar, að þessir prestar skyldu vera launaðir af því opinbera. Um leið og slíkt kemur til, að farið er að gera þá að opinberum starfsmönnum, er eðlilegt, að það sé reynt að koma við smám saman á því sviði eins og öðrum þeirri hagræðingu, sem nauðsyn er að koma á við þann rekstur, sem það opinbera hefur eitthvað með að gera. Að svo miklu leyti sem hin evangelísk-lúterska kirkja kærir sig um að vera þjóðkirkja, á hún náttúrlega að heyra undir sömu lögmál og aðrir hvað slíkt snertir. Nú er það svo hér, að það virðist eiga að verða eins konar „prinsip“, eins konar höfuðregla, að um leið og prestum sé fækkað og þó ekki sérstaklega mikið, því að gömlu ákvæðin eru látin haldast um einn prest á 5000 manns í Reykjavík, og sýnist manni þó, að þar væri hægt að koma nokkurri hagræðingu við, virðist það eiga að verða ein höfuðregla að það skuli hlaða upp nýjum embættum, eftir því sem sýnt væri, að hægt væri hins vegar að spara presta í sambandi við prestaköll úti um land. Í 6.–11. gr. eru ákvæði um að ráða allmarga nýja menn til starfa.

Það virðist auðsjáanlega liggja þarna til grundvallar, að það megi ekkert spara á þessu sviði og það séu engin önnur andleg störf hjá íslenzku þjóðinni, sem biði eftir því, að menn geti fengið að starfa þar og hægt sé að ráða góða menn til þess að vinna fyrir íslenzka menningu, það megi ekki horfa í að henda út peningum í áróðursstörf fyrir evangelísk-lúterska trúarflokkinn, þó að mönnum sé neitað um alveg nauðsynleg störf á öðrum sviðum. Í hvert skipti sem minnst er á hér, að það þurfi t.d. að fjölga prófessorum til að kenna íslenzk fræði við háskólann, kemur upp, að því hafi þjóð, sem hefur 28 milljarða kr. tekjur á ári, ekki efni á. Það er þing eftir þing drepin hver till. um slíkt, rétt eins og íslenzkri sögu, íslenzkri menningarsögu, íslenzkum bókmenntum væri sýnd svo mikil rækt af hálfu háskólans, að þar væri ekki neinn möguleiki á eða nein þörf á að bæta við mönnum til þess að starfa.

Ég held, að þegar við erum að taka ákvarðanir um að stofna ný embætti, verðum við að athuga þetta frá því sjónarmiði, hvort við hefðum ekki nægilegt að gera við slík embætti á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Við skulum muna eftir einu, að það var sú tíð, að okkar prestastétt varð að sjá svo að segja um alla þessa hluti. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við þá prestastétt, sem var hér áður fyrr, vegna þess andlega starfs, sem þeir unnu. Þá voru þeir hinir einu menntuðu menn. Aftur á móti er það nú svo, að á öllum sviðum, þar sem andlegt starf er unnið, er verið að halda áfram að vinna það starf, sem þessir menn unnu einu sinni. Við skulum þess vegna taka tillit til þess, að þegar við erum að gera ráðstafanir þarna, erum við að gera það vegna þjóðfélagsrekstrarins í heild, og þá verðum við að ákveða, hvernig okkur finnst réttast að verja slíku fé.

Í 6. gr. er ákveðið að ráða prestvígðan mann til sérstakra starfa í Skálholti. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Fyrst er Skálholt gefið íslenzku þjóðkirkjunni, tekið burt frá annarri starfsemi, án þess að þjóðkirkjan hafi nokkra hugmynd um, hvað hún ætlar við það að gera, og stendur uppí í hreinustu vandræðum með það. Og það var rétt eins og Skálholt væri einhver eign, sem Íslendingar væru í slíkum vandræðum með, eins og einhver þurfalingur, sem við þyrftum að gefa með, að það var bætt við 1 millj. kr., sem var gefið á ári. Ætli það væri ekki tími til kominn, að það væri farið að rannsaka dálítið, hvernig öllu því fé er varið eða hvernig stendur með Skálholtssöfnunina alla saman og þá menn, sem ráðnir voru til þess að safna fyrir Skálholt, og hvernig stendur með bókasafnskaupin og það allt saman og til hvaða nota kemur þetta? Þarf kannske fyrst að leggja í heilmikla söfnun, slíta hér út úr þinginu heila og stóra og góða jörð, fá meðlag með henni, starta söfnun hjá þjóðinni og skella svo kannske einhverju bókasafni og loka niðri í Skálholti og fara svo að ráða einhverja menn til þess að lesa það? Hvað á þessi prestvígði maður í Skálholti að gera? Á kannske að ráða heilan söfnuð á eftir, jafnóðum og prestsembættin yrðu spöruð? Ég verð að segja, að ég kann ekki við þetta prjál í þessu. Ég veit ekki betur en það séu prestar þarna hjá, sem geti gegnt slíkum störfum. Við hefðum nóg að gera við að ráða menn í Skálholt eða annars staðar til þess að vinna ýmislegt að íslenzkum fræðum, og við fáum ekki peninga til þess, ef við biðjum um það. En hér aftur á móti í 6. gr. er það prestvígður maður. Ég býst við, að ef þeir, sem taka próf í íslenzkudeildinni við háskólann, færu allir saman í prestaskólann á eftir, gætu þeir kannske fengið nóg að starfa á vegum kirkjunnar, en á vegum íslenzku þjóðarinnar, fyrir hennar menningu, nei, þar má ekki koma við, þar hefur ekki verið aukið í fjöldamörg ár.

Ég hef sagt það hér einu sinni fyrr, og ég segi það enn, að við þurfum eins mikið að rækja okkar heiðni eins og okkar kristni, hvað snertir okkar rannsóknir á okkar þjóðfélagssögu og öðru slíku, og mættum gjarnan verja meiri peningum til þess. Hvort þessi maður sem á að vera í Skálholti, á eitthvað sérstaklega kannske að rækja sögu Skálholts, — ég er hræddur um, að hann mætti þá kannske eins vera kaþólskur eins og lúterskur, ef það ætti að vera full óhlutdrægni í því, því að það eru nú ekki sérstaklega fagrar minningarnar, sem tengdar eru við Skálholt hvað snertir framkomu þeirra lútersku, a. m. k. ekki fyrir 400 árum.

Svo er í 7. gr. ákveðið að ráða tvo prestvígða menn, þ. e. bæta við einum farandpresti. Það er kannske ekki sérstaklega mikið athugavert út af fyrir sig við það, ef það er álitið ákaflega þýðingarmikið. En þó verð ég að segja það, að ég kann ekki við, að þarna sé verið í sífellu að auka við, meðan verið er að spara á öllum mögulegum öðrum sviðum.

Svo er í 8. gr. rætt um æskulýðsfulltrúa, það á endilega að vera prestvígður maður líka, og tvo aðstoðaræskulýðsfulltrúa. Mér sýnist það margumtalaða Parkinsonslögmál vera farið að verða nokkuð aðgangsfrekt á því kirkjulega sviði, ef það á að hlaða svona utan á, í hvert skipti sem einhver af þessum málum koma hér fyrir okkur. Mér þótti satt að segja alveg nóg um, þegar komið var með kirkjuþingið hér á árunum og því hleypt hér í gegn, illu heilli, liggur mér við að segja. En það er auðséð, að þar koma menn helzt saman bara til þess að gera nýjar kröfur á hendur Alþ. og reyna að telja fólkinu í landinu trú um, að það eigi eitthvað skylt við kristni. Ég held satt að segja, að það væri á mörgum öðrum sviðum, sem okkur væri þörf á að aðstoða og hafa samband við æskulýðinn núna, heldur en einmitt á þessu sviði. Ég er hræddur um, að það væri t.d. dálítið heiðarlegra af þeirri kristnu kirkju, að hún hefði t.d. beitt sér fyrir því, að við skulum segja staður eins og Lídó hefði þó fengið að haldast sem áfengislaus skemmtistaður fyrir unglinga heldur en hann væri tekinn undir drykkjuskap. Ég held, að það væri nær að reyna að stuðla að því, að almennar, skikkanlegar skemmtanir gætu fengið að vera hjá æskulýðnum, heldur en loka fyrir honum þeim húsum, þar sem hann getur fengið að skemmta sér á sæmilegan hátt, og ekkert skilið eftir handa honum nema krárnar, drykkjukrár, til þess að fara á meira eða minna í banni laganna. Ég held, að það hefði verið nær en að fara svona að, að kristna kirkjan hefði reynt að beita sér fyrir því, að komið hefði verið upp almennilegum stofnunum, þar sem æskulýðurinn gat skemmt sér.

Ég þykist vita, að meira að segja ýmsir prestar hér í höfuðstaðnum hafa opin augu fyrir þessu. En það, sem vegur meira, þegar farið er að tala um þetta, er að hlaða upp þessum starfsmannafjölda í kringum biskup landsins. Svo á að ráða prestvígða menn til sérstakrar sjúkrahúsaþjónustu í Reykjavík. Ég verð að segja, að ég er hræddur um, að ýmsir af sjúklingunum, sem hér liggja, frábiðji sér það ónæði, sem þeir verða fyrir af prestum þannig. Það er nú einu sinni svo, að ef það eru mjög trúaðir menn, sem liggja í þessum sjúkrahúsum, vilja þeir gjarnan hafa samband við sinn eigin prest, og það er ákaflega eðlilegt. Menn vilja undir erfiðum kringumstæðum helzt hafa samband við þá, sem þeir þannig umgangast. En að það sé einhver sérstakur maður, sem þannig á að standa í þessu, ég held, að það sé ekki viðkunnanlegt. Það er alveg sama, hve ágætur maður það er út af fyrir sig. En þetta virðist gert til þess að vilja alls staðar troða inn áróðursmönnum fyrir þann evangelísk-lúterska trúarflokk.

Þá er ákveðið í 10. gr., sem raunar hefur verið áður rætt um hjá okkur í sambandi við fjárveitingar á fjárl., að setja upp eins konar heiðingjatrúboð í Höfn. Það er eins og íslenzka kirkjan álíti það sérstaklega nauðsynlegt að fara að stunda trúboð á meðal Íslendinga suður í Kaupmannahöfn. Vissulega hafa íslenzkir stúdentar kannske oft fengið orð fyrir að vera ekki sérstaklega trúræknir þar syðra, en ég held, að prestvígður maður snúi þeim þá ekki mikið til annarrar trúar, og ég held, að svo framarlega sem þeir þurfa á prestþjónustu að halda, hafi þeir alltaf aðgang að þeirri evangelísk-lútersku kirkju í Danmörku og hún sé ekki svo hættuleg, að það sé ekki alveg hægt að treysta þeim mönnum, sem þar eru. Ég sé satt að segja ekki, af hverju við eigum að setja fé í þetta. Ég man ekki, hvað það er, eru það ekki einar 350 þús., sem eru á fjárl. núna í þetta? En hvenær sem við minnumst t.d. á að bæta við, þótt ekki væri nema einu prófessorsembætti, er alltaf talað um, að það sé allt of mikið gagnvart íslenzkri menningu.

Svo er í 11. gr. ákvæði um að ráða prestvígðan mann til þess að annast og skipuleggja kristilegt starf á meðal íslenzkra sjómanna. Ég veit nú ekki, hvort sjómenn hafa sérstaklega beðið um þetta, og ég held, að það væri öllu heppilegra að reyna að hafa verbúðirnar á mörgum stöðum dálítið betur úr garði gerðar eða gefa þeim aðgang að dálítið betri og skemmtilegar reknum skemmtistöðum í landi, þegar þeir koma, heldur en ætla sérstaklega að fara að láta einhvern prestvígðan mann lesa yfir þeim, þegar þeir koma dauðþreyttir af sjónum. Ég held, að það sé eins og að skvetta vatni á gæs. Ég held, að það þýði ekki neitt að vera með þess háttar. Mér finnst slíkt vera tóm sýndarmennska, á meðan verið er að takmarka og gera í raun og veru allt of lítið að því að skapa þeim betri aðbúnað í landi, þegar farið hefur verið fram á slíkt. Þeir hafa t.d. í sínum samþykktum, eins og síldarsjómennirnir í haust á Eskifirði, bent á sérstakar fyrirmyndir um félagsheimili og annað slíkt, sem þeir óskuðu eftir að fá, og ég held, að það ætti að verða við slíkum kröfum þeirra. Ég man ekki eftir, að þeir hafi sérstaklega óskað eftir presti. Þess vegna álít ég, að þó að ég vilji síður en svo á nokkurn hátt hindra þann evangelísk-lúterska söfnuð í að agitera fyrir sinni trúarskoðun á Íslandi hjá hverjum sem er, þá geta menn bara tekið þetta upp hjá sjálfum sér. Það verða aðrir menn að gera, sem hafa sínar skoðanir, að reyna að útbreiða þær, og það geta þeir, sem eru það áhugasamir í þeim evangelísk-lúterska söfnuði hér á Íslandi, ef þeir vilja útbreiða hann, — þeir geta unnið að því sjálfir án þess að fá nokkurt fé fyrir það. Það er svo, hverjar skoðanir sem eru, hvort það eru stjórnmálaskoðanir, trúarskoðanir eða annað slíkt, að þeir menn, sem hafa áhuga á að útbreiða þær, vinna að því, og það á ekki sérstaklega að fara að launa menn af ríkisins hálfu til þess að vinna þannig. Þeir menn, sem hafa þarna sérstakan áhuga, geta gert það sjálfir. En ég held ekki, að við eigum að fara að koma upp, eins og t.d. er gengið út frá í þessum greinum, einum 10 nýjum embættum eða svo, meðan verið er að skera við nögl sér öll þau embætti, sem varða íslenzka menningu.

Ég vil minna á, að það er verið af hálfu manna, sem áhuga hafa á íslenzkum fræðum, varðveizlu íslenzkra arfsagna og slíks, að berjast fyrir því að fá öðru hverju að ráða menn til þess að fara t.d. um landið til þess að safna þjóðsögum þeim, sem enn kunna að vera lifandi, til þess að taka upp á segulband frásagnarþætti þá, sem enn kynnu að lifa, taka upp rímnakveðskap eða annað slíkt. Við vitum, að þjóðhættirnir eru að breytast svo hjá okkur, að margt af þessu gamla, sem sjálfsagt þótti fyrir nokkrum áratugum, er nú að deyja út, og það eru oft og tíðum síðustu forvöð að varðveita þetta. Allt þetta er skorið við nögl sér. Það er varla hægt að fá menn ráðna til þess að vinna að þessum hlutum. Þarna þyrftum við þó, einmitt okkar kynslóð, nú þegar að vinna verulega vel. Ég mundi ekki vera að telja eftir hitt og þetta til þjóðkirkjunnar, ef það væri verið að ausa út peningum í það, sem þyrfti á öðrum sviðum. En ef kirkjan á að hafa einhver forréttindi fram yfir alla íslenzka menningarstarfsemi annars, finnst mér frekjan vera farin að verða fullmikil. Það er vitanlegt líka viðvíkjandi okkar skáldum og rithöfundum, að við gerum ekki neitt svipað því eins vel við hvorki þá né aðra okkar listamenn eins og okkar þjóðkirkju, og hefur það samt, eins og nú er komið, tiltölulega miklu meira gildi í okkar þjóðfélagi.

Þá er í II. kafla þessa frv. gert ráð fyrir að stofna sjóð, sem á að heita kristnisjóður. Manni dettur alltaf í hug, þegar maður sér svona nafn, að þetta eigi raunverulega að vera einhver sjóður til þess að kristna þjóðina. Og ég hélt, að það þyrfti kannske ekki um þjóð, sem telst vera kristin. Það hefur að vísu stundum verið sagt af mönnum, sem kunna að komast vel að orði, að það hafi kannske verið hér biskupar, sem hafi getað afkristnað heil sólkerfi. En ég held, að það sé samt ómögulegt að segja, að íslenzk þjóð hafi nú beint verið afkristnuð, a. m. k. sé hún á okkar öld nokkuð jafnkristin, hvort sem menn vilja telja hana mjög kristna eða lítt kristna. Hve mikið af því menn vilja telja hið ytra og hve mikið menn vilja telja hið innra, skal ég ekki meta. En hér á sem sagt að stofna kristnisjóð. Í staðinn fyrir þann sjóð, sem maður stundum les nú um, að menn eigi að safna í á hæðum, á nú að stofna hér sjóð, sem mölur og ryð og verðbólga fær grandað, og sú kristna kirkja vill sem sé reyna að fara að safna í slíkan sjóð.

Það er eitt atriði í 24. gr., sem mér finnst dálítið athugavert og varhugavert í slíku sambandi fyrir Alþ. að samþykkja. Það er um árleg framlög úr ríkissjóði, er samsvari opinberum kostnaði af þeim prestaköllum, sem lögð eru niður samkv. lögum þessum og við síðari breytingar á prestaköllum landsins. Skal miðað við full prestslaun með 6 ára aldurshækkun, eins og þau eru á hverjum tíma, svo og við áætlaðan opinberan kostnað af prestssetrinu. M. ö. o.: fyrir utan þau nýju embætti, sem evangelísk-lúterska kirkjan á að fá og biskup hennar að ráðstafa, á að ákveða, að í kristnisjóð skuli leggja allt það, sem sparist nú við niðurlagningu prestakalla, og allt, sem kunni að sparast síðar meir í sambandi við slíkar breytingar. Sem sé, við eigum nú á Alþ. á þessu ári að taka þær ákvarðanir, að þær breytingar, sem síðar kunna að verða gerðar á þessum prestaköllum, skuli allar saman verða til þess að auka þennan kristnisjóð. Segjum t.d., hvernig færi svo, ef því ákvæði stjórnarskrárinnar væri framfylgt, að hér yrði jafnrétti á Íslandi fyrir alla menn án tillits til trúar eða trúleysis, þannig að menn væru ekki lengur skuldbundnir til þess að greiða á einn eða annan hátt til þess, sem þeir ekki sérstaklega kæra sig um að styðja. Segjum, að það yrði sú breyting á, að ríki og kirkja yrðu aðskilin, prestaköllin lögð niður þar með sem embættisbákn ríkisins. Hvað mundi svona lagagrein þýða? Það er gaman að vita. Mundi það þýða, að það sem sparast fyrir ríkissjóð á því að leggja niður öll prestaköll landsins, vegna þess að sá evangelísk-lúterski söfnuður tekur þaðan í frá að sér að launa sjálfur sína starfsmenn, eins og aðrir kristnir söfnuðir á Íslandi gera, — mundi það þýða, að þá yrði öll sú fúlga, sem við það sparaðist, að leggjast í þennan kristnisjóð, sem færi þá ekki aðeins til þess að halda uppi því sérstaka starfsbákni, sem sá evangelísk-lúterski söfnuður á Íslandi kærði sig um að viðhalda, og væri þá ekki lengur hægt að tala um nein sérréttindi þess safnaðar fram yfir kaþólska eða baptista eða sjöunda dags heilaga eða hvað þeir nú allir heita, hvítasunnusöfnuður og annað slíkt, af því að allir kristnir söfnuðir væru þá jafnréttháir, að svo miklu leyti sem íslenzka ríkið vildi að einhverju leyti styðja að almennri kristni í landinu?

Ég held, að það sé fulllangt gengið að fara að setja inn í lög svona ákvæði, að við allar síðari breytingar á prestaköllunum skuli þetta gilda. Ég held, að svona hlutir séu raunverulega vitleysa, þeir geti ekki gilt. En þeir geta gefið viðkomandi aðila, því að þetta mundi skoðast eins og hálfgerður samningur víð þennan söfnuð, rétt til þess að fara kannske í mál við ríkið og heimta skaðabætur. (Gripið fram í.) Jú, ég vildi meina, að það gilti þangað til því væri breytt, m. ö. o. að það væri hægt að afnema það. En ég verð að segja, að það mundi gefa þeim lúterska söfnuði í þessu tilfelli e. t. v. aðstöðu til þess að fara í mál við ríkið og segja: Það var búið að gera við mig eins konar samning, sem var lögfestur. Nú hefur þetta verið numið úr gildi, og ég geri mínar kröfur. — Þetta er áreiðanlega mjög merkilegt lögfræðilegt atriði. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. grípur þarna fram í, og mér þætti eiginlega mjög vænt um einmitt að vita, hvort þetta mundi verða skoðun hans, að svo framarlega sem við breytum þessum lögum þannig, sé þetta úr gildi fallið. Ég veit, að hann er allra manna löglærðastur af okkur.

Mér dettur einmitt í hug í því sambandi viss hlutur, sem ég hef verið að berjast hér fyrir í ein 10–15 ár. Það er að breyta lögunum um áburðarverksmiðjuna. Svo framarlega sem þeim lögum yrði breytt þannig, 13. gr., að það ákvæði félli niður, sem þar er um hlutafélagið, og við hefðum þann hugsunarhátt, sem hæstv. forsrh. lét í té: þetta getur gilt, þar til þessu væri breytt, og um leið og við breyttum þessu, væri þetta sem sé brott fallið, og eftir því sem mér skildist nú á hans frammískoti, féllu raunverulega líka niður allar kröfur, sem viðkomandi aðilar gætu gert, sem sé í þessu tilfelli eigendur hlutafjár áburðarverksmiðjunnar. Ég hef alltaf gengið út frá, að þeir gætu ef til vill farið í mál, en trúað því, að lög Alþingis mundu reynast þarna sterkari. Og eins held ég að mundi vera viðvíkjandi þessu, að ef menn glæptust á að samþ. þetta núna og við felldum þetta burt eftir nokkur ár, mundi sem sé ekki skapast neinn kröfuréttur af hálfu þess evangelísk-lúterska safnaðar þess vegna. En ég held, að það sé samt út frá þeirri reynslu, sem ég hef haft í sambandi við áburðarverksmiðjuna, klókara að fella þetta nú þegar og breyta þessu núna og láta þetta ekki koma til framkvæmda.

Hins vegar ef það er meiningin, að hæstv. ríkisstj. líti svo á, að það eigi að fara að verða „prinsip“, eigi að fara að verða höfuðregla, að um leið og sparað sé á einhverju sviði rekstrarins, hvort heldur er í opinberu lífi eða í þjóðfélaginu almennt, skuli endilega sjá um, að viðkomandi fyrirtæki verði að greiða jafnmikil laun eftir sem áður, þá vil ég samt benda hæstv. ríkisstj. á, að þetta getur verið dálitið varasamt frá hennar sjónarmiði, þó að ýmsir kunni kannske að vilja taka þetta upp. Við skulum hugsa okkur t.d. atvinnurekanda, sem finnur upp á þeim fjanda, sem nú er mikið verið að hefja áróður fyrir honum í, að hann skuli fara að hagræða einhverju í sinni verksmiðju, og hann hagræðir og hagræðir og gerir þetta miklum mun skynsamlegra hjá sér og sparar heilmikinn mannfjölda. Ef þessir verkamenn, sem þar með losnuðu, ættu svo að fara að eins og nú á að fara að viðvíkjandi starfsmönnunum hjá þjóðkirkjunni, ættu sem sé allir verkamennirnir að vera ráðnir áfram hjá viðkomandi atvinnufyrirtæki og sjá um, að þeir hefðu hin sömu laun og annað slíkt, þó að það væri í raun og veru miklu minna að gera. Ég held, að við eigum að láta það gilda þarna hjá kirkjunni, ef við getum hagrætt þessum hlutum betur og komizt af t.d. með færri presta og annað slíkt, þá eigum við að gera það og ekki taka þarna upp þá höfuðreglu, að við skulum þá endilega eyða því fé, sem þannig sparast, í hluti, sem a. m. k. áður var ekki talin nein sérstök þörf fyrir, og auðsjáanlega er engin sérstök þörf fyrir meginið af þeim nýju embættum, sem þarna á að skapa eftir 6.–11. gr. Hér er það meira að segja svo eftir 24. gr. og 25. gr., að þar á að bæta við heilmörgu nýju. Hæstv. ráðh. orðaði þetta þannig, að það ætti ekki að skerða starfssvið hinnar íslenzku þjóðkirkju. Íslenzka þjóðkirkjan verður að heyra þarna undir sömu lögmál og aðrir aðilar. Á meðan ekki er svo, að við getum varið nægu fé til þess að vinna að alls konar andlegum störfum og menningarstörfum hjá okkur, verðum við að gera svo vel að spara jafnt við hana og aðra og reyna þá að sjá um, að því fé, sem þannig sparast, verði varið vel á öðrum menningarlegum sviðum.

Hæstv. ráðh. las upp, — ég held, að það hafi verið í grg., — að það væri svo, að þetta væri fé sem kirkjunni bæri hvort eð er. Það get ég ekki séð. Ég held, að sá evangelísk-lúterski söfnuður eigi ekki neinar sérstakar kröfur þannig á fé af hálfu ríkisins. Ef þeir hafa einu sinni undirgengizt það að vera þjóðkirkja, verða þeir að hlíta þeim ráðstöfunum, sem Alþ. og ríkisstj. gera. Þeir eiga engar sérstakar kröfur í því efni. Kirkjan, ekki sízt með þeirri sérstöku áróðursaðstöðu, sem henni er gefin í þjóðfélaginu, öllum þeim aðgangi, sem hún hefur að útvarpi og öllu slíku, hefur alveg nægilega aðstöðu til þess að geta safnað sér fé sjálf, og maður sér það greinilega, ekki sízt þegar kirkjur eru vígðar, að það vantar sannarlega ekki áhuga hjá þeim lútersku söfnuðum á Íslandi til að gefa, þannig að áhugamenn í þessum söfnuði alveg eins og í öðrum sérstökum skoðanaheildum á Íslandi geta vissulega safnað sjálfir fyrir þeirri starfsemi, sem þeir vilja rækja. Þeir eiga ekki að koma til ríkisins með það allt saman, a. m. k. sízt af öllu á meðan ríkið er að skera við nögl sér það, sem það gefur til sinnar eigin menningarstarfsemi. Og á meðan t.d. aðrir kristnir söfnuðir á Íslandi kosta sjálfir sína presta og annað slíkt og sitt starfsfólk og byggja sín eigin hús án styrktar frá ríkinu, held ég, að við eigum ekki að láta þann evangelísk-lúterska söfnuð vera neitt að auka þannig á sín sérréttindi eða sitt starfsmannabákn.

Ég verð að segja það, að mér geðjast ekki að því, hvernig þróunin er að verða í þessum málum hér hjá okkur. Mér finnst, eftir mínum hugmyndum um kristindóm, að kristin kirkja hefði, án þess að ég vilji nokkuð fara að fyrirskrifa henni, enda býst ég ekki við, að hún taki mikið tillit til slíkra ráðlegginga, — mér finnst, að ef kristin kirkja hefði ætlað að reyna að halda sér nokkurn veginn á því stigi, sem kirkjur nútímans þurfa að vera, ef þær eiga ekki að verða eins og nátttröll, hefði hún þurft að skipta sér miklu meira af okkar nútímaþjóðfélagi og þeim þjóðfélagshræringum og þeim vandamálum, sem vilja koma hjá því þjóðfélagi. Og vissulega er það til, að ýmsir menn innan hennar geri það, og það er lofsvert. En það hefur verið skelfilega lítið um það í þessu þjóðfélagi. Mér sýnist, að í æ ríkari mæli gangi starfsemi og áróður forustumanna hennar út á það að skapa prjál út á við, eins og sumar kirkjubyggingarnar, það sé fyrst og fremst lagt upp úr því að sýnast, en ekki lagt upp úr því að vera. Það sé fyrst og fremst lagt upp úr því að sýna eitthvert veldi, að gnæfa yfir alla aðra, rétt eins og ætlazt er til, að Hallgrímskirkja eigi að gera út úr öllu samræmi og gnæfa yfir öllu hér í Reykjavík eins og óskapnaður. En að sama skapi er ég hræddur um, að minnki áhuginn fyrir bræðralagi og boðskapnum um það, sem er þó innsti kjarninn í kenningum kristninnar. Ég veit ekki, hvað Lúther mundi segja, ef hann liti á þessa hluti, sem eru að gerast hérna í kringum okkur núna í þessu. Og ekki ætla ég að fara að reyna að taka mér orð hans í munn, þau mundu líklega ekki fara vel. Hann var, eins og kunnugt er, fyrir utan að hafa átt manna mestan þátt í því að skapa það nýja þýzka mál, einhver stórorðasti skammakjaftur, sem nokkurn tíma hefur uppi verið, og stundum jafnvel sóðalegasti. En ég er hræddur um, að hann mundi stundum lýsa okkar evangelísk-lútersku kirkju með hennar prjáli ekki á ósvipaðan hátt og hann átti til með að lýsa þeirri kaþólsku á sínum tíma, og voru það ekki fögur orð. Ég held, að þessar í þeim skilningi kaþólsku tilhneigingar, sem eru farnar að koma fram í mjög ríkum mæli í evangelísk-lútersku kirkjunni á Íslandi, þyrftu vissulega enn nokkurrar endurskoðunar við. Ég held, að kirkjunnar menn mættu fara að lesa sín gömlu fræði og athuga, hvort þeir eru ekki farnir að leggja nokkuð mikið upp úr sýndarmennskunni í sambandi við starfið. Ég held, að við ættum alvarlega að kippa að okkur hendinni í þessum efnum. Það hefur verið svo undanfarið, að þegar hér hefur verið lagt eitthvað fram, eitthvert frv., hvað vitlaust sem það hefur verið, t.d. um Skálholt, einhverjar till. í sambandi við fjárl., ef þetta er í sambandi við kirkjuna, er eins og enginn maður þori að minnast á þetta eða gagnrýna það. Það er lítið á þetta sem eitthvað heilagt. Og þetta er alveg ófært, því að í skjóli þessa er evangelísk-lúterska kirkjan alltaf að færa sig upp á skaftið og það er í sífellu verið að auka þar á, um leið og skorið er niður eða takmarkað að auka við aðra. Síðan á vafalaust að segja: Þeir menn, sem ekki eru með þessu, eru fjandmenn kirkju og kristindóms o.s.frv. Þætti mér samt gaman að sjá kristindóminn, þá kristnu breytni í sambandi við svo og svo mikið af því, sem yfirvöld kirkjunnar framkvæma í þessum efnum.

Ég held, að við verðum alvarlega að athuga þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég held, að ég hafi ekki lagt neinn stein í götu þess, þegar ákvæðin um kirkjuþing voru samþ. hér fyrir eitthvað 8 árum. Ég sé næstum því eftir því að hafa ekki talað á móti því. Mér sýnist, að um leið og ríkið tók þá ákvörðun að fara að kosta þetta kirkjuþing, sé þarna í sífellu bara verið að koma saman til þess að gera auknar kröfur á hendur ríkinu. Mér finnst nú, að með þeim gífurlega grundvelli, sem kristindómurinn vissulega hefur hér á Íslandi, ætti að vera hægt fyrir þessar stofnanir að safna sjálfar, eins og ég gat um áðan, til sinna starfa. Við látum fjöldann allan af starfi, sem þjóðfélagið alveg nauðsynlega þarf að vinna, vera verkefni að meira eða minna leyti alls konar velgerðarfélaga, og ætlumst til þess, að áhugamenn, þeir sem vilja eitthvað vinna, t.d. fyrir vanþroska börn, vangefna og allt mögulegt slíkt, við ætlumst til þess, að það sé safnað inn og safnað inn, og svo að segja hvern einasta sunnudag eru áhugafélög að vinna að ýmsu slíku. Mér sýnist, að kirkjan með öllum sínum stóru steinbáknum ætti sannarlega að hafa nóga aðstöðu. Ég man ekki betur en í ýmsum kirkjum erlendis tíðkist það t.d. að hafa söfnunarbauka, og allur sá fjöldi, sem í kirkjurnar kemur, geti þá gefið í þessa hauka til þess að safna þannig inn fyrir þá kristnu starfsemi í landinu. Ég held, að það eigi ekki fyrst og fremst að láta kirkjuþing verða þannig eins konar kröfuþing á hendur ríkinu, heldur geti það og ætti jafnvel að fara að kosta sig sjálft, þá geti það skipulagt sjálft slikt söfnunarstarf, sem þarf fyrir ýmsa þá starfsemi, sem þeir evangelísk-lútersku söfnuðir álíta sér nauðsynlegt að rækja.

Ég er þess vegna á því, að þetta frv. hæstv. ríkisstj. þurfi mjög ýtarlegrar endurskoðunar við. Hvort henni verður við komið, skal ég ekki segja um. Það er vafalaust hægt að þyrla upp ýmiss konar moldviðri í kringum svona hluti og gera erfiðara að ræða þetta, rétt eins og hvert annað mál, sem snertir áhuga og afskipti ríkisins á því andlega sviði. En mér þætti vænt um ef t.d. þeir menn, sem stjórna Háskóla Íslands, sýndu dálítið svipaðan áhuga um að fá fjölgað þeim starfsmönnum, sem Háskóli Íslands hefur, eða t.d. Handritastofnunin, Landsbókasafnið eða aðrir slíkir aðilar. Mér þætti vænt um að sjá, ef þeir hefðu eitthvað svipaðan áhuga og biskup landsins hefur. Það er bókstaflega svo, að það er eins og enginn af þeim opinberu embættismönnum, sem starfa að einhverju leyti á því andlega sviði, hafi neinn svipaðan áhuga á því að fjölga starfsfólki, sem kringum hann er, og biskupinn. Þetta má vissulega segja honum til hróss, sem forstöðumanni þessa safnaðar. En eitthvað dálítið finnst mér, að ein ríkisstj. eigi þó að hafa aðhald í þessum efnum. Ég veit, að það kann oft að vera erfitt, ef herra biskupinn er mjög aðgangsfrekur í slíkum efnum, að standast slíkt. Þó að vald slíkra manna sé ekki lengur eins og eitt sinn var, er það vissulega dálítið eðlilegt, að ýmsir menn með þeim áróðri, sem rekinn er, vilji ógjarnan komast í þá aðstöðu að vera álitnir sem sérstaklega íhaldssamir gagnvart kristinni kirkju. En mér finnst, að ríkisstj. þurfi að iðka nokkurt aðhald í þessum efnum og að sama leyti hafa frumkvæði á öðrum sviðum. Mér finnst, að þegar ein ríkisstjórn fellst á að fara að fjölga t.d. ákveðnum embættum, — og ég kalla það fjölgun, þó að lögð séu niður prestsembætti, ef farið er að fjölga öðrum embættum í staðinn, — ætti hún að segja t.d. við háskólann: Vantar ykkur ekki fleiri prófessora? Viljið þið ekki fá fleiri prófessora? Er virkilega unnið að öllum þeim rannsóknum, sem þarf í sambandi við íslenzka sögu, íslenzkar bókmenntir, íslenzka tungu, og er ekki þörf á að auka afskipti ríkisins, framlög þess á þessum sviðum?

Af því að þetta frv. fer til n., sem ég á sæti í, mun ég fyrir mitt leyti gera nokkrar brtt. við þetta, og ég vildi satt að segja, að það væri hægt að ræða þetta mál, rétt eins og hverja aðra hagræðingu í íslenzkum ríkisbúskap, og það væri ekki gert að reglu í íslenzka ríkinu, að ef hægt væri að fækka embættum á einhverju sviði, skyldi taka upp endilega óþörf embætti í staðinn.